Handbók fyrir nemendur og leiðbeinenduraldarafmaeli.hi.is/files/u14/handbok lokaverkefni.pdf4 1.3...

15
Lokaverkefni BA/B.Ed./BS Handbók fyrir nemendur og leiðbeinendur © Menntavísindasvið 2011

Transcript of Handbók fyrir nemendur og leiðbeinenduraldarafmaeli.hi.is/files/u14/handbok lokaverkefni.pdf4 1.3...

Page 1: Handbók fyrir nemendur og leiðbeinenduraldarafmaeli.hi.is/files/u14/handbok lokaverkefni.pdf4 1.3 Umfang Miðað er við að ritgerð/skýrsla (leið a og b) sem samin er af einum

Lokaverkefni BA/B.Ed./BS Handbók fyrir nemendur og leiðbeinendur

© Menntavísindasvið 2011

Page 2: Handbók fyrir nemendur og leiðbeinenduraldarafmaeli.hi.is/files/u14/handbok lokaverkefni.pdf4 1.3 Umfang Miðað er við að ritgerð/skýrsla (leið a og b) sem samin er af einum

2

Efnisyfirlit 1. Lokaverkefni í grunnnámi ............................................................................................... 3

1.1 Hvers konar verkefni? .................................................................................................. 3

1.2 Markmið ....................................................................................................................... 3

1.3 Umfang ........................................................................................................................ 4

2. Hlutverk og samstarf nemanda, leiðsögukennara og umsjónarmanns ........................... 5

2.1 Nemandi ...................................................................................................................... 5

2.2 Leiðsögukennari .......................................................................................................... 5

2.3 Umsjónarmaður ........................................................................................................... 6

3. Vinnulag ........................................................................................................................ 7

3.1 Bygging ritgerðar ......................................................................................................... 7

3.1.1 Skýrsla .................................................................................................................. 8

3.1.2 Greinargerð með lokaverkefni ............................................................................... 8

3.2 Heimildir ...................................................................................................................... 8

3.3 Handbækur .................................................................................................................. 9

3.4 Ritver ........................................................................................................................... 9

3.5 Bókasafn ..................................................................................................................... 9

3.6 Ráðvendni í námi ......................................................................................................... 9

3.7 Reglur um höfundarrétt ................................................................................................ 9

3.8 Vernd þátttakenda í rannsóknum ................................................................................. 9

4. Lokaskil BA-, B.Ed.- og BS-verkefna.............................................................................10

4.1 Ritgerð og greinargerð ................................................................................................10

4.2 Frágangur prentaðra eintaka ......................................................................................10

5. Námsmat ......................................................................................................................12

5.1 Skil á námsmati ..........................................................................................................12

5.2 Matskvarði fyrir talnaeinkunnir ....................................................................................12

Yfirburðaritgerðin (9‒10) ...............................................................................................12

Góða ritgerðin (7‒8) ......................................................................................................12

Ritgerðin sem sleppur (5‒6) ..........................................................................................13

Ritgerðin sem má laga (3‒4) .........................................................................................14

Ritgerðin sem á langt í land (1‒2) .................................................................................14

Misheppnaða ritgerðin (0‒1) .........................................................................................14

5.3 Umsögn um ritgerðir og skýrslur .................................................................................14

6. Viðurkenning .................................................................................................................15

Page 3: Handbók fyrir nemendur og leiðbeinenduraldarafmaeli.hi.is/files/u14/handbok lokaverkefni.pdf4 1.3 Umfang Miðað er við að ritgerð/skýrsla (leið a og b) sem samin er af einum

3

1. Lokaverkefni í grunnnámi

Þessi handbók geymir hagnýtar upplýsingar fyrir nemendur í grunnnámi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands sem vinna að lokaverkefnum. Jafnframt koma upplýsingar hér að góðum notum fyrir leiðsagnarkennara. Athugið að handbók sem þessi hlýtur ávallt að vera í endurskoðun. Því hvetjum við bæði kennara og nemendur til að senda inn athugasemdir ef einhverjar eru á [email protected] [setja handbók lokaverkefni í subject].

Nemendur sem vinna að lokaverkefni eiga að skrá sig í námskeiðið Lokaverkefni hjá nemendaskráningu HÍ. Einnig þarf að senda inn nánari upplýsingar um verkefni og leiðsögukennara gegnum námskeiðsvef lokaverkefnis í Uglu. Athugið að sérstaklega þarf að skrá sig í brautskráningu hjá kennsluskrifstofu Menntavísindasviðs. Gert er ráð fyrir að nemendur hafi lokið um 120 einingum áður en þeir hefja vinnu við lokaverkefni. Eins er skilyrði að nemendur hafi lokið námskeiði í aðferðafræði hyggist þeir vinna rannsókn.

Skiladagsetningar eru birtar á kennsluvef í Uglu.

1.1 Hvers konar verkefni?

a) Algengasta form lokaverkefnis er hefðbundin rannsóknarritgerð þar sem aflað er gagna úr fræðilegum heimildum. Kafað er í rannsóknir og kenningar á viðkomandi fagsviði og mat lagt á þær.

b) Einnig geta nemendur skrifað rannsóknarskýrslu sem byggist á (a) gagnasöfnun á vettvangi (frumrannsókn), svo sem spurningalistum og viðtölum eða (b) fyrirliggjandi gögnum, s.s. gögnum frá Námsmatsstofnun eða gögnum sem safnað hefur verið í fyrri rannsóknum.

c) Jafnframt geta nemendur unnið að annars konar verkefni, t.d. kennslu- og fræðsluefni, vef eða myndbandi. Í slíkum tilfellum er nauðsynlegt að fylgja efninu úr hlaði með ítarlegri greinargerð þar sem lýst er markmiðum og tildrögum, viðfangsefnið sett í fræðilegt samhengi og greint frá niðurstöðum (sjá nánar í kaflanum Greinargerð með lokaverkefni).

1.2 Markmið

Verkefni miðast við að nemandi dýpki skilning sinn á afmörkuðu efni og tengi það sínu

fræðasviði eða faggrein.Verkefnin skulu hafa gildi á sviði kennslu, þjálfunar, uppeldis eða

umönnunar. Í lokaverkefnum skulu nemendur sýna að þeir hafi:

sett sér raunhæf markmið og afmarkað viðfangsefnið rökstutt gildi verkefnisins valið vinnuaðferðir/rannsóknaraðferðir við hæfi og gert grein fyrir þeim aflað viðeigandi og gildra rannsóknargagna og heimilda unnið úr, greint, rökrætt og ígrundað efnið og sett í fræðilegt samhengi beitt aðferðum, hugtökum og kenningum tiltekins fræðasviðs/fræðasviða sýnt sjálfstæð og vönduð vinnubrögð sett verkefnið fram á skýran, faglegan og skapandi hátt

Page 4: Handbók fyrir nemendur og leiðbeinenduraldarafmaeli.hi.is/files/u14/handbok lokaverkefni.pdf4 1.3 Umfang Miðað er við að ritgerð/skýrsla (leið a og b) sem samin er af einum

4

1.3 Umfang

Miðað er við að ritgerð/skýrsla (leið a og b) sem samin er af einum nema sé í kringum 15‒25

blaðsíður miðað við 5‒6 eininga verkefni, 25‒30 blaðsíður miðað við 8‒10 eininga og 35‒40

blaðsíður miðað við 14 eininga verkefni. Ritgerð sem tveir nemendur vinna er að sama skapi

viðameiri.

Velji nemandi að vinna að óhefðbundnu lokaverkefni (leið c) skal fylgja 12–14 síðna

greinargerð ef um 5‒10 eininga einstaklingsverkefni er að ræða en 16‒18 blaðsíður í 14

eininga verkefnum. Greinargerð er skilað ásamt meðfylgjandi efni samkvæmt leiðbeiningum

um skil verkefna.

Page 5: Handbók fyrir nemendur og leiðbeinenduraldarafmaeli.hi.is/files/u14/handbok lokaverkefni.pdf4 1.3 Umfang Miðað er við að ritgerð/skýrsla (leið a og b) sem samin er af einum

5

2. Hlutverk og samstarf nemanda, leiðsögukennara og

umsjónarmanns Lokaverkefnið er sjálfstætt verk nemandans undir leiðsögn kennara. Lokaverkefni er að

jafnaði einstaklingsverkefni en umsjónarmaður getur heimilað samvinnu tveggja nemenda í

samráði við leiðsögukennara.

Nemendur velja sér leiðsögukennara með góða þekkingu á því sviði sem verkefni þeirra

fjallar um. Skulu þeir vera úr hópi kennara skólans, að jafnaði innan þeirra deildar/brautar

sem nemandi stundar nám við. Eingöngu má leita til sérfræðinga utan skólans fáist ekki

leiðsögukennari innan skólans og verður í slíkum tilfellum ávallt að leita eftir samþykki

umsjónarmanna lokaverkefna. Sérfræðingar utan skólans skulu að jafnaði hafa

meistaragráðu á viðkomandi fræðasviði til að teljast hæfir leiðsögukennarar. Heimilt er að

skipta leiðsögn milli tveggja leiðsögukennara eftir því sem um semst.

Verkaskipting milli nemanda, leiðsögukennara og umsjónarmanns lokaverkefna er í helstu

atriðum sem hér segir:

2.1 Nemandi

ber ábyrgð á lokaverkefninu og vinnur verkefnið sjálfstætt og af eigin rammleik með

ráðgjöf frá leiðsögukennara

skal hefja undirbúning að lokaverkefni eigi síðar en á fyrri önn þriðja námsárs

velur sér leiðsögukennara meðal kennara skólans

vinnur rannsóknar- og verkáætlun í samráði við leiðsögukennara (sjá eyðublað á

kennsluvef í Uglu)

hefur frumkvæði að því að semja um fundi með leiðsögukennara

skal hafa samband við leiðsögukennara samkvæmt verkáætlun

fylgir leiðsögn leiðsögukennara og rökræðir umhugsunaratriði

ber ábyrgð á skráningu sinni í námskeiðið „lokaverkefni“ hjá nemendaskráningu

skólans

skráir upplýsingar um verkefnið á „Skráning lokaverkefna“ á vefsvæði í Uglu

kynnir sér skilmála og leiðbeiningar um verkefnið í kennsluskrá og í öðru

upplýsingaefni

sýnir fyllstu ráðvendni í skráningu og notkun heimilda

skilar verkefninu samkvæmt leiðbeiningum og innan tilskilinna tímamarka

2.2 Leiðsögukennari

metur efnisval og afmörkun nemanda á efni

leiðbeinir um rannsóknarspurningu/markmið

metur rannsóknar- og verkáætlun og leiðbeinir um hana

leiðbeinir um heimildir og heimildaleit

leiðbeinir um rannsóknaraðferðir, öflun rannsóknargagna, úrvinnslu, greiningu og

framsetningu gagna

leiðbeinir um efnistök og vinnubrögð

fylgist með framvindu verksins og metur það með hliðsjón af rannsóknar‒ og

verkáætlun

aðstoðar við vandamál sem upp geta komið í rannsóknarvinnunni

vísar á aðra sérfræðinga ef nauðsyn ber til

Page 6: Handbók fyrir nemendur og leiðbeinenduraldarafmaeli.hi.is/files/u14/handbok lokaverkefni.pdf4 1.3 Umfang Miðað er við að ritgerð/skýrsla (leið a og b) sem samin er af einum

6

sækir lokaverkefnið til kennsluskrifstofu Menntavísindasviðs eða skrifstofu

Íþróttafræðaseturs á Laugarvatni, metur og gefur einkunn og umsögn

skilar lokaverkefninu innan tímamarka aftur til kennsluskrifstofu (eða eftir atvikum til

umsjónarkennara eða á skrifstofu Íþróttafræðaseturs á Laugarvatni) með umsögn og

einkunn

2.3 Umsjónarmaður

hefur yfirsýn yfir framkvæmd og skipulag lokaverkefna á sinni braut

hugar að stefnumörkun og mótun

sér um útgáfu leiðbeininga og upplýsinga

sér um fyrirlestra og kynningar

metur val nemenda á leiðsagnarkennara utan skólans og leiðbeinir um það eftir

þörfum

leiðbeinir um val á verkefni og leiðsögukennara ef nemandi velkist í vafa

leiðbeinir nemendum og kennurum ef upp koma vandamál við vinnu verkefnis

kallar til prófdómara, ef þörf krefur.

Page 7: Handbók fyrir nemendur og leiðbeinenduraldarafmaeli.hi.is/files/u14/handbok lokaverkefni.pdf4 1.3 Umfang Miðað er við að ritgerð/skýrsla (leið a og b) sem samin er af einum

7

3. Vinnulag Að skrifa góða rannsóknarritgerð er tímafrekt og krefst einbeitingar og aga. Einnig er

grundvallaratriði að nemandi hafi áhuga á viðfangsefninu. Því eru nemendur hvattir til að

gefa sér góðan tíma við val á viðfangsefni. Hafa skal í huga að rannsóknarspurning og

efnistök geta breyst eftir því sem vinnu miðar áfram. Gagnlegt er að setja snemma niður drög

að efnisyfirliti (efnisgrind) og sjá fyrir sér hvernig ritgerðin og kaflar hennar komi til með að líta

út. Efnisgrindin og kaflaskipting mun síðan þróast og verða markvissari eftir því sem þekking

og skilningur á viðfangsefninu eykst. Góða ráðgjöf varðandi ritgerðarsmíð má finna í

Gagnfræðakverinu (sjá kafla um handbækur).

3.1 Bygging ritgerðar

Miklu skiptir að kaflar í ritgerð myndi góða heild þar sem hver kafli eykur skilning lesenda og

þekkingu á þeim spurningum sem lagt er upp með. Hér er gerð grein fyrir helstu verkþáttum:

Útdráttur (ágrip) er afar hnitmiðuð lýsing á því verki sem fjallað er um í ritgerð eða

greinargerð. Í útdrætti er skýrt frá framlagi verksins, helstu niðurstöðum og túlkun þeirra.

Útdráttur er einn mikilvægasti hluti ritgerðar því hann gefur lesandanum hugmyndir um

heildargæði verksins og hvort það vekur áhuga og athygli eða ekki. Ef um rannsókn er að

ræða er stuttlega gerð grein fyrir aðferðafræði og framkvæmd. Miðað er við að lengd á

útdrætti sé 100–200 orð.

Efnisyfirlit. Efnisyfirlit afmarkar verkið og skýrir mjög ljóslega uppbyggingu þess. Gagnlegt er

að nota efnisyfirlitið sem hjálpartæki við ritgerðarsmíðina, m.a. til að fá góða yfirsýn yfir

kaflana og röklegt samhengi þeirra.

Töflu- og/eða myndayfirlit. Ef ritgerð inniheldur margar töflur og myndir er æskilegt að gera

töflu- og/eða myndayfirlit. Það kemur næst á eftir efnisyfirliti.

Formáli. Á eftir útdrætti má gjarnan setja formála. Þar gefst meðal annars kostur á að koma

þakkarorðum á framfæri.

Inngangur kynnir efni ritgerðar og mikilvægi þess og gerir grein fyrir lykilhugmyndum á

sviðinu. Góð regla er að vanda vel til inngangs því efnistök í upphafi slá tóninn fyrir

lesandann og gefa honum vísbendingu um hve áhugaverð ritgerðin sé. Hér er

rannsóknarspurning sett fram og uppbyggingu ritgerðar lýst.

Meginmálið er ekki sérstakur kafli í ritgerðinni heldur byggist upp á nokkrum köflum með

heitum sem lýsa innihaldi þeirra. Hér er fyrst og fremst gerð grein fyrir fræðilegri umfjöllun um

viðfangsefnið og leitað svara við rannsóknarspurningum. Algeng villa í nemendaritgerðum er

að farið er yfir víðan völl í stað þess að halda sig við þær spurningar sem settar eru fram í

inngangi. Forðast ber að spyrja nýrra spurninga í meginmáli sem ekki er tekist á við að svara.

Ágæt regla er að upphafssetning hvers kafla segi lesanda í stuttu máli um hvað sé fjallað í

kaflanum. Að sama skapi ætti síðasta efnisgrein hvers kafla að draga niðurstöður hans vel

saman.

Niðurlag dregur saman þræði ritgerðar og setur niðurstöður fram á skýran hátt. Álitamál eru

dregin fram og rædd.

Page 8: Handbók fyrir nemendur og leiðbeinenduraldarafmaeli.hi.is/files/u14/handbok lokaverkefni.pdf4 1.3 Umfang Miðað er við að ritgerð/skýrsla (leið a og b) sem samin er af einum

8

3.1.1 Skýrsla

Skrif á rannsóknarskýrslu lýtur í meginatriðum sömu reglum og rannsóknarritgerð. Ásamt því

sem fjallað er um fræðilegan bakgrunn rannsóknar er rannsóknaraðferðum lýst í sérstökum

kafla, niðurstöður rannsóknar eru settar fram og að lokum er umræða þar sem niðurstöður

rannsóknar eru ræddar og tengdar við fyrri rannsóknir.

Fræðilegur bakgrunnur. Fjallað er um fyrri rannsóknir og kenningar um efnið. Nemendur

þurfa ávallt að vega og meta hve ítarlega þeir gera grein fyrir öðrum rannsóknum, þ.e. hvaða

upplýsingar eru nauðsynlegar til að lesandinn átti sig á meginatriðum sem snerta

rannsóknarspurningar. Helsta villan hér er að fjalla á almennan hátt um fjölmargar rannsóknir

án þess að nokkur greining fari fram á aðalatriðum eða þeim efnisþáttum sem sýna til dæmis

hvers vegna þörf sé á frekari rannsóknum.

Rannsóknaraðferðir. Hér er val á rannsóknaraðferðum rökstutt, gagnaöflun lýst sem og

greiningu gagna. Gerð er grein fyrir vali á þátttakendum. Einnig er við hæfi að gera grein fyrir

hugsanlegum siðferðilegum álitamálum og hvernig tekist var á við þau.

Niðurstöður. Miklu skiptir að niðurstöður séu settar fram á skýran hátt og ekki skiptir minna

máli að niðurstöðurnar byggi á þeim gögnum sem aflað var.

Umræða. Kafað er frekar í niðurstöður rannsóknar og þær settar í samhengi við fyrri

rannsóknir/kenningar. Jafnframt er æskilegt að takmarkanir rannsóknar séu ræddar, til að

mynda að hve miklu leyti sé hægt að heimfæra niðurstöður á aðra hópa.

3.1.2 Greinargerð með lokaverkefni

Leyfilegt er að gera annað verkefni en hefðbundna ritgerð að aðalefni, t.d. námsefni af ýmsu

tagi svo sem vefsíðu, geisladisk, handbók, bók/bækling. Alltaf þarf þó að fylgja þessu efni úr

hlaði með ítarlegri greinargerð þar sem verkefnið er kynnt og sýnt fram á mikilvægi þess í

ljósi vísinda og fræða. Alla jafna fer best á því að greinargerðin sé á formi hefðbundinnar

ritgerðar. Í einhverjum tilfellum byggir verkefnið á könnun eða rannsókn og þá er fylgt formi

hefðbundinnar rannsóknarskýrslu. Í greinargerð þarf jafnframt að gera grein fyrir helstu

markmiðum verkefnis, hverjum það á að gagnast og á hvaða hátt. Hafi verkefnið verið prófað

eða reynt á einhvern hátt, er gerð grein fyrir því.

3.2 Heimildir

Strax í upphafi er mælt með að nemendur skrái heimildir niður á réttan hátt. Það sparar mikla

vinnu síðar að hafa allar tilvísanir á hreinu sem og upplýsingar um heimildina í heimildarskrá.

Nemendur þurfa að sýna sjálfstæði gagnvart heimildum. Algengt er í nemendaritgerðum að

vísað sé í heimild í lok efnisgreinar (paragrafs). Er þá allt sem í efnisgreininni stendur komið

úr heimildinni en ekkert frá nemandanum? Nemandinn stjórnar sjálfur ferðinni og nýtir

heimildirnar eftir eigin þörfum. Hann rýnir í ólíkar rannsóknir og kenningar sem tengjast

fræðasviðinu og leiðir þannig lesandann til dýpri skilnings á efninu.

Í lok verkefnis skal vera nákvæm heimildaskrá. Til eru nokkur kerfi um skráningu heimilda og

eru þau yfirleitt hvert öðru lík. Oft gera fræðitímarit kröfur um að höfundar noti eitt ákveðið

skráningarkerfi. Nemendur á Menntavísindasviði skulu alla jafna nota APA-skráningarkerfi.

Leiðsögukennari getur þó óskað eftir því að nemandi noti annað skráningarkerfi og leiðbeinir

þá um slíkt.

Page 9: Handbók fyrir nemendur og leiðbeinenduraldarafmaeli.hi.is/files/u14/handbok lokaverkefni.pdf4 1.3 Umfang Miðað er við að ritgerð/skýrsla (leið a og b) sem samin er af einum

9

3.3 Handbækur

Mikilvægt er að styðjast við handbækur um ritgerðarsmíð og skráningu heimilda þegar unnið

er að lokaverkefni. Bent er á eftirfarandi handbækur:

American Psychological Association (2001). Publication Manual of the American

Psychological Association (5. útgáfa). Washington: Höfundur.

Friðrik H. Jónsson og Sigurður J. Grétarsson. (2007). Gagnfræðakver handa háskólanemum

(4. útgáfa). Reykjavík: Háskólaútgáfan.

3.4 Ritver

Hægt er að sækja námskeið og ráðgjöf hjá ritveri Menntavísindasviðs. Nemendur og

leiðbeinendur eru jafnframt hvattir til að lesa grein Baldurs Sigurðssonar (2006),

Rannsóknarritgerð, leið til þekkingar, í Hrafnaþingi 3, bls. 155–174.

3.5 Bókasafn

Bókasafnið er þýðingarmikill vinnustaður þeirra sem vinna við lokaverkefni. Þó hægt sé að

finna mikið af heimildum gegnum vefinn, kemur ekkert í stað þess að skoða bækur og tímarit

sem eru í hillum safnsins. Starfsmenn safnsins veita ráðgjöf og eru nemendum innan handar

við heimildaleit. Auk þess er gott að skoða síðu sem Bókasafn Menntavísindasviðs heldur úti

um heimildaleit.

3.6 Ráðvendni í námi

Óheimilt er að nýta sér efni annarra í verkefnum, texta, myndir eða annað, beint eða óbeint,

og leggja fram sem sitt eigið efni án þess að geta sérstaklega um heimildir og vísa til þeirra.

Viðurlög geta varðað endurtöku verkefnis, brottvísun úr námskeiði eða jafnvel úr skóla.

3.7 Reglur um höfundarrétt

Kennurum á Menntavísindasviði er heimilt að vísa öðrum nemendum á lokaverkefni

nemenda svo framarlega sem höfundur færist ekki sérstaklega undan því. Kjósi nemandi að

takmarka aðgang að lokaverkefni sínu skal yfirlýsing um það fylgja skilum.

3.8 Vernd þátttakenda í rannsóknum

Leiðsögukennarar eru ábyrgðaraðilar á rannsóknum sem nemendur vinna undir þeirra

leiðsögn. Nemandi má ekki hefja rannsókn fyrr en leiðsögukennari hefur samþykkt

rannsóknaráætlun. Nemandi skal ráðfæra sig við leiðsögukennara um það hvort rannsókn

beri að tilkynna til Persónuverndar og hvort leita skuli samþykkis siðanefndar.

Kennarar, sérfræðingar og nemendur virði réttindi þátttakenda í rannsóknum og gæti þess að

hagsmunir þeirra njóti ítrustu verndar. Þátttakendur skulu fá upplýsingar um tilgang

rannsóknar, meðferð upplýsinga, ábyrgðaraðila og gert ljóst að þeir geti ávallt hætt þátttöku

óski þeir þess. Ekki er æskilegt að nemendur geri rannsóknir á börnum/ungmennum eða

öðrum einstaklingum sem þurfa á sérstakri vernd að halda eða aðstandendum þeirra (svo

sem sjúklingum, föngum eða einstaklingum með þroskahömlun). Forðast skal að nemendur

sem eru að skrifa lokaverkefni leiti inn í skólana til rannsókna nema sem þátttakendur í

rannsóknum kennara eða nemenda sem eru komnir lengra í námi (meistara- og

doktorsnema).

Page 10: Handbók fyrir nemendur og leiðbeinenduraldarafmaeli.hi.is/files/u14/handbok lokaverkefni.pdf4 1.3 Umfang Miðað er við að ritgerð/skýrsla (leið a og b) sem samin er af einum

10

4. Lokaskil BA-, B.Ed.- og BS-verkefna

4.1 Ritgerð og greinargerð

Á auglýstum skiladegi lokaverkefna, eða fyrr, skili nemendur eftirtöldu:

Rafræn skil:

1. Rafrænu eintaki verkefnis í Skemmu (rafrænt gagnasafn). Rafrænt eintak skal vera

að fullu sambærilegt við prentuð eintök. Fylgja skal leiðbeiningum í Skemmu:

http://skemman.is/.

2. Rafrænu eintaki í tölvupósti til leiðsögukennara og til umsjónarmanns ef hann

óskar þess – sama eintaki og skilað er í Skemmu. Leiðsögukennurum er heimilt að

setja verkefni nemenda sinna í gegnum tölvuforrit sem greinir notkun heimilda og er til

varnar ritstuldi.

Skil á skrifstofu:

3. Tveimur prentuðum eintökum. Verkefnum skal skilað í afgreiðslu kennsluskrifstofu

Menntavísindasviðs við Stakkahlíð, 105 Reykjavík eða á skrifstofu Íþróttafræðaseturs

HÍ á Laugarvatni. Póststimpill gildir fyrir þá sem senda lokaverkefni með pósti. Annað

eintakið sækir leiðsögukennari til kennsluskrifstofu/skrifstofu á Laugarvatni en hitt

verður varðveitt á bókasafni Menntavísindasviðs.

a. Nemendur á tómstunda- og félagsmálafræðibraut skili að auki þriðja eintakinu

til formanns námsbrautar.

b. Nemendur á íþrótta- og heilsufræðibraut skili einnig þriðja eintakinu sem

rennur til bókasafns Íþróttafræðaseturs á Laugarvatni.

4. Yfirlýsingu um meðferð lokaverkefna sem er að finna á vef bóksafns

Menntavísindasviðs. Eyðublaðið á að fylgja prentuðu eintökunum.

5. Staðfestingu á rafrænum skilum. Prenta skal út síðuna sem birtist þegar verkefnið

hefur verið vistað í Skemmu (einnig er hægt að fara í „Skemman mín“ eftir skil og

prenta þá síðu út). Staðfestingin á að fylgja prentuðu eintökunum.

6. Vefir og verkefni með fylgihlutum. Greinargerð og öllum öðrum gögnum sem

mögulegt er að vista rafrænt skal skila í Skemmu. Efni vefs skal afritað á geisladisk

eða prentað út á pappír og skilað í einu eintaki sem varðveitt verður á bókasafni

Menntavísindasviðs. Nemendur sem vinna verkefni sem eru námsspil eða hafa

fylgihluti skila einu eintaki af spili/fylgihlut ásamt ljósmyndum af spili/fylgihlut á

kennsluskrifstofu. Að yfirferð lokinni sækja nemendur spilið/fylgihlutinn aftur á

kennsluskrifstofu en ljósmyndirnar verða varðveittar á bókasafni Menntavísindasviðs.

4.2 Frágangur prentaðra eintaka

Uppsetning Verkefnið skal tölvusett á A4 síður. Efri og neðri spássíur skulu vera 2,54 sm en hægri og vinstri spássíur 3–3,5 sm. Nota skal 12 punkta Times-, Times New Roman- eða Calibri-letur. Nota skal eitt og hálft línubil (þetta á við um alla ritgerðina, þ.m.t. útdrátt og tilvitnanir). Þá skal hafa eitt stafabil á eftir greinarmerkjum. Efnisgreinar skulu afmarkaðar með því að draga textann inn um 2–5 stafabil í fyrstu línu. Verkefnið skal allt, að viðaukum meðtöldum, vera með samfelldu blaðsíðutali. Tölusetning hefst með titilsíðu. Blaðsíðutal skal vera neðst á síðu fyrir miðju.

Page 11: Handbók fyrir nemendur og leiðbeinenduraldarafmaeli.hi.is/files/u14/handbok lokaverkefni.pdf4 1.3 Umfang Miðað er við að ritgerð/skýrsla (leið a og b) sem samin er af einum

11

Kápa og titilsíða. Nota skal sérstakt sniðmát að útliti kápu og titilsíðu (framhlið og bakhlið)

sem er að finna á vef lokaverkefna í Uglu. Ritgerðin skal bera sérstaka titilsíðu sem kemur

fyrir innan kápuna. Framhlið titilsíðu ber titil verkefnis og nafn höfundar. Fram kemur

prófgráða (BA-próf/B.Ed.-próf/BS-próf) og námsleið, nafn leiðbeinanda, hvaðan stúdent

útskrifast (deild, svið og skóli), og útskriftarmánuður og ártal. Leturgerð á framhlið titilsíðu er

Arial. Titill ætti að innihalda lykilorð verkefnis og vera lýsandi fyrir efni þess og meginhugsun.

Titli má skipta í aðaltitil og undirtitil. Ágæt lengd á titli er 10–12 orð, helst ekki lengri en 15

orð.

Á bakhlið titilsíðu er titill verkefnis skráður eins og hann verður skráður í heimildaskrám

bókasafna. Upplýsingar um prófgráðu og fræðasvið Háskólans (t.d. Menntavísindasvið) eru

endurteknar. Á eftir Copyright-merkinu © er sett ártal útgáfunnar og nafn höfundar. Að

síðustu er getið um prentsmiðju. Leturgerð á bakhlið titilsíðu er sú sama og í ritgerð

(Times/Times New Roman eða Calibri).

Prentun. Nemendur velji annað hvort a) eða b):

a) Líminnbundið. Lokaverkefnið límt inn í plastmöppu og kápan, sem nemendur hafa útbúið, kemur þar inn í. Kápa prentuð í lit á hvítt karton (heppileg þykkt kartons 160 g).

b) Heftað og kjölband límt yfir. Kápa prentuð í lit á hvítt karton (heppileg þykkt kartons 200 g).

Bóksala kennaranema á Menntavísindasviði býður upp á prentun og frágang verkefna. Opnunartími bóksölunnar er kl. 8.15–16.00 ([email protected], s. 525 5990).

Page 12: Handbók fyrir nemendur og leiðbeinenduraldarafmaeli.hi.is/files/u14/handbok lokaverkefni.pdf4 1.3 Umfang Miðað er við að ritgerð/skýrsla (leið a og b) sem samin er af einum

12

5. Námsmat

5.1 Skil á námsmati

Eftir að hafa metið verkefnið skilar leiðsögukennari lokaverkefninu með umsögn og einkunn

til kennsluskrifstofu. Leiðsögukennarar á íþrótta- og heilsufræðibraut skila námsmati á

skrifstofu á Laugarvatni eða til umsjónarmanns lokaverkefna. Einkunn er þá færð inn á

námsferil nemanda í Uglu. Nemendur sækja kennaraeintakið með umsögninni til

kennsluskrifstofu. Hægt er að nálgast kennaraeintakið með umsögn í eitt ár frá útskrift á

kennsluskrifstofu. Að þeim tíma liðnum er því fargað. Fyrirspurnum um skil á verkefnum má

beina til fulltrúa kennsluskrifstofu og til umsjónarmanna lokaverkefna

5.2 Matskvarði fyrir talnaeinkunnir

Hér er gefið dæmi um matsviðmið frá Penn State University sem gefur hugmynd um þá þætti

sem horft er til þegar að ritgerð er metin til einkunna. Kvarðinn er þýddur og staðfærður af

Baldri Sigurðssyni, forstöðumanni ritvers.

Yfirburðaritgerðin (9‒10)

Meginhugmynd: Skýrt afmörkuð, trúverðug, frumleg, margslungin, sýnir innsæi og er í góðu

samræmi við titil.

Bygging: Heildarskipulag er skýrt og rökrétt og kemur meginhugmynd vel til skila. Gott

skipulag innan kafla og efnisþátta og sterkt heildarsamræmi. Framúrskarandi tengingar frá

einu atriði til annars og efnisgreinar eru vel skilgreindar og afmarkaðar af lykilsetningum.

Notkun heimilda: Frumheimildir eru notaðar til að styðja hvert atriði með að minnsta kosti

einu dæmi. Dæmi styðja einstaka hluta meginhugmyndar og falla að byggingu efnisgreina.

Eigin texti og tilvitnanir vinna saman hnökralaust. Höfundur sýnir djúpan skilning á

hugmyndum í lesefninu og bregst við þeim eða metur þær á gagnrýninn og greinandi hátt.

Greining: Höfundur tengir eigin niðurstöður eða athuganir sannfærandi við fyrri þekkingu eða

það sem aðrir hafa skrifað með sjálfstæðum og frumlegum hætti. Verkið sýnir gagnrýna

hugsun og höfundur forðast einfaldar lýsingar eða endursögn.

Röklegt samhengi og sannfæring: Flæði og samhengi ritgerðar er gott; röksemdir eru

afmarkaðar, skynsamlegar og traustar. Höfundur gerir sér grein fyrir andstæðum

sjónarmiðum og tekur á þeim af þekkingu, tengir á frumlegan hátt við annað efni (aðra

efnisþætti fagsins eða önnur fög/námskeið) sem varpa ljósi á meginhugmynd hans.

Málfar og frágangur: Viðeigandi fræðilegt málsnið sem hæfir á háskólastigi. Setningagerð,

orðaforði, beygingar og málfar framúrskarandi. Reglum um greinarmerki, tilvitnanir, tilvísanir

og heimildaskrá fylgt nákvæmlega, fáar eða engar stafavillur, alls engar ófullkomnar

málsgreinar eða langlokur. Er að öllu leyti í samræmi við fyrirmæli.

Góða ritgerðin (7‒8) Meginhugmynd: Efnileg en ögn óskýr og afmörkun getur orkað tvímælis. Svolítið vantar á

innsæi eða frumleika. Titill ritsmíðar mætti lýsa betur meginhugmynd eða vekja meiri áhuga.

Bygging: Yfirleitt skipuleg, skýr og viðeigandi, þótt stöku sinnum sé út af brugðið. Tengingar

milli efnisþátta geta stundum verið óljósar, efnisgreinar hafa ekki alltaf skýra afmarkandi

lykilsetningu og ótengd atriði blandast stundum saman innan efnisgreinar.

Page 13: Handbók fyrir nemendur og leiðbeinenduraldarafmaeli.hi.is/files/u14/handbok lokaverkefni.pdf4 1.3 Umfang Miðað er við að ritgerð/skýrsla (leið a og b) sem samin er af einum

13

Notkun heimilda: Dæmi eru notuð til stuðnings flestum atriðum. Sum dæmi styðja ekkert

sérstakt eða tengjast ekki samhenginu. Eiginn texti og tilvitnanir tengjast almennt vel. Góður

skilningur á hugmyndunum í lesefninu og brugðist er við þeim og þær oftast metnar á

greinandi og sannfærandi hátt.

Greining: Eigin niðurstöður eða athuganir eru oftast notaðar til stuðnings einstökum atriðum í

málflutningi þótt tengslin séu ekki alltaf mjög skýr. Umfjöllun er yfirleitt lýsandi en gagnrýnin

hugsun má vera meiri.

Röklegt samhengi og sannfæring: Röksemdafærsla er ljós, og flæðir yfirleitt vel og

skynsamlega. Vitund um andstæð sjónarmið er fyrir hendi en ekki tekið nægilega skipulega á

þeim. Stundum eru snjallar tengingar við efni heimilda eða fyrri þekkingu.

Málfar og frágangur: Að mestu viðeigandi fræðilegt málsnið sem hæfir á háskólastigi. Stöku

merki um óformlegt mál eða stílbrot.Setningagerð, orðaforði, beygingar og málfar í góðu lagi

þrátt fyrir stöku frávik. Reglum um greinarmerki, tilvitnanir, tilvísanir og heimildaskrá oftast

fylgt rétt. Nokkrar (minniháttar) stafavillur; hugsanlega stöku ófullkomnar málsgreinar eða

langlokur. Er að flestu eða öllu leyti í samræmi við fyrirmæli.

Ritgerðin sem sleppur (5‒6)

Meginhugmynd: Hefur iðulega sést áður, er hvers-dagsleg, eða geymir fátt nýtt. Hugmynd

getur verið óljós og ekki mikið bitastætt efni sem unnt er að gera úr frumlega ritgerð. Titill er

hversdagslegur eða almennur og helst mjög laust í hendur við meginhugmynd.

Bygging: Almennt óskýr og rök fyrir skipulagi sjást ekki. Höfundur lætur heimildir stundum

taka af sér ráðin í skipulagi. Höfundur fer oft úr einu í annað eða endurtekur. Fáar eða óljósar

tengingar milli efnisþátta og þræðir í samhenginu eru oftast frekar þunnir. Margar efnisgreinar

hafa ekki viðeigandi lykilsetningu.

Notkun heimilda: Málflutningur höfundar er stundum studdur efni heimilda en oft eru

efnisatriði ekki studd heimildum. Stundum er vísað í heimildir án þess að það hafi sérstakan

tilgang en annars staðar vantar tilvísanir. Eiginn texti og tilvitnanir geta verið á skjön. Fram

kemur almennur skilningur á hugmyndum í heimildum og á stöku stað er lagt út af þeim eða

þær metnar á greinandi og sannfærandi hátt.

Greining: Eigin niðurstöður og athuganir eru laustengdar efni heimilda. Iðulega er vitnað í

heimildir án þess að lagt sé út af þeim, þær greindar eða tengdar einstökum hugmyndum

höfundar, eða greiningin bætir engu við tilvitnunina. Gagnrýninni hugsun bregður fyrir en

meira er um hlutlausar lýsingar eða endursagnir.

Röklegt samhengi og sannfæring: Rökstuðningur getur oft verið veikur eða röksemdir óljósar.

Andstæð sjónarmið eru ekki alltaf nefnd né tengt út fyrir efnið.

Málfar og frágangur: Stundum má sjá viðeigandi fræðilegt málsnið eins og hæfir í

háskólaritgerð en þó nokkuð er um óformlegt mál, talmál eða slangur. Vandamál í gerð

setninga, beygingum og málfari (ekki þó alvarleg). Nokkrar villur í stafsetningu, notkun

greinarmerkja, frágangi tilvitnana, tilvísana og heimildaskrár. Ófullkomnar málsgreinar og

langlokur koma fyrir. Fylgir fyrirmælum að miklu leyti.

Page 14: Handbók fyrir nemendur og leiðbeinenduraldarafmaeli.hi.is/files/u14/handbok lokaverkefni.pdf4 1.3 Umfang Miðað er við að ritgerð/skýrsla (leið a og b) sem samin er af einum

14

Ritgerðin sem má laga (3‒4)

Meginhugmynd: Erfitt er að greina skýra meginhugmynd eða að hún felur í sér hversdagsleg

og þekkt viðhorf eða sjálfsögð sannindi.

Bygging: Óskýr, oft vegna þess að meginhugmynd er óljós eða engin. Heimildir ráða meiru

um skipulag en höfundur. Tengingar milli atriða geta verið óskýrar eða misvísandi, til dæmis

ef gert er ráð fyrir óréttmætu röklegu samhengi. Fáar burðugar lykilsetningar og efnisgreinar

eftir því sundurlausar.

Notkun heimilda: Efni heimilda er ekki endilega til stuðnings neinni hugmynd eða fullyrðingu.

Tilvitnanir standa eins og eyjar í lesmálinu. Höfundur virðist hafa takmarkaðan skilning eða

misskilja hugmyndir í heimildum og vinnur ekki úr þeim á greinandi og gagnrýninn hátt. Efni

er notað úr heimildum án tilvísunar.

Greining: Eigin niðurstöður og athugandir eru mjög sjaldan tengdar eða studdar efni

heimilda, eða þá sá stuðningur er veikur. Hugsanlega er erfitt að koma auga á röksemdir eða

dæmi sem unnt er að nota. Meira um hlutlausa lýsingu eða endursögn en gagnrýna hugsun.

Röklegt samhengi og sannfæring: Hugmyndir standa stakar, leiða ekki ein af annarri, yfirleitt

vegna þess að það vantar rökhugsun til að fylgja. Sýn á viðfangsefnið er takmörkuð eða

yfirborðsleg og engin tilraun til að sjá efnið frá ólíku sjónarhorni.

Málfar og frágangur: Höfundur notar ekki viðeigandi fræðilegt málsnið heldur er mikið um

óformlegt mál, talmál eða slangur. Mikil vandamál í málfari, gerð setninga og beygingu orða.

Ófullkomnar málsgreinar eða langlokur geta verið margar. Margar alvarlegar villur í

stafsetningu, notkun greinarmerkja og frágangi tilvitnana, tilvísana og heimildaskrár. Fylgir

ekki fyrirmælum um verkefnið.

Ritgerðin sem á langt í land (1‒2)

Er eins og ritgerðin sem má laga en hér eru vandamálin alvarlegri eða algengari.

Misheppnaða ritgerðin (0‒1)

Höfundur hefur eitthvað misskilið tilgang verkefnisins því alla viðleitni skortir til að gera efninu

skil. Gallar í málfari, byggingu og greinandi hugsun draga athygli lesandans frá efninu svo

erfitt er að halda þræði. Ekki er unnt að koma auga á neina meginhugsun. Fylgir ekki

fyrirmælum um gerð eða lengd. Notar efni frá öðrum án þess að geta heimilda.

5.3 Umsögn um ritgerðir og skýrslur

Í umsögn um lokaverkefni er æskilegt að fjallað sé um eftirfarandi fjóra meginþætti: Byggingu

verks, fræðilega umfjöllun og framlag til fagsviðsins, frágang og miðlun, og heildarmat.

Page 15: Handbók fyrir nemendur og leiðbeinenduraldarafmaeli.hi.is/files/u14/handbok lokaverkefni.pdf4 1.3 Umfang Miðað er við að ritgerð/skýrsla (leið a og b) sem samin er af einum

15

6. Viðurkenning Minningarsjóður Ásgeirs S. Björnssonar, fyrrum lektors við Kennaraháskóla Íslands, var

stofnaður vorið 1990. Markmið sjóðsins er að efla gerð vandaðra lokaverkefna við

Menntavísindasvið með því að veita viðurkenningu fyrir framúrskarandi verkefni og koma

þeim á framfæri. Viðurkenning sjóðsins skal veitt einu verkefni eða fleirum. Einungis þau

verkefni sem hljóta ágætiseinkunn (9 eða hærra) eða sambærilegan vitnisburð koma til álita.

Leiðsögukennarar geta tilnefnt lokaverkefni til viðurkenningar og þurfa tilnefningar að berast

sjóðsstjórn eigi síðar en hálfum mánuði fyrir brautskráningu að vori. Því er brýnt að

leiðsögukennarar íhugi tímanlega hvort einhver verkefni nemenda þeirra komi til álita.

Tilnefningar skulu vera skriflegar og rökstuddar. Í rökstuðningi komi fram lýsing á ágæti

verksins, einkum með tilliti til þess að það verði gefið út sem námsefni, fræðirit, handbók,

grein í tímariti eða á annan hátt. Getið verði stuttlega um fræðilegar undirstöður, hagnýtt gildi

og hvaða sess verkið skipar meðal annars íslensks efnis á sama sviði.

Sjóðsstjórn hefur skamman tíma til að gera upp á milli verkefna og þar sem þau eru af ólíkum

fræðasviðum er mikilvægt að leiðsögukennarar vandi tilnefningar sínar sem best. Tilnefningu

þarf að fylgja eintak af lokaverkefni.