Rakaskemmdir í íslensku íbúðahúsnæði Þór...Vatn er forsenda lífs og það hefur mikið...

44
BSc í Byggingartæknifræði Rakaskemmdir í íslensku íbúðahúsnæði Orsakir rakaskemmda og afleiðingar þeirra Samantekt á skoðunarskýrslum Nóvember, 2019 Nafn nemanda: Arnar Þór Hrólfsson Kennitala: 110268 3519 Leiðbeinendur: Eiríkur Ástvald Magnússon og Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir 24 ECTS ritgerð til BSc í Byggingartæknifræði

Transcript of Rakaskemmdir í íslensku íbúðahúsnæði Þór...Vatn er forsenda lífs og það hefur mikið...

  • BSc í Byggingartæknifræði

    Rakaskemmdir í íslensku íbúðahúsnæði

    Orsakir rakaskemmda og afleiðingar þeirra

    Samantekt á skoðunarskýrslum

    Nóvember, 2019

    Nafn nemanda: Arnar Þór Hrólfsson

    Kennitala: 110268 – 3519

    Leiðbeinendur: Eiríkur Ástvald Magnússon og Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir

    24 ECTS ritgerð til BSc í Byggingartæknifræði

  • Háskólinn í Reykjavík

    Tækni- og verkfræðideild

    Tækni- og verkfræðideild

    Heiti verkefnis:

    Rakaskemmdir í íslensku íbúðahúsnæði

    Námsbraut: Tegund verkefnis:

    Byggingartæknifræði

    Lokaverkefni

    Önn: Námskeið: Ágrip:

    Haustönn 2019

    BTLOK 1012

    Tilgangur þessa verkefnis er að greina það hverjar

    helstu orsakir rakaskemmda eru í íbúðarhúsnæði

    hérlendis auk þess að kortleggja í hvaða hluta

    húsnæðis rakaskemmdir koma helst fram.

    Í þessu skyni voru teknar 150 skoðunarskýrslur frá

    Verkfræðistofunni Eflu en þær höfðu að geyma

    greiningu á rakavandamálum húsa.

    Helstu orsakir reyndust í réttri röð vera gluggar og

    útihurðir, vatnsvörn baðherbergja, þök og síðan

    notkun íbúa eða hegðun þeirra í húsnæðinu.

    Þeir hlutar húsnæðis þar sem rakaskemmdir komu

    helst fram reyndust í réttri röð vera útveggir, gólf og

    baðherbergi.

    Höfundur:

    Arnar Þór Hrólfsson

    Umsjónarkennari:

    Guðbrandur Steinþórsson

    Leiðbeinendur:

    Eiríkur Ástvald Magnússon

    Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir

    Fyrirtæki/stofnun:

    Verkfræðistofan Efla ehf

    Dagsetning: Lykilorð íslensk: Lykilorð ensk:

    29.11 2019 Rakaskemmdir

    Orsakir rakaskemmda

    Afleiðingar rakaskemmda

    Dreifing:

    opin lokuð til:

    X

  • 1

    Efnisyfirlit Formáli ..................................................................................................................................................... 2

    Töfluskrá .................................................................................................................................................. 3

    Myndaskrá ............................................................................................................................................... 4

    1 Inngangur ........................................................................................................................................ 5

    1.1 Rannsóknin .............................................................................................................................. 7

    1.2 Staða þekkingar ....................................................................................................................... 7

    2 Aðferðir.......................................................................................................................................... 10

    2.1 Heimilisskoðanir Eflu ............................................................................................................. 10

    2.2 Skráningin .............................................................................................................................. 11

    2.2.1 Skráning orsaka. ............................................................................................................ 13

    2.2.2 Skráning rakaskemmda. ................................................................................................ 15

    3 Niðurstöður ................................................................................................................................... 17

    3.1 Aldursdreifing íbúðahúsnæðis ............................................................................................... 17

    3.2 Orsakir rakaskemmda ............................................................................................................ 19

    3.3 Sjáanlegar rakaskemmdir ...................................................................................................... 28

    3.4 Þök ......................................................................................................................................... 29

    4 Umfjöllun ....................................................................................................................................... 30

    4.1 Gluggar og útihurðir .............................................................................................................. 30

    4.2 Vatnsvörn baðherbergja ........................................................................................................ 31

    4.3 Þök ......................................................................................................................................... 33

    4.4 Notkun ................................................................................................................................... 34

    4.5 Útveggir ................................................................................................................................. 34

    4.6 Lagnir ..................................................................................................................................... 36

    4.7 Dren (Þerrilagnir) ................................................................................................................... 36

    4.8 Annað (Loftlúgur) .................................................................................................................. 36

    5 Samantekt...................................................................................................................................... 37

    6 Lokaorð .......................................................................................................................................... 38

    7 Heimildir ........................................................................................................................................ 39

    Viðauki ................................................................................................................................................... 41

  • 2

    Höfundur hefur lengi unnið í byggingariðnaði, bæði í nýbyggingum og einnig í

    viðhaldi og endurnýjun eldra húsnæðis. Á síðustu árum hafa verkefni, tengd

    rakaskemmdum orðið æ algengari viðfangsefni og hefur það aukið áhuga höfundar á

    ástandi íbúðarhúsnæðis. Þegar svo tækifæri gafst, með ritgerðarsmíð að leggjast í

    rannsóknarvinnu þeirra atriða sem helst valda húseigendum vanda var ekki hægt að

    standast freistinguna. Það sem hér er skráð er ekki stórt innlegg í umræðuna en

    varpar vonandi ljósi á hluta vandans.

    Leiðbeinendum mínum, Eiríki Ástvald Magnússyni og Sylgju Dögg Sigurjónsdóttur

    þakka ég af öllu hjarta fyrir stuðning, leiðbeiningar, jákvæðni og allt annað sem þau

    veittu mér svo verkefnið gæti orðið að veruleika.

    Ættingjum mínum þakka ég kærlega fyrir stuðning, hjálp og skilning á meðan

    verkefnið var í vinnslu.

    FORMÁLI

  • 3

    Tafla 1 – Orsakir rakaskemmda. ...................................................................................................... 13

    Tafla 2 – Greinanlegar rakaskemmdir. ............................................................................................ 15

    Tafla 3 – Fjöldi og aldur eigna. ......................................................................................................... 29

    TÖFLUSKRÁ

  • 4

    Mynd 1 –Spírunartími og vaxtarhraði myglusvepps. ....................................................................... 6

    Mynd 2 – Aldursdreifing eigna. ......................................................................................................... 17

    Mynd 3 - Ummerki og orsakir rakaskemmda á hverja íbúðareiningu. ....................................... 18

    Mynd 4 - Ástæður aukins raka. ......................................................................................................... 19

    Mynd 5 - Rakaskemmdir af völdum drens. ..................................................................................... 20

    Mynd 6 - Rakaskemmdir af völdum útveggja. ................................................................................ 21

    Mynd 7 - Rakaskemmdir af völdum þaka. ...................................................................................... 22

    Mynd 8 - Rakaskemmdir af völdum glugga og útihurða. .............................................................. 23

    Mynd 9 - Rakaskemmdir vegna vatnsvarnar baðherbergis. ........................................................ 24

    Mynd 10 - Rakaskemmdir af völdum lagna. ................................................................................... 25

    Mynd 11 - Rakaskemmdir vegna umgengni íbúa. ......................................................................... 26

    Mynd 12 - Rakaskemmdir af öðrum orsökum. ............................................................................... 27

    Mynd 13 - Ummerki um rakaskemmdir. .......................................................................................... 28

    Mynd 14 - Dæmi um skráðar upplýsingar um íbúðir. .................................................................... 42

    Mynd 15 - Dæmi um skráðar upplýsingar um rakaskemmdir og orsakir þeirra. ....................... 42

    MYNDASKRÁ

  • 5

    Hnötturinn okkar er undirlagður af vatni. Fyrir utan það að heimshöfin þekja nær 71%

    af yfirborði jarðar þá höfum við stöðuvötn, ár og fljót auk skýja á himni og raka í

    andrúmslofti svo það helsta sé upp talið.

    Tilvist vatns, hvort sem það er á föstu formi sem ís, fljótandi formi sem vatn eða

    saltvatn eins og reyndin er með úthöfin og mörg innhöf eða í gufuformi í

    andrúmsloftinu er jákvæð þar sem ekkert líf gæti þrifist á jörðinni án þess.

    Vatn er forsenda lífs og það hefur mikið afl til að bera. Brim sverfur strendur, ár móta

    landslag, skriðjöklar sverfa yfirborð jarðarinnar og svo mætti lengi telja. Raki eða

    vatnsgufa í lofti getur líka haft mikil áhrif á umhverfið þótt það sé með öðrum og

    minna áberandi hætti.

    Í nútímanum hafa vesturlandabúar vanist mikilli vatnsnotkun á heimilum sínum. Við

    íslendingar erum ekki eftirbátar annarra í þessum efnum heldur höfum farið fram úr

    flestum ef ekki öllum öðrum þjóðum á þessu sviði (Jónas o.fl., 2011). Miklu magni

    vatns fylgir ekki aðeins mikið af rennandi vatni heldur einnig mikið af vatnsgufu í lofti

    en það hefur það í för með sér að vatn er alls staðar í einhverjum mæli.

    Það mæðir mikið á venjulegu nútímaheimili vegna vatns. Það sem venjulegt heimili

    þarf að þola er meðal annars vatnsnotkun vegna baðferða, þvotta á leirtaui, gólfum

    og fatnaði, matseldar og margs fleira. Þá er ótalið ytra álag á húsnæði af völdum

    veðurs sem reynir á veðurkápu hússins auk jarðvatns sem hefur tilhneigingu til að

    valda tjóni á undirstöðum húsa. Til viðbótar ofantöldu þá hefur nærvera íbúa ein og

    sér í för með sér að rakamyndun eykst. Frá íbúum koma vatngufur sem eru

    einfaldlega uppgufun af húð og þennan raka ætti ekki að vanmeta.

    Ísland hefur þá sérstöðu meðal þjóða að mikill meirihluti húsa landsins eru á

    svokölluðum heitum svæðum en með því er átt við að heitt jarðvatn er notað beint

    eða óbeint til að hita húsnæði (Orkusetur - Húshitun, 2017). Þetta á meðal annars við

    um allt húsnæði á höfuðborgarsvæðinu.

    Ekki er gott að losna við allan loftraka úr húsnæði. Það hefur í för með sér að íbúum

    líður illa. Æskilegur loftraki innilofts er á bilinu 30-50% (Raki í húsum, 2006). Allt er

    gott í hófi. Ekki er gott að vera laus við allan raka en ef hann verður of mikill er verið

    að búa til aðstæður sem geta leitt til stórra vandamála.

    Myglugró eru alls staðar en mygla er nauðsynlegur hluti náttúrunnar því að án hennar

    myndi ekkert lífrænt niðurbrot eiga sér stað. Myglugró svífa um í andrúmsloftinu. Ekki

    bara utandyra heldur berast þau einnig inn í híbýli okkar. Þegar hús eru í byggingu

    1 INNGANGUR

  • 6

    lokast þessi gró eðlilega inni í byggingarhlutum. Við því er lítið að gera auk þess sem

    það kemur ekki að sök svo lengi sem kringumstæður eru réttar.

    Myglugró þurfa ákveðnar aðstæður til þess að þrífast og dafna. Passlegur hiti þarf að

    vera til staðar og hiti inni á íslenskum heimilum skapar góðar aðstæður að því leyti.

    Af fæðu er yfirleitt ofgnótt. Allskyns lífræn efni, lím undir gólfdúkum, timburvörur

    ýmiss konar, bréfið sem heldur saman gifsplötunum á veggjunum og svo mætti lengi

    telja. Það tvennt sem búið er að nefna er alltaf til staðar en það er þriðja forsendan

    sem hægt er að hafa stjórn á. Hlutfallsraki þarf að vera að lágmarki um 70% til að

    mygluvöxtur eigi sér stað (Morse et al., 2014).

    Mynd 1 –Spírunartími og vaxtarhraði myglusvepps (Morse et al., 2014).

    Loftraka og efnisraka má reyna að halda niðri en ef rakastigið verður of hátt byrja

    vandræðin. Byggingarefni eru mismunandi rakadræg og rakaþolin. Sum efni eins og

    pappi á venjulegum gipsplötum drekka auðveldlega í sig raka og eru að auki

    úrvalsfæða fyrir mygluna á meðan gler er það ekki. Mygla getur þó þrifist í

    óhreinindum á glerrúðum.

    Af einhverri ástæðu er ekkert svo langt síðan umræða um þessi efni byrjaði að

    heyrast. Um síðustu aldamót könnuðust fáir við mygluvandamál í híbýlum og þegar

    umræða fór af stað litu margir á þetta málefni sem hjátrú eða ranghugmyndir. Í dag er

    þetta að verða viðurkennt og stórt vandamál. Mygluvöxt má finna ótrúlega víða inni í

    húsum þar sem hann á alls ekki að eiga sér stað. Sem dæmi um þá viðurkenningu

    sem þetta viðfangsefni er að fá má nefna skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um

    raka og myglu í innilofti (WHO, 2009) auk nýlegs viðtals við landlækni (Ásrún Brynja

    Ingvarsdóttir, 2019) þar sem tilkynnt var um stofnun fagráðs sem ætlað verður að

    draga saman upplýsingar um myglu þannig að þær verði aðgengilegar.

    Ekki er einfalt að benda á orsökina fyrir þessum umskiptum. Er ástæðan sú að hús

    eru orðin þéttari þannig að loftun byggingarhluta hafi minnkað? Eru notuð

    byggingarefni sem eru mygluvænni en þau sem áður tíðkuðust? Er fólk einfaldlega

    viðkvæmara í dag en fyrir þrjátíu árum?

  • 7

    1.1 Rannsóknin

    Markmiðið með þessari rannsókn er að greina þá þætti sem helst valda

    rakaskemmdum í íslensku íbúðarhúsnæði auk þess að skrá í hvaða hluta húsnæðis

    rakaskemmdir koma helst fram.

    Með því að tengja saman hvað veldur vandamálum varðandi rakabúskap og hverjar

    afleiðingarnar eru má sjá samhengi sem gæti nýst sem eitt innlegg af mörgum í því

    þróunarferli sem stöðugt er í gangi í þá átt að byggt sé íbúðarhúsnæði sem betur er

    fallið til íveru og endist betur.

    Hvatinn að þessari rannsókn er sá mikli skaði sem of mikill raki getur haft í för með

    sér. Hér er verið að hugsa tvö svið þar sem tjón verður áþreifanlegt. Annars vegar er

    það fjárhagslegt tjón þegar húsnæði þarfnast endurbóta vegna rakaskemmda. Þetta

    tjón má reikna út. Hins vegar er það heilsutjón þeirra sem búa í húsnæðinu. Ef íbúi

    verður fyrir heilsuskerðingu vegna heilsuspillandi húsnæðis er viðbúið að auk

    persónulegs tekjutaps hljóti þjóðarbúið minna framlag úr hendi íbúans í formi

    skatttekna en stærsta tjónið hlýtur að vera skert heilsa íbúans sem rýrir lífsgæði hans

    umtalsvert. Lakara heilsufar verður ekki auðveldlega metið til fjár.

    Innan verkfræðistofunnar Eflu er starfrækt deild, Hús og Heilsa, sem hefur sérhæft

    sig í rannsóknum rakavandamála. Meðal margs annars sem fengist er við innan

    deildarinnar eru svokallaðar heimilisskoðanir en þá er farið í íbúðarhúsnæði og

    framkvæmd skoðun með áherslu á hækkað rakastig og orsakir þess. Í framhaldinu

    eru útbúnar skoðunarskýrslur með niðurstöðum sem húseigandi fær í hendur.

    Í rannsókninni verður byggt á þessum skýrslum. 150 skýrslur verða rýndar og unnar

    úr þeim upplýsingar um orsakir og afleiðingar rakaskemmda. Í framhaldinu verður

    farið í greiningu og niðurstöður settar fram.

    Þær niðurstöður sem skýrslan inniheldur eru ekki vísbendingar um almennt ástand

    húsa á Íslandi því yfirleitt er verið að skoða húsnæði þar sem búast má við að

    rakavandamál séu til staðar. Ekki er gerð nein tilraun til að meta heildarumfang

    rakaskemmda.

    1.2 Staða þekkingar

    Þar sem hús þau sem verða hér til skoðunar eru öll byggð á tuttugustu öldinni eða á

    þeim árum sem liðin eru af þessari öld verður fyrst farið örstutt yfir þróun

    íbúðarhúsnæðis á tímabilinu.

  • 8

    Í byrjun tuttugustu aldarinnar voru timburhús algengust sem íbúðarhúsnæði í þéttbýli

    á Íslandi. Þau voru ýmist reist á hlöðnum eða steyptum undirstöðum. Eftir tvo

    stórbruna á Akureyri og brunann mikla í Reykjavík árið 1915 má segja að öld

    steinsteypunnar hafi gengið í garð. Þó var eitthvað byggt áfram af litlu íbúðarhúsnæði

    úr timbri (Guðmundur L. Hafsteinsson, e.d.). Steinsteypan er þó ráðandi

    byggingarefni í dag (Björn Marteinsson, 2008).

    Íbúðarhús sem eru í notkun í dag eru uppbyggð á margvíslegan hátt og í raun varla

    framkvæmanlegt að gera grein fyrir öllum þeim fjölbreytileika sem er til staðar. Ýmis

    byggingarefni hafa verið notuð. Til dæmis hafa hús verið hlaðin úr holsteini og önnur

    verið klædd að utan með múrsteinum.

    Þó hefur ráðandi veggjagerð síðustu öld verið steyptir veggir. Steyptir veggirnir voru

    lengi vel oftast múrhúðaðir að utan en að innan einangraðir og innan á einangrunina

    var síðan yfirleitt pússað. Veggur sem er byggður upp á þennan hátt eru oft kallaður

    Íslenski útveggurinn (Björn Marteinsson, 2008). Hafi veggir þessa uppbyggingu er

    steinsteypan sem er hluti af burðarvirki hússins og rakadræg að auki orðin hluti af

    veðurhjúp byggingarinnar.

    Algengasta útfærsla þaka á íbúðarhúsnæði er síðan annað hvort létt timburþak borið

    uppi af sperrum eða uppstólað þak en þá er sperruvirki þaksins reist á steyptri

    loftaplötu hússins.

    Á þessari öld virðast hafa orðið nokkrar breytingar hvað varðar uppbyggingu veggja

    og þaka. Tvö atriði verða hér nefnd. Annars vegar færist það í vöxt að steyptir veggir

    séu einangraðir að utan og síðan klæddir. Með þessu móti er steypan komin í nokkuð

    gott skjól gegn veðri og vindum. Hitt atriðið er að flöt þök eru að verða algengari en

    það eru þök sem eru aðeins með litlum vatnshalla. Þessi þök geta hvort heldur verið

    steypt eða byggð upp með sperruvirki. Oftast gengur kantur upp fyrir þessi þök og

    rammar þau inn þannig að úrkomu þarf að fjarlægja með aðstoð niðurfalla eða á

    annan hátt.

    Raki í húseignum á sér þrjár meginástæður en þær eru byggingaraki, utanaðkomandi

    rakaálag og raki í innilofti (Raki í húsum, 2006). Byggingaraki er sá raki sem er í

    byggingu frá því að hún var reist. Sem dæmi má nefna vatn sem er að þorna út úr

    steypu, timbur í þakvirki sem er rakamettað þar sem það var geymt úti á

    byggingartíma hússins og þannig mætti áfram telja. Með utanaðkomandi rakaálagi er

    átt við úrkomu úr lofti og raka í jarðvegi. Raki í innilofti kemur síðan ekki síst vegna

    viðveru íbúa en þeir geta valdið rakaálagi með viðveru sinni og þar má nefna þrif,

    matargerð og margt annað.

    Raki hefur áhrif á ástand húsnæðis og hversu gott það er til búsetu. Tvær kannanir

    hafa verið framkvæmdar hérlendis af Birni Marteinssyni þar sem sendir hafa verið út

    spurningalistar varðandi ástand húsa og nú er þriðja könnunin í gangi. Samkvæmt

    könnun númer tvö sem framkvæmd var árin 2005-2006 eru rakavandamál algeng í

    íslenskum húsum frá öllum tímabilum (Iðan, 2013). Fram kemur að í húsum sem

  • 9

    byggð voru á seinni hluta tuttugustu aldar eru rakavandamál í 43-70%

    íbúðarhúsnæðis. Niðurstöðum er skipt eftir áratugum og er prósentan breytileg eftir

    tímabilum. Sé litið á hús byggð á þessari öld kemur fram að tíðni rakavandamála er

    30%. Þar sem könnunin var framkvæmd árin 2005-2006 voru þessi hús í mesta lagi 5

    ára gömul.

    Norsk samantekt sem byggist á gögnum frá árunum 1993-2002 leiðir í ljós að yfir

    70% vandamála í byggingum eru vegna raka (Byggforskserien, 2010). Samkvæmt

    samantekt tryggingafélags sem hefur skoðað yfir tíu þúsund heimili í Noregi finnast

    rakavandamál í 31% íbúða (Becker et al, 2017). Þar af teljast 4% íbúða ónothæfar til

    íveru. Þegar athuguð er finnsk könnun þar sem 450 hús voru skoðuð af

    verkfræðingum var niðurstaðan sú að rakavandamál fundust í 55% þeirra eigna sem

    skoðaðar voru (Nevalainen et al, 1998). Margar fleiri slíkar skoðanir og rannsóknir

    finnast og verður að telja víst að rakavandamál í húsum séu víða og eitthvað sem

    þarf að horfast í augu við.

    Í 10. kafla núgildandi byggingarreglugerðar eru komin nokkuð ýtarleg ákvæði um að

    mannvirki skuli þannig hönnuð og byggð að vatn og raki hafi hvorki skaðleg áhrif á

    mannvirkið sjálft né notendur þess (Byggingarreglugerð, 2012). Þarna er kveðið

    nokkuð sterkar að orði en í fyrri reglugerðum.

    Árið 2009 gaf Alþjóðaheilbrigðisstofnunin út viðamikla skýrslu um gæði innilofts

    (WHO, 2009) þar sem sérfræðingar víðs vegar að úr heiminum fóru yfir heimildir og

    söfnuðu saman gögnum varðandi raka og myglu í húsnæði. Þar kemur fram að of

    hátt rakastig stuðlar að vexti myglu, baktería og annarra örvera. Einnig kemur þar

    fram að raki eykur líkur á útgufun rokgjarnra lífrænna efnasambanda (VOC) úr

    byggingarefnum. Í skýrslunni segir ennfremur að þessar aðstæður, það er raki og

    mygla, séu heilsuspillandi. Í skýrslunni er því haldið fram að 10-50% húsa á

    heimsvísu séu þjökuð af rakavandamálum.

    Myglusveppir eru hópur innan fylkingar sveppa. Ólíkt plöntum lifa þeir eingöngu á

    næringu úr umhverfi sínu. Með starfsemi sinni vinna myglusveppir að niðurbroti eða

    rotnun lífvera og örva þannig eðlilega endurnýjun náttúrunnar. Þeir eru því

    nauðsynlegur hluti af umhverfinu. Sveppir fjölga sér með því að gefa frá sér gró sem

    berast milli staða. Meðal annars berast gró í andrúmslofti og eru því alls staðar í

    kringum okkur hvort heldur er úti eða inni (UST, 2015). Gró sem berast inn í hús eru

    engum til tjóns svo lengi sem raki er ekki of mikill. Fari rakinn hins vegar yfir ákveðin

    mörk spíra gróin og mygla byrjar að vaxa.

    Mygla eða myglusveppir gefa frá sér efni sem geta verkað á ýmsan hátt á

    líkamsstarfsemi manna. Meðal þeirra áhrifa sem þessi úrgangsefni geta valdið eru

    astmi, ofnæmisviðbrögð og annars konar einkenni eitrunar (UST, 2015).

    Astmi og ofnæmisviðbrögð eru þau orð sem oftast eru notuð í skýrslum og umfjöllun

    um einkenni íbúa sem búa í of röku húsnæði. Íbúar sjálfir lýsa aftur á móti

    langvarandi veikindum og vanlíðan af ýmsu tagi.

  • 10

    2.1 Heimilisskoðanir Eflu

    Heimilisskoðanir Eflu eru framkvæmdar í þeim tilgangi að finna hugsanleg

    rakavandamál og leita orsaka þeirra. Í flestum tilfellum er það þannig að íbúar fá

    skoðun á húsnæði vegna gruns eða vissu um að vandamál séu til staðar. Þegar

    óskað hefur verið eftir skoðun er verkferlum fylgt. Eftir ákveðinn undirbúning mætir

    skoðunarmaður á staðinn. Hver skoðun tekur eina klukkustund. Almennt er gert ráð

    fyrir að farið sé yfir húseignina sem er til skoðunar og þá með mesta áherslu á

    votrými og önnur svæði þar sem mestar líkur eru á rakavandamálum. Stundum er

    það samt svo að íbúi hefur bara ákveðin atriði í huga sem hann vill að

    skoðunarmaður líti á. Eins getur líka verið að íbúi vilji ekki að ákveðin rými séu

    skoðuð og þá er það að sjálfsögðu virt.

    Það skal tekið fram að við heimilisskoðun er leitað eftir ummerkjum um aukinn raka.

    Ekki er beinlínis verið að leita að myglu en sjáist hún er nokkuð ljóst að rakastig er of

    hátt. Skoðun fer þannig fram að farið er yfir svæði með sjónskoðun og jafnvel notuð

    lýsing til að leita að rakaummerkjum. Ef ástæða þykir til er notaður snertirakamælir af

    gerðinni Protimeter Surveymaster til nánari skoðunar. Rakasvæði eru þá kortlögð

    með viðmiðunarmælingum. Snertirakamælar mæla þó ekki rakastigið heldur gefa þeir

    upp gildi á bilinu 1-100. Mælt er á stað sem er talinn vera þurr eða í eðlilegu

    rakaástandi og síðan á þeim stað þar sem búist er við meiri raka og þannig fæst

    samanburður sem er góð vísbending um hvort vandamál eru til staðar. Eftir hverja

    heimsókn fær íbúi síðan í hendur skýrslu þar sem tiltekið er hvað var skoðað, á

    hvaða hátt skoðun fór fram og hvað fannst. Verkferlar við heimilisskoðanir eru

    grundvallaðir á erlendum fyrirmyndum og hafa verið þróaðir áfram í samræmi við

    reynslu skoðunaraðila.

    Íbúi getur óskað eftir nánari skoðun ef talin er ástæða til. Þar getur verið um að ræða

    loftgæðamælingar, sýnatökur í rýmum eða af byggingaefnum, nákvæmari mælingu á

    raka með hlutfallsrakamæli og svo mætti lengi telja. Þegar hlutfallsrakamælir er

    notaður eru boruð göt í byggingarhluta og mælinum komið fyrir. Þannig fæst

    nákvæm mæling á rakastigi.

    2 AÐFERÐIR

  • 11

    2.2 Skráningin

    Höfundur greindi upplýsingar um 150 íbúðareiningar. Við skráningu voru notaðar

    skoðunarskýrslur frá árunum 2017 - 2019 úr safni Húss og Heilsu hjá Eflu

    verkfræðistofu.

    Skýrslurnar sem byggt er á eru af tvennum toga. Annars vegar skýrslur unnar í Excel

    og hins vegar skýrslur sem unnar eru í Ajour en það er meðfærilegt forrit sem hefur

    verið að festa sig í sessi síðustu árin og er mikið notað til eftirlits og við úttektir í

    byggingariðnaði. Í Ajour er meira um myndir og minna um útskýringar í textaformi.

    Skráning í Ajour er tiltölulega nýtilkomin en það veltur á skoðunarmanni hvor

    framsetningin er notuð.

    Í Excel skýrslunum er heimilisskoðunum lýst með texta. Útskýrt er hvaða hlutar húss

    eru skoðaðir. Auðvelt er að sjá hvort um er að ræða sjónskoðun, rakamælingar eða

    aðrar nálganir. Því er lýst hvort og þá hvaða rakaummerki finnast. Í Ajour skýrslunum

    eru aðallega settar fram myndir sem teknar voru þegar skoðun fór fram og síðan er

    texti við myndirnar til nánari skýringar. Vegna mismunandi framsetningar hóf

    höfundur verkið á því að skrá skýrslurnar í tvennu lagi og bar síðan niðurstöður

    saman. Við samanburð kom í ljós að niðurstöður þessara tveggja forma voru svo

    líkar að ákveðið var að sameina skráninguna í eitt gagnasafn.

    Áður en verkið hófst þurfti að setja upp form þannig að hægt væri að skrá upplýsingar

    á skipulegan hátt þannig að unnt yrði að vinna gögnin áfram, framkvæma greiningar

    og samantektir og fá niðurstöður.

    Farið var í gegnum nokkurt magn af skoðunarskýrslum til að athuga hvaða

    upplýsingar væri þar að finna og hvernig skráningu væri best fyrir komið. Fyrst var

    lagt af stað með skráningarform sem leiddi í ljós að ýmislegt var að hverri eign og

    orsakirnar gátu verið margvíslegar.

    Eftir nokkrar tilraunir var að lokum valið form sem hentaði rannsókninni. Í það voru

    fyrst skráðar ákveðnar upplýsingar um hverja eign og síðan tilgreind sjáanleg

    rakaummerki ásamt mögulegum orsökum þannig að hægt væri að tengja saman

    orsök og afleiðingar. Skráningar fóru fram í Excel og sjá má sýnishorn af

    skráningarforminu í viðauka 1 ásamt útskýringum.

    Eftir að formið hafði verið sett upp í Excel var hver og ein skýrsla skoðuð, greind og

    niðurstöður skráðar í gagnasafnið. Ákveðið var að skrá frekar meiri en minni

    upplýsingar þannig að sem mest af gögnum væru til staðar ef áhugi væri fyrir nánari

    skoðun eða greiningu á einhverjum atriðum sem seinna skytu upp kollinum.

    Fyrst var skráð heimilisfang ásamt póstnúmeri eignarinnar. Heimilisföng voru höfð

    með til hægðarauka þannig að hægt væri að endurskoða mat á einstökum eignum ef

    ástæða væri til. Að því kom í rannsókninni að ákveðið var að breyta skráningum ekki

    frekar og var heimilisföngum þá eytt út þannig að ekki væri hægt að tengja skráðar

    upplýsingar við ákveðið húsnæði. Næst var skráð byggingarár eða öllu heldur það ár

  • 12

    sem eign varð fokheld. Notast var við vef Þjóðskrár Íslands (Fasteignaleit) og þar sett

    inn heimilisfang viðkomandi eignar. Þannig var byggingarárið fundið. Byggingarár

    segir til um hvenær húsnæði er byggt. Sjaldnast er hægt að átta sig á hvort eða að

    hversu miklu leyti endurbætur hafa átt sér stað.

    Þar á eftir var tilgreint hvort um væri að ræða sérbýli eða fjölbýli. Sérbýli er ef eign

    stendur á botnplötu og hefur þak. Hér er um að ræða einbýlishús, parhús og raðhús.

    Eign telst í fjölbýli ef önnur íbúðareining er fyrir ofan eða neðan þá einingu sem er til

    skoðunar.

    Því næst var skráð hvernig uppbygging þaka væri. Ætlunin var að skoða hvort sjá

    mætti einhvern mun eftir tegundum. Þar sem einbýli voru sérstaklega merkt var hægt

    að tína öll einbýli út og skoða þök þeirra sérstaklega. Öll þökin reyndust vera af

    einhverri eftirfarandi gerða:

    1) Létt timburþak. Hallandi þak borið uppi af timbursperrum með klæðningu,

    þakpappa og veðurhjúp sem vanalega er bárujárn eða annað sambærilegt

    efni. Oft er einangrað á milli sperra.

    2) Uppstólað þak. Létt timburþak sem hefur verið reist á steyptri loftaplötu. Þá er

    þakinu veittur aukinn stuðningur með tengingum eða stólum milli steyptrar

    plötu og þaksins. Síðan er einangrað ofan á steyptu plötuna.

    3) Flatt þak. Þak með mjög litlum halla. Þessi þök voru fá í samanburði við hinar

    tvær tegundirnar. Nokkuð erfitt var í einhverjum tilfellum að ákvarða hvort

    þessi gerð þaka var timburþak eða steypt og ákveðið var að flokka þau ekki á

    þann hátt heldur einungis sem flöt.

    Að lokum var skoðað hvernig uppbyggingu útveggja væri háttað og reyndust allar

    skráðar eignir rúmast innan fjögurra flokka:

    1) Veggir steyptir og einangraðir að utan.

    2) Veggir steyptir og einangraðir að innan.

    3) Létt timburgrind.

    4) Veggir steyptir og einangraðir bæði að utan og innan.

    Greining á húsnæðinu var byggð á skoðun teikninga sem fundust á vef viðkomandi

    sveitarfélaga. Ef erfitt reyndist að átta sig á teikningum sem fundust með þessu móti

    var fyllt í eyðurnar með því að skoða myndir af viðkomandi eign á vefnum ja.is.

  • 13

    2.2.1 Skráning orsaka.

    Við skráningu orsaka rakaskemmda voru búnir til átta flokkar til að ná utan um þær

    orsakir sem hægt var að lesa út úr skýrslunum. Flokkarnir hefðu getað verið færri en

    þá hefði samhengið milli rakaskemmda og þess sem veldur þeim orðið óljósara. Eins

    hefðu flokkarnir geta orðið fleiri en það var ekki talið heppilegt. Það freistaði að hafa

    glugga og útihurðir hvort í sínum flokknum en þar sem of oft var erfitt að greina á milli

    þeirra í skýrslum var ákveðið að hafa hvort tveggja saman í einum flokki. Auk þess

    eiga gluggar og útihurðir það sameiginlegt að útbúa þarf göt í annars heilan

    veðurhjúpinn til að koma þeim fyrir og útbúa síðan góðar þéttingar í kring.

    Þessa átta flokka má sjá í töflu 1 hér fyrir neðan.

    Orsakir rakaskemmda

    Dren

    Útveggir

    Þak

    Gluggar - Útihurðir

    Lagnir

    Vatnsvörn baðherbergis

    Notkun

    Annað

    Tafla 1 – Orsakir rakaskemmda.

    Dren. Þerrilagnir er annað orð sem notað er yfir það sem í daglegu máli

    kallast dren. Hér er átt við drenlagnir, drendúk, möl og annað sem er

    ætlað að halda jarðvatni frá undirstöðum húss.

    Útveggir. Allt frá veðurkápu húss og að máluðu innra byrði útveggjar.

    Þak. Veðurhjúpur þaks ásamt burðarvirki og einangrun.

    Gluggar og útihurðir. Gluggar og útihurðir í veggjum ásamt þakgluggum. Þessi

    flokkur er notaður ef eitthvað er að gluggum eða hurðum en einnig ef

  • 14

    frágangur milli glugga eða hurða annarsvegar og veggjar eða þaks hins

    vegar er ekki í lagi.

    Lagnir. Í þessum flokki eru neysluvatnslagnir, ofnalagnir og frárennsli eða með

    öðrum orðum allt lagnakerfi mannvirkis nema drenlagnir, rennur og

    niðurföll. Blöndunartæki, kranar og annað sem tengt er við kerfið

    flokkast einnig undir þennan lið.

    Vatnsvörn baðherbergis. Baðherbergi er votrými með miklu rakaálagi. Þar

    sem vandamál varðandi baðherbergi voru mjög áberandi í skýrslunum

    var ákveðið að hafa þau sem sérstakan flokk. Vatnsvörn baðherbergis

    telst vera uppspretta rakaskemmda ef vatnsvörn sú sem ætla má að sé

    í rýminu virkar ekki.

    Notkun. Notkun vísar til þess hvort íbúi hafi stuðlað að rakauppsöfnun eða

    rakaskemmdum. Hér með telst meðal annars skortur á útloftun, lek

    heimilistæki sem ekki er gert við heldur leyft að valda skemmdum og

    ýmislegt annað sem íbúi gæti sinnt til að koma í veg fyrir rakauppsöfnun

    en lætur hjá líða að gera.

    Annað. Ekki var hægt að fella allar uppsprettur rakaskemmda undir þá sjö

    flokka sem nefndir hafa verið hér að framan. Í stað þess að búa til

    marga fleiri flokka var ákveðið að hafa einn til viðbótar sem hægt væri

    að setja aðrar orsakir í. Meðal þess sem lendir í þessum flokki er

    sprunga í bílskúrsgólfi sem er völd að leka í íbúð undir bílskúr. Einnig

    eru sett hér undir nokkur tilvik þar sem óþétt loftlúga í íbúð olli því að

    heitt og rakt loft barst upp í óupphitað þakrými þar sem rakinn þéttist og

    olli síðan skemmdum á þakvirki.

    Lengi vel var áformað að hafa níunda flokkinn en þar undir átti að skrá orsakir

    rakaskemmda sem væru til komnar vegna framkvæmda í upphafi eða seinna á

    líftíma mannvirkis. Þar að auki þau augljósu mistök sem væru fólgin í rangri hönnun

    eða misskilningi varðandi góðan frágang. Fara átti mjög varlega í skráningu í þennan

    flokk þar sem að í skoðunarskýrslum var yfirleitt bent á þann byggingarhluta sem olli

    rakavandamálum í stað þess að nefna slæleg vinnubrögð og lélega hönnun sem

    orsök. Það er mjög matskennt og teygjanlegt hvað á heima í þessum flokki. Auðvelt

    hefði verið að skrá í hann flest þau rakavandamál sem upp hafa komið á þessari öld.

    Því var að lokum tekin ákvörðun um að sleppa honum alveg. Efnið er áhugavert og

    mjög þarft að fjalla um það en tölfræðilega hefðu niðurstöðurnar ekki verið marktækar

    vegna þess hvernig gögnin voru fram sett.

  • 15

    2.2.2 Skráning rakaskemmda.

    Eftir lestur skýrslna kom í ljós að heppilegast var að skipta upplýsingum um íbúðir í

    átta flokka. Með því móti náðist best skipulag á skráningu sýnilegra rakaskemmda.

    Þessa flokkun má sjá í töflu 2 hér fyrir neðan.

    Greinanlegar rakaskemmdir

    Gólf

    Útveggir

    Þak

    Innveggir

    Loft

    Gluggar - Útihurðir

    Baðherbergi

    Innréttingar

    Tafla 2 – Greinanlegar rakaskemmdir.

    Gólf. Hér er átt við gólf íbúðar ásamt gólfefnum.

    Útveggir. Allt frá veðurkápu húss og að máluðu innra byrði útveggjar.

    Þak. Veðurhjúpur þaks ásamt burðarvirki.

    Innveggir. Allir veggir mannvirkis að útveggjum frátöldum.

    Loft. Loft allra rýma í húsnæði.

    Gluggar - Útihurðir. Gluggar og útihurðir ásamt þakgluggum en einnig

    umbúnaður þeirra.

    Baðherbergi. Rakaskemmdir sem finnast á baðherbergi hvort sem það er á

    gólfum, veggjum, í lofti, búnaði eða annars staðar innan rýmis.

    Innréttingar. Sjáanlegar rakaskemmdir í innréttingum.

  • 16

    Það verður að hafa í huga að rakaskemmd er ekki það sama og rakaskemmd. Það

    að skipta um vatnsbólginn botn í skáp undir eldhúsvaski er ekki mikið mál fyrir þann

    sem kann til verka en að skipta um ónýtt burðarvirki í þaki eða veggjum er stórmál.

    Þegar úrvinnsla gagna hófst var vilji fyrir því að meta rakaskemmdir eftir umfangi.

    Það reyndist ómögulegt og því eru dæmin sem nefnd eru hér að framan um skápinn

    og þakið tvö tilvik um rakaskemmdir sem lögð eru að jöfnu í skýrslunni.

  • 17

    3.1 Aldursdreifing íbúðahúsnæðis

    Aldursdreifing þeirra 150 eigna sem voru greindar reyndist vera eins og sjá má á

    mynd 2.

    Sjá má að aðeins tólf eignir eru frá fyrstu fjórum áratugum síðustu aldar. Á því geta

    verið margar skýringar. Mikið af húsnæði byggt á þessum tíma gæti annað hvort hafa

    verið rifið eða farið í gegnum endurnýjun. Einnig voru íbúðabyggingar mun færri á

    þessum tíma heldur en síðar.

    Mynd 2 – Aldursdreifing eigna.

    3 NIÐURSTÖÐUR

  • 18

    Á næstu mynd má sjá hvernig afleiðingar og orsakir rakaskemmda greinast og

    skiptast sé miðað við 20 ára tímabil. Tölurnar sýna meðalfjölda skráninga á hverja

    íbúð.

    Í einni og sömu húseigninni geta verið fleiri en ein skýring á rakaskemmdum. Þannig

    er mögulegt að þak, lagnir og dren séu öll völd að skemmdum í sömu íbúð. 384

    orsakir rakaskemmda voru skráðar í þeim 150 eignum sem voru skoðaðar.

    Mynd 3 - Ummerki og orsakir rakaskemmda á hverja íbúðareiningu.

    Fyrsta tímabilið sker sig nokkuð úr og ekki hægt að sjá neina augljósa skýringu á því,

    hvorki með hliðsjón af húsagerð né öðru sem aðgengilegt er. Þó má hafa í huga að á

    umræddu tímabili eru einungis fimm eignir.

    Að öðru leyti sýnir mynd 3 það sem búast hefði mátt við. Flest tilfelli um ummerki raka

    og orsakir eru í elstu eignunum og fæst í þeim yngstu.

  • 19

    3.2 Orsakir rakaskemmda

    Hlutfallslega dreifingu má sjá á mynd 4.

    Þar sem hér er fyrsta skífurit skýrslunnar sýnt er rétt að hafa orð á því hvernig lesa á

    úr slíkum myndum. Skýringar eru hægra megin við skífuritið og þegar lesa á saman

    skýringar og skífu þá á fyrsta skýringin, í þessu tilfelli dren við þann hluta skífunnar

    sem byrjar efst og fer síðan réttsælis eins langt og ljósblái liturinn nær og má þá sjá

    að dren eru undirrót 7% rakavandamála í húsum. Þar næst koma útveggir með 11%

    og síðan er haldið áfram réttsælis eftir úthring skífunnar.

    Gluggar og útihurðir auk vatnsvarnar baðherbergja eru áberandi algengustu orsakir

    rakaskemmda.

    Mynd 4 - Ástæður aukins raka.

  • 20

    Á skífuritinu hér á undan kemur fram hvað það er sem veldur rakaskemmdum í

    íbúðarhúsnæði. Á næstu átta skífuritum verður sundurliðað í hvaða hlutum íbúðar

    orsakirnar valda helst skaða.

    Aftur er talin þörf á útskýringum. Á mynd 4 kemur fram að dren veldur 7% þeirra tjóna

    sem verða vegna raka í íbúðarhúsnæði. Hafa verður í huga að þó að íbúðirnar séu

    einungis 150 eru orsakir rakaskemmda alls 384. Því er það þannig að þó að dren

    valdi einungis 7% tjónanna samkvæmt mynd 4 þá er um að ræða 7% af 384 en ekki

    7% af 150 og þannig eru tjón af völdum drens alls 27 talsins. Dren er því orsök

    rakaskemmda í 18% húseigna.

    Á næstu mynd má sjá hvar dren veldur skemmdum. Flest tjón verða á útveggjum en

    þar á eftir koma gólf.

    Mynd 5 - Rakaskemmdir af völdum drens.

  • 21

    Útveggir eru valdir að rakaskemmdum í 28% húseigna.

    Á þessari mynd má sjá hvar útveggir valda skemmdum. Eins og sést eru langmestar

    rakaskemmdum í útveggnum sjálfum.

    Það sem vekur þó mesta athygli er að ekki er sýnilegt að útveggir valdi skemmdum á

    gluggum eða hurðum. Skýringin liggur væntanlega í því hvernig byggingarhlutar eru

    flokkaðir. Frágangur milli glugga og hurða annars vegar og útveggja hins vegar

    flokkast með gluggum og hurðum. Af því leiðir að rakaskemmdir sem koma þar fram

    flokkast ekki undir útveggi.

    Mynd 6 - Rakaskemmdir af völdum útveggja.

  • 22

    Þök eru völd að rakaskemmdum í 36% húseigna.

    Hér má sjá að rakaskemmdir af völdum þaka eru mestar í loftum. Þar á eftir koma

    skemmdir á þökunum sjálfum og í þriðja sæti eru útveggir.

    Það kemur á óvart að þök eru ekki efst á blaði á þessu skífuriti. Ástæðan er sú að

    rakaskemmdir eru vel sýnilegar í loftum herbergja. Ekki var í öllum tilvikum skoðað

    hvernig ástatt var um þökin sjálf þar sem ómögulegt var í sumum tilfellum að skoða

    þökin nema rjúfa þau með tilheyrandi raski og kostnaði. Í þeim tilfellum þar sem ekki

    var minnst á rakaskemmd í þaki var engin skemmd skráð á þaki.

    Mynd 7 - Rakaskemmdir af völdum þaka.

  • 23

    Gluggar og útihurðir valda rakaskemmdum í 61% húseigna.

    Skemmdir af völdum glugga og útihurða eru áberandi mestar á útveggjum. Þar á eftir

    koma síðan gluggar og útihurðir ásamt gólfum.

    Mynd 8 - Rakaskemmdir af völdum glugga og útihurða.

  • 24

    Vatnsvörn baðherbergis veldur rakaskemmdum í 54% húseigna.

    Þegar vatnsvörn baðherbergis virkar ekki verður yfirgnæfandi hluti skemmda eðlilega

    á baðherberginu sjálfu eða yfir 70%.

    Mynd 9 - Rakaskemmdir vegna vatnsvarnar baðherbergis.

  • 25

    Lagnir valda rakaskemmdum í 23% húseigna.

    Rakaskemmdir af völdum lagna eru tíðastar í gólfum og innveggnum. Þar á eftir

    koma baðherbergi.

    Mynd 10 - Rakaskemmdir af völdum lagna.

  • 26

    Notkun veldur rakaskemmdum í 31% húseigna.

    Rakaskemmdir vegna rangrar umgengni íbúa eða hvernig þeir haga sér koma helst

    fram í útveggjum. Því næst koma gólf ásamt gluggum og hurðum.

    Mynd 11 - Rakaskemmdir vegna umgengni íbúa.

  • 27

    Annað veldur rakaskemmdum í 5% húseigna.

    Aðrar orsakir rakaskemmda eru aðallega vegna óþéttra loftlúga sem hleypa heitu

    rakamettuðu lofti upp í kalt þakrými húss.

    Mynd 12 - Rakaskemmdir af öðrum orsökum.

  • 28

    3.3 Sjáanlegar rakaskemmdir

    Rakaskemmdir reyndust samkvæmt samantekt vera 678. Skoðaðar skýrslur voru 150

    og því voru að meðaltali rúmlega 4,5 rakaskemmdir í hverri íbúð.

    Á mynd 13 má sjá í hvaða hlutum húss rakaskemmdir komu fram.

    Eins og sjá má eru ummerki um raka oftast sýnileg í útveggjum. Gólf eru í öðru sæti

    og baðherbergi í því þriðja.

    Mynd 13 - Ummerki um rakaskemmdir.

  • 29

    3.4 Þök

    Þar sem myndirnar hér að ofan taka mið af öllum eignum var ákveðið að skoða nánar

    þau 75 þök sem tilheyra einbýlum.

    Þök eru hér flokkuð í þrjár gerðir. Hefðbundin létt timburþök, uppstóluð þök og síðan

    flöt þök.

    Fjöldi Meðalaldur [ár]

    Létt timburþök 52 43

    Uppstóluð þök 13 44

    Flöt þök 10 24

    Tafla 3 – Fjöldi og aldur eigna.

    Varðandi meðalaldur þá er ekki vitað hvort í einhverjum tilvikum er búið að endurgera

    þak að einhverju eða öllu leyti.

    Við athugun á gögnum kom í ljós að um 50% léttra timburþaka og uppstólaðra þaka

    orsökuðu rakavandamál. Hvað varðar flöt þök þá voru 40% eða fjögur þök af tíu völd

    að rakaskemmdum.

    Eins og sjá má hér að ofan þá eru flöt þök að jafnaði nær helmingi yngri en þök með

    annarri uppbyggingu.

    Það verður þó að fara varlega í að draga ályktanir af þessu þar sem úrtakið er fremur

    lítið.

  • 30

    Niðurstöður út frá þeim atriðum sem valda rakaskemmdum.

    4.1 Gluggar og útihurðir

    Gluggar og útihurðir eru stærsta einstaka orsök rakaskemmda í íbúðarhúsnæði

    samkvæmt þeim skýrslum sem voru greindar og eiga í sameiningu sök á 24% eða

    nær fjórðungi allra rakaskemmda. Þetta ætti ekki að koma á óvart. Gluggar og

    útihurðir eru hluti af veðurhjúp bygginga en með ísetningu þessara eininga eru rofin

    göt í útveggi og þök.

    Fjölda skýringa er að finna í skoðunarskýrslum en meðal þess helsta má nefna að í

    mjög mörgum tilvikum hafa þéttingar milli gluggaramma og veggja gefið sig. Þá er að

    sjálfsögðu hætt við að vatn komist bæði inn í útvegginn og inn í íbúðina. Þegar

    skoðaðar eru skýrslur um nýleg hús má jafnvel láta sér detta í hug að þessi frágangur

    hafi ekki verið fullnægjandi í upphafi. Annað sem er mjög áberandi í skýrslum er að

    þéttilistar við opnanleg fög og hurðir séu farnir að gefa sig. Erfitt getur verið að bæta

    úr þessu. Eitt vandamál í því sambandi er að ekki er alltaf auðvelt að finna rétta

    tegund þéttilista þegar kemur að endurnýjun þeirra. Annað vandamál er að þótt réttir

    þéttilistar finnist er oft erfitt að koma þeim fyrir í gömlum fölsum því þeir geta losnað

    mjög auðveldlega. Þetta skýrist bæði af því að smávægilegar breytingar hafa átt sér

    stað í römmum og fölsum og að stundum hefur aðeins brotnað úr efni þannig að

    raufar sem þéttilistar skorðast í gefa ekki lengur fullnægjandi festu.

    Einnig er spurning hvort gluggar og hurðir þola í öllum tilvikum íslenskt veðurfar þar

    sem slagregn er meira en víðast annars staðar.

    Sem dæmi um prófun sem framkvæmd er á Íslandi og framleiðendur geta státað sig

    af er slagregnsprófun sem framkvæmd er af Nýsköpunarmiðstöð Íslands (NMÍ).

    Framleiðandi skilar inn glugga og glugginn er prófaður. Standist glugginn staðlaða

    prófun hefur viðkomandi fyrirtæki fengið staðfestingu um að framleiðsluvara

    fyrirtækisins uppfylli slagregnsprófun. Þessi prófun heldur aðeins gildi sínu ef

    glugginn er frágenginn og glerjaður af framleiðenda en vitað er um framleiðendur

    sem státa af þessari vottun en eiga það til að afhenda glugga óglerjaða út úr

    verksmiðju og jafnvel fylgja lamir fyrir hurðir og opnanleg fög með í kössum ásamt

    þéttilistum þannig að kaupandi þarf að púsla öllu saman sjálfur.

    4 UMFJÖLLUN

  • 31

    Ísetning glugga og útihurða auk þéttinga milli ramma og aðliggjandi veðurhjúpa er

    síðan kafli út af fyrir sig. Ekki er að sjá að mikið finnist af leiðbeiningum varðandi

    festingar, þéttingar og frágang á þessum hlutum hússins þó telja verði að nefnd atriði

    séu mikilvægari en margt annað. Það gæti verið verðugt rannsóknarverkefni að

    kanna regluverk og leiðbeiningar um ísetningu glugga og útihurða þar sem það virðist

    vera stór orsök í lekum og skemmdum sem þeim fylgja.

    Rakaskemmdir í útveggjum má í 42% tilfella rekja til glugga og útihurða. Sú

    staðreynd ætti ekki að koma á óvart. Veðurkápan er rofin til að koma römmum fyrir

    og ef frágangur er ekki fullnægjandi þá er komin lekahætta í útvegginn eða þakið

    með ávísun á rakavandamál. 35% tilfella um hækkaðan raka í gólfum má einnig rekja

    til glugga og útihurða. Í gólfinu geta skapast vandamál þar sem það er vanalega klætt

    með dúk, flísum, parketi eða öðrum hefðbundnum gólfefnum. Raki í parketi eða

    dúkalími skapar kjöraðstæður fyrir vöxt myglu og hana vill enginn hafa heima hjá sér.

    Það er nokkuð greinilegt að betur þarf að huga að ísetningu og viðhaldi glugga og

    útihurða þar sem þetta tvennt virðist vera helsti skaðvaldurinn í íbúðarhúsnæði miðað

    við þessa úttekt.

    4.2 Vatnsvörn baðherbergja

    Vatnsvörn er það kallað þegar vatnshelt lag er sett á gólf og veggi votrýma í þeim

    tilgangi að vatn og raki berist ekki inn í aðliggjandi byggingarhluta. Vatnsvörn eða

    membru var byrjað að nota á baðherbergi undir lok síðustu aldar. Þar áður var

    svokölluðu dragi blandað í flísalím og blandan var síðan dregin á fleti til að búa til

    vatnshelda himnu. Þar áður kom það fyrir að rýmið var tjargað til að mynda vatnsvörn

    en það var þó sjaldgæft í íbúðarhúsnæði. Framan af tuttugustu öldinni voru

    baðherbergi þannig skipulögð að yfirleitt var baðker en ekki sturta. Því var ekki jafn

    mikið rakaálag á baðherbergi af völdum rennandi vatns og er í dag.

    Baðherbergið er yfirleitt það rými íbúðarhúsnæðis þar sem vatnsálag innan úr rýminu

    er mest. Þegar vatnsvörn baðherbergis er ekki til staðar eða hún bregst veldur það

    rakavandamálum á baðherbergjum og í mörgum tilfellum einnig í aðliggjandi rýmum.

    Vandamál sem orsakast af ófullnægjandi vatnsvörn baðherbergja valda rúmlega

    fimmtungi af rakaskemmdum í íbúðarhúsnæði.

    Samkvæmt samantekt eru það baðherbergi og þá í flestum tilvikum gallar í vatnsvörn

    þeirra sem valda langflestum rakaskemmdum á baðherbergjum. Að auki er vatnsvörn

    baðherbergja orsök um fjórðungs þeirra rakaskemmda sem finna má í innveggjum en

    það eru þá veggir sem eru aðliggjandi baðherbergjunum.

    Við skoðun á skýrslum sést að nokkuð er um flísafúgur sem byrjaðar eru að gefa sig.

    Ekki er hægt að líta þannig á að flísar og þaðan af síður fúgan á milli þeirra sé

    vatnsheld (Jón Sigurjónsson, 2017). Einnig er algengt að minnst sé á slakan frágang

    þar sem lagnir koma inn í baðherbergi, til dæmis við heitt og kalt vatn í sturtu. Nokkuð

    algengt er að veggur hefur verið gataður til að koma vatnslögn á sinn stað. Ekki er

  • 32

    hugað að því að þétta milli lagna og veggja heldur er rósetta eða annað sett yfir gatið

    til að fela það. Þó svo að íbúinn sjái ekki opið inn í vegg leitar rakinn þangað inn og

    vatn getur jafnvel runnið þessa leið inn í vegginn, til að mynda við blöndunartæki

    sturtu þar sem hluti vatnsins lendir á vegg og rennur niður. Þriðja atriðið sem mikið

    ber á í skýrslum er að kíttun eða þéttiefni er byrjuð að mygla. Myglað kýtti á

    baðherbergjum getur átt sér tvær orsakir. Fyrri skýringin er sú að ryk og óhreinindi

    hafi safnast utan á rétta tegund af kýtti og síðan hafi rykið byrjað að mygla. seinni

    skýringin er að röng tegund af kýtti hafi verið notuð. Þá byrjar kýttið sjálft að mygla.

    Mygla í íbúðarhúsnæði er alltaf ávísun á vandamál.

    Við skoðun mynda af aðstæðum virðist vera að nokkuð mörg baðherbergi í eldri

    húsum þar sem rakavandamál eru til staðar hafi fengið andlitslyftingu, það er að

    segja að þau virðast vera nýlega uppgerð. Það vekur upp þá spurningu hvort

    vatnsvörn hafi verið sett þegar baðherbergi var endurnýjað. Einnig er spurning hvort

    alltaf séu notuð þéttiefni sem þola það álag sem er fyrir hendi.

    Það blasir við í þeim skýrslum sem voru skoðaðar og ekki síður er það skoðun

    höfundar eftir áralanga reynslu sem iðnaðarmanns að þegar unnið er við

    baðherbergi, hvort heldur þau eru nýútbúin eða endurgerð að mest áhersla er á að

    þau líti rétt út en ekki að þau séu rétt uppbyggð.

    Það virðist vera þannig að þegar gera á upp gamalt baðherbergi eru valdar flísar,

    tæki og innréttingar sem falla að smekk íbúðareiganda og mikill metnaður er lagður í

    nýtt og glæsilegt útlit en eðlilega er það þannig að sá sem er að láta endurgera

    gamalt baðherbergi hefur lítið vit á byggingareðlisfræði og rakavandamálum og

    leggur því mesta áherslu á hversu vel endurgerðin lítur út þegar verkinu er lokið. Oft

    er litið á handverk flísalagningamannsins sem mælikvarða á hversu vel hefur tekist til.

    Því miður er það þannig að þeir sem ráðnir eru til verksins hafa oft og tíðum heldur

    ekki vit á byggingaeðlisfræði. Þar sem oftast er farið í slíkar endurbætur án aðila með

    þekkingu sem hefur umsjón með framkvæmdum er ekki sjálfgefið að rétt sé staðið að

    öllu. Það leita því á hugann efasemdir um hvort vatnsvörn var sett á veggi rýmisins

    þegar búið var að fjarlægja eldri frágang.

    Upplýsingagjöf til almennings sem fer í framkvæmdir virðist því miður ekki vera of

    mikil. Mikla þekkingu má finna í RB-blöðunum svokölluðu sem voru lengi gefin út af

    Rannsóknarstofnun Byggingariðnaðarins og margir iðnaðarmenn og hönnuðir voru

    áskrifendur að. Þau eru í dag gefin út af Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Þó að netið sé

    komið til sögunnar voru þessi blöð lengi vel ekki finnanleg þar og þau ekki fáanleg

    nema farið væri í Grafarvoginn og útprentaðar leiðbeiningar keyptar. Vorið 2019 var

    byrjað að selja þessi leiðbeiningarrit rafrænt. Þó svo að flest þessara rita kosti ekki

    nema tvö til þrjú þúsund krónur gæti það hindrað kaup margra þar sem ritin eru mörg

    og til að versla öll þau rit sem snúa að raka og tengdu efni svo dæmi sé tekið gæti

    þurft að greiða fyrir sex til tíu bæklinga. Almennt áttar fólk sig ekki á mikilvægi þess

    að ganga rétt frá hlutunum og telur að með því að kaupa einhverjar leiðbeiningar sé

    einungis verið að auka kostnað við framkvæmdir. Íbúarnir vita auðvitað hvernig rýmið

  • 33

    á að líta út þegar framkvæmdum er lokið. Ef þeir sem fara í framkvæmdir hefði

    aðgang að þessum RB-leiðbeiningum án endurgjalds gætu einhverjir aðilar sparað

    sér stórar fjárhæðir vegna mögulegra rakaskemmda þar sem þeir hefðu þá fengið

    góðar leiðbeiningar.

    Sé tekið mark á þeim aðilum sem standa að byggingu íbúðarhúsnæðis í dag geta

    ekki komið upp mörg vandamál. Gæðakerfi, gæðatryggingar og önnur kerfi auk

    mikillar þekkingar á því hvernig byggja á húsnæði gerir það að verkum að fáir gallar

    ættu að vera í nýbyggðum húsum. Reyndin virðist vera nokkuð önnur. Það er

    niðurstaða nýlegs meistaraverkefnis í byggingaverkfræði við HR (Sigurður Rúnar

    Birgisson, 2013) þar sem skoðaðir voru byggingagallar í húsnæði sem byggt var á

    árunum 1998 - 2012 að bætur hafi verið greiddar vegna tjóns í einni af hverjum

    þrettán húseignum sem byggðar voru á þessu tímabili. Þetta eru einungis þau mál

    þar sem dómur var felldur. Leitt er líkum að því að þau mál sem samið var um séu

    mun fleiri.

    Samkvæmt skoðuðum skýrslum finnast dæmi um baðherbergi í nýlega byggðum

    húsum þar sem engin vatnsvörn virðist vera til staðar og þar sem opin göt eru í

    veggjum. Einnig dæmi um að niðurfall í gólfi sé hæsti punktur gólfsins eða að kítti

    sem þolir ekkert rakaálag hafi verið notað á baðherbergi. Einnig finnast dæmi þess

    að ekki sé notað kítti í kverkum heldur sé flísafúga sett þar sem veggur mætir vegg

    eða gólfi.

    4.3 Þök

    Ýmislegt tínist til sem gerir það að verkum að rakavandamál orsakast af völdum

    þaka.

    Í nokkrum tilvikum er minnst á leka meðfram skorsteinum, reykrörum og túðum en

    þetta eru hlutir sem eiga það sameiginlegt að gata veðurhjúp hússins. Bæði má sjá

    að minnst er á lélegan frágang í kringum opnanir á veðurhjúp þaksins en einnig kom

    það fyrir að frágangur var kominn til ára sinna og þurfti orðið endurnýjunar við.

    Annað sem kemur fram í skýrslum er að loftun virðist vera til vandræða í sumum

    tilvikum. Annars vegar var minnst á í skýrslum að loftun væri hreinlega ekki að virka

    og að rakavandamál væri framkomin vegna hennar en mögulega er því um að kenna

    að loftrásir eru farnar að stíflast vegna aldurs húsa þar sem óhreinindi hafa safnast

    fyrir í skordýravörnum loftrása. Hins vegar var minnst á hús byggð á þessari öld þar

    sem rakavandamál hafa komið fram í þökum vegna ónógrar loftunar en þar er ekki

    hægt að kenna því um hversu gömul þökin eru orðin. Þar er minnst á þök með margs

    konar uppbyggingu en mesta athygli vekja tvö dæmi um flöt þök uppbyggð með

    timburvirki. Í öðru tilvikinu er búið að endurbyggja bæði veðurhjúp og annað sem

    tilheyrir efsta lagi þaksins og í hinu tilvikinu er búið að reyna lagfæringar og það

    næsta sem er á döfinni er að endurbyggja þakið eins og það leggur sig.

  • 34

    Enn eitt verður að nefna sem hefur valdið vandamálum í þökum. Það er þegar

    þakkantur er endursmíðaður. Fyrir kemur að lítil þekking er til staðar þegar kemur að

    loftun þaka og endursmíðaður þakkantur lokar fyrir allt aðstreymi lofts að loftun þaks.

    Það sama á sér stað eins og varðandi vatnsvörn baðherbergja. Eigandi húsnæðis

    veit hvernig endurbyggður þakkantur á að líta út. Nýr þakkantur er byggður en lokað

    er fyrir loftun vegna þekkingarleysis. Sá aðili sem vinnur verkið en það gæti verið

    eigandinn sjálfur eða einhver annar veit ekki að gegnumstreymi lofts gegnum þakið

    er mikilvægt til að rakinn í þakinu haldist innan marka. Þar sem loftun þaksins hefur

    verið lokað sem afleiðing af endurbótunum tekur við uppsöfnun raka sem leiðir af sér

    rakaskemmdir og tilheyrandi vandamál.

    4.4 Notkun

    Eitt atriði enn sem nefnt verður hér sem ein af orsökum rakaskemmda er notkun íbúa

    á húsnæðinu eða það hvernig venjulegur íbúi hagar sér þar sem hann býr. Með góðri

    umgengni getur íbúi átt stóran þátt í að húsnæðið virki rétt og að allt sé í lagi en

    nokkuð virðist vera um að íbúar hafi litla hugmynd um það hvernig þeir eigi að ganga

    um húsnæðið til að allt haldist í góðu horfi.

    Eitt sem minnst er á í skýrslum er að leka verður vart frá tækjum og búnaði sem íbúi

    lætur hjá líða að stöðva. Mest áberandi eru þó skemmdir af völdum rakaþéttingar

    vegna skorts á útloftun. Heitt inniloft getur innihaldið ákveðið magn af vatnsgufu.

    Margt sem íbúi gerir veldur því að rakaíbæting á sér stað. Sem dæmi má nefna

    uppvask, baðferðir og þrif en auk þess gefur íbúinn sjálfur frá sér raka í formi svita

    eða útgufunar um húð. Með því að opna glugga eða loftræsa húsnæðið á annan hátt

    er rakinn jafnframt fjarlægður en sé lofti ekki hleypt út safnast rakinn upp þar til hann

    fellur út eða þéttist á kaldari flötum eða byggingarhlutum. Sem dæmi um

    rakaútfellingu er þegar raki þéttist á rúðum eða við kuldabrýr.

    Raki af völdum íbúa kemur nokkuð jafnt niður á öllum hlutum byggingarinnar að

    þakinu undanskildu. Þó verður að hafa í huga að hver skoðun tekur aðeins

    klukkustund og því óraunhæft búast við að þak sé skoðað gaumgæfilega.

    4.5 Útveggir

    Útveggir voru við greiningu gagna flokkaðir í fjórar gerðir, timburveggi, steypta veggi

    einangraða að utan, steypta veggi einangraða að innan og steypta veggi einangraða

    bæði að utan og innan.

    Við vinnslu skýrslunnar var áhugi fyrir að bera saman mismunandi gerðir útveggja og

    sjá hvort hægt væri að greina eitthvað mynstur varðandi rakaskemmdir eftir gerðum

    útveggja. Úr því varð þó ekki. Af 150 eignum sem voru greindar reyndist 131 vera

    með hinum hefðbundna íslenska útvegg, það er að segja steypt að utan og

    einangrað að innan og þær 19 eignir sem eftir voru skiptust í hina þrjá flokkana

    þannig að samanburður hefði ekki verði markverður. Þetta hlutfall vegggerða kemur

    þó ekki á óvart þar sem íslenski útveggurinn svokallaði hefur í áratugi verið ráðandi

  • 35

    við byggingu íbúðarhúsnæðis hér á landi. Vaxandi efasemdir hafa verið um ágæti

    þessarar veggjagerðar en af einhverri ástæðu hefur hún verið ráðandi. Ekki hafa

    fundist rök fyrir þessari séríslensku uppbyggingu en sú skýring hefur heyrst að vegna

    veðurfars hérlendis hafi það einfaldlega verið freistandi að forða sér sem fyrst í skjól

    undan misjöfnum verðum og verður sú skýring að teljast líkleg.

    Það sem reyndist valda mestu rakaálagi á útveggi að gluggum og útihurðum

    frátöldum voru útveggirnir sjálfir eða veikleikar í þeim. Þar virtist oft vera um að ræða

    sprungur, gjarnan við svalir en einnig við steypuskil og á öðrum stöðum.

    Það má efast um ýmislegt varðandi Íslenska útvegginn, ekki síst í ljósi þess sem

    kemur fram hér að framan. Fyrst má velta því fyrir sér hvort steinsteypan á nokkuð

    heima úti í veðrum og vindum. Væri ekki öruggara að hafa steypt burðarvirkið innan

    veðurkápunnar í stað þess að steypan sé sjálf veðurkápan? Steypa er rakadræg sé

    hún ekki útbúin eða varin á réttan hátt og hún þarfnast viðhalds og umhyggju. Ef

    viðhaldi er ekki sinnt á réttan hátt getur steyptur útveggurinn hæglega skemmst

    vegna víxlverkunar frosts og þíðu í sprungum svo eitthvað sé nefnt.

    Annað sem liggur beint við að nefna varðandi útvegginn sem er til umræðu er

    byggingaeðlisfræðin. Inni í íbúðarhúsi má búast við yfir tuttugu stiga hita eins og

    íbúar kjósa yfirleitt að hafa í hýbýlum sínum. Flestir íslendingar eru svo lánsamir að

    geta haldið því hitastigi sem þeim líður vel í heima hjá sér án þess að veskið tæmist.

    Úti getur verið frost. Steypti útveggurinn sem hefur mjög lítið einangrunargildi getur

    kólnað það mikið að frost sé á mörkum steypu og einangrunar. . Dæmi þekkjast um

    að rakt loft sem berst í skil milli steypu og einangrunar hafi kólnað þannig að

    rakaútfelling hafi átt sér stað. Síðan gerist það að raki sem safnast þannig upp hafi

    frosið og þegar útveggur var opnaður blasti við klaki í miðjum vegg. Ekki var hægt að

    greina í skýrslum hvort þetta var reyndin í einhverjum tilvikum.

    Enn ein athugasemdin sem gera má við Íslenska útvegginn er varðandi kuldabrýr.

    Köld steinsteypan er tengd við plötur og milliveggi þannig að kuldi leiðir í gegnum

    steypuna sem hefur lágt einangrunargildi og inn í rými hússins. Þar er viðbúið að

    verði rakaþétting með þeim afleiðingum að mygla byrjar að ná sér á strik. Þetta getur

    komið fram sem sverta við útveggi þar sem steyptur útveggur er tengdur beint við

    plötu.

    Með því að fylgja eftir þeirri þróun sem er að verða í byggingu útveggja mætti ætla að

    mörg vandamál væru leyst. Með því að einangra hús að utan og setja veðurkápu yst

    er komið í veg fyrir vandamál varðandi sprungur í steypu sem geta leitt raka inn í hús,

    kuldabrýr og rakaútfellingu milli steypu og einangrunar í íslenska útveggnum svo

    eitthvað sé nefnt.

    Þó verður alltaf að huga vel að frágangi. Dæmi eru um að þéttingar á steypuskilum

    og við glugga í nýlega byggðum húsum hafi ekki verið nægilega vel frágengnar. Fleiri

    vandamál hafa einnig komið upp.

  • 36

    4.6 Lagnir

    Lagnir valda rakaskemmdum í 23% íbúða samkvæmt þessari samantekt. Hér er

    tvennt sem hafa verður í huga. Annað er það að undir lagnir flokkast ekki bara rör og

    pípur heldur líka allur búnaður eins og kranar, blöndunartæki og annar tengibúnaður

    við lagnakerfi. Hitt er það að við nánari skoðun kom í ljós að meðalaldur húsa þar

    sem lagnir voru að valda skemmdum er um fimmtíu ár. Hús þarfnast viðhalds og því

    er mjög freistandi að áætla að í mörgum tilfellum sé einfaldlega kominn tími á

    endurnýjun lagna og tengds búnaðar vegna aldurs.

    4.7 Dren (Þerrilagnir)

    Dren hefur valdið rakaskemmdum í 18% þeirra eigna sem skoðunarskýrslur ná yfir.

    Þegar skoðaður er aldur þessara eigna kemur í ljós að þær eru að meðaltali 58 ára

    gamlar. Í skýrslum er í einhverjum tilvikum efast um að dren virki sem skyldi en einnig

    er spurning hvort drenlagnir eru yfirhöfuð til staðar í mörgum þessara gömlu eigna.

    Mörg tilfelli eru þekkt í eldri hverfum Reykjavíkur þar sem verið er að setja dren í

    fyrsta skipti sem endurbótaaðgerð á eldra húsnæði.

    4.8 Annað (Loftlúgur)

    Hér voru sett örfá atriði sem ekki pössuðu annars staðar inn í flokkunina. Þegar þessi

    atriði eru skoðuð nánar sést að flest þeirra snúast um að sett hefur verið lúga í loft

    íbúðarhúsnæðis til að komast upp í kalt þakrými yfir íbúð. Slíkar loftlúgur eru jafnvel

    settar í votrými eins og þvottahús.

    Hugmynd íbúa með slíkri ráðstöfun er að sjálfsögðu að gera aðgengilegt gott

    geymslurými sem annars stendur bara tómt engum til gagns. Það sem gerist eftir að

    lúga hefur verið sett upp er að heitt rakt loft fer að streyma neðan úr íbúðinni og upp í

    þakrýmið. Þar kólnar loftið með þeim afleiðingum að raki fellur út ef loftun þaks er

    ekki þeim mun betri. Þekkt eru dæmi um að burðarvirki heilla þaka hafa eyðilagst

    vegna myglu þar sem orsökin er rakin til loftleka með óþéttum loftlúgum.

  • 37

    Eins og sjá má hér að framan er ýmislegt sem getur valdið rakavandamálum í

    húsnæði en erfitt er að benda á eitt atriði sem aðalorsök. Til að gera langa sögu

    stutta verða hér nefndir stærstu valdarnir að rakaskemmdum samkvæmt þessari

    samantekt.

    Gluggar og hurðir eru efst á blaði. Ísetning og frágangur þessara eininga virðist vera

    með ýmsu móti og alls ekki í eins föstum skorðum og æskilegt væri. Þegar kemur að

    endurnýjun á það sama við. Viðhaldi virðist þess utan oft ekki vera sinnt fyrr en allt er

    komið í óefni.

    Þörf er á vitundarvakningu þegar kemur að frágangi og endurgerð baðherbergja. Í

    ljósi þess tjóns sem getur orðið af völdum baðherbergja ætti að standa mun betur að

    framkvæmdum en almennt virðist vera gert. Þau geta orðið dýrustu herbergi hússins

    ef ekki er vandað til verka.

    Þriðja atriðið sem verður sérstaklega nefnt hér er hvernig íbúar umgangast

    húsnæðið. Það virðist vera þannig að koma mætti í veg fyrir mikið tjón með því að

    umgangast húsnæði á réttan hátt með því til dæmis að opna glugga eða bregðast við

    þegar vart verður við leka eða annað sem gæti orsakað skemmdir.

    Íbúðarhúsnæði eldist eins og allt annað og lætur á sjá með tímanum og ekkert er

    eðlilegra en þá er líka rétt að bregðast við. Þegar upp er staðið er fyrirbyggjandi

    viðhald alltaf ódýrara en björgunaraðgerðir þær sem fara þarf í þegar allt er komið í

    óefni. Auk þess er það þannig að kostnað við viðgerðir á húsnæði má meta í krónum

    og aurum en ekki er hægt að leggja þá mælistiku á tjón þeirra einstaklinga sem

    veikjast og missa heilsuna vegna veru í rakaskemmdu og óíbúðarhæfu húsnæði.

    5 SAMANTEKT

  • 38

    Fyrir nokkrum árum var boðuð innleiðing einhvers konar handbókar um hvernig

    standa ætti að framkvæmdum við húsnæði til þess að sem flest væri rétt gert og sá

    sem ekki vissi gæti leitað á góðan stað til að fá leiðbeiningar. Því miður bólar ekkert á

    slíku enn en það eitt væri eflaust til mikilla bóta. All mikið er þó til af leiðbeiningum um

    ýmislegt sem snýr að viðgerðum og góðum frágangi og má þar meðal annars nefna

    hin svokölluðu RB-blöð. Þau voru þó ekki finnanleg á netinu fyrr en fyrri hluta árs

    2019 þegar loks var opnað fyrir rafrænan aðgang og því voru margir sem vissu ekki

    einu sinni af tilvist þeirra. Auk þess þarf að greiða fyrir aðgang.

    Margar spurningar hafa vaknað við vinnslu þessarar skýrslu. Spurningar eins og

    hvort hönnun sé í lagi, hvort byggingarefni og meðhöndlun þeirra sé í lagi, hvort þeir

    sem vinna störfin viti hvernig eigi að bera sig að, hvort fólk kunni að búa í húsunum

    sínum og þannig mætti halda áfram.

    Það sem hefur vakið einna mesta furðu er mikill skortur á rannsóknum og hversu

    umdeilanlegar byggingaraðferðir eru þar sem staðreyndir liggja ekki endilega fyrir um

    kosti og galla mismunandi uppbyggingar byggingarhluta hérlendis heldur virðist það

    upp að vissu marki vera skoðanir og trú sem ræður för.

    6 LOKAORÐ

  • 39

    Becher, R., Høje, A.H., Bakke, J.V., Holøs, S.B., Øvrevik, J. (2017). Dampness and Moisture

    Problems in Norwegian Homes. International Journal of Environmental Research and Public

    Health. Sótt 8. nóvember 2019 af: https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC5664742/

    Byggforskserien. (2010). 700.110 Byggskader. Oversikt. Sótt 14. Nóvember 2019 af:

    https://www.byggforsk.no/dokument/629/byggskader_oversikt#i4

    Ásrún Brynja Ingvarsdóttir. (7.október 2019). Hefur skipað faghóp um vandamál tengd myglu.

    RÚV. Sótt 7. Nóvember 2019 af: https://www.ruv.is/frett/hefur-skipad-faghop-um-vandamal-

    tengd-myglu

    Björn Marteinsson. (2008). Íslenski útveggurinn – efniseiginleikar, rakaástand og

    viðhaldsþörf. Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

    Byggingarreglugerð. (2012)

    Fasteignaleit. https://skra.is/leit-i-fasteignaskra/

    Guðmundur L. Hafsteinsson (e.d.). Ágrip íslenskrar húsagerðarsögu fram til 1970. Sótt af:

    http://www.minjastofnun.is/media/skjol-i-grein/agripislhusagG.pdf

    Iðan fræðslusetur. (2013). Námskeiðsgögn. Þök, rakaástand og mygla.

    Jón Sigurjónsson. (2016). Frágangur votrýma. Nýsköpunarmiðstöð íslands.

    7 HEIMILDIR

    https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC5664742/https://www.byggforsk.no/dokument/629/byggskader_oversikt#i4https://skra.is/leit-i-fasteignaskra/http://www.minjastofnun.is/media/skjol-i-grein/agripislhusagG.pdf

  • 40

    Jón Sigurjónsson. (2017). Flísaklæddir votrýmisveggir. Nýsköpunarmiðstöð íslands.

    Jónas Hlynur Hallgrímsson & Sveinn Agnarsson. (2011). Hagfræðileg greining á nýtingu

    vatns (No. C11:04). Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Sótt af:

    https://ust.is/library/Skrar/Atvinnulif/Haf-og-

    vatn/Vatnatilskipun/Hagfr%C3%A6%C3%B0ileg%20greining%20vatnsnotkunar%202011-

    C11_04.pdf

    Morse, R., Acker, D. (2014). Indoor Air Quality and Mold Prevention of the Building

    Envelope. Sótt 29. október af: https://www.wbdg.org/resources/indoor-air-quality-and-mold-

    prevention-building-envelope

    Nevalainen, A., Partanen, P., Jääskeläinen, E., Hyvärinen, A., Koskinen, O., Meklin, T.,

    Vahteristo, M., Koivisto, J. & Husman, T. (1998). Prevalence of Moisture Problems in Finnish

    Houses.

    Orkusetur – Húshitun (2017). Sótt 6.september 2019 af: https://orkusetur.is/hushitun/

    Raki í húsum – Almenn atriði. (2006). Rannsóknastofnun byggingaiðnaðarins.

    Sigurður Rúnar Birgisson. (2013). Byggingargallar í nýbyggingum á Íslandi.

    http://hdl.handle.net/1946/16104

    Umhverfisstofnun. (2015). Inniloft, raki og mygla í híbýlum.

    World Health Organization, 2009

    WHO guidelines for indoor air quality: dampness and mould. Sótt 10. október 2019 af:

    http://www.euro.who.int/__data/assets/pdf_file/0017/43325/E92645.pdf?ua=1

    https://ust.is/library/Skrar/Atvinnulif/Haf-og-vatn/Vatnatilskipun/Hagfr%C3%A6%C3%B0ileg%20greining%20vatnsnotkunar%202011-C11_04.pdfhttps://ust.is/library/Skrar/Atvinnulif/Haf-og-vatn/Vatnatilskipun/Hagfr%C3%A6%C3%B0ileg%20greining%20vatnsnotkunar%202011-C11_04.pdfhttps://ust.is/library/Skrar/Atvinnulif/Haf-og-vatn/Vatnatilskipun/Hagfr%C3%A6%C3%B0ileg%20greining%20vatnsnotkunar%202011-C11_04.pdfhttps://www.wbdg.org/resources/indoor-air-quality-and-mold-prevention-building-envelopehttps://www.wbdg.org/resources/indoor-air-quality-and-mold-prevention-building-envelopehttp://hdl.handle.net/1946/16104http://www.euro.who.int/__data/assets/pdf_file/0017/43325/E92645.pdf?ua=1

  • 41

    Hér má sjá sýnishorn eða skjáskot af því skráningarformi sem sett var upp í Excel til að halda

    utan um upplýsingar þær sem skráðar voru.

    Línur voru hafðar beykilitar eða hvítar til skiptis. Alltaf þegar byrjað var að skoða næstu eign

    var skipt um lit þannig að upplýsingar yrðu sýnilegri.

    Hver eign hafði línufjölda til samræmis við fjölda þeirra atriða sem orsökuðu rakavandamál í

    viðkomandi íbúð. Þannig gátu línur sem tilheyra hverri íbúð verið á bilinu 1-8.

    Þegar hafin var skráning nýrrar skýrslu voru upplýsingar um eignina settar í fyrstu línuna sem

    tilheyrði þeirri íbúð. Í sömu línu var sett fyrsta eða eina orsök rakaskemmda sem heyrði til

    sömu eign. Oft voru fleiri orsakir rakaskemmda í sömu íbúð og var þá bætt við línum eins og

    þurfti.

    Eins og sjá má á mynd 14 voru ákveðnar upplýsingar um eignina skráðar í dálka A-L.

    Á mynd 15 má sjá að upplýsingar um rakaskemmdir voru skráðar í dálka M-T. Síðan voru

    upplýsingar um orsakir rakaskemmda skráðar í dálka U-AB.

    Í dálk AC voru skráðar athugasemdir þegar eitthvað vakti sérstaka athygli. Þar á eftir voru

    dálkar nýttir til að setja upp skilyrði í Excel til að kalla fram þær upplýsingar sem leitað var að

    hverju sinni. Í framhaldi af því voru búin til skífurit eða súlurit eða annað sem vantaði til að ná

    fram upplýsingum.

    Eins og sjá má á skjáskotum var talan 1 sett til að merkja við þegar eitthvað var viðeigandi en

    annars var ekki merkt í reit.

    VIÐAUKI

  • 42

    Mynd 14 - Dæmi um skráðar upplýsingar um íbúðir.

    Mynd 15 - Dæmi um skráðar upplýsingar um rakaskemmdir og orsakir þeirra.

    Forsíða - Titilsida 2019Lykilsíða - Arnar Þór HrólfssonSkýrslan