Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild....

91
Háskóli Íslands Hugvísindadeild Heimspekiskor Hluthyggja að forminu til Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar hluthyggju Ritgerð til B.A.-prófs Finnur Dellsén 1

Transcript of Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild....

Page 1: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

Háskóli Íslands

Hugvísindadeild

Heimspekiskor

Hluthyggja að forminu til

Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar hluthyggju

Ritgerð til B.A.-prófs

Finnur Dellsén

Kt.: 081084-2039

Leiðbeinandi: Erlendur Jónsson

September 2007

1

Page 2: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

Ágrip

Tvær tegundir af rökfærslum eru mest áberandi í rökræðum heimspekinga um vísindalega

hluthyggju. Hluthyggjumenn notfæra sér hversu mikinn árangur helstu vísindakenningar hafa

náð í forspám og rökstyðja að vísindaleg hluthyggja sé eina heimspekilega afstaðan sem skýri

hinu raunverulegu sögu vísinda. Í fyrsta kafla þessarar ritgerðar geri ég grein fyrir því hvernig

rök af þessu tagi þurfa að líta út, og sýni hvernig hægt er að svara algengri gagnrýni á slík rök. Í

öðrum kafla fjalla ég um þau rök gegn vísindalegri hluthyggju að þar sem næstum allar

vísindakenningar hafi verið hraktar þá sé réttmætt að álykta með tilleiðslu að núverandi

kenningar verði einnig hraktar. Ég rökstyð að slík rök séu ógild sem tilleiðslurök en geti þjónað

þeim tilgangi sínum að vera rök gegn hefðbundinni vísindalegri hluthyggju með einni

veigamikilli breytingu. Sú staðreynd að þessar tvær rökfærslur toga í mismunandi áttir er það

sem ég kalla vanda vísindalegrar hluthyggju.

Meginviðfangsefni þessarar ritgerðar er ein tilraun til að leysa þennan vanda með því að

smíða veikari útgáfu af vísindalegri hluthyggju sem kalla má vísindalega formgerðarhyggju.

Meginniðurstaða mín í þessari ritgerð er að þetta takist ekki. Til að rökstyðja það þarf ég að gera

nánari grein fyrir því hvað átt er við með „formgerð“. Í þriðja kafla notfæri ég mér hugmyndir

annarra til að sýna fram á að aðeins tvær skilgreiningar á formgerð séu mögulegar ef

formgerðarhyggja eigi að standa undir nafni sem málamiðlum milli vísindalegrar hluthyggju og

andstæðra kenninga.

Skilgreiningarnar tvær leiða svo til tveggja ólíkra afstaðna sem ég nefni snauða og ríka

formgerðarhyggju. Þegar ég geri grein fyrir snauðri formgerðarhyggju í fjórða kafla bæti ég litlu

við sjálfur, heldur reyni aðeins að gera skýra grein fyrir afstöðunni og þekktum rökum gegn

henni sem hrekja hana. Í fimmta kafla tel ég mig aftur á móti hafa eitthvað bitastætt fram að

færa, meðal annars með nýjum rökum gegn ríkri formgerðarhyggju, verulegum endurbótum á

rökum sem þegar hafa verið sett fram og svari við tilteknum rökum gegn ríkri formgerðarhyggju

sem ég held að séu ógild. Niðurstaða mín í þessum síðasta kafla er að rík formgerðarhyggja

gangi ekki heldur upp, og að þar með sé úti um þann draum að formgerðarhyggja geti leyst

vanda vísindalegrar hluthyggju.

2

Page 3: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

Efnisyfirlit

0. Inngangur: Vandi vísindalegrar hluthyggju 4

1. Kraftaverkarökin 6

1.1. Smart og allsherjar tilviljanir.........................................................................................................7

1.2. Boyd, Putnam og náttúruvædd kraftaverkarök............................................................................10

1.3. Mótrökum svarað.........................................................................................................................12

1.3.1. Er hluthyggja ad hoc?..........................................................................................................12

1.3.2. Eru kraftaverkarökin hringrök?............................................................................................14

2. Bölsýnisrökin17

2.1. Fækkað á lista Laudans: Árangur og þroskuð vísindi..................................................................20

2.1.1. Þroskuð vísindi....................................................................................................................21

2.1.2. Árangur vísindakenninga.....................................................................................................23

2.2. Bölsýnisrökin sem gagndæmi við kraftaverkarökin....................................................................25

3. Vísindaleg formgerðarhyggja 27

3.1. Þekkingarfræðileg formgerðarhyggja..........................................................................................29

3.2. Hvað er formgerð?.......................................................................................................................32

4. Snauð formgerðarhyggja 34

4.1. Tvær mótbárur gegn snauðri formgerðarhyggju..........................................................................35

4.1.1. Snauð formgerð segir lítið sem ekkert um heiminn.............................................................36

4.1.2. Snauða formgerð er ekki hægt að leiða beint af athugunum...............................................37

5. Rík formgerðarhyggja 39

5.1. Ein ógild mótrök..........................................................................................................................41

5.2. Formgerðin skýrir ekki allan árangur vísindakenninga...............................................................42

5.3. Formgerð festir tilvísun fræðihugtaka.........................................................................................44

5.4. Formgerðarhyggja skýrir ekki (alla) framþróun vísinda..............................................................46

5.4.1. Aftur að ljósvakanum og rafsegulsviðinu........................................................................48

6. Lokaorð: Lærdómurinn af formgerðarhyggju 50

Heimildir 54

3

Page 4: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

0. Inngangur: Vandi vísindalegrar hluthyggju

Vísindaleg hluthyggja er eitt af þeim heimspekihugtökum sem hefur verið notað í svo ólíkri

merkingu í gegnum tíðina að ef til vill væri nær að tala um almenna afstöðu eða tilhneigingu

fremur en kenningu. Ég vil samt sem áður vera ögn nákvæmari og kem til með að styðjast við

eftirfarandi skilgreiningu á vísindalegri hluthyggju:

Vísindakenningar eru annaðhvort sannar eða ósannar; þær hafa sanngildi. Og ef

fallist er á vísindakenningu er um leið verið að samþykkja að hún sé sönn.1

Af þessu leiðir beint að þar sem við föllumst flest á fjölmargar vísindakenningar, til dæmis

atómkenninguna og afstæðiskenningu Einsteins, þá erum við um leið að segja að þessar

kenningar séu sannar.

Ástæða þess að ég nota þessa skilgreiningu er að hún segir ekki til um það hvaða

kenningar eigi að samþykkja, og þar af leiðandi ekki um það hvaða kenningar eru sannar. En hún

fangar þó grunnhugmyndirnar sem ég held að liggi að baki sérhverri skilgreiningu á vísindalegri

hluthyggju: Vísindakenningar eru ekki aðeins gagnleg tæki til að spá fyrir um atburði eins og

verkfærishyggja (e. instrumentalism) kveður á um, eða smættanlegar í samansafn af

reynsluathugunum eins og (smættandi) raunhyggja (e. reductive empiricism, descriptivism) segir

okkur. Samkvæmt hluthyggju ganga vísindin þvert á móti út á að komast að sannindum um

heiminn og vísindakenningar eru ekki öðru vísi en aðrar lýsingar á heiminum (t.d. „það rignir“)

að öðru leyti en því að öðrum aðferðum var beitt til að uppgötva þær.2

Tvær tegundir af rökfærslum eru mest áberandi í rökræðum heimspekinga um vísindalega

hluthyggju. Báðar byggjast þær á ákveðinni veraldarhyggju (e. naturalism) um vísindi, sem

kveður í þessu tilviki á um að vísindaleg hluthyggja sé prófanleg með reynsluathugunum. 1 Þetta held ég að sé kjarninn í skilgreiningu Bas van Fraassen: „Markmið vísinda er að draga upp í kenningum sínum bókstaflega sanna mynd af því hvernig heimurinn er; og það að samþykkja vísindakenningu felur í sér trúna á að hún sé sönn.“ (van Fraassen, 1980, bls. 8) Héðan í frá kem ég til með að nota „hluthyggja“ jöfnum höndum sem styttingu á „vísindaleg hluthyggja“ nema annað sé tekið fram.2 Greinargerð mín fyrir hluthyggju er kannski óvenjuleg að því leyti að ég minnist ekki sérstaklega á að hlutirnir sem vísindakenningar fjalla um séu til (sbr. nafngiftin „hluthyggja“). Þetta er með vilja gert því eitt af markmiðum þeirrar afstöðu sem er aðalumfjöllunarefni þessarar ritgerðar er einmitt að gera grein fyrir því hvernig hægt sé að losa sig við trúna á tilvist þessara hluta.

4

Page 5: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

Reynslan af vísindarannsóknum sker sjálf úr um hvort vísindakenningar nálgist sannleikann og

geti þar með talist áreiðanlegur leiðarvísir um raunveruleikann.3 Vandinn er sá að saga vísinda er

misvísandi í þessum efnum. Hluthyggjumenn eins og Hilary Putnam og Richard Boyd notfæra

sér hversu mikinn árangur sumar vísindakenningar hafa náð í forspám og rökstyðja að vísindaleg

hluthyggja sé eina heimspekilega afstaðan sem skýri hinu raunverulegu sögu vísinda. Þessi rök

verða hér kölluð kraftaverkarökin (e. the no miracles argument). Um þau er fjallað í næsta kafla.

Larry Laudan, Arthur Fine og margir aðrir gagnrýnendur vísindalegrar hluthyggju benda á að

vísindakenningar hafa tekið róttækum breytingum í gegnum söguna og að við höfum ríka ástæðu

til að halda að svo verði áfram. Þeir spyrja talsmenn vísindalegrar hluthyggju hvort vísindasagan

gefi okkur tilefni til mikillar bjartsýni á að aðrar vísindakenningar verði ekki hraktar líka. Þessi

rök verða kölluð bölsýnisrökin (e. the pessimistic (meta-)induction). Í öðrum kafla fjalla ég um

bölsýnisrökin og færi rök fyrir því að þau séu ógild sem tilleiðslurök en geti þjónað tilgangi

sínum með einni veigamikilli breytingu.4 Sú staðreynd að kraftaverkarökin og bölsýnisrökin toga

í mismunandi áttir er það sem ég kalla vanda vísindalegrar hluthyggju.

Í þessari ritgerð er fjallað um eina tilraun til að sætta þessi rök með því að smíða veikari

útgáfu af vísindalegri hluthyggju. Ég kalla þessa afstöðu vísindalega formgerðarhyggju (e.

structural realism).5 Hún á rætur sínar að rekja til Henris Poincaré og Bertrands Russell, en var

endurvakin af John Worrall fyrir tæpum tveimur áratugum.6 Hún er útskýrð í þriðja kafla. Þótt

hún lofi góðu er niðurstaða mín í þessari ritgerð að formgerðarhyggja sé ekki lausn á þeim vanda

hluthyggjunnar að bölsýnisrökin og kraftaverkarökin toga í mismunandi áttir. Til að rökstyðja

það þarf ég að gera nánari grein fyrir því hvað átt er við með „formgerð“. Áður en þriðja kafla

lýkur tel ég mig hafa sýnt fram á að aðeins tvær skilgreiningar á formgerð séu mögulegar ef

formgerðarhyggja eigi að greina sig frá hefðbundinni hluthyggju eða andhluthyggju eins og

verkfærishyggju eða raunhyggju.

3 Um þetta eru helstu forsvarsmenn hvorrar afstöðu, Boyd og Laudan, sammála. (Boyd, 1981, bls. 615; Laudan, 1981, bls. 19-20)4 Þess vegna forðast ég að nefna tilleiðslu í nafngift minni á rökunum.5 Það er meðvituð ákvörðun að minnast ekki á hluti í nafngift minni. Eins og gert verður grein fyrir í þriðja kafla er formgerðarhyggju einmitt ætlað að forðast að það að samþykkja vísindakenningu feli í sér trúna á tilvist hlutanna sem kenningin fjallar um.6 Vísindalegri formgerðarhyggju ber ekki að rugla saman við formgerðarstefnu (e. structuralism). Formgerðarstefna kveður á um að vísindakenning sé ekki safn fullyrðinga heldur mengjafræðileg umsögn. (Erlendur Jónsson, 1990, bls. 34) Vísindaleg formgerðarhyggja útilokar á hinn bóginn ekki að vísindakenningar séu söfn fullyrðinga, heldur segir að sumar af þessum fullyrðingum geti verið sannar, nefnilega þær sem fjalla um formgerð heimsins.

5

Page 6: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

Skilgreiningarnar tvær leiða svo til tveggja ólíkra afstaðna sem ég nefni snauða og ríka

formgerðarhyggju. Snauðri formgerðarhyggju var haldið fram af Russell en hefur orðið fyrir

harðri gagnrýni meðal heimspekinga og rökfræðinga. Í fjórða kafla geri ég grein fyrir afstöðu

Russells og gagnrýninni sem hún hefur orðið fyrir, en bæti þar litlu við sjálfur. Með því að skoða

rökin gegn henni kemst ég að þeirri niðurstöðu að snauð formgerðarhyggja sé ekki lausn á vanda

hluthyggjunnar. Í fimmta kafla er fjallað um innihaldsríkari formgerðarhyggju sem á rætur að

rekja til Henri Poincaré, rík formgerðarhyggja. Þar tel ég mig hafa eitthvað bitastætt fram að

færa, meðal annars með nýjum rökum gegn ríkri formgerðarhyggju, verulegum endurbótum á

rökum sem þegar hafa verið sett fram og svari við tilteknum rökum gegn formgerðarhyggju sem

ég held að séu ógild. Niðurstaða mín í þessum síðasta kafla er að rík formgerðarhyggja gangi

ekki heldur upp, og að þar með sé úti um þann draum að formgerðarhyggja sé málamiðlun sem

stangist hvorki á við kraftaverkarökin né bölsýnisrökin.

1. Kraftaverkarökin

Rök hluthyggjumanna ganga út frá þeirri staðreynd að lífseigustu kenningar vísinda hafa spáð

fyrir um fjölda ólíkra fyrirbæra sem unnt hefur verið að gera ítrekaðar athuganir á og hafa mikinn

skýringarmátt. Með almennu afstæðiskenningunni tókst til dæmis að skýra eða spá fyrir um

sérkennilega göngubraut Merkúr í sólkerfinu, sveigju stjörnuljóss meðfram sólinni og svonefnd

þyngdarrauðvik. Þróunarkenning Charles Darwin skýrir tilurð ótal mismunandi fyrirbæra í

lífríkinu og gerir vísindamönnum kleift að svara spurningum um hvers vegna hinar ýmsu

dýrategundir hafa þróast með þeim hætti sem raun ber vitni. Hvers vegna tekst þessum

vísindakenningum (og mörgum öðrum sem við föllumst á) að framkalla sannar forspár og skýra

niðurstöður athugana? Skýring vísindalegrar hluthyggju er sú að slíkar kenningar geti ekki verið

árangursríkar af eintómri tilviljun, heldur hljóti þær að vera árangursríkar vegna þess að þær lýsa

hinum raunverulega heimi og eru því sannar. Í grófum dráttum má segja að hugmyndin á bakvið

kraftaverkarökin sem vörn fyrir vísindalegri hluthyggju sé eftirfarandi. Við föllumst aðeins á

vísindakenningar ef þær eru árangursríkar, og samkvæmt kraftaverkarökunum eru þær

árangursríkar vegna þess að þær eru sannar. Þess vegna föllumst við aðeins á sannar kenningar.

6

Page 7: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

En þá er rökrétt að það að fallast á kenningu feli í sér trúna á að hún sé sönn, eins og vísindaleg

hluthyggja kveður á um.

Flestir hluthyggjusinnar viðurkenna þó að vísindum skjátlast iðulega, og vilja bjarga

vísindalegri hluthyggju með því að segja að árangursríkar kenningar séu samt sem áður næstum

eða nokkurn veginn sannar. Fullyrðing sem er nokkurn veginn sönn er sögð vera sannlík (e.

approximately true, thruthlike).7 En hvað þýðir það að fullyrðing sé nokkurn veginn sönn? Fyrir

það fyrsta þýðir það ekki að fullyrðingin sé sennileg, þ.e.a.s. að líklegt sé að hún sé sönn. Nú

kveður lögmál annars tveggja á um að fullyrðingar séu annaðhvort sannar eða ósannar, en í raun

er heldur engin þörf á að brjóta það lögmál til að gera grein fyrir sannlíki. Sannlíkar fullyrðingar

geta nefnilega verið ósannar, og þær eru það alltaf nema þær séu sannar. En sannlíkari fullyrðing

er nær sannleikanum í einhverjum skilningi eða líkari honum. Sannar fullyrðingar eru auðvitað

sannlíkastar af þeim öllum. Fullyrðing eins og „ljóshraðinn er 300.000 km/s“ er til dæmis

sannlíkari en „ljóshraðinn er 3 km/s“, þótt báðar séu strangt til tekið ósannar. Og „jörðin er

hnöttótt“ er sannlíkari en „jörðin er flöt“ þótt allir viti að til eru fjöll og dalir sem geri að verkum

að jörðin er ekki fullkomlega hnattlaga. Hvernig skilgreina ætti sannlíki svo að hún fangi þetta er

bæði flókið og umdeilt (Oddie, 2007) og verður ekki kafað dýpra í það í þessari ritgerð, heldur

gengið út frá að slík greinargerð fyrir sannlíki sé í reynd möguleg.

1.1. Smart og allsherjar tilviljanir

Fyrstu rökin af þessu tagi eru úr smiðju J. J. C. Smart (1963), en þá fjalla þau eingöngu um tilvist

fræðigripa (e. theoretical entities). Með öðrum orðum snúast rökin um hvort fræðihugtök (e.

theoretical terms) eins og „rafeind“ hafi tilvísun. Fræðihugtök öðlast merkingu sína í gegnum

kenningar, en ekki beint úr reynslu.8 Fræðigripir eru þá þeir hlutir sem fræðileg hugtök vísa til.

Smart segir að andstæðingar hluthyggju neyðist til að trúa á þá „allsherjar tilviljun“ að heimurinn

hagi sér í sífellu eins og ef fræðigripir væru til. En við þurfum ekki að sætta okkur við slíkar

heimsfræðilegar tilviljanir, samkvæmt Smart, því vísindaleg hluthyggja krefst engra slíkra 7 Héðan í frá tákna orðin „sannar“ og „sannleikur“ hvort um sig „sannur eða sannlíkur“ og „sannleikur eða sannlíki“ nema sérstök þörf sé á að minna á muninn þarna á milli með því að nota bæði hugtökin.8 Rétt er að taka fram að greinarmunurinn á fræðihugtökum og athugunarhugtökum (e. observational terms) eins og „borð“ og „er glaður“, sem fá merkingu beint í gegnum reynslu, er umdeildur. Gagnrýnendur eins og Kuhn og Hanson benda á að allar athuganir eru háðar þeim kenningum og þeirri þekkingu sem fyrir er. (Kuhn, 1962/1996, bls. 125-129)

7

Page 8: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

tilviljana. Samkvæmt henni hagar heimurinn sér eins og ef fræðigripir væru til vegna þess að

þessir fræðigripir eru til. (Smart, 1963, bls. 39)

Smart byggir vörn sína á hluthyggju á ákveðinni hugmynd um eðli heimspekinnar. Hann

telur að vissum grundvallarspurningum um heiminn sé ekki hægt að svara með aðferðum sem

byggjast á tilraunum eða athugunum. Þá sé það í verkahring heimspekinga að velta fyrir sér

hvaða svar sé trúverðugast, en aðeins ef spurningarnar eru svo almennar og mikilvægar að svörin

við þeim hafi áhrif á gjörvalla heimsmynd okkar. Á grundvelli trúverðugleika getum við valið á

milli tveggja tilgátna sem engar reynsluathuganir skera úr um. (Smart, 1963, bls. 8-9 & 11-13)

Það er til dæmis ekki trúverðugt, þótt það sé ekki röklega útilokað, að vísindakenningar séu

eintómur uppspuni sem segi okkur ekkert um heiminn. Við getum þannig sannfært andstæðing

vísindalegrar hluthyggju um að hann hafi rangt fyrir sér, samkvæmt Smart, en við getum aldrei

sannað það fyrir honum. (Smart, 1963, bls. 12)

Ég held að vísindaleg hluthyggja geti ekki að grundvallast á samanburði á trúverðugleika

kenningarinnar og andstæðu hennar. Slík nálgun byggist á því að innsæi heimspekinga, það hvað

þeim finnst vera trúverðugt, sé góður mælikvarði á hvað geti talist satt og rétt. Þessi tegund af

innsæi held ég að sé ónothæf í heimspekilegri umræðu, sér í lagi sem rökstuðningur fyrir

vísindalegri hluthyggju. Þar með er ég ekki að skuldbinda mig við þá skoðun að innsæi þjóni

aldrei neinum tilgangi í heimspekilegum rökræðum. Ég er aðeins að gagnrýna þá hugmynd

Smarts að það hvað þetta innsæi segir okkur að sé trúverðugt sé nægileg rök fyrir því að það sé í

raun og veru tilfellið. Ég hafna því alls ekki að innsæi fólks geti sagt okkur heilmikið um

hugarstarfsemi manneskju, listir, menningu, og fjölda annarra hluta. Í þessum tilvikum má

hæglega rökstyðja að gagnsemi innsæisins sé beinlínis staðfest í reynslu okkar af beitingu þess.

Svo ekki sé talað um ef rökhugsun er skilgreind sem einskonar innsæi. En þegar innsæinu er beitt

í rökfærslu Smarts kemst engin reynsla nærri, enda eru rökin fyrirfram (a priori) eins og áður

segir. Það er heldur ekki hægt að segja að innsæið í rökfærslu Smarts sé rökhugsun, því þar er

innsæið notað til að meta hvað er trúverðugt. Hjá Smart er innsæið það sem tekur við þegar öll

rök hafa verið þulin upp, hún er ástæðan sem við höfum fyrir því að velja eitt fremur en annað

þegar reynslan og rökin nægja ekki til skera úr um það hvað er rétt.

Gegn þessari beitingu á innsæi hef ég tvennskonar rök. Fyrir það fyrsta hafa vísindin sýnt

fram á ótrúlegustu hluti um efnisheiminn, til dæmis að massi hlutar eykst með hraða og tilvist

8

Page 9: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

skammtaflækja (e. quantum entanglement) þar sem einn hlutur virðist hafa áhrif á annan

samstundis þótt fjarlægð sé á milli hlutanna. Þetta eru aðeins tvö dæmi af fjölmörgum sem nefna

mætti um vísindaniðurstöður sem ganga þvert gegn hugmyndum fólks um það hvernig heimurinn

ætti að vera ef marka má innsæið. Dæmin sýna að í einhverjum þeim tilfellum sem við getum

komist að raun um hvort heimurinn er í raun eins og innsæið segir okkur að hann ætti að vera, þá

hefur innsæið reynst fullkomlega óáreiðanlegt. Þetta eru reynslurök gegn því að innsæi sé

almennt séð áreiðanlegt tæki til að komast að sannindum. Af hverju ætti heimspekilegt innsæi í

skilningi Smarts þá að vera áreiðanlegt til að komast að því hvort kenningar eru sannar eða hvort

allsherjar tilviljun valdi því að heimurinn hegði sér eins og hann gerir?

Frá sjónarhóli þróunarkenningar Darwins er heldur engin ástæða til að ætla að maðurinn

hafi þróað með sér sérstaka hæfileika til að komast að sannleikanum um heimspekileg álitamál

með þeim hætti sem Smart ætlar sér að gera, heldur frekar hæfileika til að komast af meðal

annarra dýra, eiga samskipti og forðast hættur. Innsæi í trúverðugleika heimspekikenninga er

ekki einn af þeim kostum sem mannskepnan ætti samkvæmt þróunarkenningunni að hafa þróað

með sér til að komast af í baráttunni fyrir tilvist sinni. Það er auðvitað ekki ómögulegt að

mannkynið hafi fyrir slysni þróað með sér slíkan eiginleika, en öfugt við flesta aðra eiginleika

mannskepnunnar (til dæmis greind, líkamlegur styrkur og næm skynfæri) höfum við enga

skýringu á því hvers vegna svo ætti að vera.9

Ef þess er nokkur kostur ættu rökin fyrir vísindalegri hluthyggju að grundvallast á

einhverju öðru en innsæi heimspekinga. Sem betur fer hafa kraftaverkarökin verið útfærð án þess

að vísa til þess hvað sé trúverðug skýring á árangri vísinda. Um þessa útgáfu af

kraftaverkarökunum er rætt í næsta kafla.

1.2. Boyd, Putnam og náttúruvædd kraftaverkarök

Hilary Putnam og Richard Boyd hafa sett fram rök sem svipa mjög til raka Smarts en byggjast þó

ekki á því að hluthyggja sé trúverðug út frá heimspekilegu innsæi, heldur á því að reynslan

staðfesti hana líkt og vísindakenningar. Í þeirra huga er heimspekikenningin vísindaleg

9 Rök af þessu tagi væru vissulega léttvæg ef við hefðum einhverja sjálfstæða ástæðu til að ætla að innsæið í skilningi Smarts sé áreiðanlegt tæki til að uppgötva sannleikann, en svo er einfaldlega ekki.

9

Page 10: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

hluthyggja, sem kveður á um að vísindakenningar séu sannar eða ósannar, ekki eðlisólík tilgátum

í vísindum; hún er líka prófanleg með tilliti til reynslu. Við getum ekki fært rök fyrir hluthyggju

fyrirfram (a priori) eins og Smart gerir þegar hann segir að allsherjar tilviljanir geti ekki verið

trúverðug skýring á niðurstöðum vísinda. Putnam og Boyd telja þvert á móti að hluthyggja sé

eftiráuppgötvun (a posteriori), líkt og vísindakenningar, á því hvernig heimurinn er í raun og

veru. (Boyd, 1981, bls. 614-615 & 624-625)

Fræg eru orð Putnams að vísindaleg hluthyggja sé „eina heimspekistefnan sem ekki lætur

sigurför vísinda líta út eins og kraftaverk.“ (Putnam, 1962, bls. 73) Við fyrstu sýn virðast rök

Putnams því vera af sama toga og rök Smarts. En svo bætir hann við að hluthyggja sé þannig

„hluti af einu vísindaskýringunni [e. scientific explanation] á árangri vísinda, og þar af leiðandi

hluti af sérhverri mögulegri vísindalegri greinargerð fyrir vísindum og tengslum þeirra við

viðfangsefni sín.“ (Putnam, 1962, bls. 73) Putnam segir hins vegar ekki hvað hann á við með að

hluthyggja sé vísindaskýring, og ekki heldur hvað vísindaskýring er.

Ef fylgt er greinargerð Carls Hempel fyrir vísindaskýringum þá innihalda þær þrjá

aðgreinda liði. Þeir tveir fyrstu nefnast forsendur skýringarinnar (e. explanans) og eru í fyrsta

lagi (a) setningar sem lýsa þeim tilteknu staðreyndum sem notaðar eru í skýringunni og í öðru

lagi (b) almenn lögmál sem skýringin byggist á. Síðasti liðurinn er (z) skýringarefnið (e.

explanandum), það sem verið er að skýra hverju sinni. (Hempel, 1965, bls. 339) Þetta þrennt er

svo sett upp í hefðbundna rökfærslu þar sem skýringarefnið leiðir röklega af forsendum

skýringarinnar. Í tilviki vísindalegrar hluthyggju yrði skýringin eitthvað á þessa leið:

Skýring I (Skýring hluthyggjunnar)

(a) Vísindakenning T er sönn.

(b) Sannar tilgátur um heiminn ná árangri í athugunum.

(z) Vísindakenning T nær árangri í athugunum.

Hér leiðir (z) af (a) og (b) og þess vegna skýrir staðreyndin (a), ásamt lögmálinu (b),

skýringarefnið (z).

10

Page 11: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

En þetta segir okkur ekki hvers vegna vísindaleg hluthyggja er „eina vísindaskýringin“

eins og Putnam segir. Við gætum þrátt fyrir allt sett upp aðra slíka rökfærslu þar sem

skýringarefnið (z) er það sama, en fyrstu tveir liðirnir væru öðru vísi:

Skýring II (Skýring andhluthyggjunnar)

(a*) Vísindakenning T er ósönn.

(b*) „Kraftaverk“ eiga sér stað: (Sumar) ósannar tilgátur um efnisheiminn ná (líka) árangri í

athugunum (sér í lagi tilgátur eins og T).

(z) Vísindakenning T nær árangri í athugunum.

Hvers vegna ættum við þá að fallast á fyrri skýringuna en ekki þá seinni?

Boyd svarar því til að fyrri skýringin sé besta mögulega skýringin á árangri

vísindakenninga í athugunum. Nánar tiltekið telur Boyd að það séu fræðihlaðnar (e. theory-

laden) aðferðir vísindanna sem séu áreiðanlegar aðferðir í þekkingarleit okkar, og að besta

skýringin á því sé að kenningarnar sem móta þessar aðferðir séu sannar. (Boyd, 1981, bls. 617-

618) (Rétt er að geta þess helsti munurinn á rökfærslum Boyds og Putnams er sá að Boyd telur

að það sem þurfi að skýra sé áreiðanleiki vísindalegra aðferða (Boyd, 1984, bls. 59-61), en

Putnam leggur meiri áherslu á að árangur kenninganna sjálfra geti ekki verið kraftaverk.)

Munurinn á skýringum I og II hér að framan er, samkvæmt Boyd, að þótt seinni rökfærslan sé

vissulega líka einhverskonar skýring, þá er hún ekki besta skýringin. Þannig beitir Boyd ályktun

að bestu skýringu (e. inference to the best explanation):10 Fyrri skýringin er betri en sú síðari

vegna þess að þar þarf ekkert kraftaverk til að skýra hvers vegna vísindakenningar ná árangri í

athugunum eða hvers vegna fræðihlaðnar aðferðir vísinda eru áreiðanlegar. Um þetta gæti Smart

verið í grófum dráttum sammála Boyd og Putnam.

En Boyd réttlætir beitingu ályktunar að bestu skýringu með öðrum hætti en Smart gerir.

Boyd telur að vísindasagan, sem er sneisafull af dæmum af árangursríkri beitingu þessarar

ályktunar, sýni fram á réttmæti hennar. Réttlætingin á ályktun að bestu skýringu sé því fólgin í

vísindasögunni sjálfri, nánar tiltekið í reynslu okkar af beitingu hennar. Þetta er afleiðing þeirrar

náttúruhyggju sem Boyd aðhyllist; að réttmætar aðferðir til að komast að sannindum í vísindum

10 Oftast er þetta lagt að jöfnu við íleiðslu (e. abduction), en Boyd vill raunar gera greinarmun á þessu tvennu. (Boyd, 1985, bls. 28-29)

11

Page 12: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

eru uppgötvaðar með eftiráaðferðum (a posteriori), en ekki réttlættar með fyrirframaðferðum (a

priori). Vísindamenn hafa uppgötvað að ályktun að bestu skýringu er áreiðanleg leið til að

komast að sannindum í þessum heimi, en í öðrum mögulegum heimi gæti þessi ályktunarregla

verið ógild eða óskynsamleg. (Boyd, 1973, bls. 11-12; 1981, bls. 622 & 626-628) Kraftaverk

geta ekki verið hluti af vísindalegri skýringu vegna þess að vísindin hafa sýnt fram á að í þessum

heimi gerast engin kraftaverk. Samkvæmt rökum Boyds er vísindaleg hluthyggja því ekki í eðli

sínu frábrugðin vísindakenningum og ef við treystum niðurstöðum vísinda verðum við með sömu

rökum að treysta vísindalegri hluthyggju.

1.3. Mótrökum svarað

1.3.1. Er hluthyggja ad hoc?

Helstu mótbárurnar sem ég hef rekist á gegn þessari nálgun Boyds eru tvær.11 John Worrall

(1996, bls. 141-142) og Larry Laudan (1981, bls. 46) hafa í fyrsta lagi bent á að öfugt við

hefðbundnar vísindakenningar er vísindaleg hluthyggja ekki sjálfstætt prófanleg tilgáta.

Sannkallaðar vísindakenningar, eins og almenna afstæðiskenning Einsteins, er á hinn bóginn

hægt að prófa með því að gera athuganir á þeim forspám sem hægt er að leiða út frá kenningunni

(og minnst var á í upphafi þessa kafla). Í næsta hluta mun ég fjalla betur um þær kröfur sem ég

tel að hluthyggjumenn verði að gera til vísindakenninga svo að hægt sé að segja að þær hafi náð

sannkölluðum árangri. Eitt af því er einmitt að kenningarnar bjóði upp á nýjan prófstein á

kenninguna sem er óháður því sem kenningunni var ætlað að skýra.

Þessu er ekki til að dreifa í vísindalegri hluthyggju. Hún á að skýra þann árangur sem

vísindakenningar hafa náð í athugunum með því að vísa til þess að þær séu sannar.

Skýringarefnið er árangurinn. En vísindaleg hluthyggja, sem heldur því fram að

vísindakenningar séu sannar, skýrir ekkert annað þetta eina skýringarefni. Hluthyggja leiðir ekki

af sér nein önnur skýringarefni sem sannindi vísindakenninga gætu svo skýrt. Þess vegna skýrir

vísindaleg hluthyggja ekkert annað en það sem hún var beinlínis smíðuð til að skýra, nefnilega

þann árangur sem vísindakenningar hafa náð í athugunum. Á hinn bóginn skýrir hin almenna

11 Arthur Fine nefnir fjórar mótbárur gegn Boyd (Fine, 1991, bls. 82-83), en ég sé aðeins ástæðu til að fjalla um eina þeirra hér (þá þriðju).

12

Page 13: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

afstæðiskenning Einsteins margt sem ekki hafði þá verið unnt að prófa og kenningin gat ekki

mögulega hafa verið smíðuð utan um. Hið sama má segja um aðrar vísindakenningar sem ekki

eru ad hoc, heldur hafa náð sannkölluðum árangri í athugunum.

Gerum nú ráð fyrir því að vísindaleg hluthyggja sé vísindakenning. Ef svo er þá er hún ad

hoc-vísindakenning því hluthyggja skýrir ekkert annað en það sem hún var beinlínis smíðuð til

að skýra. En eins og ég mun færa rök fyrir í næsta hluta myndi hluthyggja sem felur í sér

skuldbindingu við sannindi ad hoc-kenninga verða fyrir banvænni gagnrýnni frá þeim sem halda

á lofti bölsýnisrökunum. Kraftaverkarökin eru nefnilega ótæk til að rökstyðja að kenningar hafi

náð ad hoc-árangri því það er augljóslega ekkert kraftaverk að kenningarnar séu ósannar þótt þær

nái árangri í þessum skilningi. Ástæða þess að þær hafa náð ad hoc-árangri er einfaldlega að þær

voru smíðaðar gagngert til þess að svo yrði. Kraftaverkarökin væru þá ógild. Ef vísindaleg

hluthyggja er vísindakenning er hún því órökstudd. Og þar með er ekki hægt að halda því fram

með neinum rökum að hún sé sönn, heldur verður þá að gera ráð fyrir að vísindaleg hluthyggja sé

ósönn. Þess vegna hrekja allar staðhæfingar um að hluthyggja sé vísindakenning í raun sig

sjálfar; ef hluthyggja er vísindakenning þá er hún ósönn sem slík.

Ég sé hins vegar enga ástæðu til að túlka Boyd á þann veg að hann telji að vísindaleg

hluthyggja sé vísindakenning í sama skilningi og til dæmis afstæðiskenning Einsteins.

Hluthyggja getur verið vísindaleg kenning í þeim skilningi að hún byggist á þeirri hugmynd að

reynslan skeri úr um réttmæti hennar án þess að vera fullgild vísindakenning eða -skýring.12 Og

þá er hún í fullu samræmi við náttúruhyggju Boyds, sem kveður ekki á um að öll þekking sé

nauðsynlega vísindaleg þekking, heldur aðeins að vísindalegar aðferðir, líkt og ályktun að bestu

skýringu, séu réttlættar af vísindum, og að þessum vísindalegu aðferðum skuli einnig beita á

(heimspekilegu) spurninguna um þekkingarfræðilega stöðu vísindakenninga. Afstaða Boyds er

aðeins sú að vísindaleg hluthyggja sé ekki eðlisólík hefðbundnum vísindakenningum, en þar með

er ekki sagt að hægt sé að gera jafn miklar kröfur til hluthyggju og til vísindakenninga. Við

veljum einfaldlega bestu, eða réttara sagt skástu, mögulegu skýringuna á því að kenningar nái

árangri í athugunum. (Við megum ekki gleyma því að andstæðingar vísindalegrar hluthyggju eru

12 Putnam segir sjálfur að vísindaleg hluthyggja sé „eins og raunstudd [e. empirical] tilgáta að því leyti að (1) hún gæti verið ósönn, og (2) staðreyndir skipta máli hvað varðar stuðning við (eða gagnrýni á) hana; en það þýðir ekki að hluthyggja sé vísindaleg (í neinum hefðbundnum skilningi á „vísindalegur“) eða að hluthyggja sé tilgáta.“ (Putnam, 1978, bls. 78n-79n) Hann talar líka um hluthyggju sem náttúrulega skýringu á árangri vísindakenninga. (Putnam, 1978, bls. 19)

13

Page 14: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

heldur ekki að halda fram neinni vísindakenningu. Ef mælikvarðar vísinda eru notaðir á það,

hvaða skýring er sú besta eða skásta, ætti engin tegund af andhluthyggju möguleika, samkvæmt

rökum Boyds, því kraftaverk geta ekki verið hluti af vísindaskýringum.)

1.3.2. Eru kraftaverkarökin hringrök?

Seinni mótbáran gegn nálgun Boyds gengur út á að aðferð Boyds við að réttlæta hluthyggju séu

hringrök, þ.e.a.s. að verið sé að gefa sér sem forsendu það sem ætlunin er að sýna fram á. Arthur

Fine segir þannig að þeir sem hafa efasemdir um hluthyggju séu einmitt þeir sömu og trúa því

ekki að aðferðir vísinda, þar á meðal ályktun að bestu skýringu, muni gefa af sér sannar eða

sannlíkar skýringar á árangri vísinda. Í þeirra huga er ekki hægt að segja að vísindakenningar séu

sannar eða sannlíkar og það er vegna þess að þeir sjá ekki ástæðu til að ætla að ályktun að bestu

skýringu skili sannindum eða sannlíkindum. Af hverju ættu þeir hinir sömu þá að fallast á rök

Boyds og Putnams, sem ganga einmitt út á að beita ályktun að bestu skýringu? (Fine, 1996, bls.

23-24)13

Ég held að mótbára Fines sé ekki jafn alvarleg og gæti virst af þessari uppsetningu. Áður

en ég hefst handa við að útskýra hvers vegna þarf ég að komi skipulagi á rökin. Við getum sett

rökfærslu Boyds og Putnams upp í tvo liði eftir því hvernig ályktun að bestu skýringu kemur þar

fyrir, nefnilega í (1) niðurstöðuna og (2) réttlætingu hennar:

(1) Niðurstaðan í rökfærslu Boyds og Putnams er hluthyggja, sú kenning að

vísindakenningar hafi sanngildi og að það að samþykkja vísindakenningu feli í sér

trúna á að hún sé sönn.14 Samkvæmt Boyd og Putnam eigum við að samþykkja

vísindakenningar þá og því aðeins að þær hafi náð sannkölluðum árangri. Af

þessu tvennu leiðir að árangursríkar kenningar eru sannar, með öðrum orðum að

ef við vitum að kenning er árangursrík þá vitum við þar með að hún sé sönn. En

þessi ályktun frá árangri vísindakenninga að því að þær séu sannar er ályktun að

bestu skýringu. Þess vegna felst réttmæti ályktunar að bestu skýringu í

niðurstöðunni sem Boyd og Putnam færa rök fyrir með kraftaverkarökunum.

13 Sjá líka sambærileg rök hjá Laudan. (Laudan, 1981, bls. 45-46)14 Sjá skilgreiningu sem gefin var í inngangi (í §0).

14

Page 15: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

(2) Kraftaverkarökin ganga út á að beita ályktun að bestu skýringu með eftirfarandi

hætti: Vísindaleg hluthyggja, niðurstaðan í rökfærslu Boyds og Putnams (þ.e. (1)

hér að ofan) er rétt vegna þess að hún er besta skýringin á árangri

vísindakenninga.

Vandinn er sá að þegar Boyd og Putnam eru beðnir um að rökstyðja að ályktun að bestu skýringu

megi beita í (2) vísa þeir til þess að reynsla okkar af árangursríku vísindastarfi, þar sem ályktun

að bestu skýringu er iðulega beitt, sýni að ályktunarreglan er áreiðanleg leið til að komast að

sannindum. En þar með væri gert ráð fyrir því sem segir í (1), nefnilega að það að kenning sé

árangursrík þýði að hún sé sönn. Þetta eru þá hringrök vegna þess að sá sem ekki fellst á (1) mun

auðvitað ekki samþykkja þau rök fyrir (2) að (1) sé rétt.

Einn mikilvægur munur er á reglunni sem Boyd og Putnam beita annars vegar og hins

vegar reglunni sem er falin í niðurstöðunni sem þeir komast að. Í niðurstöðunni felst sú regla að

fyrir sérhverja einstaka kenningu bendi árangur hennar til þess að hún sé sönn. Þá er ályktunin

sumsé um einstakar kenningar. Með reglunni sem Boyd og Putnam beita í (2) er á hinn bóginn

ályktað út frá árangri vísindakenninga almennt að vísindaleg hluthyggja sé rétt. Þá fjallar

ályktunin um allar árangursríkar vísindakenningar í einu lagi. Þess vegna má segja að í

niðurstöðunni sé ályktunarreglan fyrsta stigs, en í rökfærslunni sé hún annars stigs. En þetta

leysir ekki vandann því eins og Laudan bendir á er ólíklegt að sá sem ekki fellst á réttmæti fyrsta

stigs ályktana um einstakar kenningar sé tilbúinn að nota sömu reglu á hærra stigi, þar sem hún

fjallar um allar árangursríkar kenningar. (Laudan, 1981, bls. 45)

Rökin fyrir því að leyfilegt sé að beita reglunni í (2) er sem fyrr segir þegar falin í (1).

Ástæða þess að mér þykir mótbára Fines ekki mjög alvarleg er að ég geri greinarmun á því að

geta beitt reglu og hafa réttlætingu fyrir henni. Ég held með öðrum orðum að það hafi sé óþarfi

að rökstyðja að ályktun að bestu skýringu megi beita í (2). Meginhugmyndin að rökum mínum

fyrir þessari afstöðu er frá Psillos. (1999, bls. 86-89) Rökin eru þau að það sé hvort eð er ekki

mögulegt að gera meiri kröfur um réttlætingu til annarra ályktunarreglna sem þrátt fyrir það er

iðulega beitt án þess að gerðar séu sérstakar kröfur um réttlætingu þeirra. Þetta á bæði við um

ályktanir þar sem sannar forsendur tryggja sanna niðurstöðu (afleiðslur) og þar sem sannar

forsendurnar eiga aðeins að styðja niðurstöðuna en tryggja ekki að hún sé sönn (tilleiðslur).

15

Page 16: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

Rökin gegn réttlætingu á tilleiðslum eru vel þekkt. David Hume færði rök gegn

tilleiðslum sem svipa mjög til þeirra raka sem Fine setur fram gegn ályktun að bestu skýringu.

Hume spyr: „Á hverju byggjum við ályktanir vorar af reynslu?“ (Hume, 1748/1999, bls. 96)

Hvernig getum við, með öðrum orðum, réttlætt beitingu tilleiðslu, þar sem ályktað er út frá fyrri

reynslu að því hvernig hlutirnir komi til með að vera? Ef svarið er að reynsla okkar af tilleiðslu

hafi verið áreiðanleg hingað til, og muni því vera áreiðanleg í framtíðinni líka, er verið að beita

sömu tilleiðslu og verið er að rökstyðja. (Hume, 1748/1999, bls. 100-102) En jafnvel Hume getur

ekki hafnað því að við komumst ekki hjá því að beita tilleiðslum – að í tilleiðslum „megi með

réttu álykta um aðra fullyrðinguna út frá hinni“ þótt það svari því ekki „á hvaða rökfærslu þessi

ályktun byggist.“ (Hume, 1748/1999, bls. 98 & 101)

Sagan af rökræðum Akkílesar og skjaldbökunnar eftir Lewis Carroll sýnir að þessi

réttlætingarvandi ályktunarreglna á ekki aðeins við um tilleiðslur, heldur líka afleiðslur. Vandinn

í sögunni er að jafnvel í einfaldri afleiðslu á forminu modus ponens er ekki hægt að sannfæra

manneskju sem fellst á forsendurnar en ekki niðurstöðuna. t.d.

(A) Allir menn eru dauðlegir

(B) Sókrates er maður

(Z) Sókrates er dauðlegur

Akkíles reynir að búa til regluna „(Z) leiðir af (A) og (B)“, og bæta því við sem forsendu (C) í

rökfærslunni, en þá vill skjaldbakan vita af hverju (Z) leiðir af (A), (B) og (C). Og svo

framvegis. (Carroll, 1895) Það er ekki hægt að réttlæta beitingunni á modus ponens fyrir þeim

sem ekki fellst á hana til að byrja með vegna þess að þá er einmitt verið að beita modus ponens.

Almennt gildir þá að við getum ekki sannfært þann sem segir að í tiltekinni afleiðslu leiði

niðurstöðuna ekki af forsendunni vegna þess að við komumst ekki hjá því að beita samskonar

afleiðslu í réttlætingunni sjálfri.

Þetta sýnir að bæði tilleiðslur og afleiðslur glíma við sama vanda og ályktun að bestu

skýringu: við getum ekki réttlætt reglurnar áður en við beitum þeim. Úr því að mótbára Fines –

að kraftaverkarökin í meðförum Boyds og Putnams séu hringrök – er af sama tagi og mótbárur

Humes og skjaldbökunnar í skáldsögu Carrolls, er ljóst að sönnunarbyrðin liggur ekki

16

Page 17: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

(sérstaklega) hjá hluthyggjufólkinu. Fine er þá aðeins að benda á vandamál sem allar

ályktunarreglur glíma við, og það eitt og sér getur ekki verið nægileg ástæða til að hafna því að

beita einni þeirra nema menn vilji þá fallast á að ekki eigi að beita ályktunum yfirhöfuð.

Niðurstaða mín í þessum hluta er því að kraftaverkarökin séu gild ef þau byggjast á þeirri

náttúruhyggju sem Boyd og Putnam standa fyrir, en ekki vísun í innsæi á borð við það sem liggur

til grundvallar afstöðu Smarts. Hluthyggja er hins vegar ekki vísindakenning og kraftaverkarökin

ekki vísindaskýring, eins og stundum virðist skína í gegn hjá Putnam og Boyd, þótt hluthyggjan

sé náttúruleg að því leyti að réttlæting hennar byggist á reynslu líkt og vísindakenningar. Að

lokum færði ég rök fyrir því að sú mótbára að kraftaverkarökin séu hringrök sé ekki alvarlegri en

sígildar mótbárur gegn öðrum ályktunarreglum, og ætti sem slík ekki að vera sérstakt

áhyggjuefni vísindalegrar hluthyggju.

2. Bölsýnisrökin

Ýmsir heimspekingar (Poincaré, 1902/1952; Putnam, 1978; Laudan, 1981; Stanford, 2006) hafa

orðið til að setja fram rök gegn hluthyggju út frá kenningaskiptum í vísindum. Kenningaskipti

eru órjúfanlegur þáttur vísinda, enda væru engar framfarir í vísindakenningum án þeirra. Rökin

eiga það sameiginlegt að komast að svartsýnni niðurstöðu um sannindi árangursríkra

vísindakenninga út frá þeirri sögulegu staðreynd að vísindakenningar eru leystar af hólmi. Sú

tegund af þessum rökum sem hér verður fjallað um, og ég kalla bölsýnisrökin, eru úr smiðju

Larrys Laudan og eru fáguð útgáfa af slíkum rökum. Áður en ég geri það vil ég segja nokkur orð

um rætur bölsýnisrakanna í rannsóknum á vísindasögunni um miðbik síðustu aldar og gefa dæmi

um grófgerðari útgáfu af rökunum út frá þeim rannsóknum.

Í bókinni The Structure of Scientific Revolutions (Kuhn, 1962/1996) skoðaði Thomas

Kuhn hvernig slík kenningaskipti í vísindum fara fram. Hann telur að í mörgum tilvikum sé sú

vísindakenning sem leysir aðra af hólmi nægilega frábrugðin hinni til að rétt sé að tala um

vísindabyltingu. Þá er ekki aðeins skipt um einstakar kenningar, heldur er að auki skipt um

17

Page 18: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

vísindalegar aðferðir, reglur, viðmið og annað það sem ákvarðar hvað telst til helstu

úrlausnarefna í viðkomandi vísindagrein og hvernig lausnin geti litið út. Þetta kallar Kuhn viðtak

(e. paradigm) vísindagreinar og vísindabylting er þá þegar skipt er um slík viðtök í

vísindagreininni sem um ræðir. (Kuhn, 1962/1996, bls. 10-11)

Af niðurstöðum Kuhns flýtur að upplýsingar sem tiltekin vísindakenning inniheldur

varðveitast ekki endilega í kenningum seinni viðtaka. Kuhn heldur því raunar fram að viðtökin

séu gjarnan svo ólík að vissar upplýsingar sé einfaldlega ekki hægt að setja fram í kenningum

ólíkra viðtaka. Viðtökin eru þá ósammælanleg (e. incommensurable) og allur samanburður milli

viðtaka er villandi eða beinlínis ómögulegur.15 (Kuhn, 1962/1996, bls. 103 & 148-150) Ef Kuhn

hefur á réttu að standa höfum við enga tryggingu fyrir því að þær vísindakenningar sem

vísindamenn halda nú á lofti eigi ekki sömuleiðis eftir að verða vísindabyltingum að bráð. Getum

við þá með réttu sagt að kenningarnar séu sannar eða sannlíkar?

Í greininni „A Confutation of Convergent Realism“ (1981) setur Larry Laudan fram

svipuð rök gegn vísindalegri hluthyggju. Markmiðið er að grafa undan þeim rökum vísindalegrar

hluthyggju að árangursríkar kenningar hljóti að vera sannar. Laudan er meðvitaður um að margir

hluthyggjumenn svara rökunum út frá kenningaskiptum á þann veg að þótt eldri kenningar hafi

ekki verið sannar, þá sé hægt að líta svo á að þær séu næstum sannar eða sannlíkar vegna þess að

þær varðveitast í nýrri kenningum. Nýju kenningarnar séu þá almennari eða nákvæmari en fyrri

tíma kenningar, en það sem fyrri kenningarnar segja sé enn til staðar í þeim sem á eftir koma.

Einstein sýndi þannig fram á að aflfræði Newtons væri (strangt til tekið) ósönn, en hún er sannlík

vegna þess að newtonsk aflfræði varðveitist sem takmarkað tilfelli í afstæðiskenningunni. Rök

Laudans er ætlað að gera út af við þessar tilraunir hluthyggjufólks til að höfða til sannlíki

kenninga sem hafa verið hraktar.

Laudan bendir á að ef við fylgjum hluthyggjunni að málum og gerum ráð fyrir að

vísindakenningarnar sem nú er haldið á lofti og náð hafa mestum árangri í athugunum séu

sannlíkar þá geti eldri vísindakenningar ekki líka verið sannlíkar ef ólík fræðihugtök koma fyrir í

15 Ósammælanleiki milli kenninga ógnar hluthyggju með öðrum hætti en fjallað verður um í þessari ritgerð. Ef tvær kenningar eru ósammælanlegar virðist ekki vera hægt að segja að önnur sé betri lýsing á heiminum en hin, og þar af leiðandi er ekki hægt að gera grein fyrir framförum milli kenninga. En það er heldur ekki röklega óhugsandi að báðar kenningarnar lýsi heiminum réttilega – að þær séu báðar sannar eða sannlíkar á sinn hátt. Þess vegna sýnist mér að rökin gegn vísindalegri hluthyggju þurfi að grundvallast á öðru en ósammælanleika, og þar sem Laudan setur einmitt fram slík rök verða rök Laudans tekin fram yfir kuhnísk rök í framhaldinu.

18

Page 19: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

kenningunum tveimur. Því ef fræðihugtak úr eldri kenningu er ekki lengur til staðar í síðari

kenningu er röklega ómögulegt að seinni kenningin varðveiti þá fyrri sem takmarkað tilfelli.

Báðar kenningarnar fjalla þá um hluti sem hin segir að séu ekki til. (Laudan, 1981, bls. 39-40) Ef

fallist er á að önnur kenning sé sönn er þá ekki hægt að fallast á að hin sé sannlík vegna þess að

„nauðsynlegt skilyrði [...] þess að kenning sé sönn er að mikilvægustu skýringarhugtök hennar

hafi raunverulega tilvísun.“ (Laudan, 1981, bls. 33) Meira að segja aflfræði Newtons getur þá

ekki verið sannlík samkvæmt þeim sem segir að afstæðiskenningin sé sönn, vegna þess að

samkvæmt síðarnefndu kenningunni hafa orð eins og „massi“ enga tilvísun.

Laudan nefnir svo fjöldann allan af dæmum af vísindakenningum sem hann telur að hafi

náð árangri í athugunum en hafi nú verið skipt út fyrir aðrar ósamrýmanlegar kenningar. Þar með

sé ljóst að vísindasagan innihaldi mörg dæmi um árangursríkar vísindakenningar sem eru þess

eðlis að mikilvægustu fræðihugtökin í þeim skortir tilvísun til raunverulegra hluta (í það minnsta

ef núverandi kenningar eru sannar). Nokkrar af þeim kenningum sem Laudan telur upp eru (en

hann tekur líka fram að hægt sé að halda upptalningunni áfram að vild):

· kenningin í læknisfræði miðalda um að líkaminn skuli vera í jafnvægi fjögurra vessa;

· vökvakenningin um stöðurafmagn;

· kenningin um „flógiston“ í efnafræði;

· ylefniskenningin [e. caloric theory] um varma;

· kenningin um lífskraft í lífeðlisfræði;

· rafsegulljósvakinn;

· kenningar um sjálfskviknun lífs. (Laudan, 1981, bls. 33)

Síðasta skrefið í rökfærslunni út frá dæmum Laudans er sjálf tilleiðslan sem skýrir nafngift

rakanna á ensku („the pessimistic (meta-)induction“).16 Laudan telur sig hafa sýnt fram á að til

séu kenningar sem séu ekki sannlíkar vegna þess að fræðihugtökin sem þar koma fyrir hafi ekki

tilvísun, og að þessar kenningar hafi engu að síður náð árangri í athugunum. Hann getur því

ályktað með tilleiðslu að þetta verði einnig raunin í framtíðinni, að kenningar sem nú er haldið á

lofti vegna árangurs í athugunum séu ekki sannlíkar vegna að fræðileg hugtök þeirra hafi líklega 16 Það er óljóst af grein Laudans hvort hann sé að mæla fyrir slíkri tilleiðslu, eða hvort hann sé fremur að notfæra sér að kenningarnar á listanum séu gagndæmi við kraftaverkarökin. Það að Laudan skuli setja fram lista af kenningum, sem hann segist geta bætt á að vild bendir þó óneitanlega til þess að hann telji að fjöldinn skipti máli. Annars staðar talar hann líka um „fjölda“ og „mikinn fjölda“ árangursríkra en ósannra kenninga. (Laudan, 1984, bls. 157) En fjöldi kenninganna ætti ekki að skipta máli ef þær eru gagndæmi, en ekki grunnur fyrir tilleiðslu.

19

Page 20: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

ekki heldur tilvísun. Þetta má orða þannig að saga vísinda kenni okkur að vera svartsýn þegar

kemur að núverandi kenningum og hafna þar með vísindalegri hluthyggju.

Rökfærsla Laudans hefur verið gagnrýnd úr ýmsum áttum. Ein leið til að grafa undan

rökunum er að sýna fram á að kenningar á lista Laudans séu ekki sambærilegar við þær

vísindakenningar sem hluthyggjumanneskjan telur að séu sannar. Í næsta hluta verður fjallað um

tvær tilraunir í þessa veru.

2.1. Fækkað á lista Laudans: Árangur og þroskuð vísindi

Eitt nauðsynlegt skilyrði þess að Laudan geti beitt tilleiðslu í bölsýnisrökunum er, líkt og í öðrum

tilleiðslum, að sýnið sem notað er gefi rétta mynd af öllu safninu sem ályktað er um.

Kenningarnar á lista Laudans þurfa að hafa nægilega margt sameiginlegt með nútíma kenningum

til að trúlegt sé að það sem gildi um fyrra safnið af kenningum gildi líka um seinna safnið. Ef á

hinn bóginn er hægt að sýna fram á að einhverjar eða allar af þeim kenningum sem Laudan notar

í tilleiðslunni séu allt annars eðlis þá getur hluthyggjumaður notað sér þennan mun til að

takmarka hluthyggjuna við kenningar sem hann telur að séu sannar. Þetta geta verið sumar

hraktar kenningar eins og aflfræði Newtons, en líka margar óhraktar, eins og afstæðiskenningin.

Slík takmörkun mun ekki aðeins útiloka hraktar kenningar heldur líka margar kenningar sem

ekki hafa verið hraktar, en sem hluthyggjumaðurinn telur sig ekki hafa nægilega góðar ástæður

til að ætla að séu sannar. Svo fremi sem greinarmunur hluthyggjumannsins grundvallast á öðru

en það hvort kenningar hafa í reynd verið hraktar er ekkert loðið við þessa aðferðafræði

hluthyggjumanneskjunnar.

2.1.1. Þroskuð vísindi

Tvær leiðir eru þá færar. Önnur þeirra snýr að því hvenær vísindagrein getur talist hafa náð sama

eða samskonar þroska eins og kenningarnar sem hluthyggjumenn hafa í huga þegar þeir segja

nútíma vísindakenningu vera sanna. Enginn – síst af öllum hluthyggjumaður – telur að fallast

eigi á kenningar allra greina sem kenna sig við vísindi. Dulsálarfræði, smáskammtalækningar og

stjörnuspeki eru dæmi um greinar sem hluthyggjufólk vill í fæstum tilvikum viðurkenna að

20

Page 21: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

innihaldi nein markverð sannindi. Hið sama ætti þá að vera unnt að segja um fyrri tíma

kenningar, til dæmis kenninguna um frumefnin fjögur (jörð, vatn, loft og eldur) sem er

upprunnin frá Forn-Grikkjanum Empedókles. En hvar liggja þá mörkin milli þroskaðra og

óþroskaðra vísindagreina? Gleymum því ekki að hluthyggjan þarf að sýna fram á að hægt sé að

skilgreina þroskuð vísindi án þess að skilgreiningin sé beinlínis smíðuð til þess að útiloka

kenningar sem nú er einsýnt að eru ósannar og grafa þannig undan hluthyggjunni. Það útilokar til

að mynda að mörkin á milli geti falist í því hvenær vísindagreinarnar voru stundaðar því

hluthyggjan gæti þá einfaldlega valið sér hentuga dagsetningu og jafnvel breytt henni að vild

síðar meir.

Eina slíka leið er að finna hjá Kuhn þótt hann hafi ekki þar með verið að leitast við að

færa rök fyrir hluthyggju. Kuhn telur að sá reginmunur sé á þroskuðum vísindagreinum og

óþroskuðum að í þeim fyrrnefndu hafi vísindamenn komið sér saman um viðtak sem stýrir

vísindastarfinu innan þeirra. Óþroskaðar vísindagreinar hafi hins vegar ekki slíkt sameiginlegt

viðtak, heldur sé það allsendis óljóst hvert markmið greinarinnar er, hvað gæti talist vera lausn á

tilteknu vandamál, hvaða aðferðir eru viðurkenndar og þar fram eftir götunum. (Kuhn,

1962/1996, bls. 22) Óþroskaðar vísindagreinar skortir annaðhvort viðtök með öllu, eða hafa fleiri

en eitt viðtak sem keppast innbyrðis um að verða viðtekið sem hið eina rétta. (Bird, 2000, bls.

30-32 & 283n)

Ekki liggur þó ljóst fyrir hvað Kuhn á við með orðinu „viðtak“.17 Af því leiðir að það er

að minnsta kosti jafn erfitt að komast að því hvaða vísindi væru þroskuð samkvæmt

skilgreiningu Kuhns. En þótt við vitum ekki upp á hár hvar mörkin liggja milli þroskaðra og

óþroskaðra vísindagreina getur skilgreiningin í það minnsta hjálpað okkur við að segja okkur

hvaða kenningar úr vísindasögunni eru örugglega hinu megin við mörkin.18

Ein þeirra kenninga sem tilheyrir án nokkurs vafa óþroskuðum vísindum er

vökvakenningin um stöðurafmagn sem haldið var á lofti á 18. öld. Rafmagnsfræðin sem þá var

stunduð var óþroskuð, meðal annars vegna þess að hún byggðist ekki á neinum sameiginlegum

hugmyndum um það hvaða aðferðir væru teknar gildar eða við hvaða spurningum rafmagnsfræði

leitaði svara. Vökvakenningin gaf ekki kost á neinum venjuvísindum (e. normal science), eins og 17 Því hefur verið haldið fram að Kuhn noti hugtakið í að minnsta kosti 21 mismunandi skilningi. (Masterman, 1965, bls. 61-65)18 Á sama hátt og við þurfum ekki að vita hvað það er að vera sköllóttur til að vita að Ómar Ragnarsson er það.

21

Page 22: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

Kuhn kallar vinnu vísindamanna innan viðtaka, enda fólst rafmagnsfræði þeirra tíma að mestu í

að skemmta yfirstéttinni með ólíkum tilraunum. Rafmagnsfræði var einfaldlega ekki orðin til

sem vísindagrein og hafði því ekkert viðtak þegar vökvakenningin var sett fram.

Svipaða sögu má segja um kenninguna að mannslíkaminn þurfi að vera í jafnvægi

fjögurra vessa; blóðs, slíms, svarts galls og guls galls. Kenningin er sett fram í fullkominni

andstöðu við hefðbundnar jurtalækningar sem höfðu verið notaðar öldum saman og héldu áfram

að vera notaðar á miðöldum. Ef það að lækna manneskju fólst eingöngu í því að hún hafi rétt

hlutfall vökvanna fjögurra, hvers vegna virkuðu venjuleg lyf þá yfirleitt? Vessakenningin um

mannslíkamann var vissulega útbreidd, og þótt segja megi að hún hafi verið samþykkt í einu

viðtaki, þá var í það minnsta eitt viðtak til viðbótar viðurkennt meðal lækna og lækningamanna.

Hér er ástæða þess að vísindagreinin var óþroskuð ekki sú að ekkert viðtak hafi verið til, heldur

voru fleiri en eitt viðtak sem kepptust um að skýra sama fyrirbæri.

Hvort sem það er vegna þess að viðtökin voru ekki til, eða vegna þess að fleiri en eitt

viðtak fjallaði um sama viðfangsefnið, þá eru í það minnsta tvær af kenningunum á lista Laudans

hluti af óþroskuðum vísindum. Þetta er önnur leiðin til að fækka kenningunum á lista Laudans.

Með sama hætti ætti að vera unnt að takmarka verulega fjölda þeirra kenninga sem Laudan segist

geta bætt á listann eftir því sem hentar. Sönnunarbyrðin fyrir því að svo sé ekki liggur í það

minnsta hjá Laudan.

2.1.2. Árangur vísindakenninga

Hin leiðin til að fækka kenningunum á listanum er að rökstyðja að vitræn hluthyggja geri

ákveðnar kröfur til árangurs vísindakenninga, og að sumar kenningarnar á lista Laudans uppfylli

ekki þessar kröfur. Laudan telur að „kenning hafi „náð árangri“ ef hún hefur virkað vel, þ.e. svo

fremi sem hún hefur gegnt hlutverki í ýmsum skýringum, hefur leitt til staðfestra forspáa og

hefur getað hjálpað til við að skýra margbreytileg fyrirbæri.“ (Laudan, 1981, bls. 23) Laudan

rökstyður að skilgreining hans skuli hafa jafn mikið umfang og raun ber vitni með því að

hluthyggjan hljóti að þurfa að skýra hvernig vísindin í heild sinni hafi náð árangri. Þrengri

skilgreining gæti leitt af sér að vísindin hafi að mestu verið árangurslaus, segir Laudan, og þar

með væri meginhlutverk hluthyggjunnar – að skýra árangur vísinda – ekki lengur til staðar.

22

Page 23: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

Ég held að það sé vel hægt að taka upp þrengri skilgreiningu sem fækkar kenningunum á

lista Laudans enn frekar án þess að gefast upp á hluthyggju sem skýringu á árangri vísinda. Eitt

af því sem er athugavert við skilgreiningu Laudans er að ekkert kemur í veg fyrir að Laudan telji

ad hoc-kenningar til árangursríkra vísindakenninga. Kenningar eru ad hoc ef niðurstöður

athugana er einfaldlega skrifaðar inn í kenningarnar eftir á, eins og gert var í stjörnufræði forn-

og miðaldar til að skýra lykkjuhreyfingu föruhnatta. Ad hoc-kenningar eins og stjörnufræði

Ptólemaíosar „virka“ – þær gegna hlutverki í allskonar skýringum, geta leitt til staðfestra forspáa

og skýrt ýmis konar fyrirbæri – en geta ekki talist árangursríkar. Því þá hljóta allar aðrar ad hoc-

kenningar að vera sömuleiðis árangursríkar. Það mætti til dæmis smíða fleiri ad hoc-kenningar

um sama fyrirbæri sem allar teljast vera jafn árangursríkar. En til hvers var þá leikurinn gerður ef

ekki er lengur hægt að segja að ein kenning sé árangursríkari en aðrar? Skilgreining Laudans

leiðir til einskonar niðursöllunar í fáránleika vegna þess að tilgangurinn með því að skilgreina

árangur var vitaskuld að geta skilið árangursríkustu kenningarnar – þær sem við ættum að trúa

samkvæmt hluthyggjunni – frá öllum hinum.

Við það má bæta þeirri þekktu mótbáru að með því að leyfa ad hoc-kenningar sé enginn

greinarmunur á gervivísindum og raunverulegum vísindum. Stjörnuspeki mætti með sanni segja

að hafi ótal sinnum leitt til staðfestra forspáa, og geti skýrt margbreytileg fyrirbæri. Samkvæmt

Laudan virðast fullyrðingar stjörnuspekinga því hafa „virkað vel“, en hluthyggjumaðurinn hlýtur

að gera meiri kröfur til vísindagreina en svo að slíkt falli undir árangursríkar vísindakenningar.

Þrengri skilgreiningu á árangri vísindakenninga má sækja í smiðju Karls Popper. Í

bókinni The Logic of Scientific Discovery (1935/2002) segir Popper að prófsteinn á hvort taka

eigi upp kenningu sé sá hvort hún spáir fyrir um nýjar efnislegar afleiðingar og skapi þar með

nýja möguleika á að láta reyna á kenninguna, nýjan prófstein. (Popper, 1935/2002, bls. 63) Ad

hoc-kenningar eru þar með útilokaðar því þær eru einvörðungu smíðaðar til að skapa samræmi

við athuganir sem þegar hafa verið gerðar. Dæmi um kenningu sem uppfyllir skilyrði Poppers er

kenningin um reikistjörnuna sem raskar braut Úranusar samkvæmt newtonskri eðlisfræði og er

nú kölluð Neptúnus. Neptúnus var ekki ad hoc-tilbúningur vegna þess að tilvist plánetunnar

hefur efnislegar afleiðingar – hún endurspeglar ljós – sem hægt er að staðfesta í athugunum.

Aukahringirnir í heimsmynd Ptólemaíosar eru á hinn bóginn ad hoc vegna þess að tilvist

aukahringanna leiðir ekki til neinna nýrra mögulegra athugana.

23

Page 24: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

Sömu sögu er að segja af sumum dæmum á lista Laudans, í það minnsta kenningar um

sjálfskviknun lífs og hinn dularfulla lífskraft. Hvernig geta þessar tvær kenningar mögulega leitt

til staðfestra forspáa sem kenningarnar voru ekki smíðaðar til að skýra? Einnig verður að teljast

líklegt að sumar af þeim kenningum sem Laudan segist geta bætt við á listann séu ad hoc. Enn er

sönnunarbyrðin hjá Laudan.

Með því að höfða til þess að kenningar þurfi að leiða til nýrra forspáa og séu hluti af þroskuðum

vísindum með einu stöðugu viðtaki fækkar verulega á lista Laudans. Sömuleiðis verður það æ

ólíklegra að kenningarnar sem Laudan nefnir ekki uppfylli þessi skilyrði. Hvað verður þá um

svartsýnu tilleiðsluna um óhraktar vísindakenningar nútímans?

Vandi Laudans er sá að ef kenningarnar á listanum eiga að vera sambærilegar við

þroskaðar vísindakenningar eru dæmin einfaldlega alltof fá til að nokkuð sé hægt að fullyrða út

frá þeim. Verjendur hluthyggjunnar geta aftur á móti bent á fjölmörg dæmi um vísindakenningar

sem ekki hafa verið hraktar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir í fleiri áratugi. Laudan lendir því í

valþröng með tilleiðslu sína þar sem kostirnir eru þeir að annaðhvort skorti upp á að dæmin gefa

rétta mynd af því sem ályktað er um eða að dæmin séu einfaldlega of fá. Í hvoru falli er

tilleiðslan ófullnægjandi.

Hluthyggjan er þó ekki sloppin frá gagnrýni í anda Laudans því ég held að hægt sé að

nota dæmin sem eftir standa til að grafa undan kraftaverkarökunum. Rökin eru þá neikvæð en

ekki jákvæð í þeim skilningi að þau ráðast gegn rökstuðningi hluthyggjunnar í stað þess að reiða

fram sjálfstæðar ástæður til að hafna vísindalegri hluthyggju. Ég útskýri hvernig þetta er hægt í

næsta hluta.

2.2. Bölsýnisrökin sem gagndæmi við kraftaverkarökin

Eins og fjallað er um í fyrsta kafla ganga kraftaverkarökin út á að vísindaleg hluthyggja geti ein

skýrt árangur vísindakenninga án þess að um einbert kraftaverk sé að ræða. Ef Laudan hefur

fundið dæmi (eitt eða fleiri) um vísindakenningu sem náð hefur árangri í sama skilningi og

þroskaðar vísindakenningar en sem eru samt sem áður ósannar, hvað er það þá annað en

24

Page 25: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

kraftaverk? Samkvæmt helstu rökum fyrir vísindalegri hluthyggju eru sannindi vísindakenninga

skýringin á þeim árangri sem þær ná, en hvernig skýrir hluthyggjan þá þær vísindakenningar á

lista Laudans sem ekki tókst að taka af listanum með þeim takmörkunum sem útlistaðar voru í

síðasta hluta (í §2.1).

Ein slík kenning er ljósvakakenning Fresnels en hún spáði fyrir um margvíslega hegðun

ljóss; einna frægust var forspá hennar um að undir ákveðnum kringumstæðum myndi ljós

punktur birtast í miðju skuggans af ógegnsæjum disk. Ef kenning Fresnels telst ekki meðal þeirra

kenninga sem náð hafa sannkölluðum árangri er örðugt að sjá hvaða kenningar nútíma vísinda

gera það. Ljósvakakenningin er sömuleiðis sett fram í vísindagrein sem náð hafði miklum

þroska, nefnilega ljósfræði og eðlisfræði 19. aldar. Fresnel setti kenningarnar sínar fram í viðtaki

sem hafði mótast áratugum fyrr, og ekkert sambærilegt viðtak keppti við það um hylli

eðlisfræðinga sem vildu skýra eðli ljóss. Samkvæmt kraftaverkarökunum, og takmörkunum á

hluthyggjunni sem rædd voru í síðasta hluta, höfum við því góða ástæðu til að trúa á sannindi eða

sannlíki kenningarinnar.

En samkvæmt bestu vitneskju nútíma vísinda er alls enginn ljósvaki til staðar í heiminum.

Vandinn er ekki aðeins sá að við höfum hætt að nota orðið „ljósvaki“ um raunveruleg fyrirbæri19

heldur er ekkert fyrirbæri í heiminum sem hefur þá eiginleika sem eignaðir voru ljósvakanum –

„ljósvaki“ vísar ekki til neins. En eins og Laudan bendir á þá myndi hefðbundin

hluthyggjumanneskja „aldrei vilja segja að kenning sé næstum sönn ef helstu hugtökin í henni

hefðu ekki tilvísun.“ (Laudan, 1981, bls. 33) Trú á tilvist þeirra hluta sem kenningar fjalla um er

óumdeilanlega ein af skuldbindingum vísindalegrar hluthyggju af þeirri gerð sem fjallað hefur

verið um hér að ofan.

En hvað er það þá annað en kraftaverk að ljósvakakenning Fresnels hafi náð þeim árangri

í athugunum og raun ber vitni ef kenningin er í grundvallaratriðum röng? Kraftaverkarökin

byggjast á því að árangur kenninga geti ekki verið einber tilviljun eða kraftaverk, heldur að

kenningin segi eitthvað satt um heiminn sem geri að verkum að kenningin nær þeim árangri.

Ljósvakakenning Fresnels virðist hins vegar sýna að sannkölluð „kraftaverk“ hafa átt sér stað í

vísindasögunni, og kenningin er því ósvikið gagndæmi gegn kraftaverkarökunum. Hún sýnir að

19 Við notum orðið vissulega í frösum á borð við „á öldum ljósvakans“, en við erum ekki að tala um ljósvaka frekar en við erum að tala um tröll þegar við segjum að manneskja sé „týnd og tröllum gefin“.

25

Page 26: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

forsenda (b*) í skýringu II í fyrsta kafla sé þrátt fyrir allt sönn, þ.e.a.s. að (sumar) ósannar

vísindakenningar ná árangri í athugunum. En þá er rökfærslan í skýringu II gild og þar með getur

hluthyggjumaður ekki sagt að skýring I sé betri eða best eins og Boyd og Putnam gera. Með

öðrum orðum: Kraftaverkarökin ganga ekki upp ef hægt er að sýna fram á að til séu „kraftaverk“

í þeim skilningi sem hluthyggjan leggur í orðið, og ljósvakakenning Fresnels er einmitt slíkt

kraftaverk.

Kenning Fresnels er ekki eina gagndæmið við kraftaverkarökin; til eru fleiri kenningar

þroskaðra vísindagreina sem náð hafa sannkölluðum árangri í athugunum án þess að helstu

hugtökin í þeim hafi tilvist. Athygli vekur að Laudan setur ekki aflfræði Newtons á lista þeirra

vísindakenninga sem innihalda fræðihugtök sem skortir tilvísun. Það er undarlegt vegna þess að í

aflfræði hans eru mörg fræðihugtök sem hafa enga tilvísun samkvæmt afstæðiskenningunni. Eitt

þeirra er „þyngdarkraftur“, en það er hiklaust meðal mikilvægustu hugtakanna í newtonskri

aflfræði. En í hinni almennu afstæðiskenningu Einsteins er enginn „þyngdarkraftur“ til og í

staðinn skýrir sveigja í tímarúmi hvers vegna tveir hlutir virðast dragast hvor að öðrum. Aflfræði

Newtons verður þó seint sökuð um að vera hluti af óþroskuðum vísindum. Eins og fjallað var um

að framan (í §2.1.1) var aflfræði Newtons notuð til að gera eina merkilegustu forspá í

vísindasögunni þegar spáð var fyrir um tilvist Neptúnusar og það síðar sannreynt. Árangur

newtonskrar aflfræði ætti því að vera óumdeildur. En þessi árangur vísindakenningarinnar hefði

aldrei verið mögulegur ef vísindamenn hefðu ekki notast við „þyngdarkraft“ í útreikningum

sínum. En hvað er það þá annað en kraftaverk að heimurinn hagi sér eins og ef til væri sérstakur

kraftur sem verkaði milli tveggja massa?

Kraftaverkarökin fyrir hluthyggju eru ógild sem rök fyrir hefðbundinni hluthyggju vegna

þess að til eru kenningar sem virðast einmitt vera eintóm kraftaverk. Kenningarnar sem um ræðir

innihalda fræðileg hugtök eins og „ljósvaki“ og „þyngdarkraftur“ sem hafa enga tilvísun

samkvæmt okkur bestu vitneskju, þ.e. samkvæmt þeim kenningum sem hluthyggjan gengur nú út

frá að séu sannar eða því sem næst. Til að leysa þennan vanda liggur beint við að setja

kraftaverkarökunum þær skorður að þau nái ekki til tilvísunar fræðihugtaka. Um leið þyrfti

vitaskuld að gera breytingar á vísindalegri hluthyggju svo að tilvísun hugtaka verði ekki

órjúfanlegur þáttur í sannindum þeirra eða sannlíki. Þetta er viðfangsefni næsta kafla.

26

Page 27: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

3. Vísindaleg formgerðarhyggja

Í síðasta hluta færði ég rök fyrir því að hluthyggjan lendi í vandræðum vegna þess að eitt af því

sem í henni felst, nefnilega tilvísun fræðilegra hugtaka í kenningum sem náð hafa árangri, er ekki

til staðar. Ég ýjaði að því að lausnin gæti falist í því að gera málamiðlun með þeim hætti að

hluthyggjan gæfi eftir tilvísun fræðilegra hugtaka. Hugmyndin er sú að hægt sé að finna einhvern

þátt í gagndæmunum úr rökum Laudans sem lýsir heiminum réttilega þrátt fyrir að tilvísun helstu

hugtaka reynist ekki vera til staðar. Verkefnið sem við stöndum þá frammi fyrir er að gera grein

fyrir því hvað felst í hluthyggju um það sem eftir stendur.

John Worrall benti snemma á að þótt engin rökleg samfella sé til staðar við

kenningaskipti (þar sem tvær ólíkar kenningar sem eiga að skýra sömu athuganir eru alltaf

strangt til tekið í mótsögn hverja við aðra), þá sé oft um að ræða „stærðfræðilega samfellu“ milli

kenninga. (Worrall, 1982, bls. 227) Í greininni „Structural Realism: The Best of Both Worlds?“

(1996) notar Worrall svo þessa staðreynd til að rökstyðja að kenningaskipti í vísindasögunni vísi

okkur í átt að útgáfu af vísindalegri hluthyggju sem takmarkist við formgerð kenninga en leyfir

róttækar breytingar á því hvað kenningarnar kveða á um að sé til. Með þessari endurskoðuðu

hluthyggju ætlast hann til að geta farið bil beggja og svarað bölsýnisrökunum um leið og tekið er

mið af kraftaverkarökunum.

Eins og Worrall bendir á voru jöfnurnar í ljósvakakenningu Fresnels teknar upp án

breytinga í rafsegulfræði Maxwells, eini munurinn var sá að breyturnar í jöfnunum tákna aðra

hluti. Það sem áður voru efnislegar bylgjuhreyfingar í ljósvakanum hjá Fresnel urðu að sveiflum

í styrk rafsegulsviðsins hjá Maxwell. (Worrall, 1994, bls. 340) Fræðilegu hugtökin í hvorri

kenningu um sig gegndu sama hlutverki í formgerðinni en höfðu mismunandi tilvísun. Svo fremi

sem aðeins sé litið á stærðfræðina í kenningunum tveimur er því fullkomin samfella til staðar,

jafnvel þótt kenningarnar fjalli í reynd um gjörólíka hluti. (Worrall, 1996, bls. 158-159)

Svipaða sögu mætti segja af aflfræði Newtons og almennu afstæðiskenningu Einsteins,

þótt Worrall geri það ekki með skipulögðum hætti í grein sinni. Jöfnurnar úr aflfræði Newtons

eru að vísu ekki teknar upp óbreyttar í almennu afstæðiskenningunni, en svo fremi sem aðeins er

horft til hinnar stærðfræðilegu hliðar á kenningunni liggur beint við að hægt sé að smætta

newtonska eðlisfræði í almennu afstæðiskenninguna svo fremi sem hraðinn nálgast ekki

27

Page 28: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

ljóshraða. Hver svo sem skilgreiningin á „sannlíki“ kann að vera, þá hlýtur hún að fela í sér að ef

almenna afstæðiskenningin er sönn þá er newtonsk aflfræði næstum sönn.

Í báðum dæmunum fer saman að stærðfræðileg formgerð vísindakenninga viðhelst (eða

því sem næst) en um leið eiga sér stað róttæk umskipti á verufræðilegum skuldbindingum

kenninganna. Greinarmunurinn á formgerð vísindakenninga og eðli þess sem þær eiga að lýsa

liggur til grundvallar þeirri afstöðu Worralls sem hann kallar vísindalega formgerðarhyggju (e.

structural realism). Hún er málamiðlun sem gengur út á að vísindakenningar geti verið á

villigötum hvað varðar eðli þeirra fyrirbæra sem þeim er ætlað að skýra, en eftir sem áður lýst

heiminum í gegnum þá formgerð sem hún eignar heiminum. Fresnel hafði þannig rangt fyrir sér

hvað varðar eðli ljóss – það ferðast alls ekki í gegnum hinn dularfulla ljósvaka – en „hafði ekki

aðeins á réttu að standa um fjöldann allan af ljósfræðilegum fyrirbærum, heldur var líka rétt hjá

honum að þessi fyrirbæri eru birtingarmynd einhvers sem gengst undir lotubundnar breytingar

þvert á stefnu ljóssins hverju sinni.“ (Worrall, 1996, bls. 159)

Eins og James Ladyman bendir á (1998, bls. 410) er ekki ljóst af grein Worralls hvort

hann sé þar að fjalla um þekkingarfræðilegar takmarkanir á vísindalegri hluthyggju eða

frumspekilegar og þar með verufræðilegar.20 Þekkingarfræðileg formgerðarhyggja (e. epistemic

structural realism) felur þá í sér að við höfum aðeins réttlætingu til að líta á formgerð kenninga

sem þekkingu á heiminum: Jafnvel þótt heimurinn samanstandi af fleiru en formgerðinni sem

fram kemur í árangursríkum vísindakenningum, þá höfum við enga þekkingu á heiminum

umfram formgerðina. Verufræðileg formgerðarhyggja (e. ontic structural realism) er á hinn

bóginn sú afstaða að kenningar geti aðeins fjallað um formgerðir raunheimsins vegna þess að

ekkert er til umfram þá formgerð sem þar er fjallað um. Verufræðileg formgerðarhyggja er

þannig sterkari afstaða en þekkingarfræðileg vegna þess að samkvæmt henni er ekki aðeins

ómögulegt að komast að eðli heimsins utan formgerðarinnar, heldur er ekkert slíkt eðli til

yfirleitt.

Verufræðileg formgerðarhyggja er öðrum þræði tilraun til að leysa heimspekileg

vandamál úr skammtafræði og verður ekki til umræðu hér. Eins og van Fraassen bendir á er

verufræðileg formgerðarhyggja í vissum skilningi alls engin formgerðarhyggja, því ef fallist er á 20 Flestir aðrir höfundar virðast sammála um að Worrall aðhyllist þekkingarfræðilega formgerðarhyggju (Chakravartty, 2003, bls. 868; 2004, bls. 152-154; French, 2006, bls. 169; Psillos, 2007, bls. 238) og mér sýnist þess utan að orð hans sjálfs bendi flest í þá átt.

28

Page 29: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

að ekkert sé til nema formgerð, og að hægt sé að hafa þekkingu á allri þessari formgerð, þá er

verið að segja að vísindin geti uppgötvað allt sem á annað borð er til. (van Fraassen, 2006, bls.

292-293) Það sem eftir er af þessari ritgerð verður varið í að skoða hvort þekkingarfræðileg

formgerðarhyggja geti sameinað það „besta úr báðum heimum“ eins og Worrall gefur í skyn.21

3.1. Þekkingarfræðileg formgerðarhyggja

Samkvæmt þekkingarfræðilegri formgerðarhyggju fela bestu vísindakenningar nútímans í sér

þekkingu að svo miklu leyti sem þær fjalla einungis um formgerð þess hluta heimsins sem verið

er að lýsa. Um leið og vísindin teygja anga sína út fyrir þessa formgerð er ekki lengur um

þekkingu að ræða, heldur getgátur sem gætu vissulega verið sannar, en eins og gagndæmin á lista

Laudans sýna getum við ekki haft neina vissu um að svo sé. En vissa er nauðsynlegt skilyrði fyrir

vísindalegri þekkingu, og þess vegna geta fullyrðingar vísinda sem ekki fjalla um formgerð

heimsins ekki mögulega verið þekking.

Þekkingarfræðileg formgerðarhyggja er talin geta komist hjá bölsýnisrökunum um leið og

hún tekur mið af kraftaverkarökunum. Þótt tilvísun fræðilegra hugtaka breytist í

kenningaskiptum þá varðveitist formgerð vísindakenninga á eftirfarandi hátt: þótt sífellt bætist

við þekkingu okkar á formgerð heimsins þá er viðbótarþekkingin þess eðlis að hægt er að tala um

að fullyrðingar fyrri kenningarinnar um formgerð heimsins séu sannlíkar ef kenningin sem tekur

við er sönn. Þetta má líka orða þannig að vísindaleg þekking á formgerð heimsins vaxi smátt og

smátt milli vísindakenninga, en sé ekki skipt út í heilu lagi eins og Kuhn segir að gerist í

vísindabyltingum. Ef þetta gengur upp eiga gagndæmi Laudans því ekki við um formgerð

vísindakenninga, og þar með eru þau ekki gagndæmi gegn þekkingarfræðilegri

formgerðarhyggju.

Þar að auki virðist það vera hluti af aðferðafræði vísinda að krefjast þess að

stærðfræðijöfnur fyrri kenninga komi fram sem nálganir eða takmörkuð tilfelli í kenningunum

sem eiga að leysa þær eldri af hólmi. Og þessi regla er svo höfð til hliðsjónar við smíði nýrra

kenninga og virkar sem hjálpartæki sem kveður á um hvar svör er að finna. (Worrall, 1982, bls.

21 Héðan í frá nota ég oft „formgerðarhyggja“ sem styttingu á „þekkingarfræðileg formgerðarhyggja“ nema annað sé sérstaklega tekið fram.

29

Page 30: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

227; 1996, bls. 160) Þetta er ekki aðeins söguleg staðreynd úr vísindasögunni, heldur lýsing á

aðferðafræði vísinda við kenningaskipti. Sem slík gefur hún okkur ástæðu til að halda að

vísindakenningar muni í framtíðinni varðveita fullyrðingar um formgerð heimsins í formi

stærðfræðilegra jafna, hvort sem jöfnurnar varðveitist sem nálgun, sem takmörkuð tilfelli eða

hreinlega óbreyttar. Ef þetta er rétt er fjarska ólíklegt að vísindasagan muni í framtíðinni reiða

fram ósvikið gagndæmi sem grefur undan þekkingarfræðilegu formgerðarhyggjunni.22

En hvað með kraftaverkarökin: getur þekkingarfræðileg formgerðarhyggja skýrt árangur

bestu vísindakenninga með vísun í að kenningarnar lýsi heiminum? Fylgismenn

formgerðarhyggju telja að kenningarnar lýsi formgerð heimsins og að greinargerð kenninganna

fyrir þessari formgerð beri ábyrgð á árangursríkum athugunum. Það sem vísindakenningar fjalla

um umfram formgerð heimsins – „eðli“ heimsins í einhverjum skilningi – er óvirkt í að leiða

fram árangursríkar athuganir, t.d. þegar nýjar forspár eru leiddar út og þær staðfestar í

athugunum. Þá er það sá hluti vísindakenninga sem lýsir formgerð heimsins og ekkert annað sem

„vinnur vinnuna“ þegar vísindakenningar ná árangri í athugunum.

Þessi aðferð við að sætta kraftaverkarökin og bölsýnisrökin er ein gerð þess sem Psillos

kallar „deildu og drottnaðu“. (Psillos, 1996, bls. S308; 1999, bls. 108)23 Líkingin við

stjórnkænsku Rómverja til forna felst í því að sérhverri vísindakenningu sé deilt niður þannig að

aðeins hluti þess verði viðfang hluthyggju en afgangurinn fái enga slíka meðferð. Hugmyndin er

þá sú að vísindalegri hluthyggju nægi að sá hluti fyrri tíma vísindakenninga sem leiddi til

árangurs þeirra varðveitist í þeim sem nú eru við lýði. Hluthyggjan sem þá er verið að verja er

vitaskuld ekki lengur sú skilyrðislausa hluthyggja að það að samþykkja kenningu feli í sér trúna

á að hún sé sönn, heldur málamiðlun sem kveður á um að það að fallast á kenningu feli eingöngu

í sér trúna að tiltekinn hluti kenningarinnar lýsi heiminum réttilega. Fullyrðingar kenningarinnar

um þennan hluta eru þá sannar en hinar ekki. Sú málamiðlun getur ekki falist í því að sá hluti

sem viðhelst sé rétt lýsing á heiminum en hinn ekki, vegna þess að það segir okkur ekkert um

þær kenningar sem eru enn við lýði og hafa ekki verið hraktar. Við getum augljóslega ekki vitað

hvaða hlutar af þessum kenningum eru rétt lýsing á heiminum ef það ræðst af kenningaskiptum í

22 Svo gæti virst sem þetta bryti gegn náttúruhyggjunni sem liggur að baki vísindalegri hluthyggju. Í §5.1 sýni ég fram á að svo sé ekki.23 Sjá líka Kitcher (1993) sem segir að enginn skynsamlegur hluthyggjumaður líti svo á að aðgerðarlausu hlutar kenninga séu réttlættir af árangri heildarinnar, heldur þurfi að skoða hvernig hlutarnir eru hver um sig notaðir til að ná þessum árangri. (Kitcher, 1993, bls. 142-143)

30

Page 31: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

framtíðinni. Sá hluti vísindakenninga sem viðkomandi hluthyggja segir að sé sönn og lýsi

heiminum þarf að vera almennt skilgreindur þannig að hægt sé að bera kennsl á hann í öllum

vísindakenningum, sér í lagi þeim vísindakenningum sem ekki hafa verið hraktar.

Til að deila og drottna eru þá gerðar þrjár kröfur til afstöðu sem vill kenna sig við

einhverskonar vísindalegra hluthyggju:24

(a) að skilgreint sé fyrir sérhverja vísindakenningu hvaða hluti þess lýsir heiminum réttilega,

og hvaða hluti þess gerir það ekki;

(b) að sá hluti sem afstaðan kveður á um að lýsi heiminum réttilega hafi í einhverri

sannfærandi mynd varðveist í árangursríkum kenningum nútíma vísinda;

(c) að sá hluti, og aðeins sá hluti, sem afstaðan kveður á um að lýsi heiminum réttilega beri

ábyrgð á árangri vísindakenningarinnar í athugunum.

Ef viðkomandi afstaða uppfyllir skilyrði (b) þarf engar áhyggjur að hafa af bölsýnisrökunum, og

ef skilyrði (c) er uppfyllt styðja kraftaverkarökin afstöðuna.

Í næstu tveimur köflum fjalla ég um tvær tilraunir þekkingarfræðilegrar

formgerðarhyggju til að uppfylla skilyrði (a). Ég mun færa rök fyrir því að báðar tilraunirnar

leiði til útgáfna af formgerðarhyggju sem láist annaðhvort að uppfylla (b) eða (c). En ég vil líka

sýna að sama hvernig formgerð er skilgreind geti formgerðarhyggja ekki „deilt og drottnað“. En

þá þarf ég fyrst að sýna fram á að það séu engar aðrar leiðir færar til að uppfylla (a) en þessar

tvær.

3.2. Hvað er formgerð?

Ef gera á greinarmun á formgerð hluta og eðli þeirra liggur beint við að skilgreina fyrst

„formgerð“ og láta svo „eðli“ vísa til þess sem vísindakenningar fjalla um þar fyrir utan. Eins og

Psillos bendir á (2001, bls. S19) velta mögulegar skilgreiningar á formgerð á því hvort

eftirfarandi fjórir þættir safnsins teljist til formgerðarinnar: (1) hlutirnir sjálfir (einstaklingarnir),

24 Skilyrði (b) og (c) eru í grófum dráttum eins og hjá Psillos (Psillos, 1999, bls. 110-111), ég bætti sjálfur við skilyrði (a). (Þótt (a) sé vissulega augljóst skilyrði kemur það sér vel í framhaldinu að hafa það á listanum.)

31

Page 32: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

(2) (fyrsta stigs) eiginleikar þeirra, (3) venslin á milli þeirra og (4) eiginleikar annarra eiginleika

og vensla, þ.e. eiginleikar af öðru stigi eða hærra. Fyrsta skilgreiningin á formgerð er það sem ég

kalla snauða formgerð. Samkvæmt henni er formgerð ekkert nema (4), þ.e.a.s. eiginleikar

annarra eiginleika eða vensla. Um slíka formgerðarhyggju er fjallað í næsta kafla. Aðra

skilgreininguna kalla ég ríka formgerð. Þá er formgerð (3), þ.e. venslin milli hluta, og

hugsanlega líka (4) (sjá umræðu um þetta í §5.4). Rík formgerðarhyggja er tekin fyrir í fimmta

kafla.

Þegar fjallað er um formgerðarhyggju er ekki óalgengt að ríkri og snauðri

formgerðarhyggju sé annaðhvort ruglað saman, kannski vegna þess að mönnum láist að greina á

milli ríkrar og snauðrar formgerðarhyggju. Eitt áberandi dæmi um þetta er þegar talað er um

„stærðfræðilega formgerð“. Þá er átt við stærðfræðijöfnurnar í tiltekinni vísindakenningu, en það

er tvírætt hvort gert er ráð fyrir að breyturnar í jöfnunum séu túlkaðar (e. interpreted), þ.e.a.s.

hvort það er hluti af formgerðinni að breyturnar tákni hitt og þetta sem vísindakenningarnar fjalla

um. Annað lögmál Newtons, , má til dæmis líta á sem eintóma stærðfræðijöfnu þar sem

þrjár ólíkar stærðir venslast með þeim hætti að ein þeirra er jöfn margfeldinu af hinum tveimur.

Þá eru breyturnar ekki túlkaðar. Formgerðin er þá snauð vegna þess að hún segir ekkert um

hlutina sjálfa, eiginleika þeirra eða venslin milli þeirra, heldur er hún eiginleiki venslanna sjálfra.

Þetta sést best á því að ef breyturnar eru ekki túlkaðar er enginn munur á og :

Eiginleikinn að ein stærðin sé jöfn margfeldinu af hinum tveimur er sú sama í báðum tilfellum.

En við getum líka litið svo á að formgerðin í öðru lögmáli Newtons sé stærðfræðijafnan

sem segir að krafturinn sem verkar á hlut sé jöfn massa hlutarins margfaldað með hröðunina sem

hann fær. Það er þá hluti af formgerðinni hvað breyturnar í jöfnunni merkja. Ef við þekkjum

slíka formgerð vitum við líka eitthvað um venslin milli hlutanna, í þessu tilviki vitum við venslin

milli massa, krafts og hröðunar. Þá er formgerðin rík. Meira er fjallað um ríka og snauða

formgerð í næstu tveimur köflum, en hér tel ég mig hafa sýnt fram á að „stærðfræðileg

formgerð“ getur ekki verið neitt annað en rík eða snauð formgerð.

Þriðja og síðasta mögulega skilgreiningin á formgerð er (2), (3) og (4), þ.e.a.s. allt nema

hlutina sjálfa eða einstaklingana í safninu. Ég ætla ekki að gefa samsvarandi heimspekikenningu

nýtt nafn því ég held að enginn raunverulegur munur sé á henni og hefðbundinni hluthyggju.

32

Page 33: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

Þessi kenning segir nefnilega að hægt sé að þekkja alla eiginleika hlutanna í safninu, öll venslin

sem gilda á milli þeirra, og alla eiginleika þessara eiginleika og vensla. Hvað er þá eftir sem ekki

er hægt að öðlast þekkingu á samkvæmt þessari kenningu? Samkvæmt knippiskenningunni (e.

bundle theory) um hluti, að hlutir séu aðeins knippi allra eiginleika sem þeir hafa, er ekkert eftir

til að þekkja. Við getum því komist að sanngildi hvaða fullyrðingar um efnisheiminn sem vera

skal, og að samþykkja fullyrðingu hlýtur að fela í sér trúna á að hún sé sönn. En þetta er

einfaldlega hefðbundin hluthyggja, eins og ég skilgreindi hana í byrjun ritgerðarinnar.

En jafnvel sá sem telur að hlutir hafi eitthvert innsta eðli umfram eiginleikana þeirra25

hlýtur að fallast á að þetta dularfulla eðli hluta er ekki hægt að þekkja. Því ef mögulegt væri að

öðlast þekkingu á eðlinu, þá hljóta mismunandi hlutir að hafa ólík eðli. Og er þetta sérstaka eðli

hlutarins þá ekki einskonar eiginleiki hans, nefnilega eiginleikinn að hafa þetta tiltekna eðli? Í

því falli gildir það sama og áður, nefnilega að við fáum hefðbundna hluthyggju. Ef þetta eðli

hluta er hins vegar ekki þekkjanlegt er þá er samt vandséð hvernig það takmarkar vísindalega

hluthyggju að ekki sé hægt að þekkja hið innsta eðli hlutanna, því engin tegund af fullyrðingum

(ekki bara vísindakenningar) getur þá sagt nokkuð um þetta eðli. Það er miklu fremur bara lýsing

á því hvað felst í því að vera hluthyggjumaður en hafna knippiskenningunni um hluti.

Hvort sem fallist er á knippiskenninguna eða ekki er þessi fyrsta tilraun til að skilgreina

formgerðarhyggju því ekki frábrugðin hefðbundinni hluthyggju. Snúum okkur þá að hinum

tilraununum tveimur.

4. Snauð formgerðarhyggja

Bertrand Russell varð fyrstur til að setja fram það sem ég kalla snauð formgerðarhyggja. Hann

skilgreindi samsemd í formgerð með eftirfarandi hætti:

Tökum eftir því að formgerð felur alltaf í sér vensl: Einn og sér hefur flokkur,26 sem slíkur, enga

formgerð. [...] Flokkur α sem er raðað eftir venslum R hefur sömu formgerð og flokkur β sem er

25 Þetta er sú afstaða sem á ensku nefnist að hlutirnir hafi „haecceity“.26 Flokkur er safn hluta sem hægt er að skilgreina út frá eiginleika sem allir hlutirnir hafa sameiginlegt. Öll mengi eru flokkar, en ekki allir flokkar mengi, t.d. flokkur allra mengja.

33

Page 34: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

raðað eftir venslum S ef til hvers heitis í α svarar eitt heiti í β, og öfugt, og ef í hvert skipti sem tvö

heiti í α hafa venslin R þá hafa samsvarandi heiti í β venslin S, og öfugt. (Russell, 1948, bls. 271)

Í þessum skilningi er formgerð eiginleiki vensla milli hluta, þ.e. formgerð er (annars stigs)

eiginleiki n-sætra eiginleika.27 Samkvæmt skilgreiningunni inniheldur formgerð hins vegar engar

upplýsingar utan við þá rökfræðilegu formgerð sem vensl milli hluta hafa.

Eitt af þeim dæmum sem Russell tekur af samsemd í formgerð eru venslin milli mæltra

og ritaðra setninga sem eru að öðru leyti alveg eins. Ef eitt orð í tiltekinni mæltri setningu kemur

á undan öðru í tíma er samsvarandi ritaða orð til vinstri við hitt í skrifaðu setningunni. (Russell,

1948, bls. 271-272) Í þessu dæmi er α flokkur orðanna í mæltu setningunni, β flokkur orðanna í

skrifuðu setningunni, R venslin „x er mælt á undan y“ en S venslin „x stendur vinstra megin við

y“. Þessi samsemd í formgerð sem er á milli mæltra og ritaðra setninga er ekki lítilvæg því hún

lýsir því hvað gerist þegar við lesum (þýðum skrifað mál í mælt) og skrifum (þýðum mælt mál í

skrifað). Svo að formgerðin virðist í þessu tilviki segja okkur talsvert um skrifaðar og mæltar

setningar.

Hvað segir þetta okkur um vísindalega hluthyggju? Samkvæmt Russell gera athuganir

okkur kleift að öðlast þekkingu á heiminum vegna þess að „heimur fyrirbæranna“, þ.e.a.s.

skynreynsla okkar, hefur sömu formgerð og raunveruleikinn. Þegar við sjáum tiltekna formgerð í

fyrirbærunum sem birtast okkur í skynjun getum við leitt af því að þessi formgerð sé líka til

staðar í raunveruleikanum. (Russell, 1919, bls. 61) Á sama hátt væri hægt að leiða af því að

kenningar hafi tiltekna formgerð að heimurinn sem kenningarnar fjalla um hafi sömu formgerð.

En það væri þá líka allt og sumt sem kenningar segja okkur um heiminn.

Allt byggist þetta á þeirri hugmynd Russells að samskonar formgerð sé ávallt til staðar í

orsök og afleiðingu hennar ef hvort tveggja er samsett úr fleiri en einum atburði. Formgerðin sem

birtist okkur í samsettri skynreynslu er þá sama formgerðin og er til staðar í heiminum, í

hlutunum sem valda skynreynslunni. Russell rökstyður þessa fullyrðingu með því að gefa sér að

ólík fyrirbæri í skynreynslu leiði af sér að ólíkir hlutir hafi valdið skynreynslunni. Ef maður

heyrir til dæmis tvö aðskilin hljóð í einu, þá hljóti tveir mismunandi hlutir hafa orsakað

skynjunina. Og öfugt gildir þá, sem rökleg afleiðing af fyrri fullyrðingunni, að ef

27 Formlega séð skilgreinir Russell „formgerð“ sem flokk allra vensla sem hafa sömu formgerð, alveg eins og aðrir eiginleikar eru flokkur allra hluta sem hafa eiginleikann. (Russell, 2007, bls. 250)

34

Page 35: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

skynreynsluvaldarnir eru eins, þá er skynreynslan líka eins. Við það bætir hann svo hugmyndinni

um „samfellu í tíma og rúmi“, þ.e.a.s. að orsök og afleiðing fylgi á eftir hvort öðru í tíma og

rúmi. (Russell, 2007, bls. 226-227) Við getum þá þekkt formgerð hlutanna sem orsaka skynjun,

samkvæmt Russell, vegna þess að þegar skynjun okkar opinberar tiltekin vensl R milli tveggja

eða fleiri atburða, þá getum við vitað að á milli raunverulegu atburðanna sem valda

skynreynslunni eru vensl S sem eru með sömu formgerð og R.

4.1. Tvær mótbárur gegn snauðri formgerðarhyggju

Gagnrýni á snauða formgerðarhyggju er af tvennum toga. Önnur mótbáran segir að snauð

formgerð innihaldi ekki (nærri) nógu miklar upplýsingar um heiminn, en hin að hugmynd

Russells um að formgerð heimsins hljóti að birtist í reynslu sé röng eða verulega gölluð. Ég hef

litlu við þessa gagnrýni að bæta, en held að hún sýni fram á að snauð formgerðarhyggja sé ekki

valkostur, og mun fyrst og fremst taka saman mótbárurnar tvær hér í stuttu máli.

4.1.1. Snauð formgerð segir lítið sem ekkert um heiminn

Ég ætla að leyfa mér að flækja málin eilítið fyrst og leggja út af skilgreiningu Russells á

formgerð með fremur langsóttu dæmi. Samkvæmt skilgreiningunni hefur flokkur með stökin

George H. W. Bush, George W. Bush og Barbara P. Bush (dóttir þess síðarnefnda) sem er raðað

eftir venslunum „x er eldri en y“, sömu formgerð og flokkur með stökin þríhyrningur,

ferhyrningur og fimmhyrningur sem er raðað eftir venslunum „(hornasumma x) ≤ (hornasumma

y)“. Því ef Bush eldri svarar til þríhyrnings, Bush yngri til ferhyrnings og Barbara Bush til

fimmhyrnings er hornasumma marghyrnings minni en hornasumma annars marghyrnings í

flokknum ef og aðeins ef samsvarandi meðlimur Bush-fjölskyldunnar er eldri en sá sem svarar til

seinni marghyrningsins. En hvað á forseti Bandaríkjanna sameiginlegt með ferhyrningi? Þetta

dæmi sýnir að samkvæmt skilgreiningu Russells þurfa stökin í tveimur flokkum með sömu

formgerð ekki að hafa neina sameiginlega eiginleika eða sameiginleg vensl. (Þetta er vitaskuld í

samræmi við skilgreininguna hér að framan.) Þá liggur beint við að spyrja: Felur þekking á

formgerð í sér þekkingu á heiminum ef formgerðin er eins fyrir svo ólíka hluti?

35

Page 36: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

Gagnrýni af þessum toga má styrkja enn frekar með því að skoða rökfræðina sem býr að

baki öllu tali um snauða formgerð. William Demopoulos og Michael Friedman gagnrýna

formgerðarhyggju Russells með þeim rökum að formgerðin í skilgreiningu Russells geri okkur

aldrei kleift að ákvarða hvaða venslum er verið að lýsa. (Demopoulos & Friedman, 1985, bls.

627-629) Þeir notfæra sér grein eftir stærðfræðinginn Max Newman (1928) þar sem hann hafnar

formgerðarhyggju Russells á þeim grundvelli að hvaða safni af hlutum sem vera skal sé hægt að

raða þannig að safnið hafi tiltekna formgerð svo fremi sem fjöldi hlutanna er réttur.

Newman bendir einfaldlega á að fyrir sérhvert safn hluta A eru til vensl R þannig að

formgerðin sé W. Eina skilyrðið er að A verður að hafa sama fjöldatölu (innihalda sama fjölda

staka) og önnur söfn sem formgerð W getur átt við. (Newman, 1928, bls. 140 & 144) Við getum

með öðrum orðum valið okkur R þannig að eitthvert safn hluta A hafi þá formgerð sem við

kjósum, nefnilega W. Þetta er rökfræðileg setning sem leiðir einfaldlega af frumsetningunni um

veldismengi (e. power set axiom). (Ladyman, Ross, Spurrett, & Collier, 2007, bls. 126 & 126n)

Eina krafan sem formgerð W gerir til safns af hlutum A er sumsé um fjölda hlutanna í A.

Formgerðarhyggja sem kveður á um að fyrir tiltekinn flokk sé til vensl sem tilgreinir

ákveðna formgerð, og að sú formgerð sé hið eina sem hægt er að hafa þekkingu á, er þá harla

innihaldslítil því sú þekking er bein rökfræðileg afleiðing af því að í safninu er réttur fjöldi hluta.

Afstaða Russells felur því í sér að hið eina sem athuganir geta skorið úr um þegar kemur að

sanngildi vísindakenninga er fjöldi hlutanna í viðkomandi safni. Samkvæmt snauðri

formgerðarhyggju er hægt að komast að öllu öðru sem vísindakenningar segja okkur um heiminn

án reynsluathugana, a priori. Eins og Demopoulos og Friedman benda á geta vísindin þá ekkert

uppgötvað nema fjöldatölur. (Demopoulos & Friedman, 1985, bls. 627)28

Þetta sýnir að snauð formgerðarhyggja uppfyllir ekki skilyrði (c) hér að ofan því hún

getur ekki skýrt af hverju vísindakenningar ná árangri í athugunum. Það væri sannarlega

kraftaverk ef heimurinn hegðaði sér í sífellu eins og árangursríkustu vísindakenningar okkar

kveða á um vegna þess eins að kenningarnar segja í einhverjum skilningi rétt til um fjölda

hlutanna sem kenningin fjallar um.

28 Í bréfi til Newmans (Russell, 1967/1996, bls. 413-414) viðurkennir Russell að hafa gert mistök og reifar stuttlega möguleika á innihaldsmeiri skilgreiningu á formgerð.

36

Page 37: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

4.1.2. Snauða formgerð er ekki hægt að leiða beint af athugunum

Ekki er víst að Russell hefði miklar áhyggjur af því að snauð formgerðarhyggja uppfyllti ekki

kraftaverkarökin. Russell telur sig hafa sýnt fram á að formgerð heimsins sé hægt að leiða beint

af athugunum. Við þurfum þá engin kraftaverkarök til að sannfærast um að formgerðin lýsi

heiminum, ekki frekar en við þurfum kraftaverkarök til að sannfærast um hversdagslegar

athuganir (t.d. „það rignir“).

Hin mótbáran gegn formgerðarhyggju Russells gengur út á að hafna þessari niðurstöðu

Russells. Psillos (2001) bendir á að forsenda Russells, að sömu skynreynsluvaldar leiði af sér að

skynreynslan sé líka eins, nægi ekki til að tryggja að formgerð hluta birtist okkur í skynreynslu.

Rifjum upp að samsemd í formgerð var samkvæmt Russell ekki aðeins ef „í hvert skipti sem tvö

heiti í α hafa venslin R þá hafa tilsvarandi heiti í β venslin S“ heldur bætti hann við „og öfugt.“

(Russell, 1948, bls. 271) Það er sumsé ekki nóg til að skynreynsla og skynreynsluvaldar séu með

sömu formgerð að af sömu skynreynsluvöldum megi leiða að skynreynslan sé eins, heldur þarf

líka að gilda að af sömu skynreynslu megi leiða að skynreynsluvaldarnir séu þeir sömu. Forsenda

Russells þarf með öðrum orðum að gilda í báðar áttir til að hægt sé að tala um að skynreynsla og

skynreynsluvaldurinn hafi sömu formgerð.

Ef svo er ekki þýðir það að heimurinn gæti haft einhverja auka formgerð sem ekki

fyrirfinnst í formgerð skynreynslunnar. Þá er öll formgerð í skynreynslu að vísu til staðar í

heiminum sjálfum, en að auki gæti verið til formgerð sem ekki er hægt að komast að í reynslu.

En þá er úti um draum snauðu formgerðarhyggjunnar um að upplýsingar um formgerð heimsins

væri að finna í formgerð skynreynslunnar. Ekkert kemur þá í veg fyrir að heiminum sé eignuð

hvaða (aukalega) formgerð sem er svo fremi sem það samræmist skynreynslunni. (Psillos, 2001,

bls. S15) Snauð formgerðarhyggja segir okkur þá aðeins að við getum þekkt hluta af formgerð

heimsins, og að við getum ekki vitað hvaða hluti það er sem við þekkjum ekki. En

hluthyggjumaðurinn vill geta fullyrt um heiminn allan út frá þeirri reynslu sem hann hefur af

takmörkuðum hluta hans. Annars er einfaldlega verið að fallast á (smættandi) raunhyggju því þá

er aðeins hægt að fullyrða um þann hluta heimsins sem við höfum beina reynslu af.

Ef á hinn bóginn er gert ráð fyrir að rökfærslan gildi í báðar áttir, þ.e.a.s. að sama

skynreynsla leiði af sér að skynreynsluvaldurinn sé sá sami, þá er öll formgerð heimsins

37

Page 38: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

aðgengileg í skynreynslu. Þetta væri fagnaðarefni frá sjónarhóli hluthyggjunnar ef ekki væri fyrir

það að þessi niðurstaða er fengin a priori. Er það virkilega a priori vitað að engin formgerð sé til

staðar í heiminum sem ekki birtist okkur í reynslu? Eins og Psillos bendir á þýddi það að

heimurinn hlyti að vera samansettur af reynslu okkar, en sé ekki óháður reynslu okkar og

hugsunum. Með öðrum orðum væri þar með fallist á einhverskonar hughyggju, sem er í mótsögn

við þann hluta formgerðarhyggjunnar að formgerð kenninga lýsi heiminum. (Psillos, 2001, bls.

S15-S16)

Psillos skoðar ekki hvort til staðar séu einhver reynslurök (a posteriori) sem hníga að því

að sama skynreynsla þýði ævinlega að skynreynsluvaldarnir séu þeir sömu, þ.e.a.s. að ólíkir

skynreynsluvaldar þýði alltaf að skynreynslan verði ólík. Þvert á móti er auðvelt að finna

gagndæmi gegn þessari forsendu, og Russell nefnir eitt slíkt sjálfur (enda fellst hann ekki á

forsenduna): „Ef við fylgjumst með manni í hálfrar mílu fjarlægð breytist ásjóna hans ekki ef

hann lyftir brúnum, en hún breytist fyrir mann sem fylgist með honum í þriggja feta fjarlægð.“

(Russell, 1927/2007, bls. 255) Annað dæmi væri ef maður horfði á konu í nokkurra metra

fjarlægð, liti svo undan og þá væri stór og mynd af konunni sett í staðinn þannig að ómögulegt

væri fyrir manninn að koma auga á muninn. Skynreynsluvaldarnir eru þá ólíkir, en skynreynslan

sú sama.

Niðurstaða Psillos er því að snauð formgerðarhyggja lendi í valþröng eða tvíkosti. Án

þeirrar forsendu að sé skynreynslan eins hljóti skynreynsluvaldurinn að vera sá sami, tryggir

formgerðarhyggjan ekki að hægt sé að hafa óbeina þekkingu á formgerð heimsins. En sé fallist á

forsenduna a priori er vissulega tryggt að við fáum þekkingu á formgerð heimsins, en þar með er

líka fallist á einskonar hughyggju; að formgerð heimsins sé einfaldlega sú formgerð sem birtist

okkur í reynslu. Þar að auki benti ég á gagndæmi úr reynslu sem grafa undan forsendunni.

Þessi seinni mótbára sýnir að svo fremi sem reynt er að forðast hughyggju getum við í

besta falli, samkvæmt snauðri formgerðarhyggju, þekkt hluta af þeirri formgerð sem er til staðar í

heiminum, nánar tiltekið þann hluta sem við höfum beina reynslu af. En er það þá ekki

kraftaverk, enn og aftur, að sá hluti formgerðar kenninga sem ekki er fengin beint úr reynslu sé

samt sem áður í samræmi við athuganir? Mótbára Psillos sýnir að snauð formgerðarhyggja er enn

fjær því að uppfylla skilyrði (c) og svara þar með kraftaverkarökunum en fyrri mótbáran sýnir

fram á. Því það er ekki nóg með að snauða formgerðarhyggjan segi okkur aðeins til um

38

Page 39: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

fjöldatölur heldur sýnir seinni mótbáran að við höfum ekki einu sinni aðgang að öllum

fjöldatölum ef marka má snauða formgerðarhyggju.

5. Rík formgerðarhyggja

Lærdómurinn sem við ættum að draga af hrakförum snauðrar formgerðarhyggju er sá að til að

formgerð geti sagt okkur eitthvað markvert um heiminn þurfi í það minnsta að tilgreina með

einhverjum hætti hvaða vensl í heiminum kenningin fjallar um. Beinast liggur við að gera það

með því að skilgreina formgerð einfaldlega sem venslin sjálf (og eins og ég rökstuddi í §3.2 er

það eina leiðin sem eftir er):

Rík formgerð: Formgerð er vensl milli hluta, þ.e. n-sætur eiginleiki þar sem n ≥ 2.

Í þessum skilningi er formgerð staðhæfingar eins og „George H. W. Bush er faðir George W.

Bush“ einfaldlega venslin milli stjórnmálamannanna tveggja, nefnilega „x er faðir y“. Formgerð

er þá eiginleikar sem eiga við tvo eða fleiri hluti í einu, til dæmis „x borðar y“, „x liggur á milli y

og z“, og „x og y búa í Reykjavík“. Formgerðarhyggja sem grundvallast á þessari skilgreiningu

kalla ég ríka formgerðarhyggju.

Henri Poincaré setti fyrstur fram slíka formgerðarhyggju í bókinni Science and

Hypothesis. (1905/1952) Hann taldi að við gætum aldrei haft þekkingu á hlutunum sjálfum vegna

þess að náttúran „myndi eilíflega fela hana fyrir okkur“. (Poincaré, 1905/1952, bls. 161) Eina

mögulega þekking okkar er á venslum milli hluta í heiminum. Í vísindakenningum setjum við

„myndir“ í stað hlutanna sem við getum ekki haft þekkingu á; en, spyr Poincaré, „ef við þekkjum

venslin, hverju skiptir það þótt okkur þyki hentugt að skipta út einni mynd fyrir aðra?“ (Poincaré,

1905/1952, bls. 161) Poincaré aðhyllist því hluthyggju um vensl eða formgerð vísindakenninga

en hafnar henni þegar kemur að því hvaða hlutir vísindin segja að séu til. Þetta er tilraun til að

mæta skilyrði (b), að formgerð vísindakenninga verði að hafa varðveist í nútímakenningum, því

kenningar sem búið er að hafna „glatast ekki að öllu leyti, og leifar af hverri þeirra eru enn til

staðar.“ (Poincaré, 1905/1952, bls. xxvi) Leifarnar eru formgerðin, venslin milli hlutanna, en það

sem glatast eru fræðihugtökin sem eiga að vísa til þeirra hluta sem kenningin fjallar um.

39

Page 40: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

Rík formgerðarhyggja í meðförum Poincarés gengur þá út á að aðhyllast einskonar

verkfærishyggju gagnvart tilvísun fræðihugtaka og það sem kenningar segja um hlutina sem

vísað er til, en um leið að telja vísindakenningar sannar að svo miklu leyti sem þær fjalla aðeins

um vensl hlutanna sem fræðihugtökin eiga að vísa til. Fullyrðingar um einsæta eiginleika

fræðigripa hafa með öðrum orðum ekki sanngildi samkvæmt ríkri formgerðarhyggju, heldur

aðeins þeir eiginleikar fræðigripa sem eru tvísætir, þrísætir, fjórsætir o.s.frv.

Þessi formgerðarhyggja getur ekki uppfyllt skilyrði (a), (b) og (c), og glímir auk þess við

einn vanda til viðbótar. Áður en ég hefst handa við að sýna fram á þetta ætla ég að skoða ein rök

gegn þessari formgerðarhyggju og gera grein fyrir því hvers vegna ég held að þau séu ógild.

5.1. Ein ógild mótrök

Mótrökin gegn ríkri formgerðarhyggju sem ég held að séu ógild eru á þá leið að það að formgerð

lýsi heiminum sé ekki eina, og ef til vill ekki heldur besta, skýringin á því hvers vegna

formgerðin viðhelst þegar skipt er um vísindakenningar. Psillos (Psillos, 1995, bls. 26; 1999, bls.

152) bendir á að hægt væri að færa rök fyrir því að varðveisla stærðfræðijafna þyrfti ekki að

þýða að þær lýsi raunveruleikanum, heldur aðeins að vísindasamfélaginu finnist hentugt og

vinnusparandi að byggja ofan á þá vinnu sem unnin hefur verið í stærðfræðihluta fyrri kenninga í

stað þess að byrja upp á nýtt. Þannig væru jöfnurnar í aflfræði Newtons enn til staðar (lítið

breyttar) í afstæðiskenningunni vegna þess að annars hefði þurft að gera flóknar

stærðfræðiútleiðslur á nýjan leik fyrir hluti sem ferðast á hraða langt undir ljóshraða. Gagnrýni

Psillos liggur beint við, því Worrall segir sjálfur að varðveisla jafna í vísindakenningum hafi ekki

aðeins verið sett sem skilyrði þegar skipt er um kenningar í vísindasögunni, heldur hafi það

einnig virkað sem leiðbeinandi regla þegar nýjar kenningar eru smíðaðar. (Worrall, 1982, bls.

227; 1996, bls. 160) Verkfærishyggja myndi þannig skýra varðveislu formgerðarinnar með því

að það sé einfaldlega þægilegra að halda í eldri jöfnur en að smíða nýjar. Ef rök Psillos eru gild

sýnir þetta að formgerðarhyggja er ekki eina skýringin á árangri vísinda og ekki endilega sú

besta heldur. Þess vegna geti Worrall ekki án frekari raka „haldið því fram að varðveisla á stigi

40

Page 41: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

stærðfræðijafna þýði að tekist hafi að fanga raunverulega formgerð heimsins.“ (Psillos, 1995, bls.

26)29

Ég held að þessi rök séu verulega gölluð. Fyrir það fyrsta er það engin mótsögn að

varðveisla formgerðar sé vinnusparandi og að hún fangi um leið formgerð heimsins í einhverjum

skilningi. Nærtækasta skýringin er raunar að annað sé afleiðing af hinu. Því hvers vegna er

hentugt og vinnusparandi að varðveita eldri formgerð í nýjum kenningum? Er ekki besta

skýringin einfaldlega að formgerðin lýsi heiminum, í það minnsta að einhverju leyti, og að þess

vegna sjái vísindamenn ekki ástæðu til að breyta því sem þegar hefur reynst rétt. Í það minnsta er

alveg ljóst að það sparar hvorki vinnu né er það hentugt fyrir vísindamenn að varðveita í

kenningum formgerð sem er í grundvallaratriðum röng lýsing á raunverulegri formgerð heimsins.

Annað svar við þessum rökum er að ef varðveisla formgerðar er leiðbeinandi regla, eins

og Worrall segir, þá er þessi regla ein af þeim aðferðum vísinda sem leitt hafa til árangursríkra

kenninga. Hvers vegna hefur það orðið að reglu að varðveita formgerð vísindakenninga? Vegna

þess að það leiðir til þess að við fáum árangursríkar kenningar. Það segir okkur að reglan sé

líklega rétt, því ef hún væri röng þá leiddi beiting hennar ekki til árangursríkra kenninga og

vísindin hefðu aldrei tekið hana upp sem leiðbeinandi reglu við kenningaskipti.

5.2. Formgerðin skýrir ekki allan árangur vísindakenninga

Hin mótrökin gegn ríkri formgerðarhyggju sem ég held að hreki hana eru að hluta til komin frá

Psillos. (1995, bls. 34-39; 1999, bls. 157-159) Þau felast í því að sýna að jafnvel þótt hægt væri

að skilgreina formgerð þannig að engir (einsætir) eiginleikar hluta væru hluti af formgerðinni, þá

gildir samt ekki að ekkert nema formgerðin viðhaldist undantekningalaust í kenningaskiptum.

Þetta eru rök gegn skilyrði (c) því ef eitthvað umfram formgerð vísindakenninga viðhelst í

kenningaskiptum er ekki ástæða til að halda að formgerðin beri ein ábyrgð á árangri

vísindakenninga í athugunum. Þá benda kraftaverkarökin til þess að við ættum líka að aðhyllast

hluthyggju með tilliti til þess sem varðveitist í vísindakenningum umfram formgerð þeirra.

29 Psillos tekur fram að hann haldi ekki að það sé ómögulegt að færa slík rök fyrir því að sanngildi formgerðarinnar sé besta skýringin á varðveislu formgerðarinnar. (Psillos, 1999, bls. 152) En ef slík rök eru til, þá er það vitaskuld á ábyrgð Worralls að koma þeim á framfæri.

41

Page 42: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

Psillos bendir á að fleira en formgerð hafi varðveist þegar ljósvakakenningu Fresnels var

skipt út fyrir rafsegulkenningu Maxwells. Þar á meðal var sú hugdetta Fresnels að ljósbylgjur

sveiflist eingöngu hornrétt á stefnuplan, en séu ekki samstefna útbreiðslunni eins og til dæmis

gildir um hljóðbylgjur. Eins og Psillos segir er þetta ekki (eingöngu) uppgötvun um formgerð

ljóss, heldur er þetta fullyrðing um eðli þess, fullyrðing um hvað ljós er. Fresnel hafði líka á réttu

að standa þegar hann taldi að ljós þarfnaðist einhvers sem flytti það milli staða, þótt hann hafi

ranglega talið að það væri ljósvaki en ekki rafsegulsvið. Hann sagði réttilega að útbreiðsla ljóss

fullnægi lögmálinu um orkuvarðveislu. Og svo mætti áfram telja. (Psillos, 1995, bls. 38-39;

1999, bls. 159) Fresnel hafði rétt fyrir sér um ýmsa eiginleika ljóss sem ekki er (eingöngu) hægt

að eigna formgerð ljósvakakenningarinnar. Og það sem meira er: Þessir eiginleikar eru

órjúfanlegur hluti af kenningu hans og báru ábyrgð á árangri kenningarinnar í athugunum.

Þetta gildir um fleiri vísindakenningar.30 Uppgötvun Thomsons á tilvist rafeinda og

atómlíkan Rutherfords snerust heldur ekki aðeins um formgerð heimsins. Ef einhverjar

vísindakenningar fjalla um það hvaða hlutir eru til þá hlýtur atómkenning Rutherfords að vera

þeirra á meðal. Þegar skammtafræði kom til sögunnar og breytti þessu líkani Rutherfords var það

ekki (eingöngu) formgerð sem varðveittist fram í nútíma atómkenningar, heldur líka fjölmargir

(einsætir) eiginleikar atóma, rafeinda, róteinda og nifteinda. Það þyrfti æði útvatnaða

skilgreiningu á formgerð til að varðveislan milli kenningar Rutherfords og skammtakenninga um

atómið væri öll á sviði formgerðarinnar. Hvernig skýrir formgerðarhyggja þann árangur sem

atómkenningar hafa náð í athugunum?

Nú voru helstu rökin fyrir því að trúa á formgerð kenninga að það væri einskonar

kraftaverk ef formgerð árangursríkra kenninga í þroskuðum vísindum væri ekki sönn. En af

hverju er það þá ekki líka kraftaverk að Fresnel hafi tekist að lýsa eðli ljóss og Rutherford eðli

atómsins ef vísindin geta ekkert sagt okkur um eðli þessara hluta, heldur aðeins um formgerðina?

Rík formgerðarhyggja gefur okkur enga ástæðu til að halda að kraftaverkarökin gildi aðeins um

formgerð kenninga en ekki um aðrar uppgötvanir þroskaðra vísinda sem ná árangri og standast

tímans tönn. Væri það ekki líka hálfgert kraftaverk í sjálfu sér ef kraftaverk ættu sér bara stað

þegar verið væri að rannsaka hluti og eiginleika þeirra, en ekki þegar um formgerð væri að ræða?

30 Eftirfarandi dæmi eru frá mér sjálfum komin, en ekki frá Psillos.

42

Page 43: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

Allt bendir þetta eindregið til þess að það sem kenningar segja um hluti og (einsæta)

eiginleika þeirra geti verið satt og borið ábyrgð á árangri vísindakenninga. Rík formgerðarhyggja

uppfyllir þá ekki skilyrði (c) vegna þess að fleira en formgerð ber ábyrgð á árangri

vísindakenninga. Mér virðist sem eina hugsanlega svar formgerðarhyggjunnar við þessum

mótrökum sé að höfða til þess að jafnvel þótt fullyrðingar um heiminn umfram formgerðina

varðveitist í kenningaskiptum, þá þurfi skýringin ekki að vera að þær séu sannar eða að hlutirnir

séu til, heldur geti það verið hentugt að notast við sömu hugtökin og áður og eigna hlutum sömu

eiginleika. Þetta er svar er vitaskuld af nákvæmlega sama tagi og mótrökin úr síðasta hluta

(§5.1), og rökin sem ég færði gegn þeim þar eiga líka við hér.31

Ég held að styrkja megi þessa gagnrýni frá Psillos enn frekar með því að huga að

árangursríkum aðferðum vísinda. Nú er óumdeilt að vísindalegar aðferðir eru fræðihlaðnar,

þ.e.a.s. aðferðirnar byggja á bakgrunnsþekkingu sem er uppfull af vísindakenningum. Svo tekin

séu tvö ofureinföld dæmi þá byggjast athuganir í gegnum rafeindasmásjá augljóslega á

kenningunni um tilvist rafeinda og í efnafræði byggist eimun að sama skapi á kenningum um

fasaskipti efna. Þegar vísindakenning er prófuð er því í raun líka verið að prófa allar þær

kenningar sem búa að baki þeim fræðihlöðnu aðferðum sem beitt er. Ljósvakakenning Fresnels

og aðrar kenningar sem formgerðarhyggjan vill nota sem dæmi eru engin undantekning. Engin

kenning er uppgötvuð og réttlætt án þess að notaðar séu fræðihlaðnar aðferðir. En hver er

trygging formgerðarhyggjunnar fyrir því að einungis formgerð þessara bakgrunnskenninga beri

ábyrgð á árangrinum sem kenningar ná í athugunum? Þvert á móti virðist mér að margar slíkar

bakgrunnskenningar fjalli fyrst og fremst um hlutina sjálfa og eiginleika þeirra, en hafi sjaldan

neina markverða stærðfræðilega formgerð. Eimun byggist til dæmis bara á því að mismunandi

efni hafi mismunandi suðumark – kenningin sem býr að baki fjallar þá augljóslega um hlutina

sjálfa eða eiginleika þeirra. Sömu sögu má segja um rafeindasmásjána – hún byggist að

sjálfsögðu á kenningunni um tilvist rafeinda. Þessi dæmi sýna að fleira ber ábyrgð á árangri

vísindalegra aðferða en formgerð þeirra kenninga sem aðferðirnar reiða sig á. Þessi viðbót mín

held ég að sé síðasti naglinn í líkkistu þeirra sem halda því fram að einungis formgerð

vísindakenninga beri ábyrgð á árangri þeirra í athugunum.

31 Að auki má benda á að ef marka má Worrall gildir „samsvörunarlögmálið“, sem kveður á um að hluti kenninga muni alltaf að varðveitast milli kenningaskipta, einungis um stærðfræðihluta vísindakenninga. (Worrall, 1996, bls. 160)

43

Page 44: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

5.3. Formgerð festir tilvísun fræðihugtaka

Formgerðarhyggja gæti virst vera góð leið til að eyða tilvísunum úr hluthyggjunni og komast þar

með hjá gagndæmum Laudans, að fræðigripir vissra árangursríkra kenninga þroskaðra

vísindagreina séu einfaldlega ekki til. Vandinn er sá að greinarmunurinn á einsætum eiginleika

og margsætum er ekki þekkingarfræðilegur greinarmunur heldur rökfræðilegur.

Þekkingarfræðilega er enginn mikilvægur munur á einsætum setningum eins og „ er karlmaður“

og tvísætum eins og „ er faðir “. Fyrri setningin er til dæmis bein afleiðing af hinni síðari: Ef

við vitum að er faðir einhvers vitum við líka að er karlmaður. Að uppgötva venslin milli og

er um leið að uppgötva eitthvað um eitt og sér.

Málin flækjast örlítið þegar venslin eru af taginu „ er í 100m fjarlægð frá “, því þá

virðist ekki vera hægt að segja mikið um eitt og sér. En við vitum að minnsta kosti að venslin

leiða af sér að er í 100m fjarlægð frá einhverju. Það er líka eiginleiki, að vísu eiginleiki sem

mjög margir hlutir hafa. En við getum að minnsta kosti ímyndað okkur hluti í geimnum sem eru

lengra í burtu frá öllu öðru.

Almennt gildir að ef þekkt eru venslin milli og , þ.e. ef er vitað, þá getum

við búið til einsætan eiginleika þannig að , sem segir á íslensku að til sé

eitthvert þannig að hafi vensl til . Þetta er einsætur eiginleiki sem eignaður er , því það

er aðeins ein frí breyta í formúlunni, nefnilega . Þá leiðir , sem er fullyrðing um að hafi

einsætan eiginleika, beint af , sem segir að hafi venslin við . Auðvelt er að sjá að

44

Page 45: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

þetta gildir almennt um n-sæta eiginleika, því þá eru venslin og samsvarandi

einsæti eiginleiki .

Greinarmunurinn á því sem rík formgerðarhyggja segir okkur að trúa (þ.e. venslin) og

því sem við ættum að efast um (þ.e. einsætu eiginleikarnir) gengur ekki upp vegna þess að ef

venslin eru öll þekkt þá eru margir einsætir eiginleikar líka þekktir. Rík formgerðarhyggja felur

því í sér trúna á suma eiginleika sem hlutir hafa einir og sér, en ekki einungis með öðrum hlutum

eins og í venslum. Þetta ætti ekki að koma neinum á óvart því þegar við öðlumst þekkingu á ríkri

formgerð hlutar, þ.e. venslum hans við aðra hluti, öðlumst við um leið þekkingu á því hvað sá

hlutur er. Greinarmunurinn á formgerð hluta og eðli þeirra er ekki til staðar vegna þess að

formgerð hluta tilheyrir eðli þeirra.

Rík formgerðarhyggja getur þá ekki eytt trúnni á tilvist fræðigripa til að komast hjá

gagndæmum Laudans, því ef við eigum að trúa því að hlutur hafi tiltekna eiginleika einn og sér,

þá verðum við líka að trúa því að sá hlutur sé til. Það væri sannarlega skrýtið að eigna

einhverjum hlut tiltekna eiginleika, en efast svo um að hluturinn sé til. Þetta er augljóst í tilviki

þeirra sem aðhyllast knippiskenninguna um hluti því samkvæmt henni eru hlutir einvörðungu

eiginleikarnir sem þeir hafa. En jafnvel sá sem ekki fellst á knippiskenninguna hlýtur að

samþykkja að einhver hlutur hlýtur að hafa þá eiginleika sem um ræðir, svo fremi sem hann á

annað borð fellst á að heimurinn samanstandi af hlutum.

Þetta sýnir að rík formgerðarhyggja á í mestu basli við að mæta skilyrði (a), að skilgreina

hvaða hluti vísindakenninga er sannur og hvaða hluti er það ekki. Eins og ég hef sýnt fram á er

enginn þekkingarfræðilegur greinarmunur á (einsætum) eiginleikum og (margsætum) venslum.

Ef venslin eru þrátt fyrir það skilgreind sem hið sanna munu sumir (einsætir) eiginleikar fylgja í

kjölfarið. Þar með getur rík formgerðarhyggja ekki eytt trúnni á tilvist hluta, einkum og sér í lagi

fræðigripa. Þá standa gagndæmi Laudans eftir óhögguð, sem þýðir að skilyrði (b) er ekki

fullnægt. Ef skilyrði (a) er þannig þvingað í gegn leiðir það aðeins til þess að brotið er gegn

skilyrði (b).

45

Page 46: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

5.4. Formgerðarhyggja skýrir ekki (alla) framþróun vísinda

Þriðju og síðustu rökin sem ég ætla að færa fram gegn ríkri formgerðarhyggju má skýra með því

að notast enn og aftur við dæmið af ljósvakakenningu Fresnels. Eins og Worrall segir hefur

kenning Fresnels „nákvæmlega rétta formgerð“ því „jöfnur Fresnels eru meðteknar algjörlega

óbreyttar í kenningunni sem á eftir kemur“. (Worrall, 1996, bls. 159 & 160) En ef formgerð er

allt og sumt sem kenningar geta sagt okkur um heiminn þá er upplýsingagildi rafsegulkenningar

Maxwells nákvæmlega það sama og áður var til staðar í ljósvakakenningu Fresnels. Það þýðir að

engin framþróun átti sér stað þegar Maxwell uppgötvaði að ljósið barst í rafsegulsviði en ekki í

ljósvaka.

Hér geng ég út frá því sem staðreynd að vísindunum hafi miðað áfram, að markverð

framþróun hafi átt sér stað í vísindum, sérstaklega en þó ekki eingöngu í þroskuðum vísindum.

Ég held að jafnvel verkfærishyggjumanneskja ætti að fallast á slíka fullyrðingu vegna þess að

þótt hún telji ekki að vísindin hafi þar með höndlað sannleikann betur, þá eru verkfærin í það

minnsta orðin betri. Samkvæmt (smættandi) raunhyggju þýða framfarir í vísindum að kenningar

taka mið af fleiri athugunum. Almennt séð verða heimspekikenningar sem fjalla um eðli

kenninga að geta skýrt hvers vegna nýrri kenningar eru teknar upp í stað eldri, þ.e.a.s. hvers

vegna vísindin þróast fram á við. Ég held líka að það sé óumdeilt að þegar Maxwell tókst að

skýra útbreiðslu ljóss með rafsegulkenningu sinni hafi slík framþróun átt sér stað. En

formgerðarhyggjan virðist ekki geta skýrt þessa framþróun í vísindalegri þekkingu á útbreiðslu

ljóss á milli ljósvakakenningar Fresnels og rafsegulkenningar Maxwells vegna þess að

formgerðin var óbreytt.

Ég á ekki við að Worrall hafi ekki gert sér neina grein fyrir þessu. Hann tekur þvert á

móti fram að umrædd kenningaskipti séu ekki dæmigerð fyrir kenningaskipti milli árangursríkra

kenninga þroskaðra vísinda. Hann virðist telja algengast að þekking á formgerð safnist smám

saman upp og að eldri þekking á formgerð varðveitist sem takmörkuð tilfelli í seinni tíma

kenningum, en að á sama tíma séu gerðar róttækar breytingar á verufræðilegum skuldbindingum

fyrri kenninga. (Worrall, 1996, bls. 160) En jafnvel þótt svo sé þá held ég að það sé eitthvað

verulega bogið við þá mynd sem Worrall dregur upp af kenningaskiptum að framþróunin felist

bara í aukinni þekkingu á formgerð.

46

Page 47: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

Fjölmargar aðrar framfarir í vísindum hafa falist í öðru en að uppgötva formgerð

heimsins. Kenningar um hita fyrir og um aldamótin 1800 eru ágætt dæmi. Flestir vísindamenn

aðhylltust þá ylefniskenninguna (e. caloric theory), sem kvað á um að hlutur hitnaði ef í hann

bættist tiltekið efni, ylefni, sem átti að vera einskonar vökvi sem samanstóð af smáum

efniseindum. Helstu rök þeirra sem sögðu hita vera hreyfingu sameinda var að kenning þeirra

skýrði hvernig hiti gat orðið til í hlutum við núning, til dæmis þegar tveir hlutir eru látnir nuddast

hvorn við annan, en þar stóð ylefniskenningin á gati af þeirri einföldu ástæðu að efni getur ekki

orðið til úr engu. Annað vandamál við ylefnið var að sama hversu nákvæmar mælingar voru

framkvæmdar mældust heitir hlutir aldrei með meiri massa en kaldir eins og búast hefði mátt við

ef heitir hlutir væru fullir af ylefni.

Hvernig skýrir formgerðarhyggja framfarirnar sem urðu þegar ylefninu var kastað fyrir

róða og hiti var í staðinn álitinn vera hreyfing sameinda? Vandamálin tvö með núning og massa

eru ekki vandamál fyrir þann sem álítur að kenningar segi okkur aðeins eitthvað um formgerð

heimsins. Því það að núningur valdi auknum hita í hlut er (einsætur) eiginleiki sem hlutir hafa

hver í sínu lagi, og er þess vegna ekki hluti af formgerð heimsins. Hið sama má segja um það að

massinn skuli ekki aukast með auknum hita: þetta er (einsætur) eiginleiki einstakra hluta, en ekki

vensl milli tveggja eða fleiri hluta. Samkvæmt formgerðarhyggju voru það þá engar framfarir

þegar nýrri kenningu um hita tókst að leysa þessi vandamál. Ég held að það sýni fram á vankanta

formgerðarhyggju eða í það minnsta takmarkanir hennar. Aðrar heimspekikenningar um eðli

vísindakenninga eru ekki háðar slíkum takmörkunum því eins og áður segir geta hluthyggja,

verkfærishyggja og raunhyggja allar skýrt framfarir af þessu tagi hver með sínum hætti. Þess

vegna held ég að framþróun vísinda sé enn ein ástæða til að efast um að formgerðarhyggja sé

lausn á þeim vandamálum sem vísindaleg hluthyggja glímir við.

5.4.1. Aftur að ljósvakanum og rafsegulsviðinu

Við þetta bætist að skýring Worralls á kenningaskiptunum milli ljósvaka og rafsegulsviðs er líka

ófullnægjandi. Worrall virðist telja að það sem Maxwell hafði umfram Fresnel væri að hinn

fyrrnefndi sýndi fram á að frekari tengsl væru milli þess sem skýra mátti með ljósfræði og þess

sem rafsegulfræðin fjallaði um. (Worrall, 1996, bls. 160) En er þessi aukna þekking virkilega

47

Page 48: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

þekking á formgerð heimsins? Það að hægt sé að sameina ljósfræði og rafsegulfræði virðist

vissulega segja okkur eitthvað um kenningarnar sjálfar, nefnilega að þær fjalli í raun um sömu

venslin. Samkvæmt formgerðarhyggju fólst uppgötvun Maxwells þá ekki í því að segja eitthvað

um vensl eða formgerð heimsins, heldur um venslin á milli venslanna. Þetta má kalla annars stigs

vensl eða annars stigs formgerð. Er það framþróun? Kannski, en það er ekki aukning á ríkri

formgerð eins og hún var skilgreind hér að framan, þ.e.a.s. sem vensl á milli hluta. Og þar með

getur formgerðarhyggja ekki skýrt framþróun vísinda með því að hún felist (eingöngu) í aukinni

þekkingu á ríkri formgerð.

Eins og ég ýjaði að í §3.2 gæti málsvari ríkrar formgerðarhyggju sagt að formgerð sé ekki

aðeins vensl milli hluta, eins og ég skilgreindi hana í byrjun kaflans, heldur líka eiginleikar

annarra eiginleika og vensla. Ef svo er tekst ríkri formgerðarhyggju að skýra framþróunina sem

átti sér stað þegar kenning Maxwells var tekin upp í stað ljósvakakenningar Fresnels. En fórnin

við slíka endurskilgreiningu gæti reynst meiri en það sem verið er að bjarga. Því þá er hvorki

ljóst (1) hvort aukningin á þessari formgerð geti talist vera raunverulegar framfarir né (2) hvort

aukna formgerðin geti skýrt árangur vísindakenninga.

Eitt dálítið ýkt dæmi um fyrri efasemdina er kenningin um marghyrningana sem voru

hluti af stjörnufræði forn- og miðaldar, en það er einmitt ein af kenningunum á lista Laudans.

Samkvæmt þessari kenningu eru ákveðin tengsl á milli stjörnufræði og rúmfræði, en þau

varðveittust sannarlega ekki í síðari tíma kenningum. Annað dæmi væri vökvakenningin um

stöðurafmagn, sem líka er á lista Laudans. Á sama hátt og Maxwell sýndi fram á að ljósfræði og

rafsegulfræði eru tvær hliðar á sama peningi gátu formælendur vökvakenningarinnar státað sig af

því að hún sýndi að rafmagn væri einfaldlega vökvi og rafmagnsfræði væri því einskonar

vökvafræði. En þessi annars stigs formgerð varðveittist heldur ekki í seinni tíma kenningum. Ef

aukin þekking á annars stigs formgerð er virkilega framfarir, eins og formgerðarhyggjumaðurinn

getur lagt til, þá eru báðar þessar kenningar dæmi um slíkar framfarir. Í anda Laudans væri þá

hægt að nefna að minnsta kosti þessi tvö gagndæmi gegn því að annars stigs formgerð viðhaldist

í kenningaskiptum og sé þar með áreiðanleg lýsing á heiminum. Þar með virðist ekki vera hægt

að réttlæta að það séu almennt séð framfarir (frekar en mistök) þegar annars stigs formgerð

bætist við.

48

Page 49: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

Seinni efasemdina held ég að þurfi ekki að styðja með neinum dæmum úr

vísindasögunni. Hvernig gæti annars stigs formgerð mögulega borið ábyrgð á árangri kenninga í

athugunum? Það er ekki hægt að leiða neinar nýjar athuganir á heiminum út frá þeirri þekkingu

að rafsegulfræði og ljósfræði rannsaka í raun samskonar fyrirbæri. Almennt virðist það ekki gefa

okkur ekki neina nýja möguleika á að þekkja A og B ef við komumst að því að A er samskonar

fyrirbæri og B, þótt það sé vissulega einskonar þekking á A og B.

Þetta þarfnast frekari útskýringar. Vitneskjan um að rafsegulfræði og ljósfræði rannsaka

sömu fyrirbærin getur ef til vill verið sálfræðilegt hjálpartæki sem leiðir vísindamenn að nýjum

uppgötvunum í reynd. Það gæti með öðrum orðum verið orsök þess að vísindaleg þekking eykst.

En það er ekki þar með sagt að það beri ábyrgð á árangri vísindakenninga í sama skilningi og

þegar kenning ber ábyrgð á sönnum forspám. Ef við trúum goðsögninni um að Newton hafi

uppgötvað þyngdarlögmálið eftir að epli féll ofan úr tré í höfuðið á honum, þá var fall eplisins

orsök þess að þyngdarlögmálið var uppgötvað og þar með líka orsök ógrynni sannra forspáa um

það hvernig heimurinn hegðar sér – t.d. uppgötvun Neptúnusar. En fall eplisins ber ekki ábyrgð á

uppgötvun Neptúnusar í sama skilningi og kenningin sjálf gerir það. Munurinn er sá að fall

eplisins orsakaði forspánna en um kenninguna gildir að forspánna má leiða út frá kenningunni.

Ég fæ ekki séð hvernig annars stigs formgerð getur borið nokkra ábyrgð (í þessum

skilningi) á því þegar kenningar gera nýjar forspár sem síðar reynast sannar. Ef dæmi um það eru

til þyrfti Worrall að nefna þau í rökstuðningi sínum, en það gerir hann ekki. Ef slíka dæmi eru

ekki til styðja kraftaverkarökin ekki að annars stigs formgerð sé þekking á heiminum.

Að bæta annars stigs formgerð við skilgreiningu á ríkri formgerð er því ekki lausn á því

vandamáli að formgerðarhyggja skýrir ekki (alla) framþróun vísinda. Í fyrra lagi varðveitist

annars stigs formgerð ekki í seinni tíma kenningum og gæti því almennt séð ekki talist til

framfara. Í seinna lagi styðja kraftaverkarökin ekki trúna á að annars stigs formgerð kenninga

lýsi heiminum, og því er hvort eða er enginn hvati til að láta annars stigs formgerð vera hluti af

ríkri formgerð.

6. Lokaorð: Lærdómurinn af formgerðarhyggju

49

Page 50: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

Niðurstaðan í þessari ritgerð er að formgerðarhyggja gæti ekki sætt helstu rökin fyrir og gegn

vísindalegri hluthyggju. Ég rökstuddi að hvernig svo sem „formgerð“ er skilgreind þá sé það að

takmarka vísindalega hluthyggju við formgerð kenninga engin lausn á þeim vanda vísindalegrar

hluthyggju að kraftaverkarökin og bölsýnisrökin bendi í ólíkar áttir. Í stað þess að endurtaka

rökin hér ætla ég að segja nokkur orð að lokum um það hvað ég held að hægt sé að læra af

vísindalegri formgerðarhyggju og hrakförum hennar.

Þegar Laudan færir rök gegn hefðbundinni hluthyggju byggir hann rökfærslu sína á

tveimur forsendum:

(1) að sönn eða sannlík vísindakenning geti ómögulega fjallað um hluti sem ekki eru til,

og

(2) að sumar vísindakenningar sem náð hafa árangri og eru hluti af þroskuðum vísindum

hafa fjallað um hluti sem nú er ljóst að eru alls ekki til.

Vísindaleg formgerðarhyggja gengur út á samþykkja (2), en að smíða afstöðu sem er þess eðlis

að (1) eigi einfaldlega ekki við vegna þess að hægt sé að veikja vísindalega hluthyggju þannig að

hún fjalli ekki lengur um hlutina sjálfa og segi þar af leiðandi ekkert um tilvist þeirra. Ég held að

það sé rétt hjá formgerðarhyggjunni að ef takast á að svara rökum Laudans þarf að huga að (1)

fremur en (2). En ég held að formgerðarhyggjan fari út af sporinu þegar hún reynir að komast

undan (1) með því að smíða nýja og veikari útgáfu af vísindalegri hluthyggju.

Hluthyggjumaðurinn ætti fremur einfaldlega að færa rök gegn (1). Ég held með öðrum orðum að

það þurfi ekki endilega að veikja vísindalega hluthyggju þannig að hún fjalli ekki lengur um

hlutina sjálfa, heldur þurfi frekar að gera grein fyrir því hvernig kenning geti verið sönn eða

sannlík án þess að helstu fræðihugtökin í henni hafi tilvísun.

Rök mín fyrir því að þetta sé vænlegasta leiðin fyrir vísindalega hluthyggju eru ekki

flókin. Ef umfjöllunin í þessari ritgerð kennir okkur eitthvað er það einmitt að ekki er hægt að

gera greinarmun á því sem vísindakenningar segja okkur um hlutina sjálfa og því sem þær segja

um afganginn af heiminum (formgerðina). Hvers vegna ætti þá að vera einhver eðlismunur á því

hvort vísindakenning segi rangt til um það hvaða hlutir eru til og öllu öðru sem vísindakenningar

segja um heiminn? Af hverju getur vísindakenning eins og ljósvakakenning Fresnels, sem láist

50

Page 51: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

að vísa til raunverulegra hluta vegna þess að hún eignar hlutunum eiginleika sem þeir hafa ekki,

ekki samt verið sannlík?

Til að svara því þarf vitaskuld að gera betur grein fyrir því hvernig tilvísunum er háttað.

Ef fallist er á lýsingakenningu um tilvísun (e. descriptivist theory of reference) eru fræðihugtök

dulbúnar lýsingar á hlutunum sem þau vísa til. (Russell, 1994, bls. 34) Þessar lýsingar geta

vitaskuld verið sannlíkar ef aðrar fullyrðingar geta verið það. Þess vegna er hægt að hugsa sér að

fræðihugtök sem eru dulbúnar og sannlíkar (en ósannar) lýsingar á raunverulegum hlutum hafi

næstum því tilvísun í þeim skilningi að hugtökin vísi til ímyndaðra hluta sem líkjast þeim hlutum

sem raunverulega eru til. Það býður að vísu heim margvíslegri gagnrýni, en ég fæ ekki séð að

hún sé alvarlegri en sú hefðbundna gagnrýni á lýsingakenningar að manni getur skjátlast í

lýsingum sínum á þeim hlutum sem ætlunin er að vísa til. Það virðist til dæmis ekki vera meira

vandamál að skýra hvernig ljósvaki getur haft tilvísun en hvernig „Einstein“ getur haft rétta

tilvísun fyrir þann sem heldur að Einstein sé „sá sem fann upp atómsprengjuna“, en þannig

hljómar ein af mótbárum Kripkes við lýsingarkenningar. (Kripke, 1981, bls. 85)

Ef þess í stað er tekin upp orsakakenning um tilvísun (e. causal theory of reference)

öðlast fræðihugtök fyrst tilvísun með skírn og seinna meir vísa fræðihugtökin til fræðigripanna í

gegnum orsakakeðju sem liggur frá upphaflegu skírninni. Orsakakeðjan felst í því að

upphafsmaðurinn notaði orðið um ákveðinn hlut, og svo notar næsti maður það í sama skilningi

og upphafsmaðurinn og þannig koll af kolli. Með þessum hætti festir fræðihugtakið tilvísun sína

við þennan tiltekna fræðigrip í öllum mögulegum heimum (fræðihugtakið verður fastanefnari (e.

rigid designator). (Kripke, 1981) Beinast liggur við að skilja tilvísun fræðihugtaks eins og

„ljósvaki“ sem sá hlutur í öðrum mögulegum heimum (þar sem raunverulegur ljósvaki er

virkilega til) sem upphafsmenn hugtaksins myndu vísa til ef sá mögulegi heimur væri hinn

raunverulegi heimur. Þá væri hægt að segja að fræðihugtak væri nær því að hafa tilvísun eftir því

sem umræddur mögulegur heimur er „nær“ hinum raunverulega heimi (í einhverjum þeim

skilningi sem leggja má í nálægð milli mögulegra heima).

Þessar tillögur mínar að því hvernig hægt er að gera grein fyrir sannlíki kenninga sem

fjalla um hluti sem ekki eru til (en eru samt nálægt því að vera til) eru vitaskuld engin töfralausn.

Lýsingakenningar um tilvísun hafa orðið fyrir alvarlegri gagnrýni og erfitt gæti verið að

grundvalla þessar hugmyndir mínar á slíkri kenningu. Að sama skapi er hugmyndin um nálægð

51

Page 52: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

milli mögulegra heima sem orsakakenningalausnin reiðir sig á vægast sagt umdeild. En þótt

þessar áhyggjur séu fullkomlega réttmætar held ég að óréttlátt sé að draga hluthyggjumanninn

(og þar með mig) sérstaklega til ábyrgðar vegna þess að mér virðist við þurfa á einhverri

greinargerð að halda fyrir því hvað eigi sér stað þegar okkur mistekst strangt til tekið að vísa til

raunverulegra hluta, en tekst samt að segja eitthvað satt eða sannlíkt um það sem við ætluðum

okkur að vísa til.

Þetta má sýna fram á með dæmi af hversdagslegri fullyrðingu: „Rauði jeppinn sem rakst á

bílinn minn í gær er í eigu Jóns.“ Gefum okkur að jeppinn hafi alls ekki verið rauður heldur blár,

en að það hafi verið jeppi, hann hafi rekist á viðkomandi bíl og að hann sé í eigu Jóns. Hefur

„rauði jeppinn sem rakst á bílinn minn í gær“ þá enga tilvísun? Og er fullyrðingin ekki sönn eða

að minnsta kosti sannlík? Taka má annað dæmi fyrir þá sem vilja gera greinarmun á lýsingum og

nöfnum (t.d. þá sem aðhyllast orsakakenningu um tilvísun): Hugsum okkur að einhver sé að tala

illa um vinnufélaga sinn, sem hann heldur að heiti „Jón“ þótt hann heiti í raun „Baldur“. Baldur

er ekki eigandi jeppans úr fyrra dæminu þótt hann keyri um á honum (segjum að Baldur hafi

tekið jeppann á leigu). En þegar sögupersóna okkar talar um Baldur (sem hann kallar „Jón“) á

hann einmitt við manninn sem er vinnufélagi hans og sem hann heldur að eigi jeppann. Gefum

okkur líka að allt annað sé óbreytt frá fyrra dæminu en að auk þess hafi Baldur lofað að borga

fyrir skemmdirnar. Er fullyrðingin „Jón lofaði að borga fyrir skemmdirnar á bílnum mínum“ þá

ekki sönn eða sannlík?

Ástæða þess að ég nefni þessi dæmi er að ég held að þau séu af nákvæmlega sama tagi og

fullyrðingar eins og „ljósið berst í gegnum ljósvaka“. Samkvæmt lýsingakenningu um tilvísun er

ljósvaki einfaldlega lýsing sem stemmir ekki fullkomlega við neitt sem er til. En það er enginn

eðlismunur á þessari fullyrðingu um ljósvakann og fyrra dæminu sem ég tók í síðustu efnisgrein:

Ef okkur tekst að gera grein fyrir því hvernig „rauði jeppinn sem rakst á bílinn minn í gær er í

eigu Jóns“ er sannlík þá ætti „ljósið berst í gegnum ljósvaka“ að vera sannlík (og öfugt) því

lýsingarnar sem eiga að stjórna tilvísuninni í báðum dæmum eru ófullkomnar (en sannlíkar).

Sömu sögu er að segja af orsakakenningum um tilvísun. Ef „Jón lofaði að borga fyrir

skemmdirnar á bílnum mínum“ er sannlík hlýtur „ljósið berst í gegnum ljósvaka“ líka að vera

sannlík því í báðum tilfellum er gallinn sá að nöfnin („Jón“ og „ljósvaki“) eru vitlaus og

notendur nafnanna (bæði upphafsmennirnir og þeir sem fá tilvísunina að láni í gegnum

52

Page 53: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

orsakakeðju) nota nöfnin þótt þeim skjátlist um eiginleika hlutanna sem nöfnin vísa til

(sögupersónunni í dæminu skjátlast um eiginleika Baldurs en þeim sem aðhylltust

ljósvakakenninguna skjátlaðist um eiginleika ljósberans). Þess vegna fæ ég ekki betur séð en að

hvort sem maður aðhyllist lýsingakenningu eða orsakakenningu um tilvísun þá séu vandamálin

sem þarf að glíma við til að gera grein fyrir hvernig vísindakenningar geta verið sannlíkar án

þess að hafa hefðbundna tilvísun ekki alvarlegri en vandamálin sem eru hvort eð er til staðar í

báðum þessum kenningum um tilvísun.

Svar mitt við gagnrýni Laudans er því að kenningar sem skortir tilvísun geti í vissum

tilvikum samt verið sannlíkar. Ljósvakakenningin er gott dæmi: „Ljósvaki“ er auðvitað ekki til,

en eins og fjallað hefur verið um í þessari ritgerð segir hin rétta formgerð ljósvakakenningarinnar

okkur heilmikið um fyrirbærið sem ljósið berst í, nefnilega rafsegulsviðið. Almennt segir

formgerð vísindakenninga okkur eitthvað um hlutina sjálfa vegna þess að það er enginn

þekkingarfræðilegur greinarmunur á formgerð og hlutum sem hafa formgerð. Þeir sem aðhyllast

formgerðarhyggju virðast telja að þetta sé dapurleg niðurstaða vegna þess að þá sé engin leið til

fyrir hluthyggjuna að losna við skuldbindinguna við tilvist fræðigripanna sem kenningin fjallar

um. Ég held þvert á móti að þetta sé tilefni til bjartsýni vegna þess að ef enginn

þekkingarfræðilegur greinarmunur er á hlutum og formgerð þá ætti það að helstu fræðihugtök

tiltekinnar kenningar skorti nákvæma tilvísun til hluta ekki að vera þekkingarfræðilega eðlisólíkt

því að kenningin sé ósönn en sannlík.

Heimildir

Bird, A. (2000). Thomas Kuhn. Chesham: Acumen.

Boyd, R. (1973). Realism, Underdetermination and the Causal Theory of Evidence. Noûs, 7, 1-

12.

Boyd, R. (1981). Scientific Realism and Naturalistic Epistemology. Í P. D. Asquith, & T. Nickles

(ritstj.), PSA 1980 (b. 2, bls. 613-622). East Lansing, MI: Philosophy of Science Association.

53

Page 54: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

Boyd, R. (1984). The Current Status of Scientific Realism. Í J. Leplin (ritstj.), Scientific Realism

(bls. 41-82). Berkeley: University of California Press.

Boyd, R. (1985). Lex Orandi est Lex Credendi. Í P. M. Churchland, & C. A. Hooker (ritstj.),

Images of Science: Essays on Realism and Empiricism (bls. 3-34). Chicago: University of

Chicago Press.

Carroll, L. (1895). What the Tortoise Said to Achilles. Mind, 4, 278-280.

Chakravartty, A. (2003). The Structuralist Conception of Objects. Philosophy of Science, 70,

867-878.

Chakravartty, A. (2004). Structuralism as a Form of Scientific Realism. International Studies in

the Philosophy of Science, 18, 151-171.

Demopoulos, W., & Friedman, M. (1985). Critical Notice: Bertrand Russell's The Analysis of

Matter: Its Historical Context and Contemporary Interest. Philosophy of Science, 52, 621-639.

Erlendur Jónsson (1990). Vísindaheimspeki. Reykjavík: Birt sem handrit.

Fine, A. (1991). Piecemeal Realism. Philosophical Studies, 61, 79-96.

Fine, A. (1996). The Natural Ontological Attitude. Í D. Papineau (ritstj.), Philosophy of Science

(bls. 21-44). Oxford: Oxford University Press.

French, S. (2006). Structure as a Weapon of the Realist. Proceedings of the Aristotelian Society,

106, bls. 167-185.

Gower, B. (2000). Cassirer, Schlick and "Structural" Realism: The Philosophy of the Exact

Sciences in the Background to Early Logical Empiricism. British Journal of the History of

Philosophy, 8(1), 71-106.

Hempel, C. G. (1965). Aspects of Scientific Explanation: And Other Essays in the Philosophy of

Science. New York: The Free Press.

Hume, D. (1999). Rannsókn á skilningsgáfunni. (Atli Harðarson, þýð.) Reykjavík: Hið íslenzka

bókmenntafélag. (Frumútgáfa 1748)

54

Page 55: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

Kitcher, P. (1993). The Advancement of Science. Oxford: Oxford University Press.

Kripke, S. (1981). Naming and Necessity. Oxford: Blackwell.

Kuhn, T. S. (1996). The Structure of Scientific Revolutions (3. útg.). Chicago: The University of

Chicago Press. (Frumútgáfa 1962)

Ladyman, J. (1998). What is Structural Realism? Studies in History and Philosophy of Science,

29, 409-424.

Ladyman, J., Ross, D., Spurrett, D., & Collier, J. (2007). Every Thing Must Go: Metaphysics

Naturalized. Oxford: Oxford University Press.

Laudan, L. (1981). A Confutation of Convergent Realism. Philosophy of Science, 48, 19-49.

Laudan, L. (1984). Discussion: Realism without the Real. Philosophy of Science, 51, 156-162.

Masterman, M. (1965). The Nature of a Paradigm. Í I. Lakatos, & A. Musgrave (ritstj.),

International Colloquium in the Philosophy of Science (bls. 59-90). London: Cambridge

University Press.

Newman, M. H. (1928). Mr. Russell's "Causal Theory of Perception". Mind, 37, 137-148.

Oddie, G. (9. maí 2007). Truthlikeness. (E. N. Zalta, ritstj.) Sótt 5. september 2007 frá The

Stanford Encyclopedia of Philosophy (Summer 2007 Edition):

http://plato.stanford.edu/archives/sum2007/entries/truthlikeness

Poincaré, H. (1952). Science and Hypothesis. London: Dover. (Frumútgáfa 1905)

Popper, K. R. (2002). The Logic of Scientific Discovery. London: Routledge. (Frumútgáfa 1935)

Psillos, S. (1995). Is Structural Realism the Best of Both Worlds? Dialectica, 46, 15-46.

Psillos, S. (1996). Scientific Realism and the "Pessimistic Induction". Philosophy of Science, 63,

S306-S314.

Psillos, S. (1999). Scientific Realism. London: Routledge.

Psillos, S. (2001). Is Structural Realism Possible? Philosophy of Science, 68, S13-S24.

55

Page 56: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

Psillos, S. (2007). Philosophy of Science A-Z. Edinburgh: Edinburgh University Press.

Putnam, H. (1962). Mathematics, Matter and Method: Philosophical Papers Volume 1.

Cambridge: Cambridge University Press.

Putnam, H. (1978). Meaning and the Moral Sciences. London: Routledge & Kegan Paul.

Russell, B. (1919). Introduction to Mathematical Philosophy. London: Routledge.

Russell, B. (1948). Human knowledge: Its Scope and Limits. London: George Allen & Unwin.

Russell, B. (1994). Um tilvísun. Í Ólafur Páll Jónsson, & Einar Logi Vignisson (ritstj.),

Heimspeki á tuttugustu öld: Safn merkra ritgerða úr heimspeki aldarinnar (Ólafur Páll Jónsson,

þýð., bls. 33-46). Reykjavík: Heimskringla. (Upphaflega birt í Mind 14 (1905), bls. 479-493)

Russell, B. (1996). The Autobiography of Bertrand Russell. London: Routledge. (Frumútgáfa

1967)

Russell, B. (2007). The Analysis of Matter. Nottingham: Spokesman. (Frumútgáfa 1927)

Smart, J. J. (1963). Philosophy and Scientific Realism. London: Routledge & Kegan Paul.

Stanford, P. K. (2006). Exceeding Our Grasp: Science, History, and the Problem of Unconceived

Alternatives. Oxford: Oxford University Press.

van Fraassen, B. C. (1980). The Scientific Image. Oxford: Clarendon Press.

van Fraassen, B. C. (2006). Structure: Its Shadow and Substance. The British Journal for the

Philosophy of Science, 57, 275-307.

Worrall, J. (1982). Scientific Realism and Scientific Change. The Philosophical Quarterly, 32,

201-231.

Worrall, J. (1994). How to Remain (Reasonably) Optimistic: Scientific Realism and the

"Luminiferous Ether". Í D. Hull, M. Forbes, & R. M. Burian (ritstj.), PSA 1994. 1, bls. 334-342.

East Lansing: Philosophy of Science Association.

56

Page 57: Háskóli Íslands - notendur.hi.is að forminu til...  · Web viewHugvísindadeild. Heimspekiskor. Hluthyggja að forminu til. Formgerðarhyggja sem lausn á vanda vísindalegrar

Worrall, J. (1996). Structural Realism: The Best of Both Worlds? Í D. Papineau (ritstj.), The

Philosophy of Science (bls. 139-165). Oxford: Oxford University Press. (Upphaflega birt í

Dialectica, 43 (1989), bls. 99-124)

57