„Ekki vegan, það er of langt gengið€žEkki vegan... · 2020. 9. 24. · „Ekki vegan, það...

45
„Ekki vegan, það er of langt gengiðViðhorf til veganisma Hannes Arason Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóli Íslands 2020

Transcript of „Ekki vegan, það er of langt gengið€žEkki vegan... · 2020. 9. 24. · „Ekki vegan, það...

  • „Ekki vegan, það er of langt gengið“

    Viðhorf til veganisma

    Hannes Arason

    Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóli Íslands

    2020

  • „Ekki vegan, það er of langt gengið“ Viðhorf til veganisma

    Hannes Arason

    10 eininga ritgerð sem er hluti af Baccalaureus Scientiarum gráðu í landfræði

    Leiðbeinandi Edda R. H. Waage

    Líf- og umhverfisvísindadeild Verkfræði- og náttúruvísindasvið

    Háskóli Íslands Reykjavík, júní 2020

  • „Ekki vegan, það er of langt gengið“ Viðhorf til veganisma 10 eininga ritgerð sem er hluti af Baccalaureus Scientiarum gráðu í landfræði Höfundarréttur © 2020 Hannes Arason Öll réttindi áskilin Líf- og umhverfisvísindadeild Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóli Íslands Sæmundargata 2 101 Reykjavík Sími: 525 4000 Skráningarupplýsingar: Hannes Arason, 2020, „Ekki vegan, það er of langt gengið“, BS-ritgerð, Líf- og umhverfisvísindadeild, Háskóli Íslands, 33 bls. Prentun: Háskólaprent Reykjavík, júní 2020

  • Útdráttur Grænkerar – fólk sem aðhyllist veganisma – eru á móti hagnýtingu á dýrum og neyta engra dýraafurða. Í gegnum tíðina hefur fólk gerst grænkerar af ýmsum ástæðum. Algengustu ástæðurnar varða siðferðissjónarmið, umhverfismál og heilsufar. Markmið rannsóknarinnar er að leita skilnings á viðhorfum fólks til veganisma. Rannsóknin var eigindleg viðtalsrannsókn þar sem talað var við fólk sem fylgir almennu mataræði og kafað ofan í viðhorf þess til veganisma. Dregnir eru fram þrír þættir sem liggja til grundvallar viðhorfi fólks til veganisma; undanþága Íslands frá veganisma, réttlæting á neyslu dýraafurða, sérstaklega í sambandi við það að dýr lifi góðu lífi, og að hugmyndir veganisma, sem séu góðar í hófi, gangi út í öfgar. Í rannsókninni eru einnig dregnar fram tvær hindranir fyrir því að fólk taki upp grænkeramataræði; ánægja af neyslu dýraafurða og heilsufarsáhyggjur. Að lokum er fjallað um þá siðferðislegu afstöðu sem felst í viðhorfum fólks til veganisma. Þar kemur fram tenging við nytjastefnuna og dyggðasiðfræði, sem og umhverfismiðað sjónarhorn. Rannsóknum sem fjalla um veganisma fer ört fjölgandi og bætir verkefnið við þá þekkingu. Ekki hefur verið framkvæmd sambærileg rannsókn hér á landi.

    Abstract Vegans are against the exploitation of animals and consume no animal products. Throughout history people have become vegan for various reasons, the most common are ethical, environmental and health reasons. The aim of the study is to gain understanding of people’s attitudes of veganism. The study was a qualitative interview study in which people who follow a general diet were interviewed and their attitudes of veganism explored. Three factors that shape attitudes towards veganism are highlighted; the exception of Iceland from veganism, justification of eating animal products, specifically because of animals leading happy lives, and that the ideas behind veganism, which are good in moderation, are taken to the extreme. Two barriers to people adopting veganism are shown; the pleasure of eating animal products and health concerns. Finally there is a discussion on the ethical stance that is implied within attitudes towards veganism, where a connection is made to utilitarianism, virtue ethics and an ecocentric worldview. Research on veganism is increasing rapidly and this study adds to that knowledge. A similar study has not been conducted in Iceland.

  • Til dýranna

  • vii

    Efnisyfirlit Þakkir .................................................................................................................................. ix

    1 Inngangur ........................................................................................................................ 1

    2 Fræðileg umfjöllun rannsóknar .................................................................................... 32.1 Hvað er veganismi? ................................................................................................. 3

    2.1.1 Skörun við annað mataræði ........................................................................... 32.1.2 Saga veganisma .............................................................................................. 4

    2.2 Siðfræði veganisma ................................................................................................. 42.2.1 Skyldusiðfræði ............................................................................................... 52.2.2 Leikslokasiðfræði ........................................................................................... 52.2.3 Dyggðasiðfræði .............................................................................................. 52.2.4 Umhverfis- og heilsufarsáhrif ........................................................................ 6

    2.3 Viðhorf til veganisma og grænkera ......................................................................... 72.3.1 Erlendar rannsóknir ........................................................................................ 82.3.2 Íslenskar rannsóknir ....................................................................................... 8

    3 Aðferðafræði ................................................................................................................. 113.1 Val á þátttakendum ................................................................................................ 113.2 Viðtölin .................................................................................................................. 113.3 Gagnagreining ........................................................................................................ 113.4 Sjálfrýni rannsakanda ............................................................................................ 12

    4 Niðurstöður ................................................................................................................... 134.1 Ísland undanþegið veganisma ................................................................................ 134.2 Réttlætingar á neyslu dýraafurða ........................................................................... 154.3 Allt er gott í hófi .................................................................................................... 16

    5 Umræður ....................................................................................................................... 19

    6 Lokaorð .......................................................................................................................... 23

    Heimildir ............................................................................................................................ 25

    Viðauki A – Kynningarbréf .............................................................................................. 31

    Viðauki B – Yfirlýsing um upplýst samþykki fyrir þátttöku í rannsókn ..................... 32

    Viðauki C – Viðtalsrammi ................................................................................................ 33

  • ix

    Þakkir Ég vil fyrst og fremst þakka Eddu R. H. Waage, leiðbeinanda mínum, fyrir alla þá leiðsögn og þolinmæði sem mér var sýnd í rannsóknarferlinu. Einnig vil ég þakka viðmælendum mínum sem gáfu sér tíma til að koma í viðtal og létu rannsóknina verða að veruleika. Foreldrar mínir fá kærar þakkir fyrir yfirlestur og stuðning, sem og Sigga, unnustan mín, sem á allar þakkir skilið.

  • 1

    1 Inngangur Eitt sumarið fyrir fáeinum árum varð ég vitni að því þegar hestur, sem var eiganda sínum mjög kær, varð bráðkvaddur úti í haga. Hann var orðinn fjörgamall, hafði verið við hestaheilsu allt fram á síðasta dag og fékk að deyja af náttúrulegum orsökum í umhverfi sem hann þekkti. Þessi örlög, sem eru mannfólki svo sjálfsögð, eru ekki algeng meðal hrossa sem eru flest send í sláturhúsið langt fyrir aldur fram. Það er talið eðlilegt í okkar samfélagi að sum dýr séu ræktuð til þess eins að við getum neytt afurða þeirra. Þó að fæstir setji spurningarmerki við þessa tilhögun er þetta samfélagslegt viðmið sem grænkerar mótmæla. Undanfarin ár hefur orðið sprengja í vinsældum veganisma á Íslandi. Hreyfingunni hefur hratt vaxið fiskur um hrygg varðandi fjölda grænkera, pláss í umræðunni og úrval vegan valkosta í matvöruverslunum og á veitingastöðum. Á þeim rúmum fimm árum sem ég hef verið grænkeri hef ég komist í tæri við ýmis viðhorf sem fólk ber til veganisma og heyrt sögur um misgóð viðbrögð sem grænkerar fá. Það skortir hins vegar upplýsingar um þessi viðhorf. Markmið rannsóknarinnar er að leita djúpstæðs skilnings á viðhorfum einstaklinga til veganisma. Rannsóknin byggir á athugun á þessum viðhorfum og eru eftirfarandi rannsóknarspurningar grunnstoð verkefnisins:

    • Hvaða þættir liggja til grundvallar viðhorfi fólks til veganisma?

    • Hvaða hindranir eru fyrir því að fólk taki upp grænkeramataræði?

    • Hvaða siðferðislega afstaða felst í viðhorfum fólks til veganisma?

    Til að svara þessum spurningum var gerð viðtalsrannsókn sem byggir á viðtölum við fjóra einstaklinga sem fylgja almennu mataræði.

    Hér á eftir inngangi verður farið yfir fræðilegan grundvöll rannsóknarinnar. Fjallað verður um sögu veganisma, siðfræðikenningar í tengslum við hann og umhverfis- og heilsufarsáhrif dýraafurða. Loks verður farið yfir fyrri rannsóknir um viðhorf til veganisma og hindranir sem standa í vegi fyrir honum. Þriðji kafli lýsir aðferðafræði rannsóknarinnar er varðar gagnaöflun og -greiningu. Þar er einnig fjallað um aðkomu mína að rannsókninni og mikilvægi sjálfrýni rannsakanda. Í fjórða kafla eru dregnir fram þrír þættir sem móta viðhorf viðmælendanna til veganisma. Þeir eru undanþága Íslands frá veganisma, siðferðislegar réttlætingar fyrir því að taka ekki upp veganisma og sú afstaða að hófsemi sé góð og að veganismi sé öfgakenndur. Í umræðum eru niðurstöðurnar bornar saman við fræðilegan grunn rannsóknarinnar og rannsóknarspurningunum svarað. Loks verður rannsóknin dregin saman í lokaorðum og tillögur að frekari rannsóknum lagðar fram.

  • 3

    2 Fræðileg umfjöllun rannsóknar Til að átta sig á þeim þáttum sem felast í viðhorfi til veganisma og grænkera verður í þessum kafla rýnt í helstu kenningar þess efnis. Í fyrsta hluta kaflans verður fjallað um það hvað veganismi er, hvernig hann skarast við annað mataræði og farið yfir sögu hans. Annar hlutinn fjallar um mismunandi kenningar er varða siðfræði veganisma og umhverfis- og heilsufarsáhrifin skoðuð. Þriðji hlutinn fjallar um fyrri rannsóknir um viðhorf til veganisma og grænkera, bæði erlendar og íslenskar.

    2.1 Hvað er veganismi? Ekki er komin samstaða um íslenskun á enska orðinu veganism, hugtakið veganismi er oftast notað og verður það gert hér. Til eru margar skilgreiningar á veganisma en elstu samtök grænkera í heiminum, The Vegan Society (á.á.), skilgreina hann svona: Veganismi er „hugmyndafræði og lífsháttur þar sem leitast er við að útiloka og forðast — eftir fremsta megni — hvers konar hagnýtingu og grimmd gagnvart dýrum, hvort sem það er fyrir fæðu, fatnað, skemmtun eða í öðrum tilgangi. Ennfremur styður hann við þróun og notkun dýralausra valkosta, mönnum, dýrum og umhverfi til góðs. Er varðar mataræði lýsir hann þeirri iðju að hafna öllum vörum sem koma í heild eða að hluta til frá dýrum.“ (The Vegan Society, á.á.) Þessi skilgreining var tekin upp nær orðrétt af Samtökum grænkera á Íslandi (á.á.) þó að þau sleppa seinni hluta hennar um þróun annarra valkosta. Með því að bæta við „mönnum, dýrum og umhverfi til góðs“ er í raun verið að lýsa þremur algengustu ástæðunum sem liggja fyrir ákvörðun þeirra sem aðhyllast vegan-lífsstíl; sjónarmið um velferð og réttindi dýra, eigin vellíðan eða heilsa og umhverfissjónarmið (Janssen, Busch, Rödiger og Hamm. 2016).

    Það eru margar ástæður fyrir því að fólk ákveður að gerast vegan og eins eru ástæður fyrir því að aðrir kjósa að gera það ekki – og það eru sannarlega félagshagfræðilegar og kerfislægar hindranir sem gera veganisma að erfiðum valkosti fyrir marga (Wright, 2018). Veganismi er samtímis bæði hugmyndafræði og lífsháttur, þ.e. það viðhorf að vera á móti hagnýtingu á dýrum og líka sú iðja að neyta engra dýraafurða eða styðja við hagnýtingu á dýrum á neinn annan hátt. Hugmyndafræðin er þannig stöðugt líkömnuð í iðkandanum er hann tekur daglegar ákvarðanir um hvað hann setur í og á líkama sinn. Sem grundvallarlífsskoðun getur veganismi verið hluti af sjálfsmynd einstaklinga (Wright, 2018). Þó að það séu margar leiðir til að lifa vegan-lífsstíl eiga allir grænkerar það sameiginlegt að fylgja plöntumiðuðu mataræði sem útilokar allar dýraafurðir, s.s. kjöt (þ.m.t. fisk, skelfisk og skordýr), mjólkurafurðir, egg og hunang. Einnig forðast þeir öll efni úr, frá eða af dýrum, vörur sem hafa verið prófaðar á dýrum og staði sem nota dýr sem skemmtun (The Vegan Society, á.á.a)

    2.1.1 Skörun við annað mataræði

    Hvað varðar mataræði þá skarast veganismi við ýmsar stefnur og nærtækasta dæmið er grænmetishyggja (e. vegetarianism), fylgjendur þeirrar stefnu kallast grænmetisætur (e.

  • 4

    vegetarians). Grænkerar ganga lengra en grænmetisætur sem láta sér nægja að sleppa því að borða kjöt og fisk, og vörur unnar úr kjöti og fiski eins og kjötsoð, gelatín og suma ostahleypa. Grænmetisætur borða flestar bæði egg og mjólkurvörur, sumar borða egg en forðast mjólkurvörur á meðan aðrar borða mjólkurvörur en forðast egg (Wolfram, 2018). Þau sem sleppa kjöti úr spendýrum og fuglum en borða fisk og aðrar dýraafurðir kalla sig sækera (e. pescetarian) (Thalheimer, 2015). Hentikeri (e. flexitarian) er sá sem forðast oft dýraafurðir en er sveigjanlegur með það (Rosenfeld, Rothgerber & Tomiyama, 2020). Hráfæðismataræði (e. raw foodism) gerir þá kröfu að matur sé ekki hitaður upp fyrir 48°C sem útilokar dýraafurðir að mestu (Cunningham, 2004) á meðan ávaxtaætur (e. fruitarians) borða nánast eingöngu ávexti (Samour, 2003).

    Gerður er greinarmunur á veganisma og plöntumiðuðu mataræði (e. plant-based diet) en það síðarnefnda snýst einungis um að forðast dýraafurðir í mataræði, oftast af heilsufarsástæðum, á meðan veganismi snýst um að forðast alla hagnýtingu á dýrum, þ.m.t. fatnað, skemmtun o.fl. Þessi greinarmunur er oft óskýr og margir sem segjast vera vegan af heilsufarsástæðum kaupa samt föt úr leðri eða loðfeldi o.s.frv.

    2.1.2 Saga veganisma

    Þó að veganismi sé tiltölulega nýtt hugtak má finna heimildir allt aftur á fornöld um að fólk hafi forðast dýraafurðir. Í mörg þúsund ár hefur fólk sleppt dýraafurðum í mataræði sínu af trúarlegum, siðferðislegum eða heilsufarsástæðum. Sem dæmi má nefna gríska heimspekinginn Pýþagóras (um 570–490 f.Kr.) en þótt ekki sé vitað með vissu hvort hann hafi borðað dýraafurðir eða ekki höfðu hugmyndir hans gríðarmikil áhrif og var „Pýþagórasar-mataræðið“ samheiti yfir grænmetisát langt fram á nítjándu öld (Walters & Portness, 1999). Meðal þeirra fyrstu sem vitað er með vissu að hafi verið grænkeri er arabíska ljóðskáldið al Ma-Arrī (973–1057). Í ljóði hans, Ég er hættur að stela frá náttúrunni, talar hann gegn því að borða fisk, kjöt, mjólk, egg og hunang og kallar það óréttlæti (Nicholson, 1921). Hann var einnig á móti því að nota húð dýra í fatnað og má því segja að viðhorf hans falli að veganisma.

    Á nítjándu öld varð grænmetisfæði vinsælla á Vesturlöndum og eru einhverjir grænkerar þekktir. Þar má nefna breska skáldið Percy Bysshe Shelley (1792–1822) sem talaði fyrir grænmetisfæði, bæði vegna heilsufarsástæðna og vegna þess að hann leit á það sem nauðsynlegt skref mannkyns í átt að fullkomnu siðferði (Shelley, 1954). Um miðja nítjándu öld voru mörg samtök grænmetisæta stofnuð en í þeim voru grænkerar í minnihluta. Ágreiningur milli þessara hópa magnaðist upp þangað til grænkerarnir slitu sig frá hinum og fyrstu samtök grænkera í heiminum, The Vegan Society, voru stofnuð í Bretlandi árið 1944. Orðið “vegan” var búið til af einum af stofnmeðlimum samtakanna, Donald Watson (The Vegan Society, 2004). Veganismi hélst á jaðrinum næstu áratugi og á þeim níunda tuttugustu aldar varð hann tengdur pönki og anarkisma (Tilbürger & Kale, 2014). Á síðustu árum hefur hann færst í sviðsljósið og vinsældir hans aukist gífurlega. Breska blaðið The Economist lýsti því yfir að 2019 væri ár grænkerans (Parker, 2019).

    2.2 Siðfræði veganisma Í gegnum aldirnar hafa komið fram mismunandi sjónarhorn varðandi siðferðislega afstöðu til dýra og hvort það sé réttlætanlegt að hagnýta dýr og drepa. Til eru þrír meginstraumar í

  • 5

    siðfræðikenningum; skyldusiðfræði, leikslokasiðfræði og dyggðasiðfræði. Lesa má úr hverjum um sig mismunandi afstöðu til dýra og réttinda þeirra.

    2.2.1 Skyldusiðfræði

    Skyldusiðfræði var sett fram af Immanuel Kant (1724-1804) og gengur hún út á það að það sem er siðferðislega rétt er að framfylgja skyldu sinni. Skyldan gengur fyrir og er ekki valfrjáls (Curry, 2011). Þetta er rökleg skilgreining á siðfræði og innan hennar eru siðferðisreglur algildar og án undantekninga; bindandi fyrir allar rökhugsandi verur. Kant setti fram hið skilyrðislausa skylduboð sem hljóðar svo: „Breyttu einungis eftir þeirri lífsreglu sem þú getur á sama tíma viljað að verði að algildu lögmáli“ (Kant, 1785/2003, bls. 140) Hann telur einnig að koma skuli fram við aðrar manneskjur sem takmark í sjálfu sér en ekki sem leið að takmarki. Í skyldusiðfræði gildir ásetningur manns mestu og afleiðingarnar eru ekki sú forsenda sem sett er fram fyrir ákvörðuninni þó að undirliggjandi sé alltaf hugmyndin um afleiðingar (Curry, 2011).

    Samkvæmt Kant eiga réttindi og skyldur aðeins við um manneskjur en ekki önnur dýr, hann gaf engar ástæður fyrir því að vernda dýr eða náttúruna. Aðrir heimspekingar í skyldusiðfræði, má þar helst nefna Tom Regan (1999), hafa útvíkkað réttindi þannig að þau nái yfir dýr. Sem verur með eigin hagsmuni eiga þau líka rétt á að komið sé fram við þau sem takmark í sjálfu sér en ekki leið að takmarki (Curry, 2011; Regan, 1999).

    2.2.2 Leikslokasiðfræði

    Öfugt við skyldusiðfræðina þá eru það afleiðingar gjörða, ekki ástæðurnar fyrir þeim, sem skipta máli innan leikslokasiðfræðinnar. Þekktasta kenning innan leikslokasiðfræði er nytjastefnan en áhrifamestu heimspekingar hennar eru Jeremy Bentham (1748-1832) og John Stuart Mill (1806-1873) (Curry, 2011). Í stað þess að hámarka velferð einstaklingsins einblínir nytjastefnan á félagslega velferð. Hún gengur þannig út á að hámarka hamingju sem flestra. Siðferði gagnvart öðrum ætti að byggjast á getu þeirra til að þjást og að maður ætti að leitast við að takmarka þjáningar annarra eins og kostur er (Mill, 1871/1998). Stuðningsmenn nytjastefnunnar gera tilraun til að mæla hamingju á hlutlægan hátt, sem er vandkvæðum háð. Sumt er erfitt eða ómögulegt að mæla og það er ekki tekið með (Curry, 2011). Einnig gerir það sumum kleift að skilgreina almenna hamingju sem gefur þeim vald. Nytjastefnan hefur haft mikil áhrif á félags- og efnahagsstefnur stjórnvalda og fyrirtækja, sem dæmi má nefna kostnaðar- og ábatagreiningu (Curry, 2011).

    Hægt er að útvíkka nytjastefnuna svo að hún nái yfir dýr og þekktasta dæmið um það er Peter Singer. Hann er einn frægasti talsmaður veganisma á tuttugustu öldinni, þekktastur fyrir bókina Animal Liberation (1975). Þar sem dýr geta þjáðst ætti maður að leitast við að takmarka þjáningar þeirra eins og kostur er. Þetta er orðið leiðandi siðferðissjónarmið meðal grænkera. Nytjastefnan einskorðast við skyni gæddar verur sem geta upplifað þjáningar, og hefur það í för með sér að verur sem eru meira skyni gæddar geta verið taldar hafa meira gildi en verur sem eru minna skyni gæddar (Curry, 2011).

    2.2.3 Dyggðasiðfræði

    Dyggðasiðfræðin er elst hinna þriggja strauma siðfræðinnar, hún kemur frá fornaldarheimspeki og er Aristóteles (384-322 f.Kr.) helsti heimspekingurinn.

  • 6

    Dyggðasiðfræðin leggur áherslu á að þróa með sér góða manngerð. Dyggð er karaktereinkenni sem gott er að hafa og er orðið að vana (Aristóteles, þýð. 2018). Hinar fjórar helstu dyggðir eru réttlæti, hófsemi, hugrekki og viska, en til er fjöldi annarra dyggða. Þessar fjórar helstu dyggðir stuðla að því sem Aristóteles kallaði eudaimonia, oft þýtt sem hamingja en betra væri að kalla það velferð, sem inniheldur ekki aðeins að lifa vel heldur einnig að gera góða hluti (Aristóteles, þýð. 2018). Aristóteles og eftirmenn hans höfðu framkomu gagnvart mannfólki í huga en það er ekkert sem kemur í veg fyrir að dyggðasiðfræði nái yfir dýr (Curry, 2011).

    Dyggðasiðfræðin hefur verið gagnrýnd fyrir að gefa aðeins óljósa leiðsögn og fyrir að fara í hringi – maður gerir góða hluti af því að dyggðugur maður gerir þá, en hann er dyggðugur af því að hann gerir góða hluti. Nútímasiðfræðikenningar skyldu- og leikslokasiðfræði skyggðu verulega á dyggðasiðfræðina. Hún hefur þó mikið fram að færa nú á dögum, m.a. í tengslum við siðfræði náttúrunnar (Curry, 2011).

    Í umhverfisfemínisma byggist siðfræði umhyggju á dyggðasiðfræði og hefur heimspekingurinn Deane Curtin talað fyrir því að hætta að borða dýr, byggt á siðfræði umhyggju (Curtin, 1999). Samkvæmt honum er aðeins siðferðislega rétt að borða kjöt ef ekki er neinn annar kostur í boði, t.d. hjá frumbyggjaþjóðum við norðurheimskautið. Í þeim tilfellum sem dýr eru drepin til manneldis en fólk hefur val um hvað það borðar er verið að valda ónauðsynlegum þjáningum sem hægt er að komast hjá (Curtin, 1999). Sjónarhorn umhverfisfemínisma leggur áherslu á að líkami manns er maður sjálfur. Með því að taka þátt í ofbeldisfullum matarvenjum verður líkami manns að samhengi fyrir ofbeldi, og þannig verður maður sjálfur ofbeldisfullur. Verufræðilegar afleiðingar femínískrar siðfræði umhyggju eru að dýr ættu ekki lengur að teljast matur (Curtin, 1999). Curtin tekur fram að frá sjónarhóli kvenna ætti að spyrja sig hvort maður ætti að verða vegan þar sem neysla eggja og mjólkur eiga það sameiginlegt að nýta sér æxlunarfæri kvendýra (Curtin, 1999).

    Annar femínisti sem hefur dregið líkindi milli nýtingar á dýrum og kynjamismununar er Carol J. Adams. Í bók hennar The Sexual Politics of Meat (1980) færir hún rök fyrir því að hugmyndafræðileg kerfi endurskilgreini fórnarlömb kúgunar til að koma í veg fyrir möguleikann á siðferðislegri fordæmingu. Lifandi, skyni gædd dýr eru umbreytt í sótthreinsað, innpakkað kjöt, til dæmis, á sama hátt og konur eru hlutgerðar kynferðislega (Adams, 1999).

    2.2.4 Umhverfis- og heilsufarsáhrif

    Ein af þremur helstu ástæðum þess að fólk velur vegan eru umhverfisástæður, enda hafa margar rannsóknir sýnt fram á neikvæð umhverfisáhrif dýraafurða. Framleiðsla á dýraafurðum notar almennt meira af auðlindum og veldur meiri losun gróðurhúsalofttegunda en samsvarandi valkostir úr plönturíkinu (Hertwich o.fl., 2010). Iðnaðarlandbúnaður og ofveiði eru helstu ástæður útdauða og minnkun líffræðilegrar fjölbreytni, og þar hefur kjöt- og mjólkuriðnaðurinn mikil áhrif (Brondizio, Settele, Díaz, & Ngo, 2019). Það að skipta yfir í mataræði byggt á plöntuafurðum mun hjálpa til við að sporna við loftslagshamförum (IPCC, 2019). Skipting frá dæmigerðu vestrænu mataræði til veganisma hefur þau áhrif að landsvæðið sem þarf til að rækta matvæli minnkar um 76%, losun gróðurhúsalofttegunda minnkar um 49%, súrnun um 50% og ofauðgun um 49% (Poore og Nemecek, 2018).

  • 7

    Á Íslandi er losun vegna framleiðslu mjólkur og nautakjöts frá dæmigerðu mjólkurframleiðslubúi 1,0 kíló koltvísýringsígildi á hvern lítra mjólkur og 18,2 kg CO2-íg./kg kjöt en losun vegna kjöts frá kjötframleiðslubúi er 23,4 kg CO2-íg./kg kjöt. Algengt er að erlendar rannsóknir sýni að kolefnisspor nautakjöts sé á bilinu 17-37 kg CO2-íg./kg kjöt (Björgvin Brynjarsson, Börkur Smári Kristinsson & Eva Yngvadóttir, 2020). Á hvert kíló af íslensku dilkakjöti losna 28,6 kg af koltvísýringsígildum. Fyrir hvert kíló af íslenskum eldislaxi losna 3,2 kg CO2-íg. Losun frá íslensku grænmeti er talsvert minni, frá 0,12 kg CO2-íg. á hvert kíló af kartöflum upp í 1,93 kg CO2-íg. fyrir kíló af tómötum (Birna Sigrún Hallsdóttir & Stefán Gíslason, 2017).

    Hægt er að skipta umhverfisrökum fyrir veganisma í tvennt; annars vegar út frá umhverfismiðuðu (e. ecocentric) sjónarhorni og hins vegar út frá mannmiðuðu (e. anthropocentric) sjónarhorni. Umhverfismiðaða sjónarhornið gefur þá afstöðu að náttúran og þar með talin dýr hafi gildi í sjálfu sér, óháð mannfólki, en mannmiðaða sjónarhornið gefur þá afstöðu að umhverfisáhrif dýraafurða hafi neikvæð áhrif á líf og framtíð mannfólks. Í fyrri flokkinn má setja heimspekinginn Peter Wenz (f. 1942) sem telur að vistkerfi hafi gildi í sjálfu sér og það að hætta að borða dýr verndi hæfni vistkerfa til að viðhalda sér og endurnýja sig (Wenz, 1999). Í seinni flokkinn má setja Frances Moore Lappé (f. 1944) sem leggur áherslu á það að kjötát sé auðlindafrekur siður sem sóar próteini sem gæti annars fætt heiminn, notar reiðinnar býsn af grunnvatnsforða heimsins sem fer æ minnkandi og býr til mengandi úrgang í massavís (Lappé, 1999). Svo eru margir sem blanda saman rökum úr báðum flokkum máli sínu til stuðnings, t.d. Jon Wynne-Tyson (1924-2020) sem hafði áhyggjur af velferð bæði manna og dýra þegar hann lagði til að landbúnaður færist yfir til veganisma. Hann taldi að siðferðislega sé ekki hægt að styðja við dýralandbúnað, til jafns vegna þjáningarinnar og dauðans sem hann veldur dýrum og vegna hins stórfellda magns af kornmeti sem dýrum er gefið að borða en gæti nýst í baráttunni við hungursneyð (Wynne-Tyson, 1999).

    Um mismunandi heilsufarsáhrif kjöt-, mjólkur- og eggjaáts annars vegar og grænmetismataræðis hins vegar eru til margar rannsóknir, sem stangast á. Margar rannsóknir hafa tengt kjötát við hærri líkur á hjarta- og æðasjúkdómum, sykursýki og krabbameini (t.d. Wang o.fl., 2019; Talaei, Wang, Yuan, Pan & Koh, 2017; Magalhães, Peleteiro & Lunet, 2012). Aðrar finna enga tengingu þar á milli (t.d. Johnston o.fl., 2019) og því er erfitt að fullyrða eitthvað með nokkurri vissu. Þó eru nægar sannanir til að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) flokki unnið kjöt sem krabbameinsvald, og rautt kjöt sem líklegan krabbameinsvald (World Health Organization, 2015). Leiðarvísir WHO um heilbrigt mataræði segir að það innihaldi eftirfarandi: Ávexti, grænmeti, baunir, hnetur og heilkorn. Leiðarvísirinn segir ekkert um að heilbrigt mataræði eigi að innihalda dýraafurðir (World Health Organization, 2018).

    2.3 Viðhorf til veganisma og grænkera Viðhorf til veganisma og grænkerafæðis hafa lítið verið rannsökuð (Corrin og Papadopoulos, 2017) en hér verður farið yfir helstu rannsóknir á þeim og þær hindranir sem geta staðið í vegi fyrir því að fólk taki upp grænkeramataræði.

  • 8

    2.3.1 Erlendar rannsóknir

    Viðhorf til veganisma eru almennt jákvæð en hindranir nefndar eru heilsufarsáhyggjur, tregða til að breyta matarhegðun og ánægja við kjötát (Corrin og Papadopoulos, 2017). Fordómar fyrir veganisma eru hindrun sem heftir breytingar í átt að grænmetisfæði. Þeir sem eru ekki grænkerar reyna að fjarlægjast veganisma félagslega og í hegðun til að forðast þessa fordóma (Markowski og Roxburgh, 2019). Í dagblöðum í Bretlandi er mikil neikvæð umfjöllun um veganisma og grænkera, sem hægt er að túlka sem ‘vegaphobia’ (Cole og Morgan, 2011).

    Viðhorf gagnvart grænkerum eru ekki jafn jákvæð og gagnvart grænmetisætum, og karlar hafa ekki jafn jákvæð viðhorf og konur til grænkera og grænmetisæta (Judge & Wilson, 2019). Til eru rannsóknir sem finna talsvert neikvæð viðhorf gagnvart grænkerum. Í grein, sem dregur saman þrjár rannsóknir, voru viðhorfin neikvæðari gagnvart þeim sem voru grænkerar af siðferðis- og umhverfisástæðum en heilsufarsástæðum (Macinnis og Hodson, 2017).

    Ýmsar hindranir geta verið til staðar fyrir því að fólk taki upp vegan-mataræði. Hindranir sem neytendur skynja fyrir því að minnka kjötát og borða plöntumiðað fæði eru t.d. ánægja fólgin í kjötneyslu, matarrútínur og erfiðleikar í að undirbúa grænmetismat (Pohjolainen, Vinnari & Jokinen, 2015). Þessar hindranir eru mjög tengdar. Þættir sem ýta undir það að fólk skynji hindranir sem stórar eru að vera karlkyns, ungur, búa í sveit, vera í fjölskyldu með börnum, með lágt menntunarstig, þekkja enga grænmetisætu, meta hefðir og auðæfi mikils og að neyta mikils kjöts (Pohjolainen, Vinnari & Jokinen, 2015). Hindranir sem skynjaðar eru sem þær mikilvægustu eru aðrar en þær sem hindruðu ákvarðanir í raun. Hátt verð er skynjað sem mikilvægasta hindrunin en vani og vantrú á loftslagsáhrif hafa mest áhrif á fæðuval (Mäkiniemi og Vainio, 2014). Hindranir til veganisma innan heimilisins eru t.d. viðbrögð fjölskyldunnar, hlutverk mæðra í að gefa ungum börnum mat og að það sem konur vilja borða skiptir minna máli (Asher og Cherry, 2015).

    Kjötát getur verið tengt við gildi sem fólk telur mikilvæg, og kynjamunur er á því. Það að telja vald, öryggi og samsvörun mikilvæg gildi spáir óbeint fyrir um meira kjötát, en það að telja réttlæti (e. universalism) sem mikilvægt gildi spáir óbeint fyrir um minna kjötát. Konur telja réttlæti mikilvægara gildi en karlar, en karlar töldu vald mikilvægara gildi (Hayley, Zinkiewicz & Hardiman, 2015).

    2.3.2 Íslenskar rannsóknir

    Lítið hefur verið um rannsóknir á Íslandi sem kanna viðhorf til veganisma. Þrjár nýlegar meistaraprófsritgerðir fjalla þó á einhvern hátt um þetta málefni. Tvær þeirra eru úr markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum, sú fyrri var megindleg rannsókn og var spurningalisti sendur á nemendur Háskóla Íslands. Niðurstöður rannsóknarinnar bentu til þess að hið almenna viðhorf svarenda til neyslu grænmetisfæðis sem aðalmáltíðar dagsins minnst fjórum sinnum í viku var næst því að heita mætti hlutlaust þó að það teygði sig aðeins í átt til jákvæðni (Reynir Már Ásgeirsson, 2014). Konur höfðu jákvæðara viðhorf en karlar til þess að neyta grænmetisfæðis sem aðalmáltíðar dagsins, fannst það skynsamlegra, betra og ánægjulegra. Konur töldu velferð dýra mikilvægari en karlar og voru jafnframt iðnari við að neyta grænmetisfæðis. Þátttakendur sem búið höfðu á höfuðborgarsvæðinu stærstan hluta ævinnar voru jákvæðari en þeir sem búið höfðu á landsbyggðinni til þess að neyta

  • 9

    grænmetisfæðis sem aðalmáltíðar dagsins, fannst það skynsamlegra, betra og ánægjulegra (Reynir Már Ásgeirsson, 2014). Í seinni ritgerðinni er greint frá rannsókn sem kannaði kaupáform neytenda og komst að þeirri niðurstöðu að það jákvæða eða neikvæða viðhorf sem svarendur höfðu til vegan matvara, sást vel í kaupáformum þeirra á slíkum vörum (Ásta Karen Kristjánsdóttir, 2017).

    Þriðja meistaraprófsritgerðin var í landfræði og kannaði viðhorf fólks til íslensks landbúnaðar og velferðar búfjár (Anna Berg Samúelsdóttir, 2015). Niðurstöður rannsóknarinnar gáfu til kynna að íslenskir neytendur hafi þá ímynd af innlendum landbúnaði að hann sé hreinn og náttúrulegur og að frelsi og velferð búfjár sé almennt mikil. Fólk virtist vita lítið um aðbúnað svína og alifugla og taldi víst að aðbúnaður þessara dýra væri betri á Íslandi en erlendis. Viðmælendur voru sammála um að velferð búfjár skipti miklu máli en verð reyndist síðan vega þyngra við innkaup. Einnig gátu heilsufarssjónarmið vegið þungt. Þessi þrjú sjónarmið – verð, hollusta og vilji til að búfé nyti velferðar – tókust á við innkaupin sem skapaði togstreitu. Verslunarhegðun getur því verið á skjön við skoðanir fólks (Anna Berg Samúelsdóttir, 2015).

  • 11

    3 Aðferðafræði Þessi rannsókn er eigindleg en það þýðir að stuðst er við eigindleg gögn, sem í þessu tilfelli eru viðtöl. Notast er við aðferðir grundaðrar kenningar þar sem gögn rannsóknarinnar sjálfrar eru notuð til að leiða fram niðurstöðuna á grundvelli aðleiðslu (Bryman, 2016). Rannsóknarspurningarnar breyttust samhliða greiningu á gögnunum sem er í samræmi við ferli grundaðrar kenningar.

    3.1 Val á þátttakendum Þátttakendur rannsóknarinnar voru fjórir, tvær konur og tveir karlar, öll á miðjum aldri. Til að finna viðmælendur var notast við tilgangsúrtak en þá eru ákveðnar forsendur hafðar til viðmiðs við valið (Bryman, 2016). Forsendan var sú að viðmælandi fylgdi almennu mataræði, með almennu mataræði er átt við að viðmælandi hafi ekki tekið persónulega ákvörðun um að fylgja einhverju sérstöku mataræði, t.d. vegan eða ketó, fram yfir annað. Ég bað vini og vandamenn að benda mér á fólk sem uppfyllti þessi skilyrði og hafði svo samband við það í tölvupósti með stöðluðu kynningarbréfi (sjá viðauka A). Viðtölin fóru flest fram í hópvinnuherbergi Þjóðarbókhlöðunnar en eitt þeirra fór fram á vinnustað viðmælanda. Áður en eiginlegt viðtal hófst skrifuðu viðmælendur undir yfirlýsingu um upplýst samþykki fyrir þátttöku í rannsókninni (sjá viðauka B).

    3.2 Viðtölin Viðtölin voru 20-40 mínútna löng. Viðmælendunum var sagt að rannsóknin snerist um mataræði en ekki einungis um veganisma og var það gert í viðleitni til að fá þá til að tala um veganisma án þess að þeir hafi undirbúið það sérstaklega. Viðtölin voru hálfstöðluð sem þýðir að notast var við viðtalsramma sem innihélt þau atriði sem var talið mikilvægt að koma inn á í viðtölunum (sjá viðauka C). Þessi atriði voru ekki rædd í neinni sérstakri röð því leitast var eftir að viðmælendur stjórnuðu framvindu viðtalanna og köfuðu dýpra í einstök atriði, enda er markmið eigindlegra viðtala að upplifun viðmælenda skíni í gegn (Bryman, 2016). Viðtalsramminn var einungis hafður sem viðmið til að ekki væri farið of langt út fyrir efnið. Í þessari rannsókn fengu viðmælendurnir að tala út frá sinni eigin skilgreiningu á veganisma. Viðhorf til grænkera er mismunandi eftir ástæðunum sem liggja að baki mataræðinu og því var ekki einblínt á siðferðislega hugmyndafræði veganisma.

    3.3 Gagnagreining Greining hefst strax að loknu viðtali þegar ég punkta hjá mér fyrstu hugleiðingar mínar, hvernig mér fannst ganga og hvað stóð upp úr. Eftir það er viðtalið afritað og svo kóðað en markmið kóðunar er að finna lykilþemu í hverju viðtali (Bryman, 2016). Gagnagreining fer fram samhliða gagnaöflun þannig að kóðun viðtals getur hafist áður en næsta viðtal er

  • 12

    tekið og mögulega haft áhrif á það. Aðferð kóðunarinnar er greinandi aðleiðsla þar sem lögð er áhersla á að greiningin byggist á viðtalsgögnunum. Fyrst er notuð opin kóðun þar sem leitast er við að finna tengingar í gögnunum. Viðtalsgögnin eru flokkuð niður í lykla sem geta verið endurtekningar eða áherslur viðmælenda sem sýna hvað skiptir þá máli. Síðan er öxulkóðun beitt, þá eru lyklarnir flokkaðir og sameinaðir í meginþemu sem samsvara undirköflunum í niðurstöðukaflanum. Lokaskrefið er markviss kóðun, þá er allt samþætt í eina heild og þannig búinn til söguþráður sem skýrir inntak rannsóknarinnar.

    3.4 Sjálfrýni rannsakanda Ástæðan fyrir því að mig langaði að fjalla um veganisma í BS-rannsókninni minni er sú að hann skiptir mig miklu máli. Ég hef verið grænkeri í rúmlega 5 ár þegar þetta er skrifað og fyrir mér er það grundvallarlífsskoðun, ég sé ekki fyrir mér að ég muni nokkurn tímann neyta dýraafurða aftur. Ég á erfitt með að sætta mig við það að tugum milljarða dýra sé slátrað á ári hverju til að seðja mannfólk. Þetta er tilfinningamál fyrir mér. Því var sérlega mikilvægt að gæta að því við gerð þessarar rannsóknar að vera meðvitaður um aðkomu mína að henni. Sjálfrýni var partur af ferlinu frá upphafi. Til að koma í veg fyrir að rannsóknin yrði bjöguð af mínum eigin viðhorfum þurfti ég að reyna að skilja þau eftir við dyrnar til að geta skilið viðhorf annarra til fullnustu.

    Þegar viðmælendur mínir sögðu eitthvað sem ég taldi vera rangfærsla eða þversagnarkennt sat ég á mér, sýndi engin viðbrögð og jánkaði bara. Einn viðmælandinn spurði mig hvort ég væri grænkeri og ég játaði því en gerði ekki mikið úr því og hélt áfram með viðtalið. Ég tel það ekki hafa haft nein áhrif á frásögn hans þar sem hún samsvaraði sér fyrir og eftir þessa uppljóstrun. Í gagnagreiningunni var líka mikilvægt að stunda sjálfrýni, aðferðir aðleiðslunnar kalla á það enda á greiningin að byggjast einungis á viðtalsgögnunum en ekki á þekkingu rannsakanda. Við skrif á niðurstöðum kom það fyrir að orðalag litaðist af viðhorfum mínum og var það sem um ræddi endurskrifað eftir bestu getu.

    Framtíðarrannsakendur gætu notið góðs af þessari umfjöllun um aðkomu mína að rannsókninni þar sem staða mín sem grænkeri gat haft áhrif á framkvæmdina. Þetta undirstrikar mikilvægi hlutleysis og sjálfrýni rannsakenda.

  • 13

    4 Niðurstöður Hér að neðan verður fjallað um niðurstöður greiningarinnar í gegnum undirþemu sem skýra þætti sem hafa áhrif á viðhorf til veganisma. Fyrst verður fjallað um hvernig viðmælendum fannst Ísland hafa sérstöðu í heiminum þannig að það sem myndi réttlæta veganisma annars staðar ætti ekki við á Íslandi. Svo verður fjallað um réttlætingar fyrir því að taka ekki upp veganisma og loks sú afstaða að þó að grunnhugmyndir tengdar veganisma séu góðar í hófi þá sé útfærslan öfgakennd.

    4.1 Ísland undanþegið veganisma Íslenskur landbúnaður skipaði sérstakan sess hjá viðmælendunum. Fyrst af öllu má nefna það að Jón og Baldvin sögðust vilja styðja við íslenskan landbúnað. Það var sérstaklega sauðfjárbúskapurinn sem þurfti stuðning og var það í tengslum við byggðamál, að halda byggð í öllu landinu. Það er líka öryggisatriði þegar ferðast er um landið. Einnig var talað um að það væri mikil menning í kringum sauðfjárbúskap. Jón hafði áhyggjur af því veganisminn hefði það í för með sér að sauðfjárbændur þyrftu að bregða búi og þeim fækkaði.

    Eins og þú veist og þetta er bara stórmál. Maður hefur dálitlar áhyggjur af, þótt veganistar séu auðvitað umhverfissinnaðir oft og svona að þá hefur það náttúrulega áhrif á þetta, kannski, til langframa, það dregur, hlýtur að draga úr kjötneyslu ef fjölgar í þeim sem eru vegan.

    Aðspurður hvað hann haldi að sauðfjárbændur myndu gera ef svo færi að eftirspurn eftir kjöti minnkaði sagði hann:

    Lagt upp laupana, kannski. Já, já, ég held að það hljóti að gerast ... þeir náttúrulega rétt hjara sumir, tóra, sumir sauðfjárbændur.

    Bæði Jón og Ragna töluðu um tengingu sína við íslenska landbúnaðinn, að þetta væri partur af menningu og hefðum þeirra. Þótt Ragna hafi ekki beinlínis alist upp í sveit áttu foreldrar hennar nokkrar kindur og hún tók þátt í haustverkum, að salta í tunnu og að taka slátur. Hennar uppeldi innihélt dýrahald og því vildi hún halda því áfram.

    Maður er náttúrulega alinn upp við þetta, að það er verið að rækta þessi dýr til þess að njóta afurðanna.

    Jón var í sveit þegar hann var ungur og sagði að aukin útbreiðsla veganisma gæti tengst því að fólk er orðið fjarlægara sveitinni en áður, það eru færri sem komast í kynni við það hvernig dýrin eru alin og hvaðan maturinn kemur. Hér talar hann einnig um að það sé óumflýjanlegt að drepa dýr.

    Þetta tengist því kannski líka að menn eru orðnir fjarlægir, það eru fáir sem fara í sveit og sjá hvernig þetta gerist og þá verður þetta einhvern veginn

  • 14

    meira mál en auðvitað eru dýr drepin, auðvitað út af þessu og það er auðvitað ekkert hjá því komist.

    Hvalveiðar skipa sérstakan sess í menningu og hefðum Íslands sem er ekki raunin í flestum öðrum löndum. Í sambandi við þær töluðu Jón og Baldvin um að það hafi verið utanaðkomandi áhrif sem stjórnuðu hreyfingunni gegn hvalveiðum. Eins og Jón kemst að orði:

    Í þeirri umræðu á sínum tíma, þetta var náttúrulega stjórnað af fólki frá Bandaríkjunum og víðar sem var kannski ekkert mikið í tengslum við náttúruna, finnst manni. Það er svona rómantískar hugmyndir um það.

    Þar hafi hagsmunir utan Íslands fengið að ráða og þetta fólk þekkti ekki til Íslands og aðstæðna hér.

    Þegar fjallað var um umhverfismál í viðtölunum voru allir á sama máli með það að kjötframleiðsla væri óumhverfisvæn. Þau töluðu um að hún kallaði á mikið landrými, mikla orku, ylli mikilli losun á gróðurhúsalofttegundum og skapaði álag á umhverfið. Þrátt fyrir það borðuðu allir kjöt og hluti af ástæðunni fyrir því gæti verið að það væri ekki sama hvernig kjötframleiðslu var verið að tala um og þá sérstaklega hvort kjötið væri framleitt á Íslandi eða erlendis. Ragna lagði mikla áherslu á umfang framleiðslunnar, sem sagt að ef hún væri stór í sniðum þá væri hún slæm fyrir umhverfið en ekki ef hún væri minni eins og á Íslandi.

    Eins og ég hef séð í Ameríku, til dæmis, þar sem eru nautabúgarðar með alveg bara ofboðslega stórum húsum og mér finnst þetta einhvern veginn dálítið svona óhuggulegt ... ég fékk bara hroll þegar ég sá þessi nautabú. Þar eru alveg svona risaskemmur ... En ég veit ekki alveg hvað það ætti að gilda mikið hér ... íslenska nautakjötið það er ekki úr svona stórum nautahjörðum.

    Hér er Ísland tekið út fyrir sviga þannig að ekki gilda sömu lögmál hér og annars staðar. Þegar talað var um íslenska lambakjötið, fyrir utan það hvað fólki finnst það gott á bragðið, voru aðrir kostir þess hafðir í hávegum. Jón talaði um það hvað það væri mun betra fyrir umhverfið en önnur kjötframleiðsla.

    Og það kjöt er náttúrulega mjög umhverfisvænt ef maður miðar við kjöt, getum við sagt, þetta er náttúrulega bara sjálfala á einhverjum heiðum og það eru ekki notuð einhver eiturefni í framleiðsluna og svona.

    Varðandi umhverfismál lögðu allir viðmælendurnir ríka áherslu á innflutning á mat og þá sérstaklega grænmeti og ávöxtum. Áherslur þeirra lágu þar frekar en á framleiðslu dýraafurða. Losun gróðurhúsalofttegunda sem stafaði af innfluttu grænmeti og ávöxtum skipti þau meira máli en umhverfisáhrif af framleiðslu á dýraafurðum eins og Ragna segir:

    Þetta finnst mér eiginlega dálítið óhuggulegt, allur þessi flutningur á, sérstaklega náttúrulega á grænmeti og ávöxtum ... þannig að það er meira eitthvað svona sem ég hugsa um heldur en þetta með kjötið.

  • 15

    Þess vegna reyndu þau að kaupa frekar íslenskt grænmeti þó að það væri dýrara. Ragna og Jón töluðu um að það ætti að leggja meiri áherslu á að styrkja grænmetisbændur á Íslandi til að auka framleiðslu á grænmeti hér á landi.

    4.2 Réttlætingar á neyslu dýraafurða Fyrir utan sérstöðu Íslands komu upp ýmsar aðrar réttlætingar á því að halda uppteknum hætti varðandi neyslu dýraafurða.

    Fyrst af öllu fannst viðmælendunum mikilvægt að lambakjöt er gott á bragðið. Það er ein ástæða fyrir því að borða það og réttlæting fyrir því að drepa lömb. Ragna segir:

    Mér finnst lambakjöt bara voða gott, ég verð að viðurkenna það.

    Það skiptir viðmælendurna máli hvernig lífi dýr lifa áður en þau eru drepin. Þannig virðist veiðibráð vera vel sett þar sem þau dýr lifa frjáls alveg þangað til þau eru drepin. Sama gildir um fiskinn í sjónum og íslensku lömbin voru líka sett í þennan flokk þar sem þau fá að ráfa um frjáls á heiðum eitt sumar. Hins vegar fá verksmiðjuframleidd dýr verra hlutskipti í lífinu og vildu viðmælendurnir síður styðja við svoleiðis framleiðslu. Á heimili eins viðmælendanna, Áslaugar, eru ekki borðuð dýr sem framleidd hafa verið í verksmiðjum, eins og hún kemst að orði:

    Okkur finnst farið langt yfir strikið í verksmiðjuframleiðslu en við getum sætt okkur við, teljum okkur geta sætt okkur við til dæmis lambakjöt og villibráð og fiskinn úr sjónum.

    Ragna og Baldvin nefndu sérstaklega að það sé farið illa með svín, þótt Baldvin segðist ekki hafa fengið mikla sektarkennd af því að borða svínakjöt. Í raun voru þau öll á móti grimmd gagnvart dýrum og skildu vel þá afstöðu að vilja berjast gegn því. Baldvin segir:

    Ég hef ekki mjög sterkar skoðanir á því nema auðvitað grimmd gagnvart dýrum ... það finnst mér ekki nógu gott.

    Þó að þeim fyndist grimmd slæm þá fannst sumum þeirra dýrum ekki vera sýnd nein grimmd á íslenskum búum. Þetta kallast á við kaflann á undan. Ragna treystir því að það sé nógu gott eftirlit hér og telur að bændur séu á réttri leið með það að láta dýrunum líða betur.

    Þeir virðast nú mjög mikið vera farnir að fara í þá átt að kúnum líði vel. Að þær fái að vera úti eins og þær vilja og allt það. Það er svona það sem ég hef á tilfinningunni án þess að hafa nokkuð skoðað einhverjar rannsóknir á því.

    Þó hafði hún heyrt um slæma meðferð á svínum á Íslandi. Jón telur að virðing sé borin fyrir dýrunum og reynt að gera þetta eins þægilegt og hægt er – þó alltaf þurfi að drepa þau.

    Ein réttlæting sem kom fram var að það sé náttúrulegt að borða dýr. Baldvin velti því fyrir sér hvort hægt væri að útfæra frá veganisma að það gæti verið glæpsamlegt t.d. að vera ljón, en ef ekki þá væri það mannmiðuð sýn sem gæti verið talið hræsni.

  • 16

    Úti í náttúrunni þá eru náttúrulega kjötætur, þannig að ef það er glæpsamlegt þá náttúrulega, þá vaknar þessi spurning, á maður þá að leggja annan siðferðismælikvarða á menn heldur en dýr og er það þá ekki mannmiðað?

    Annað sem hann taldi náttúrulegt voru ákveðin næringarefni, prótín, í kjöti sem eru eðlilegur hluti af fæðu manna. Varðandi næringu hafði Jón áhyggjur af því að það væri erfitt að stilla grænmetismataræði þannig að menn fái öll næringarefni. Hann hafði sérstaklega áhyggjur af því í sambandi við unga drengi sem eru að vaxa.

    4.3 Allt er gott í hófi Þrátt fyrir að viðmælendurnir ættu erfitt með að skilja veganisma og sæju ekki fyrir sér að verða grænkerar, þá komu fram ýmis jákvæð viðhorf til veganisma og til þess að borða grænmetisfæði.

    Í fyrsta lagi var það sú viðurkenning að veganismi gæti verið tákn um nýja tíma og að yngri kynslóðir, þær sem tækju frekar upp veganisma, tækju upplýstari ákvarðanir um neysluvenjur en þær sem eldri eru. Jón velti því fyrir sér hvort neysla dýraafurða væri fornfáleg iðja.

    Auknar vinsældir veganisma gera það líka að verkum að valkostir án dýraafurða verða aðgengilegri. Þetta skipti Jón miklu máli þar sem sonur hans gat ekki borðað ýmsar dýraafurðir vegna ofnæmis. Þannig hafði veganismi auðveldað líf þeirra töluvert:

    Vegan stefnan kom sér mjög vel fyrir okkur út af stráknum í rauninni, út af því að hann er eiginlega neyddur til þess að vera vegan.

    Það að borða eingöngu grænmetisfæði getur verið hagstætt fyrir fólk samkvæmt Áslaugu vegna þess að það er ódýrara. Hún var líka hrifin af grænmetisréttum, fannst þeir betri á bragðið en kjötréttir og sama sagði Jón. Áslaug og Baldvin töluðu einnig um heilsufarslegan ávinning grænmetisfæðis:

    Manni skilst að það sé ekkert of hollt að vera of mikil kjötæta.

    Fyrir viðmælendunum var mikilvægasta framlag veganisma mótvægið gegn umhverfisáhrifum dýraafurða. Það býr til álag á umhverfið að rækta dýr til manneldis í stórum stíl, sérstaklega nautgripi. Ragna sagði að ofbeitin væri líklega verst fyrir umhverfið á Íslandi og Baldvin var upptekinn af ofveiði og vildi vernda stofnstærðir:

    Stofnstærð sem sagt ofveiði er náttúrulega mjög vanhugsuð háttsemi.

    Hann sagðist að minnsta kosti geta skilið það viðhorf að það væri óeðlilega mikil kjötneysla í heiminum en ekki það viðhorf að kjöt væri morð. Það gefur til kynna að það sé í grunninn ekkert að því að drepa dýr, svo lengi sem það sé ekki gert um of. Á sama hátt fannst þeim lofsvert að minnka kjötneyslu og draga úr framleiðslu á dýrum, svo lengi sem það sé ekki gert um of og tekið of langt. Hófsemin er leiðarstefið.

    Ég er alveg á því að maður ætti nú kannski að draga úr kjötneyslu af ýmsum ástæðum, umhverfislegum og kannski líka heilsufarslegum.

  • 17

    Allir viðmælendurnir höfðu annaðhvort nú þegar minnkað kjötneyslu eða voru til í að draga úr kjötneyslu. Sum þeirra höfðu meira að segja hugsað um að hætta að borða kjöt og fyndist það alveg raunhæfur möguleiki í framtíðinni. Hins vegar fannst þeim veganismi of öfgakenndur. Jón lýsti þessu yfir:

    Mér finnst það alveg koma til greina að taka upp svona, ja ég, nei líklega ekki vegan, það er of langt gengið en ég myndi sleppa kjöti síðar en varla fiski.

    Þau skildu ekki af hverju ætti að fara alla leið afdráttarlaust, að vera sannfærður grænkeri. Baldvin gerði óbein hugrenningatengsl við trúarbrögð og kommúnisma. Jón sagði þetta fjarlægt hefðbundnum viðhorfum og að í sveitinni hefði þetta ekki talist eðlilegt.

    Þegar maður var í sveit hefði verið náttúrulega, mönnum hefði þótt þetta mjög skringilegt.

    Ragna taldi þetta líklega einnig skringilegt þar sem hún var gjörn á að hlæja þegar hún var að tala um fólk sem valdi að borða ekki dýr af siðferðisástæðum. Þetta voru í mörgum tilvikum börn sem voru að uppgötva í fyrsta sinn hvaðan maturinn kæmi og vildu ekki borða hann.

  • 19

    5 Umræður Í þessari rannsókn var lagt upp með þrjár rannsóknarspurningar og til að svara þeim verða niðurstöður rannsóknarinnar nú bornar saman við fræðilegar undirstöður hennar. Fyrsta rannsóknarspurningin er hvaða þættir liggja til grundvallar viðhorfi fólks til veganisma?

    Fyrsti þátturinn sem fjallað verður um varðar undanþágu Íslands frá veganisma, hvernig Ísland hefur sérstöðu í heiminum þannig að það sem myndi réttlæta veganisma annars staðar eigi ekki við á Íslandi. Í niðurstöðum rannsóknarinnar kom fram að tenging við íslenskan landbúnað skipti máli. Viðmælendurnir höfðu verið í sveit eða alist upp við að dýrahald væri partur af menningu þeirra og vildu styðja við íslenskan búskap. Þeir vildu koma í veg fyrir að hann legðist af og hefðirnar í kringum hann hyrfu, sem og byggð um allt land og öryggið sem því fylgir. Á Íslandi hefur verið sýnt fram á samband milli tengingar við landsbyggðina og neikvæðni gagnvart grænmetisfæði í rannsókn Reynis Más Ásgeirssonar (2014). Þar kom fram að þeir sem búið höfðu á landsbyggðinni stærstan hluta ævinnar voru neikvæðari en þeir sem búið höfðu á höfuðborgarsvæðinu til þess að neyta grænmetisfæðis sem aðalmáltíðar dagsins, fannst það skynsamlegra, betra og ánægjulegra. Það samræmist þeim viðhorfum sem komu fram í niðurstöðum þessarar rannsóknar að fólk sem aðhyllist veganisma sé að miklu leyti borgarbúar sem hafi ekki kynnst lífinu í sveitinni. Þetta samband hefur einnig komið í ljós erlendis þar sem það að búa í sveit er einn þeirra þátta sem ýtir undir það að hindranir sem neytendur skynja fyrir því að minnka kjötát og borða plöntumiðað fæði virðast stærri (Pohjolainen, Vinnari & Jokinen, 2015).

    Viðmælendur voru meðvitaðir um neikvæð umhverfisáhrif dýraafurðaframleiðslu í heiminum en töldu að það ætti ekki endilega við á Íslandi. Nefndir voru stórir nautabúgarðar í Bandaríkjunum og umhverfisáhrif þeirra talin óhugguleg borið saman við íslensk nautabú. Færa má rök fyrir því að þessar forsendur standist ekki skoðun þar sem kolefnislosun íslenskra kúa er á pari við það sem þekkist erlendis þótt það liggi nær neðri mörkum (Björgvin Brynjarsson, Börkur Smári Kristinsson & Eva Yngvadóttir, 2020). Talað var um að íslenskt lambakjöt væri mjög umhverfisvænt miðað við annað kjöt sem einnig má færa rök fyrir að standist ekki fulla skoðun þar sem kolefnisspor íslensks dilkakjöts er hærra en íslensks nautakjöts (Birna Sigrún Hallsdóttir & Stefán Gíslason, 2017). Ástæður þess að þau telja íslenskar dýraafurðir umhverfisvænni en annars staðar frá gætu tengst niðurstöðum rannsóknar Önnu Berg Samúelsdóttur (2015) sem gáfu til kynna að íslenskir neytendur hafi þá ímynd af innlendum landbúnaði að hann sé hreinn og náttúrulegur. Það gefur líka hugmynd um hvers vegna þau leggja ríkari áherslu á umhverfisáhrif innflutnings á grænmeti og ávöxtum en íslenskra dýraafurða. Vantrú á loftslagsáhrifum dýraafurða getur einnig haft mikil áhrif á fæðuval (Mäkiniemi og Vainio, 2014).

    Annar þátturinn er sú réttlæting fyrir því að borða dýr að dýrin lifi góðu og hamingjusömu lífi áður en þau eru drepin. Viðmælendurnir kusu lambakjöt, villibráð og fiskinn úr sjónum frekar en verksmiðjuframleidd dýr af þeim sökum. Enn fremur töldu sumir viðmælendur dýrum ekki vera sýnd nein grimmd á íslenskum búum sem kallast á við niðurstöður rannsóknar Önnu Berg Samúelsdóttur (2015) sem sýndu að íslenskir neytendur álíta að

  • 20

    frelsi og velferð búfjár sé almennt mikil hér á landi og telja víst að aðbúnaður þessara dýra sé betri á Íslandi en erlendis.

    Þriðji þátturinn sem kom fram í niðurstöðum þessarar rannsóknar var sá að þó að grunnhugmyndir tengdar veganisma séu góðar í hófi þá sé útfærslan öfgakennd. Viðmælendur greindu frá einhverjum jákvæðum viðhorfum til veganisma og grænmetisfæðis. Lýst var yfir ánægju með auknar vinsældir veganisma á Íslandi vegna þess að það gerði það að verkum að valkostir um dýraafurðalausan mat urðu aðgengilegri, sem var mikilvægt vegna ofnæmis. Eitt hlutverk veganisma er einmitt stuðningur við þróun og notkun dýralausra valkosta, samkvæmt The Vegan Society (á.á.). Grænmetisfæði var talið ódýrt og hollt af viðmælendum en sýnt hefur verið fram á að verð og hollusta eru sjónarmið sem vega þungt við matarinnkaup. Vilji til að búfé njóti velferðar skiptir líka máli en verð reyndist vega þyngra við innkaup (Anna Berg Samúelsdóttir, 2015). Viðmælendurnir töldu jákvætt að draga úr kjötneyslu en veganismi fannst þeim of öfgakenndur. Þau myndu frekar kjósa hófsamara mataræði þannig það væri þeim betur að skapi að vera hentikeri, það er sá sem forðast oft dýraafurðir en er sveigjanlegur með það (Rosenfeld, Rothgerber & Tomiyama, 2020). Reyndar lýsti einn viðmælandanna sér sem hentikera.

    Önnur rannsóknarspurningin í þessari rannsókn er hvaða hindranir eru fyrir því að fólk taki upp grænkeramataræði? Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að ánægja sem fylgir neyslu dýraafurða, þá sérstaklega bragðgæði lambakjötsins, var ein ástæða áframhaldandi neyslu þeirra. Ánægja fólgin í kjötneyslu er ein þeirra hindrana sem sýnt hefur verið fram á að neytendur skynja fyrir því að minnka kjötát og borða plöntumiðað fæði (Pohjolainen, Vinnari & Jokinen, 2015; Corrin og Papadopoulos, 2017). Sýndar voru áhyggjur af því að það væri erfitt að stilla grænmetismataræði þannig að öll næringarefni væri að finna í fæðunni í nægu magni. Þetta rímar við fyrri rannsóknir sem hafa sýnt að heilsufarsáhyggjur eru meðal hindrana sem hefta breytingar í átt að grænmetisfæði (Corrin og Papadopoulos, 2017).

    Þriðja rannsóknarspurningin er hvaða siðferðislega afstaða felst í viðhorfum fólks til veganisma? Í niðurstöðum rannsóknarinnar kom fram að fólk vill að dýrin sem eru borðuð lifi góðu og hamingjusömu lífi áður en þau eru drepin. Viðmælendurnir kusu því lambakjöt, villibráð og fiskinn úr sjónum frekar en verksmiðjuframleidd dýr. Þetta viðhorf fellur best að nytjastefnunni sem gengur út á að hámarka hamingju sem flestra (Mill, 1871/1998). Þannig hafa viðmælendurnir útvíkkað nytjastefnuna svo að hún nái yfir dýr eins og Peter Singer (1975) talaði fyrir en grundvallarmunur á siðferðisafstöðu þeirra og hans er sá að þeim fannst ekki grimmd að drepa dýr yfir höfuð. Að minnsta kosti vegur sú hamingja sem dýrin upplifa á meðan þau eru á lífi upp á móti þeirri mögulegu óhamingju sem felst í dauða þeirra. Af umhverfisáhrifum dýraafurða á Íslandi var talið brýnt að koma í veg fyrir ofbeit og ofveiði. Það getur samrýmst umhverfismiðuðu sjónarhorni Peter Wenz (1999) sem segir helsta vandamálið með neyslu dýraafurða vera neikvæð áhrif á hæfni vistkerfa til að viðhalda sér og endurnýja sig. Það að viðmælendurnir vildu vernda vistkerfi hálendisins og stofnstærðir villtra dýra eins og unnt er gefur í skyn að vistkerfi og dýrategundir hafi virði í sjálfu sér, óháð mannfólki, en ekki endilega einstök dýr og aðrar einstakar lífverur. Viðmælendurnir töluðu þó líka mikið um losun gróðurhúsalofttegunda í sambandi við mat sem gefur til kynna mannmiðað sjónarhorn þar sem hamfarahlýnun mun hafa slæm áhrif á mannfólk. Sýndur var skilningur á því viðhorfi að það væri óeðlilega mikil kjötneysla í heiminum en ekki því viðhorfi að kjöt væri morð. Það gefur til kynna að það sé ekki rangt að drepa dýr, svo lengi sem því sé ekki ofgert þannig að það raski

  • 21

    umhverfinu. Viðmælendurnir töldu jákvætt að draga úr kjötneyslu en veganismi fannst þeim of öfgakenndur. Þau myndu frekar kjósa hófsamara mataræði og getur það viðhorf fallið að dyggðasiðfræði þar sem hófsemi er ein af fjórum helstu dyggðum Aristótelesar (þýð. 2018). Veganismi getur ekki verið hófsamur á þennan hátt þar sem hann felur í sér að útiloka allar dýraafurðir og forðast alla hagnýtingu á dýrum, eftir fremsta megni.

    Yfir heildina litið gefa niðurstöður þessarar rannsóknar til kynna blönduð viðhorf til veganisma. Einhverjum rökum fyrir því að gerast grænkeri voru gerð skil og tekið undir þau en öðrum var ekki tekið mark á. Almennt séð virðist fólk vera sammála því að það eigi að draga úr kjötneyslu en svo virðist sem veganismi eigi ekki upp á pallborðið hjá því. Hins vegar gæti það gerst í framtíðinni að fleiri og fleiri kölluðu sig hentikera.

  • 23

    6 Lokaorð Í þessari rannsókn hafa verið dregnir fram þrír þættir sem liggja til grundvallar viðhorfi fólks til veganisma. Fyrsti þátturinn felst í því að Ísland hafi sérstöðu í heiminum sem gefur því undanþágu frá veganisma. Annar þátturinn snýr að réttlætingu á neyslu dýraafurða, sérstaklega í sambandi við það að dýr lifi góðu og hamingjusömu lífi áður en þau eru drepin. Þriðji þátturinn felst í því að hugmyndirnar að baki veganisma, sem séu góðar í hófi, séu teknar út í öfgar. Í rannsókninni voru einnig dregnar fram tvær hindranir fyrir því að fólk taki upp grænkeramataræði. Þær eru sú ánægja sem felst í neyslu dýraafurða og áhyggjur af heilsufarsvandamálum sem kæmu upp við útilokun þeirra. Að lokum var fjallað um þá siðferðislegu afstöðu sem felst í viðhorfum fólks til veganisma. Það helsta sem kom fram í þeirri umfjöllun var tenging við nytjastefnuna og dyggðasiðfræði, sem og umhverfismiðað sjónarhorn.

    Rannsóknin innheldur umfjöllun um aðkomu mína að henni þar sem staða mín sem grænkeri gat haft áhrif á framkvæmdina. Þetta undirstrikar mikilvægi hlutleysis og sjálfrýni rannsakenda.

    Niðurstöður þessarar rannsóknar ríma að miklu leyti við niðurstöður fyrri rannsókna, bæði íslenskra og erlendra. Þetta er þó fyrsta rannsókn sinnar tegundar á Íslandi og getur hún lagt grunn að frekari rannsóknum á þessu sviði. Það væri áhugavert að rannsaka frekar þessa sérstöðu Íslands í huga fólks, hún gefur til kynna að Íslendingar hafi sérstæða sýn á dýralandbúnað hér heima. Niðurstöðurnar benda til þess að fleiri og fleiri muni draga úr neyslu dýraafurða og kalla sig hentikera. Ég vona að þessi nýyrðasmíð mín sé fólki að skapi.

    Þessi rannsókn hafði þá annmarka að hafa aðeins fjóra viðmælendur, alla á svipuðum aldri. Fleiri viðmælendur með fjölbreyttari bakgrunn gætu gefið betri innsýn inn í viðhorf fólks til veganisma. Auknar vinsældir þessarar hugmyndafræði og lífsháttar kalla á frekari rannsóknir til að bæta við þekkinguna á þessum ört stækkandi þjóðfélagshóp sem kallar sig grænkera. Ef mynstur síðustu ára heldur áfram munu vinsældir veganisma aukast og grænkerar munu halda áfram að draga í efa viðmið samfélagsins um tengsl manna og dýra.

  • 25

    Heimildir Adams, C.J. (1999). The Social Construction of Edible Bodies and Humans as Predators. Í Walters, K.S & Portness, L. (ritstj.), Ethical Vegetarianism: From Pythagoras to Peter Singer (bls. 247–251). Albany: State University of New York Press.

    Asher, K. & Cherry, E. (2015). Home Is Where the Food Is: Barriers to Vegetarianism and Veganism in the Domestic Sphere. Journal for Critical Animal Studies 13(1), 66–91.

    Anna Berg Samúelsdóttir. (2015). Íslenskur landbúnaður og velferð búfjár: Viðhorf almennings, birtingarmynd hagsmunaaðila og kauphegðun neytenda. (óútgefin meistaraprófsritgerð). Háskóli Íslands, Reykjavík. http://hdl.handle.net/1946/23106

    Aristóteles. (2018). Siðfræði Níkomakkosar (Svavar Hrafn Svavarsson, þýð.). Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag.

    Ásta Karen Kristjánsdóttir. (2017). Vegan matvörur: Hver eru kaupáform neytenda og skiptir siðferðiskennd máli? (óútgefin meistaraprófsritgerð). Háskóli Íslands, Reykjavík. http://hdl.handle.net/1946/26918

    Birna Sigrún Hallsdóttir & Stefán Gíslason. (2017). Losun gróðurhúsalofttegunda frá sauðfjárbúum á Íslandi og aðgerðir til að draga úr losun. Borgarnes: Umhverfisráðgjöf Íslands ehf./Environice

    Björgvin Brynjarsson, Börkur Smári Kristinsson & Eva Yngvadóttir. (2020). Kolefnisspor nautgriparæktar á Íslandi 2018. Reykjavík: Efla.

    Brondizio, E.S., Settele, J., Díaz, S., & Ngo, H.T. (ritstj.) (2019). Global assessment report on biodiversity and ecosystem services of the Intergovernmental Science-Policy Platform on Biodiversity and Ecosystem Services. Bonn: IPBES.

    Cole, M. & Morgan, K. (2011). Vegaphobia: derogatory discourses of veganism and the reproduction of speciesism in UK national newspapers. The British Journal of Sociology 62(1), 134–153. doi: 10.1111/j.1468-4446.2010.01348.x

    Corrin, T. & Papadopoulos, A. (2017). Understanding the attitudes and perceptions of vegetarian and plant-based diets to shape future health promotion programs. Appetite, 109, 40–47. doi.org/10.1016/j.appet.2016.11.018

    Cunningham, E. (2004). What is a raw foods diet and are there any risks or benefits associated with it? Journal of the American Dietetic Association 104(10), 1623. doi:10.1016/j.jada.2004.08.016

  • 26

    Curry, P. (2011). Ecological Ethics: An Introduction. Cambridge: Polity Press.

    Curtin, D. (1999). Contextual Moral Vegetarianism. Í Walters, K.S & Portness, L. (ritstj.), Ethical Vegetarianism: From Pythagoras to Peter Singer (bls. 241–245). Albany: State University of New York Press.

    Hayley, A., Zinkiewicz, L. & Hardiman, K. (2015). Values, attitudes, and frequency of meat consumption. Predicting meat-reduced diet in Australians. Appetite 84, 98– 106. doi.org/10.1016/j.appet.2014.10.002

    Hertwich, E., van der Voet, E., Suh, S., Tukker, A., Huijbregts M., Kazmierczyk, P., Lenzen, M., McNeely, J. & Moriguchi, Y. (2010) Assessing the Environmental Impacts of Consumption and Production: Priority Products and Materials, A Report of the Working Group on the Environmental Impacts of Products and Materials to the International Panel for Sustainable Resource Management. UNEP.

    IPCC. (2019). Climate Change and Land: an IPCC special report on climate change, desertification, land degradation, sustainable land management, food security, and greenhouse gas fluxes in terrestrial ecosystems - Summary for Policymakers. Sótt af https://reliefweb.int/sites/reliefweb.int/files/resources/4.SPM_Approved_ Microsite_FINAL.pdf

    Janssen, M., Busch, C., Rödiger, M. & Hamm, U. (2016). Motives of consumers following a vegan diet and their attitudes towards animal agriculture. Appetite, 105, 643–651.

    Johnston, B.C., Zeraatkar, D., Han, M.A., Vernooij, R.W.M., Valli, C., Dib, R.E., ... Guyatt, G.H. (2019). Unprocessed Red Meat and Processed Meat Consumption: Dietary Guideline Recommendations From the Nutritional Recommendations (NutriRECS) Consortium. Annals of Internal Medicine 171(10), 756–764. doi: https://doi.org/10.7326/M19-1621

    Judge, M. & Wilson, M.S. (2019). A dual-process motivational model of attitudes towards vegetarians and vegans. European Journal of Social Psychology 49(1), 169–178. doi: 10.1002/ejsp.2386

    Kant, I. (2003). Grundvöllur að frumspeki siðlegrar breytni (Guðmundur Heiðar Frímannsson, þýð.). Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag. (Frumútgáfa 1985)

    Lappé, F.M. (1999). Like Driving a Cadillac. Í Walters, K.S & Portness, L. (ritstj.), Ethical Vegetarianism: From Pythagoras to Peter Singer (bls. 209–219). Albany: State University of New York Press.

    MacInnis, C.C. & Hodson, G. (2017). It ain't easy eating greens: Evidence of bias toward vegetarians and vegans from both source and target. Group Processes & Intergroup Relations 20(6), 721–744. doi: 10.1177/1368430215618253

  • 27

    Markowski, K.L. & Roxburgh, S. (2019). “If I became a vegan, my family and friends would hate me:” Anticipating vegan stigma as a barrier to plant-based diets. Appetite 135, 1–9. doi.org/10.1016/j.appet.2018.12.040

    Magalhães, B., Peleteiro, B. & Lunet, N. (2012). Dietary patterns and colorectal cancer: systematic review and meta-analysis. European Journal of Cancer Prevention 21(1), 15–23. doi: 10.1097/CEJ.0b013e3283472241.

    Mäkiniemi, J. & Vainio, A. (2014). Barriers to climate-friendly food choices among young adults in Finland. Appetite, 74, 12–19. https://doi.org/10.1016/j.appet.2013.11.016

    Mill, J. S. (1998). Nytjastefnan. (Gunnar Ragnarsson, þýð.). Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag. (Frumútgáfa 1871)

    Niva, M., Vainio, A. & Jallinoja, P. (2017). Barriers to Increasing Plant Protein Consumption in Western Populations, Vegetarian and Plant-Based Diets in Health and Disease Prevention, 157–171. https://doi.org/10.1016/B978-0-12-803968- 7.00010-1.

    Nicholson, R.A. (1921). Studies in Islamic Poetry. Cambridge: Cambridge University Press.

    Parker, J. (2019). The Year of the Vegan: Where Millennials Lead, Businesses and Governments Will Follow. The Economist. Sótt af https://worldin2019. economist.com/theyearofthevegan

    Pohjolainen, P., Vinnari, M. & Jokinen, P. (2015), Consumers’ perceived barriers to following a plant-based diet. British Food Journal, 117(3), 1150–1167. doi.org/10.1108/BFJ-09-2013-0252

    Poore, J. & Nemecek, T. (2018). Reducing food’s environmental impacts through producers and consumers. Science 360(6392), 987–992. doi: 10.1126/science.aaq0216

    Regan, T. (1999). The Moral Basis of Vegetarianism. Í Walters, K.S & Portness, L. (ritstj.), Ethical Vegetarianism: From Pythagoras to Peter Singer (bls. 153–163). Albany: State University of New York Press.

    Reynir Már Ásgeirsson. (2014). Grænmetishyggja: Viðhorf og háttsemi Íslendinga er varðar neyslu grænmetisfæðis sem aðalmáltíðar dagsins. (óútgefin meistaraprófsritgerð). Háskóli Íslands, Reykjavík. http://hdl.handle.net/1946/19800

    Rosenfeld, D. L., Rothgerber, H. & Tomiyama, A. J. (2020). Mostly Vegetarian, But Flexible About It: Investigating How Meat-Reducers Express Social Identity Around Their Diets. Social Psychological and Personality Science 11(3), 406– 415. doi: 10.1177/1948550619869619

  • 28

    Samour, P. Q. & King, K. (2003). Handbook of Pediatric Nutrition. Sadbury, Jones & Bartlett Publishers. Samtök grænkera á Íslandi. (á.á.). Samtök grænkera á Ísland. Sótt 12. febrúar 2020 af http://www.graenkeri.is/ Shelley, P. B. (1954). A Vindication of Natural Diet. Í Clark, D. L. (ritstj.), Shelley’s Prose, or The Trumpet of a Prophecy. (bls. 83-84, 85-88, 90). Albequerque, N.M.: University of New Mexico Press.

    Singer, P. (1975). Animal Liberation: A New Ethics for Our Treatment of Animals. Bandaríkin, HarperCollins.

    Talaei, M., Wang, Y., Yuan, J., Pan, A. & Koh, W. (2017). Meat, Dietary Heme Iron, and Risk of Type 2 Diabetes Mellitus. American Journal of Epidemiology 186(7), 824– 833. doi: 10.1093/aje/kwx156

    Thalheimer, J. C. (2015). The Pescetarian Diet. Today’s Dietitian 17(4), 32.

    The Vegan Society. (á.á.). History. Sótt 13. nóvember 2019 af https://www.vegansociety.com/about-us/history

    The Vegan Society. (2014). Ripened by Human Determination: 70 Years of the Vegan Society. Sótt 5. maí 2020 af https://www.vegansociety.com/sites/default/files/ uploads/Ripened%20by%20human%20determination.pdf

    Tilbürger, L. & Kale, C. P. (2014). ‘Nailing Descartes to the Wall’: animal rights, veganism and punk culture. Active Distribution. Sótt af https://theanarchistlibrary.org/library/len-tilburger-and-chris-p-kale-nailing- descartes-to-the-wall-animal-rights-veganism-and-punk-cu

    Walters, K.S. & Portmess, L. (ritstj.) (1999). Ethical Vegetarianism: From Pythagoras to Peter Singer. Albany: State University of New York Press.

    Wang, Z., Bergeron, N., Levison, B.S., Li, X.S., Chiu, S., Jia, X., ... Hazen, S.L. (2019). Impact of chronic dietary red meat, white meat, or non-meat protein on trimethylamine N-oxide metabolism and renal excretion in healthy men and women. European Heart Journal 40(7), 583–594. doi: 10.1093/eurheartj/ehy799.

    Wenz, P. S. (1999). An Ecological Argument for Vegetarianism. Í Walters, K.S & Portness, L. (ritstj.), Ethical Vegetarianism: From Pythagoras to Peter Singer (bls. 189–201). Albany: State University of New York Press.

    Wolfram, T. (2018, 1. október). Vegetarianism: The Basic Facts. Sótt af https://www.eatright.org/food/nutrition/vegetarian-and-special-diets/vegetarianism- the-basic-facts

  • 29

    World Health Organization. (2018, 23. október). Healthy Diet. Sótt af https://www.who.int/news-room/fact-sheets/detail/healthy-diet

    World Health Organization. (2015, október). Q&A on the carcinogenicity of the consumption of red meat and processed meat. Sótt 23. október 2019 af https://www.who.int/features/qa/cancer- red-meat/en/

    Wright, L. (2018). Introducing Vegan Studies. ISLE-Interdisciplinary Studies in Literature and Environment 24(4), 727–736. doi: 10.1093/isle/isx070

    Wynne-Tyson, J. (1999). Dietethics: Its Influnce on Future Farming Patterns. Í Walters, K.S & Portness, L. (ritstj.), Ethical Vegetarianism: From Pythagoras to Peter Singer (bls. 233–240). Albany: State University of New York Press.

  • 31

    Viðauki A – Kynningarbréf Sæl/l [Nafn],

    Ég er að gera viðtalsrannsókn um mataræði fyrir lokaritgerð í landfræði við Háskóla Íslands og ég óska eftir þátttöku þinni. [Nafn, tengsl] benti mér á þig sem mögulegan viðmælanda fyrir rannsóknina. Forsendurnar eru að þú fylgir ekki neinu sérstöku mataræði. Áætlað er að viðtalið muni taka um 40-60 mínútur og verður það hljóðritað. Fyllsta öryggis verður gætt við varðveislu gagna og þér heitið algjörum trúnaði og nafnleynd.

    Ef þú samþykkir að taka þátt í rannsókninni þá þarftu að veita skriflegt samþykki fyrir þátttöku á þar til gerða samþykkisyfirlýsingu, áður en viðtalið fer fram.

    Bestu kveðjur,

    Hannes Arason

  • 32

    Viðauki B – Yfirlýsing um upplýst samþykki fyrir þátttöku í rannsókn Rannsókn Hannesar Arasonar er lokaverkefni hans til B.Sc. prófs í landfræði við Háskóla Íslands. Það er unnið á vormisseri 2020 og er leiðbeinandi Edda R. H. Waage.

    Í rannsókninni eru viðhorf fólks til mataræðis tekin til skoðunar og byggir gagnaöflun á viðtölum við fólk sem fylgir almennu mataræði.

    Viðmælendum er heitið trúnaði, í því felst að farið verður með viðtalsgögnin sem trúnaðarmál. Einnig að í umfjöllun um rannsóknina og í niðurstöðum hennar verður nöfnum viðmælenda haldið leyndum, sem og öllum persónugreinanlegum upplýsingum. Viðtalið verður hljóðritað og fyllsta öryggis verður gætt við varðveislu gagna.

    Með undirskrift minni hér að neðan samþykki ég að taka þátt í ofangreindri rannsókn af fúsum og frjálsum vilja.

    __________________________ ____________________________

    Dagsetning Nafn þátttakanda

  • 33

    Viðauki C – Viðtalsrammi • Lýsing á eigin mataræði • Straumar og stefnur í mataræði • ↳ Veganismi • Þekkirðu grænkera? • Ástæður fyrir veganisma

    o Siðferðisástæður o Umhverfismál o Heilsufar

    • Hugmyndafræði veganisma • Búskapur á Íslandi