BA ritgerð - Skemman · 2019. 3. 21. · 7 James D. G. Dunn, The Theology of Paul the Apostle,...

34
BA ritgerð B.A. gráða í guðfræði Hvern segið þið mig vera? Elstu vísbendingar um guðdóm Krists Árni Þór Þórsson Leiðbeinandi Rúnar Már Þorsteinsson Febrúar 2019

Transcript of BA ritgerð - Skemman · 2019. 3. 21. · 7 James D. G. Dunn, The Theology of Paul the Apostle,...

  • BA ritgerð

    B.A. gráða í guðfræði

    Hvern segið þið mig vera?

    Elstu vísbendingar um guðdóm Krists

    Árni Þór Þórsson

    Leiðbeinandi Rúnar Már Þorsteinsson Febrúar 2019

  • Háskóli Íslands

    Hugvísindasvið

    Guðfræði- og trúarbragðafræðideild

    Hvern segið þið mig vera?

    Elstu vísbendingar um guðdóm Krists

    Ritgerð til B.A.-prófs í guðfræði

    Árni Þór Þórsson

    Kt.: 131095-2609

    Leiðbeinandi: Rúnar Már Þorsteinsson

    Febrúar 2019

  • Hvern segið þið mig vera? Elstu vísbendingar um guðdóm Krists

    Þessi ritgerð er 10 eininga lokaverkefni til BA prófs í guðfræði við Guðfræði- og

    trúarbragðafræðideild, Hugvísindasviði Háskóla Íslands

    © Árni Þór Þórsson 2019

    Óheimilt er að afrita ritgerðina á nokkurn hátt nema með leyfi höfundar.

    Prentun: Háskólaprent

    Febrúar 2019

  • Efnisyfirlit

    Formáli .................................................................................................................................................... 1

    Útdráttur .................................................................................................................................................. 2

    Inngangur ................................................................................................................................................ 3

    1. Hvern segja menn mig vera? ............................................................................................................ 4

    1.1 Bréf Páls postula ........................................................................................................................... 4

    1.2 Markúsarguðspjall ......................................................................................................................... 5

    1.3 Matteusarguðspjall ........................................................................................................................ 7

    1.4 Lúkasarguðspjall ........................................................................................................................... 8

    1.5 Jóhannesarguðspjall .................................................................................................................... 10

    2. Hvern segja fræðimennirnir mig vera? ......................................................................................... 12

    2.1 James Dunn ................................................................................................................................. 12

    2.2 Brant Pitre ................................................................................................................................... 16

    2.3 Larry W. Hurtado ........................................................................................................................ 18

    3. Því að ritað er: rannsókn á biblíutextum ...................................................................................... 21

    3.1 Filíppíbréfið 2:6–11 .................................................................................................................... 21

    3.2 Markús 2:5b–7 ............................................................................................................................ 24

    3.3 Lúkas 24:52 ................................................................................................................................. 25

    Lokaorð ................................................................................................................................................ 27

    Heimildaskrá ....................................................................................................................................... 29

  • 1

    Formáli

    Ástæðan fyrir því að ég hóf að stunda nám við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla

    Íslands var sú að ég vildi kynna mér trú mína á Guð og Jesú Krist. Á fyrsta ári mínu í náminu

    voru nokkrir áfangar sem mér þóttu áhugaverðir en aðeins einn þeirra greip athygli mína

    verulega; var það inngangsfræði að Nýja testamentinu. Þar var stiklað á stóru um rit Nýja

    testamentisins, hvenær og hvar þau voru skrifuð, hvaða guðfræðilegu áherslur og kristsmynd

    þau höfðu. Þegar ég komst að því að kristin kenning um hinn þríeina Guð hafi byggt stórlega

    á Jóhannesarguðspjalli vildi ég athuga betur kristsmyndina í hinum ritum Nýja testamentisins.

    Ég ákvað að því nær sem ég kæmist að trú hinna upprunalegu fylgjenda Jesú því nær kæmist

    ég að Guði föður og syni.

    Framhaldskúrsar um Nýja testamentið juku aðeins áhuga minn á efninu og ákvað ég fyrst

    að skrifa BA ritgerð um guðdóm Krists í guðspjöllunum almennt. Hins vegar eftir að hafa lesið

    í bók Larry W. Hurtado, How on Earth did Jesus become a God?, sem leiðbeinandi minn og

    kennari Rúnar Már Þorsteinsson mælti með þá vildi ég athuga hvenær í sögunni guðdómur

    Krists varð fyrir fylgjendum hans. Vegna trúar minnar og áhuga vildi ég athuga hvort að trú á

    soninn Jesú Krist sem Guð hafi opinberast í eldri ritum en í Jóhannesarguðspjalli.

    Ég vil fyrst og fremst tileinka þessa ritgerð ömmu minni heitinni, Álfheiði Bjarnadóttur, og

    þakka henni fyrir að hvetja mig til að fara í guðfræðinám. Unnustu minni Huldu Maríu

    Albertsdóttur vil ég þakka fyrir óendanlegan stuðning í gegnum allt námið og ritgerðarferlið.

    Móður minni Sólveigu Birnu Sigurðardóttur og vini mínum Bergi Arnari Hrafnkeli Jónssyni

    vil ég þakka fyrir yfirferð og lestur á ritgerðinni. Að lokum vil ég þakka leiðbeinanda og

    kennara mínum Rúnari Má Þorsteinssyni fyrir að vekja áhuga minn á nýjatestamentisfræðum,

    sem og fyrir leiðsögn sína í ritgerðarferlinu.

  • 2

    Útdráttur

    Umfjöllunarefni þessarar ritgerðar varðar uppruna guðdóms Jesú frá Nasaret í ritum Nýja

    testamentisins. Hvenær varð Jesús Guð fyrir fylgjendum sínum? Hvar eru vísbendingarnar um

    holdtekningu Krists af guðdómnum í ritum Nýja testamentisins? Hið ríkjandi álit fræðimanna

    er á þann veg að Jóhannesarguðspjall sé eina ritið innan N.t. þar sem guðdómur Jesú sé

    afdráttarlaus, að undir lok fyrstu aldar hafi fólk loks tekið trú á Jesú Krist sem Guð. Markmið

    mitt er að benda á að svo sé ekki, heldur að sonurinn, Jesús Kristur, hafi orðið upphafinn og

    tilbeðinn sem Guð meðal fylgjenda sinna stuttu eftir dauða og upprisu; að það hafi verið vilji

    Guðs föðurins, að deila guðdómnum með syninum Jesú Kristi frá Nasaret. Upphaf rannsókna

    minna byggist á bréfum Páls postula og guðspjöllunum fjórum. Verður greint frá ritunartíma,

    höfundi og kristsmynd þeirra samkvæmt ríkjandi áliti fræðimanna. Næst á eftir verða þrjár

    ólíkar nálganir fræðimanna að guðdómi Jesú kannaðar. Þeir eru James Dunn, sem telur að

    holdtekning og tilbeiðsla á Kristi sé aðeins að finna í Jóhannesarguðspjalli, Brant Pitre, sem

    fjallar um holdtekningu Guðs í Markúsarguðspjalli og Larry Hurtado, sem fjallar um tilbeiðslu

    Krists út frá alls kyns trúariðkunum eins og t.d. sálmum og bænum. Að lokum verður farið í

    frumtextanna. Þrír textar hafa verið fyrir valinu og eru þeir í réttri tímaröð. Textarnir eru Fil

    2:6–11, Mrk 2:5b–7 og Lúk 24:52. Mun rannsókn mín á þessum textum gefa til kynna að

    vísbendingar um guðdóm Jesú frá Nasaret sé að finna miklu fyrr en í skrifum

    Jóhannesarguðspjalls.

  • 3

    Inngangur

    Kristin kenning, sem þróaðist snemma meðal frumkristinna, fullyrðir að Jesús frá Nasaret hafi

    ekki einungis verið spámaður eða engill heldur sannur Guð. Á fjórðu öld e.kr. myndaðist

    játning sem kallaðist Níkeujátningin og hún staðfesti að Jesús væri ekki minni en Guð heldur

    Guð af Guði, fæddur ekki skapaður, og verandi af sama eðli og faðirinn. Allt það sem átti við

    um hinn eina Guð Ísraels átti einnig við um Jesú Krist.1 Holdgerving Jesú og uppruni hennar

    hefur ekki alltaf verið alveg ljós.2 Á hvaða ritum Nýja testamentisins byggir Níkeujátningin

    um holdtekju Krists? Í hvaða textum er guðdómur Krists ljós? Hvenær var hann fyrst tilbeðinn?

    Hér á eftir verður rannsakaður uppruni guðdóms Krists og hvenær í sögunni hann kom fyrst

    fram; hvort hann hafi verið uppruninn mjög snemma eftir dauða Jesú eða í lok fyrstu aldar. Í

    fyrsta kafla ritgerðarinnar verður fjallað almennt um bréf Páls postula og guðspjöllin fjögur í

    ljósi þeirrar myndar sem hefur verið dreginn upp af Jesú Kristi, samkvæmt ríkjandi mati

    fræðimanna. Í öðrum kafla verður síðan greint frá þremur ólíkum nálgunum fræðimanna að

    guðdómi Jesú. Að lokum í þriðja kafla munu vel valdir frumtextar Biblíunnar vera rannsakaðir

    í ljósi rannsóknarspurninganna. Í ritgerðinni mun orðasambandið „guðdómur Krists“ koma oft

    fyrir og með því á ég við að Jesús sé guðdómlegur og á sama stalli og Guð. Biblíuþýðingar eru

    úr 2007 útgáfu íslensku Biblíunnar.

    1 William C. Placher, Essentials of Christian Theology, Louisville, Kentucky: Westminster John Knox Press, 2003, bls. 183. 2 James D. G. Dunn, Christology in the Making. An Inquiry into the Origins of the Doctrine of the Incarnation, London: SCM Press LTD, 1980, bls. 3.

  • 4

    1. Hvern segja menn mig vera?

    1.1 Bréf Páls postula

    Páll postuli er, fyrir utan Jesú Krist, mikilvægasta persónan í allri sögu kristindómsins. Þrettán

    af tuttugu og sjö ritum Nýja testamentisins eru eignuð Páli og er nafn hans tengt við fimmtán

    þeirra, ef Hebreabréfið og Postulasagan eru talin með. Páll var gríðarlega áhrifamikill í boðun

    sinni á Kristi og boðaði hann fagnaðarerindið um Sýrland, Kilikíu, Litlu Asíu, Makedóníu,

    Akkeu og í Róm. En til að vita hver hinn sögulegi Páll var og hvað hann sagði um Krist þarf

    að skoða heimildirnar. Þó að þrettán bréf séu eignuð Páli þá telja fræðimenn aðeins sjö3 þeirra

    sem upprunaleg bréf postulans. Hin sex eru kölluð hin Deutero-pálínsku4 bréf sem Páll

    hugsanlega skrifaði og Hirðisbréfin5 sem talin eru vera eftir seinni fylgjendur hans. Fer þessi

    röðun eftir stílbrögðum, orðaforða og guðfræði bréfanna. Upprunaleg bréf Páls eru talin vera

    skrifuð milli ársins 50 og 60 e.kr.6

    Fagnaðarerindið sem Páll flytur er um Jesú Krist og er dauði hans þungamiðja þess. Hlýðni

    Krists allt til dauðans á krossinum var svar Guðs við óhlýðni Adams og alls mannkynsins. En

    hver er kristsfræði Páls? Það getur verið erfitt að meta hana þar sem postullinn skrifar lítið sem

    ekkert um líf og starf Jesú. Páll hefur að öllum líkindum haft vitneskju um líf Krists, annað

    hvort út frá heimildum Jesúhreyfingarinnar eða frá samtali hans við Pétur (Gal 1:18). Hins

    vegar var ekki markmið hans með bréfunum að fjalla um líf Jesú heldur að predika hinn

    upprisna Krist.7 En hver var hinn upprisni Jesús fyrir Páli? Hann var sá maður frá Nasaret sem

    Páll og Jesúhreyfingin töldu að Guð hefði reist upp frá dauðum og einkenndi þessi trú

    kristsfræði postulans. Flestir Gyðingar töldu Jesú ekki upprisinn né að hann hafi verið Messías.

    Þó að svo sé, þá er mikilvægt að benda á að Páll talar um Krist út frá gyðinglegum bakgrunni.

    Nafnið Kristur kemur frá gríska orðinu Christos og er það þýðing af hebreska orðinu Mashiah

    sem þýðir Messías, hinn smurði. Páll boðar því Jesú sem hinn smurða Guðs sem Drottinn hefur

    uppfyllt loforð sín í gegnum. Annað hugtak sem Páll notar yfir Jesú er gríska orðið kurios sem

    3 Rómverjabréfið, Fyrra og Síðara Korintubréf, Galatabréfið, Filippíbréfið, Fyrra Þessalóníkubréf og Fílemonsbréfið. 4 Deutero þýðir „seinni“, þ.e. að hinn „seinni Páll“ hafi skrifað þau en það er umdeilt. Þau eru Efesusbréfið, Kólossubréfið og Seinna Þessalóníkubréf. 5 Fyrra og Síðara Tímóteusarbréf og Títusarbréfið. 6 Bart D. Ehrman, The New Testament. A Historical Introduction to the Early Christian Writings. Fith Edition, New York: Oxford University Press, Inc, 2012, bls. 306–308. 7 James D. G. Dunn, The Theology of Paul the Apostle, Grand Rapids, Michigan: William B. Eerdmans Publishing Company, 1998, bls. 184–189.

  • 5

    þýðir Drottinn. Sú staðhæfing að Jesús sé Drottinn er ein mikilvægasta játningin fyrir Páli og

    Jesúhreyfingunni. Merkilegt er að nefna að orðið kurios er grísk þýðing á hebreska nafni Guðs,

    Jahve í Gamla testamentinu. Þó voru herrar, húsbóndar og jafnvel rómverskir keisarar kallaðir

    kurios svo hugtakið bendir einnig á einstakling sem gegndi valdsstöðu. Því er Páll ekki endilega

    að gefa undir guðdóm Krists með slíkri titilgjöf. Umdeilt er á milli fræðimanna hvort að Páll

    tali um guðdómlegan Krist sem var til í upphafi með Guði. Páll segir ekki frá meyfæðingunni

    heldur nefnir hann að Jesús hafi fæðst af konu (Gal 4:4). Hann kallar Jesú aldrei Guð eða Guð

    soninn en þó eru til ritningarstaðir þar sem mögulegt er að guðdómur Jesú Krists liggi að baki.8

    Tvo markverðugustu textana, hvað varðar kristsfræði postulans, er að finna í sálmum

    Filippíbréfsins 2:6–11 og Kólossubréfsins 1:15–20 þar sem Kristi virðist vera lýst sem

    holdgervingi guðdómsins. Fjallað verður um texta Filippíbréfsins síðar í ritgerðinni. Í

    Kólossusbréfinu 1:19 er sagt frá að Guði þóknaðist að láta uppfyllingu sína dvelja í Kristi.

    Einnig má sjá í 2:9 að guðdómurinn dvelur í manninum Jesú. Það er spurning hvort að um

    holdgervingu sé að ræða eða hvort að Guð sé að vinna innra með Jesú. Samkvæmt

    nýjatestamentisfræðingnum James Dunn þá dregur hymninn tungutak sitt frá hugmyndum

    Gyðinga um hina guðlegu visku. Viska Guðs er fyrri en allt og er mynd Drottins. Guð skapaði

    allt með viskunni. Hvað þýðir það að Páll yfirfæri tungumál viskunnar á Krist? Að mati Dunns

    þýðir það ekki að Jesús hafi verið til í upphafi eða sé holdgervingur Guðs. Því að viskan í

    Gyðingdómi kom frá lögum Móse, Tórah. Svo hér hefur höfundur Kólossusbréfsins sett Jesú í

    stað Tórah og töldu Gyðingar lögbókina ekki hafa verið til frá upphafi alda. Eins og Gyðingar

    fengu visku Guðs í gegnum Tórah geta nú Páll og Jesúhreyfingin fengið hana í gegnum

    manninn Jesú. Því er ekki, að mati Dunns, um að ræða holdgervingu Guðs né um fortilveru

    Krists hjá Páli.9

    1.2 Markúsarguðspjall

    „Upphaf fagnaðarerindisins um Jesú Krist, Guðs son“ (Mrk 1:1). Svo hljóða upphafsorð

    Markúsarguðspjalls sem er almennt talið vera það elsta af guðspjöllunum fjórum. Elstu

    heimildir tímasetja guðspjallið eftir dauða Péturs postula í Róm en því er almennt haldið fram

    að Pétur ásamt Páli hafi mætt dauða sínum á meðan ofsóknir Nerós keisara stóðu yfir, þ.e. um

    64/65 e.kr. Stuðst hefur verið við 13. kafla guðspjallsins til að ákvarða tímasetningu þess. Í

    8 David G. Horrell, An Introduction to the Study of Paul. Second Edition, London: T&T Clark, 2006, bls. 60–61, 63–64. 9 Dunn, The Theology of Paul, bls. 204–206, 268–275, 281.

  • 6

    spádómi Jesú um fall Jerúsalem í 13:14 kemur fram lýsing á eyðingu borgarinnar. Hins vegar

    er talið að þessi lýsing sé ekki eins þróuð og aðrar heimildir sem eru tengdar falli Jerúsalem og

    því er haldið fram að guðspjallið sé skrifað rétt fyrir eyðinguna eða á meðan á henni stóð um

    67-70 e.kr. Höfundur guðspjallsins er óþekktur en er oft tengdur við Pétur. Klement frá

    Alexandríu (c. 150-215 e.kr) staðsetur skrif guðspjallsins í Róm á meðan Pétur lifði þar.

    Það sem er einkennandi fyrir mynd Jesú Krists í skrifum Markúsar er messíanska

    leyndarmálið. Jesús bannar öllum að gefa það út hver hann sé (1:25, 34; 3:12). Lærisveinarnir

    skilja ekki kenningar hans (4:40-41; 6:52) og hann segir dularfullar dæmisögur (4:10-13). Með

    þagmælskunni er Markús að reyna að útskýra af hverju enginn vissi að Jesús væri Messías.

    Titilinn fékk hann eftir krossfestinguna. Markús leiðir lesandann í gegnum guðspjallið til að

    finna út hver Jesús sé. Í upphafsversinu er hann sagður sonur Guðs (1:1) og himnesk rödd Guðs

    skipar Jesú sem son sinn (1:11; 9:7). Hinn elskaði sonur er nefndur í dæmisögunni um

    víngarðinn (12:6) og Jesús staðfestir sjálfan sig sem son Guðs, aðspurður af æðsta prestinum

    (14:61-62). Loks viðurkennir rómverski hershöfðinginn Jesú sem son Guðs (15:39). Því er

    hugtakið „sonur Guðs“ miðlægt í Markúsi.10 Hugtakið var kunnuglegt í grísk-rómverska

    heiminum þar sem viðurkenndir voru fleiri synir annarra guða. Þeir voru innblásnir af

    guðlegum hæfileikum sem komu sér vel fyrir mannkynið og er líklegt að Jesús hafi verið talinn

    einn af þeim. Innan Gyðingdóms voru til sérstakar persónur sem höfðu guðlegt vald til að

    framkvæma kraftaverk og voru þessir einstaklingar stundum kallaðir synir Guðs. Konungur

    Ísraels, sem var sérstakur í augum Drottins, var kallaður sonur Guðs. Svo hugtakið virðist

    benda á einstakling sem hafði sérstakt samband við Drottin og byrjar Markús á því að mynda

    einstakt samband milli Guðs og manns.11

    Annað miðlægt hugtak um Jesú hjá Markúsi er Mannsonurinn sem er vægast sagt dularfullt.

    Almennt er talið að hugtakið vísi í messíanska persónu. Efnið í guðspjallinu vísar hins vegar

    ekki til þess. Hugtakið er aldrei notað í kristsfræðilegum tilgangi, þ.e. að benda á að Jesús sé

    Messías. Jesús notar hugtakið oft yfir sjálfan sig (2:10-11; 2:28; 8:31; 9:9; 9:31; 10:33; 14:62).

    Hví skyldi Jesús, sem er að reyna að halda hlutverki sínu leyndu, nota opinberlega hugtak sem

    myndi ljóstra upp messíönskum leyndardómi hans? Betri skilning á hugtakinu er að finna í

    frummálinu þar sem hugtakið er almennt þýtt sem „maður“. Líklegt er að þessi almenna notkun

    á orðinu eigi við hér í Markúsi en í mesta lagi er tilgangur hugtaksins að vísa sérstaklega í

    10 Craig A. Evans, Mark 8:27-16:20. Word Biblical Commentary, Nashville: Thomas Nelson Publisher, 2001, bls. Lxx-lxxiii. 11 Ehrman, The New Testament, bls. 90-91.

  • 7

    Jesú.12 Hins vegar er getið til um Mannsoninn í Daníelsbók13 og er mögulegt að Markús taki

    hugtakið þaðan.14

    1.3 Matteusarguðspjall

    Matteusarguðspjall er fyrsta guðspjallið í Biblíunni og eru skrif þess almennt tímasett milli 80-

    85 e.kr. Er þetta byggt á því að Matteus noti Markús sem heimild.15 Vísbendingar í guðspjallinu

    um hvort musterið sé fallið eru einnig mikilvægar upplýsingar hvað varðar tímasetningu

    Matteusar. Telja sumir fræðimenn að í dæmisögu Jesú í 22:7 sé að finna ábendingar um fall

    musterisins. Það að konungurinn hefði látið brenna borg brúðkaupsgestanna sé hugsanlega

    vísbending um að Matteus skrifi eftir árið 70 e.kr. Þessu til stuðnings benda sumir fræðimenn

    á að kristsfræði og kirkjufræði guðspjallamannsins séu of þróuð til að vera undanfari ársins 70

    e.kr.16

    Þó þýðir þetta ekki að Matteus skrifi 10–15 árum á eftir Markúsi. Við vitum aðeins að hann

    hafi skrifað á eftir honum. Það að Matteus hafi ekki breytt texta Markúsar í 13. kaflanum er

    undarlegt ef hann var að skrifa löngu eftir árið 70 e.kr. Myndi Matteus ekki hafa nákvæmari

    lýsingu yfir eyðileggingu musterisins? Lúkas breytti þessum texta hjá Markúsi, hví ekki

    Matteus? Því má telja svo að Matteus hafi skrifað guðspjall sitt nokkrum árum eftir Markúsi

    um 70–75 e.kr.17 Höfundur er eins og áður óþekktur og óvíst er hvar guðspjallið var skrifað.

    Vegna gyðinglegra áhrifa er líklegt að það hafi verið skrifað í Palestínu en Papías18 nefnir

    upprunalegt arameiskt guðspjall í ritum sínum.19 Þar sem við höfum guðspjallið aðeins á grísku

    er almennt talið á að það hafi verið skrifað í Antíokkíu í Sýrlandi.20

    Af guðspjöllunum fjórum þá er Mattuesarguðspjall undir mestum áhrifum frá Gyðingdómi

    og hefur það áhrif á mynd Jesú.21 Líkt og hjá Markúsi þá eru hugtökin „sonur Guðs“ og

    „Kristur/Messías“ mikilvæg hjá Matteusi. Merkingin á bakvið hugtökin virðist vera sú sama

    12 Evans, Mark 8:27-16:20, bls. Lxxiii-lxxv. 13 Dan 7:13-14: „Ég horfði á í nætursýnum og sá þá einhvern koma á skýjum himins, áþekkan mannsyni. Hann kom til hins aldna og var leiddur fyrir hann. Honum var falið valdið, tignin og konungdæmið og allir menn, þjóðir og tungur skyldu lúta honum. Veldi hans er eilíft og líður aldrei undir lok, á konungdæmi hans verður enginn endir.“ 14 Evans, Mark 8:27-16:20, bls. Lxxvi. 15 Ehrman, The New Testament, bls. 114-115. 16 Donald A. Hagner, Matthew 1-13. Word Biblical Commentary, Texax: Word Books, 1993, bls. lxxiii-lxxiv. 17 Sama rit, bls. lxxiv. 18 Papías var biskup Hieropolis sem lifði á fyrstu öld e.kr. sbr. Robert A. Guelich, Mark 1-8:26. World Biblical Commentary, Dallas, Texas: Word Books, 1989, bls. xxvi. 19 Hagner, Matthew 1-13, bls. lxxv. 20 Sama rit, bls. lxxv. 21 Clive Marsh og Steve Moyise, Jesus and the Gospels. An Introduction, London: Cassel, 1999, bls. 35.

  • 8

    en Matteus er með notkun þeirra að benda á að Jesús hafi náið samband við föðurinn. Þessi

    túlkun á hugtökunum svipar til Markúsarguðspjalls.22 Sama má segja um hugtakið

    Mannsonurinn sem Jesús notar yfir sjálfan sig og fellur það saman við hugtökin hér að ofan.23

    Ólíkt forvera sínum þá byrjar Matteus ekki guðspjall sitt á því að tilkynna Jesú sem son Guðs.

    Heldur leggur hann áherslu á gyðinglegan bakgrunn Krists með því að rekja ættartölu hans

    aftur til Davíðs og Abrahams (Matt 1:1). Með þessu er Matteus að tilkynna að Jesús sé

    konungur Gyðinga. Gyðinglegar tilvísanir í Gamla testamentið er að finna í gegnum allt

    guðspjallið. Flótti Maríu og Jósefs frá Ísrael til Egyptalands (Matt 2:13-18) á sér sterka

    hliðstæðu í flótta Gyðinga frá Egyptalandi í Annarri Mósebók. Slátrun Heródesar konungs á

    sveinbörnum í Betlehem má líkja við skipun Faraós um að slátra sveinbörnum Hebrea (2Mós.

    1:22)24 Fimm ræður Jesú í guðspjallinu vísa mögulega í Mósebækurnar fimm.25 Þessi

    gyðinglega áhersla dregur því upp eftirfarandi kristsmynd. Jesús var Gyðingur, konungur

    Ísraels, Messías sem uppfyllti spádóma spámannanna og lögmálið (5:17). Jesús er hinn nýi

    Móse, því að eins og Móse flutti Gyðingum lögmálið til að sýna þeim veginn til Guðs, þá flutti

    Jesús fylgjendum sínum það til að sýna þeim veginn í Guðs ríki. Jesús var ekki að skipta

    lögmálinu út heldur kom hann með hinn sanna skilning á því. Jesús er hin sanna uppfylling

    Gyðingdómsins.26

    1.4 Lúkasarguðspjall

    Þriðja guðspjallið er Lúkasarguðspjall og er almennt talið hafa verið ritað um 80–90 e.kr. Það

    er talið fullvíst að Lúkas hafi byggt á Markúsarguðspjalli og að hann hafi mögulega þekkt til

    Matteusarguðspjalls. Guðspjallið var skrifað í samfélagi þar sem ritaðar og munnlegar

    heimildir voru þekktar af höfundinum og er þetta ljóst í upphafi ritsins (Lúk 1:1–4).

    Höfundurinn safnar þessum hefðum saman og með eigin áherslum mótar hann guðspjallið.27

    Ólíkt Markúsi og Matteusi þá hefur Lúkas guðspjall sitt á formlegum inngangi sem inniheldur

    mun betri grísku. Voru slíkir inngangar algengir í grísk-rómverskum bókmenntum og þá

    sérstaklega hjá grískum sagnfræðingum. Því má segja að Lúkas sé mesti „sagnfræðingurinn.“28

    Mörg einkenni grískrar sagnfræði er að finna hjá Lúkasi og vitnar hann í sagnfræðilegar

    22 Douglas. R. A. Hare, Matthew. Interpretation. A Bible Commentary for Teaching and Preaching, Louisville: John Knox Press, 1993, bls. 4. 23 Hagner, Matthew 1-13, bls. lxi. 24 Hare, Matthew, bls. 15-17. 25 Marsh og Moyise, Jesus and the Gospels, bls. 36. 26 Ehrman, The New Testament, bls. 123. 27 Jonathan Knight, Luke‘s Gospel. New Testament Readings, London: Routledge, 1998, bls 4, 10. 28 Ehrman, The New Testament, bls. 136–137.

  • 9

    staðreyndir (1.5, 2.1 og 3.1). Hann nefnir t.d. ýmiss stjórnvöld sem voru uppi á tímum Jesú.

    Guðspjall Lúkasar á hliðstæður í hellenískum bókmenntum, bæði ævisögum og sagnaritun.29

    Höfundur Lúkasarguðspjalls er óþekktur. Af innganginum má þó dæma að sá sem er ávarpaður,

    hinn göfugi Þeófílus (1:3), hefur líklega þekkt til höfundar. Hefð hefur verið fyrir því að Lúkas,

    samstarfsmaður Páls postula sé höfundur guðspjallsins. Lúkas læknir er nefndur í

    Kólossubréfinu og í bréfi Páls til Fílemons er Lúkasar getið sem samverkamanns Páls. Engar

    aðrar sannanir hafa komið upp á yfirborðið og því heldur Lúkas höfundarrétti sínum á

    guðspjallinu.30

    Mynd Lúkasar af Jesú er talin mjög mannleg.31 Það er almennt álit fræðimanna að hér séu

    fáar eða engar vísbendingar um forveru Jesú Krists eða að frelsun mannkynsins sé hans

    hlutverk heldur er það allt eignað Guði föðurnum og er Jesús hans verkfæri.32 Hann er munnur

    Guðs, spámaðurinn sem Jesaja vitnar um (4:21), og fylltur af anda föðurins (4:18). Andi Guðs

    er mjög áberandi þegar Jesús framkvæmir kraftaverk. Þau styðja við þá staðhæfingu að hann

    sé spámaður Guðs því að kraftaverkin eru tákn um ríki Drottins. Hann er leiðtogi

    Jesúhreyfingarinnar og hinna tólf postula (6:12–16). Hann er Mannsonurinn og kemur það

    hugtak oft fyrir í guðspjallinu. Í raun vísar hugtakið til þess að Jesús sé Messías þó svo að hann

    nefni sig ekki Krist fyrr en eftir krossfestinguna (24:26). Það þýðir ekki að Jesús sé ekki Kristur

    fyrir krossfestinguna eins og lesandinn er látinn vita um (2:11; 9:20). En maðurinn Jesús

    samþykkir örlög sín og er þetta áberandi í 9:51 þar sem hann heldur til Jerúsalem til að horfast

    í augu við dauðann. Atvikið sem á sér síðan stað hjá Olíufjallinu sýnir hversu mannlegur

    Kristur er. Hér þróast persóna hans, sem áður hafði samþykkt örlög sín og dauða, með því að

    kvíða fyrir stundinni sem brátt kemur. Hann örvæntir sem maður til Drottins.33 Fjallað verður

    ítarlegra um mynd Jesú Krists í Lúkasarguðspjalli í ljósi mikilvægs texta í 24. kafla.

    29 Knight, Luke‘s Gospel, bls. 7. 30 John Nolland, Luke 1-9: 20. Word Biblical Commentary, Dallas, Texas: Word Books, 1989, bls. xxxv-xxxvi. 31 Knight, Luke‘s Gospel, bls. 54. 32 Hans Conzelmann, The Theology of Saint Luke, London: Faber and Faber, 1961, bls. 173. 33 Knight, Luke‘s Gospel, bls. 55-57.

  • 10

    1.5 Jóhannesarguðspjall

    Guðspjall Jóhannesar er talið eitt vinsælasta ritið í Nýja testamentinu. Guðspjallið er hið fjórða

    og almennt talið það yngsta. Ritunartími guðspjallsins er byggður á tveimur papýrusbrotum

    sem fundust. Annars vegar Egerton Papyrus 234 en í því er að finna suma texta

    Jóhannesarguðspalls og hins vegar p52 sem innheldur Jóh 18:31–33, 37–38. Hafa fræðimenn

    tímasett brotið um 100–125. Svo guðspjallið er í síðasta lagi ritað um árið 125 e.kr, mögulega

    fyrir lok fyrstu aldar.35 Höfundur Jóhannesarguðspjalls er óþekktur en samkvæmt hefðinni er

    ritið kennt við Jóhannes Sebedeusson. Höfundur nefnir sjálfan sig þrisvar sem sjónarvott en

    aldrei á nafn (1:14; 19:35; 21:24). Forn handrit bera titilinn „samkvæmt Jóhannesi“ og hefur

    það almennt verið tengt við lærisvein Jesú hér fyrir ofan. Íreneus kirkjufaðir (ca. 130–202 e.kr.)

    nefnir Jóhannes, lærisvein Jesú sem höfund ritsins.“36

    Það er í Jóhannesi sem þekktustu orð og gjörðir Jesú koma fram. Góði hirðirinn, brauð

    lífsins, vegurinn, sannleikurinn og lífið og að breyta vatni í vín. Þetta er aðeins fundið í

    Jóhannesarguðspjalli.37 Þó að svo sé, þá er líklegt að höfundur hafi a.m.k. þekkt til samstofna

    guðspjallana. Guðspjallið gerir nefnilega ráð fyrir því að lesandinn viti hver Jesús Kristur er

    (1:17) þar sem hann er nefndur án nokkurar útskýringar. Í samstofna guðspjöllunum er Jesú

    lýst fyrir lesanda sem veit ekki hver hann er. Hann er sonur Guðs, Kristur sem Jesaja spámaður

    vitnaði um. Matteus og Lúkas innihalda báðir fæðingafrásagnir sem kynna Jesú ítarlega, allt

    frá ættartölu til fæðingarstaðar til skírnar. Svo það er líklegt að Jóhannes hafi haft þekkingu á

    guðspjöllunum þremur eða á einhverri útgáfu af þeim. Það er annað mál hversu mikið höfundur

    notaði þessar heimildir. Svo virðist vera að Jóhannes breyti töluvert því efni sem samstofna

    guðspjöllin höfðu. Guðspjallið segir að Jesús hafi starfað í þrjú ár þar sem hin guðspjöllin

    greina aðeins frá einu starfsári Krists. Þegar Jesús deyr þá verður ekkert myrkur á himni,

    musteristjaldið klofnar ekki og játningu rómverska hershöfðingjans er ekki að finna. Einnig er

    kalli Jesú til Guðs (Mrk 15:34) sleppt.38 Mögulegt er að Jóhannes hafi haft samstofna

    guðspjöllin í huga þegar hann skrifaði guðspjallið en ekki notað þau sem heimildir. Þar sem

    guðspjallið er svo ólíkt hinum þremur, er talið að höfundurinn hafi notað hefðir, bæði

    34 Þetta handritabrot var gefið út undir titlinum Fragments of an Unknown Gospel and other Early Christian Papyri. 35 George R. Beasly-Murray, John. Word Biblical Commentary, Waco, Texas: Word Books, 1987, bls. lxxv. 36 D. Moody Smith, John. Abingdon New Testament Commentaries, Nashville: Abingdon Press, 1999, bls. 24. 37 Ehrman, The New Testament, bls. 176–177. 38Smith, John, bls. 27–30.

  • 11

    munnlegar og ritaðar. Þessar hefðir hafi innihaldið mörg kraftaverk og orð Jesú sem Jóhannes

    mótaði í nýtt óvenjulegt guðspjall39

    Mynd Jesú hjá Jóhannesi er mjög frábrugðin þeirri mynd sem er dregin af honum í samstofna

    guðspjöllunum. Ritið er í raun boðun um Jesú sjálfan í staðinn fyrir að vera safn frásagna um

    hvað hann gerði og sagði. Jesús er sonur Guðs sem kemur frá himnum til að boða Guð. Jesús

    talar aldrei um í guðspjöllunum á undan að hann hafi komið frá himnaríki. Þar er hann

    Mannsonurinn sem reis upp frá dauðum. Þessi forvera og himneski staðall sem Jesús hefur er

    talinn alveg sér á báti hér á meðal guðspjallanna þó að það megi finna vísbendingar um forveru

    hjá Páli postula (Fíl 2:6–11). Samkvæmt Jóhannesi er Jesús Orðið sem var hjá Guði og var

    Guð (1:1).40 Þetta er ekki saga af dauðlegum manni heldur af veru sem var með Guði í upphafi

    alda, sem var sjálf guðleg, sem bjó til alheiminn og var sjálfs-opinberun Guðs föðurs almáttugs.

    Mynd Jesú er eins upphafin og hún verður og er þetta áberandi í orðum Tómasar lærisveins í

    Jóh 20:28 þar sem hann játar: „Drottinn minn og Guð minn!“41

    39 Beasly-Murray, John, bls. xxxvi–xxxvii. 40 Smith, John, bls. 43. 41 Ehrman, The New Testament, bls. 178.

  • 12

    2. Hvern segja fræðimennirnir mig vera?

    Það sem nú hefur komið fram eru almennar upplýsingar um guðspjöllin fjögur og almennt álit

    fræðimanna á hver Jesús er sagður vera. Hið ríkjandi álit fræðimanna er svo að sá Jesús sem

    Páll og samstofna guðspjöllin (Markús, Matteus og Lúkas) fjalla um sé einungis maður (með

    guðlega eiginleika) sem sendur er frá Guði, líkt og spámenn Gamla testamentisins. Það sé

    aðeins í Jóhannesarguðspjalli sem kristsfræðin þróast í það að Jesús sé holdgervingur Guðs. En

    þó svo að það sé hið almenna álit þýðir það ekki að það sé hið rétta. Vissulega hafa fræðimenn

    ólíkar skoðanir sem betur fer og hér á eftir verður kafað dýpra í þrjár mismunandi nálganir

    guðfræðinga á guðdómi Krists.

    2.1 James Dunn

    Breski nýjatestamentisfræðingurinn James Dunn, sem var prófessor við Durham háskólann í

    Bretlandi, rannsakaði uppruna kenningarinnar um holdtekju Guðs í Jesú Kristi. Taldi hann að

    mikilvægt væri að finna merkinguna á bakvið hugtakið „sonur Guðs“ í fornöld. Gerði Dunn

    þetta til að athuga hvort að síðari tíma skilgreiningar, sem töldu að hugtakið staðfesti fortilveru

    Krists, hefðu rétt á sér. Ef hugtakið væri skilið í sínu fyrstu aldar samhengi, þá myndi hin sanna

    merking á hugtakinu koma í ljós. Hvað þýðir að vera sonur Guðs? Samkvæmt Dunn var

    hugtakið víða notað í fornöld, bæði í hellenísku og gyðinglegu samhengi. Í menningu og

    trúarlífi Grikkja var að finna hetjur á borð við Herkúles og Díonýsos sem voru báðir synir

    guðsins Seifs. Drottnarar í austurlöndum, þá sérstaklega í Egyptalandi, voru kallaðir synir

    guðanna. Hugtakið „sonur Guðs“ var notað víða til að vísa í Ágústus keisara.42

    Til að styrkja mál Dunns þá nefnir Ehrman Apollóníus frá Tyana sem var rómverskrar trúar.

    Hann var uppi á svipuðum tíma og Jesús. Hann fæddist á undraverðan hátt og á unga aldri hafði

    hann mikla vitneskju um trúna. Þegar hann varð fullorðinn fór hann um þorpin boðandi góðar

    fréttir. Apollóníus safnaði saman lærisveinum sem kölluðu hann „son Guðs“ og hann læknaði

    sjúka, hrakti út illa anda og reisti fólk upp frá dauðum. Síðar var hann dæmdur til dauða fyrir

    glæpi gegn Róm. Eftir dauða hans var hann talinn hafa risið upp frá dauðum, opinberast fólkinu

    sínu og stigið upp til himna. Ótrúleg líkindi eru með sögu Apollóníusar og Jesú Krists.43

    42 Dunn, Christology in the Making, bls. 12–14. 43 Ehrman, The New Testament, bls. 32–34.

  • 13

    Í samhengi Gyðinga var hugtakið notað á marga vegu. Englar og himneskar verur voru synir

    Guðs, verandi á þingi Jahve (1Mós 6:2, 4; Job 1:6–12; Slm 29:1). Ísrael var nefnt frumburður

    eða sonur Guðs (2Mós 4:22; Jer 31:9; Hós 1:11) og konungur Ísraels var oft nefndur sonur

    Guðs (Slm 2:7; 89:27; 2Sam 7.14). Notkun hugtaksins virðist hafa verið svipuð í báðum

    tilfellum og var það útbreidd trú að konungar væru synir Guðs. Annað hvort komnir af Guði

    eða sem fulltrúar Guðs á jörðu; þeir voru ástfólgnir Guði. Hugtakið „Guð“ var einnig notað

    yfir einstaklinga í fornöld, t.d. yfir konunga og keisara í hinu grísk-rómverska samfélagi.

    Apollóníus sem var nefndur hér að ofan, varði sig gegn keisaranum Domitianusi með þeim

    rökum að hver maður sem góður væri, hlyti þann heiður að kallast „Guð.“ Það sem er sláandi

    er að slíka titilgjöf er einnig að finna í textum Gamla testamentisins þó að það sé einungis á

    fáum stöðum (Slm 45.6; 82.6). Dunn dregur þá ályktun að hugtakið „sonur Guðs“ eða

    hugmyndin um „guðdómlegan son“ hafi verið víða þekkt í fornöld þá sérstaklega á meðal

    samtímamanna Krists. Það sem kemur Dunn hins vegar mest á óvart í öllum þessum textum er

    að hugmyndin um son Guðs sem kemur frá himnum til að endurleysa mannkynið virðist vera

    allstaðar fjarverandi, þema sem er áberandi í Jóhannesarguðspjalli.44

    Samkvæmt Dunn biður Jesús bænir til Guðs á óvenjulegan hátt sem gerir hann einstakan

    gagnvart samtímamönnum hans. Jesús notar arameiska orðið abba þegar hann biður til Drottins

    og vísar hugtakið til náinna fjölskyldutengsla. Jesús var ekki hinn fyrsti til að kalla Guð föður

    (Ssal 2:13,16) en þó var það óalgeng áköllun á hans tíma. Þetta einstaka form af bæn er ekki

    aðeins formleg áköllun til Guðs heldur tjáir Jesús með henni náið samband milli sonarins og

    föðurins. Jesús kenndi lærisveinum sínum þessa tegund af bæn svo að þeir gætu einnig verið

    nánir Guði í gegnum sig. Til að styrkja enn frekar þá ályktun að þetta sé séreinkenni Jesú og

    hreyfingarinnar hans þá segir Páll postuli að abba bænin sé sérstök fyrir þá sem hafa fengið

    andann (Róm 8:15; Gal 4:6). Við vitum að orðið abba tjáir náin fjölskyldutengsl við föðurinn

    og sú staðreynd að Jesús notar það í bænum sínum sýnir að hann leit á sjálfan sig sem son

    Guðs. Við sjáum enn frekar í Mrk 12:6 og Lúk 22:29 að Jesús taldi samband sitt við Guð sem

    sonurinn vera einstakt og að verk Guðs myndi ná hápunkti í gegnum sig.45 Hins vegar voru

    aðrir í fornöld sem kölluðu Guð föður og fjallar Rúnar M. Þorsteinsson um þetta í bók sinni

    Jesus as Philosopher: The Moral Sage in the Synoptic Gospels. Segir Rúnar frá því að

    einstaklingar á borð við Seneka, Músoníus og Epíktetus, sem allir voru uppi á svipuðum tíma

    og Jesús, hafi kallað Guð föður. Enn fremur greinir Jústínus Píslavottur frá því um miðja aðra

    44 Dunn, Christology in the Making, bls. 15–17, 19. 45 Sama rit, bls. 26–28.

  • 14

    öld e.kr. að allir höfundar hafi kallað Guð föður manna og guða (1 Apol. 22:1).46 Áköllun Jesú

    var því ekki aðeins frá honum komin heldur voru fleiri sem notuðu hana. Mætti því jafnvel

    segja að þetta dragi úr þeirri staðhæfingu Dunns að Jesús aðgreini sjálfan sig frá

    samtímamönnum sínum með abba bæninni.

    Dunn fer ekki lengra en þetta í túlkun sinni á verki Jesú sem sonar Guðs. Öll umræða um

    fortilveru eða guðdóm Krists í samstofna guðspjöllunum er dregin í efa hjá

    nýjatestamentisfræðingnum og segir hann að ritningin vari okkur við því að gera of mikinn

    greinarmun á sjálfsvitund Jesú og lærisveina hans (Matt 5:48; 17:25; Mrk 3:34; Lúk 20:36).

    Samkvæmt Dunn eru aðeins þrír ritningastaðir í samstofna guðspjöllunum sem gefa einhverja

    von um fortilveru eða guðdóm Jesú frá Nasaret. Fyrsti ritningarstaðurinn er Mrk 12:6. Sumir

    vilja meina að hér sé verið að tala um fortilveru þar sem gerður er greinarmunur á þjónunum

    og hinum elskaða syni. Dunn segir að þessi munur geti verið útskýrður sem hápunktur

    dæmisögunnar og sé ekki sterkur grunnur fyrir fortilveru Krists. Næstu tveir textar eru Mrk

    13:32 og Matt 11:27/Lúk 10:22. Dunn efast um að þessir textar séu upprunaleg orð Jesú en ef

    þau skyldu vera það, þá tjái þau ekki fortilveru né guðdóm. Fyrri textinn sýni að Jesús horfi til

    framtíðarinnar, fullviss um dýrð sína frammi fyrir föðurnum. Seinni textinn tjái þetta nána

    samband föður og sonar þar sem Jesús sér sig í sérstöku hlutverki sonarins til að opinbera

    þekkingu Guðs.47

    Sú spurning hefur komið upp hvort að hinir fyrstu kristnu hafi tilbeðið Jesú eða gefið honum

    guðdómlega lotningu. Talið er að frumkristnar bænir, sálmar og játningar um að Jesús sé

    Drottinn, sé að finna í Pálsbréfum og að þær gætu verið vísbending um að mjög snemma hafi

    Jesúhreyfingin farið að tilbiðja Krist.48 Hvað varðar bænirnar til Jesú þá gerir Dunn greinarmun

    á grískum orðum sem eru notuð fyrir bænir eða beiðnir. προσεύχομαι (prosevchomai) er sögnin

    fyrir að biðja og er hún oft notuð í samstofna guðspjöllunum í tengingu við bænahald Jesú til

    föðurins. δέομαι (deomai) er önnur sögn sem getur þýtt að biðja um. Hún er notuð í beiðni til

    Guðs eða Jesú. Síðan er það sögnin παρακαλέω (parakaleo) sem getur þýtt að biðja ákaflega

    um, hvetja eða kalla á. Í fyrsta lagi segir Dunn að sögnin προσεύχομαι sé alltaf notuð í samhengi

    við Guð sjálfan, aðeins bænir séu beðnar til Guðs. Hins vegar í 2Kor 13:8–9 sé sögnin

    παρακαλέω greinilega notuð til að vísa í Krist. Dunn segir að hér skilji Páll hinn upprisna Krist

    46 Runar M. Thorsteinsson, Jesus as Philosopher: The Moral Sage in the Synoptic Gospels, Oxford: Oxford University Press, 2018, bls. 51. 47 Dunn, Christology in the Making, bls. 28–29. 48 Larry W. Hurtado, One God One Lord. Early Christian Devotion and Ancient Jewish Monotheism, London: SCM Press Ltd, 1988, bls. 1–4.

  • 15

    sem einstakling sem hægt sé að biðja um hjálp. Þetta gæti verið vísbending um bæn hjá Páli.

    Annað dæmi um hugsanlega bæn er að finna í 1Kor 16:22 þar sem Páll notast við arameiska

    tungutakið Marana þa sem þýðir „Drottinn vor, kom þú.“ Dunn segir að þetta sé svo sannarlega

    beiðni um að hinn upprisni Kristur komi aftur á jörðina. Dunn segir að bænir þar sem orðið

    προσεύχομαι kemur fyrir, sé bænin alltaf til hins eina Guðs. Hins vegar eru beiðnir og áköll

    um hjálp til Jesú sjáanlegar en þá með öðrum grískum orðum sem eru frekar notuð í samhengi

    við Krist.49

    Í Gamla testamentinu er að finna marga sálma sem eru lofgjörð til Guðs Ísraels. Sálmar voru

    einnig hluti af tilbeiðslu kristinna manna á Guði. En spurningin er hvort að í þessum sálmum

    sé að finna dæmi um tilbeiðslu á Jesú Kristi. Árið 112 e.kr. gaf Pliníus, borgarstjóri Biþyníu,

    keisaranum Trajanusi upplýsingar sem vörðuðu sálma kristinna manna. Sagði Pliníus frá því

    að sálmarnir hafi lýst Jesú sem Guði. Í Hebrebréfinu 1:8–12 má finna texta sem er greinilega

    túlkun á Slm 45:6–7 og 102:25–27 en þar er syninum eignuð sköpun heimsins og lýst sem

    Guði. Gæti verið að Pliníus hafi verið að tala um þennan sálm. Vinsælustu sálmarnir í

    Pálsbréfum sem varða þetta eru Fíl 2:6–11 og Kól 1:15–20. Báðir sálmanir geta flokkast undir

    kristilega sálma en samkvæmt Dunn þá eru þeir ekki lofgjörð til Krists. Þetta séu sálmar sem

    lofa Guð fyrir Krist, fyrir allt sem Guð gerði í Kristi. Þess vegna sé ekki um tilbeiðslu á Kristi

    að ræða hér.50

    Þá er það aðeins Jóhannesarguðspjall sem er eftir. Hér fær Jesús fyrst titilinn „einkasonur“

    sem var seinna notað í játningum kristinna manna. Þemað einkennist af sambandi föður og

    sonar og sannfæringu Jesú um fortilveru sína. Þessa fortilveru má sjá í áberandi „Ég er“ orðum

    hans; „Fyrir Abraham, Ég er“ (Jóh 8:58). Versin í Matt 11:25–27/Lúk 10:22 sýna að Jóhannes

    hafi byggt á sögulegum hefðum en samkvæmt Dunn þá hafi túlkun hans á þessum textum farið

    mun lengra heldur en fyrri guðspjallamenn ætluðu. Sama má segja með „Ég er“ orð Jesú. Þessi

    orð er að finna í Markúsarguðspjalli en Jóhannes túlkar þau með sínum eigin áherslum í

    guðfræði og mótar nýja kristsfræði sem hann aðhyllist.51 Dunn kemst að þeirri niðurstöðu að

    þróun kristfræðinnar verði meiri með tímanum. Samkvæmt Páli og Markúsi verður Jesús hinn

    helgi sonur Guðs eftir dauða og upprisu. Matteus og Lúkas reyna að tengja guðdómleikan við

    49 James D.G. Dunn, Did the first Christians Worship Jesus? The New testament evidence, Louisville, Kentucky: Westminster John Knox Press, 2010, bls. 31–37. 50 Sama rit, bls. 38–41. 51 Dunn, Christology in the Making, bls. 29–31.

  • 16

    fæðingu Krists og uppruna. Það sé aðeins í fjórða guðspjallinu sem greint er frá fortilveru Krists

    og að hann sé Guð, að mati Dunns.52

    2.2 Brant Pitre

    Brant Pitre, starfandi prófessor í guðfræði við guðfræðiskólann Notre Dame Seminary í New

    Orleans, Louisiana, talar gegn hinu almenna áliti fræðimanna um guðdóm Krists í samstofna

    guðspjöllunum í bók sinni The Case For Jesus. Hann hefur röksemdarfærslu sína á því að vitna

    í mótrökin í bók Bart Ehrmans, How Jesus Became God. Ehrman færir rök fyrir því að ef Jesús

    var talinn vera Guð í samstofna guðspjöllunum, sé ótrúlegt að öll þrjú ritin hafi sleppt því að

    kalla hann Guð. Þar með dregur Ehrman þá ályktun að Jesús sé ekki Guð heldur helgur maður.

    Hann var ekki til í upphafi og er að engu leyti samur Guði Ísraels, heldur var Kristur upphafinn

    sem guðlegur maður eftir upprisuna. Þá dregur Ehrman í efa sögulegt gildi þeirra staðhæfinga

    sem er að finna í Jóhannesarguðspjalli um guðdóm Krists.53

    Pitre segir að þó að Jesús samstofna guðspjallanna fari ekki um Galíleu með þá yfirlýsingu

    að hann sé Guð, þá þýði það ekki að engar vísbendingar sé að finna í textanum um guðdóm

    Krists. Sú ályktun að guðspjöllin þrjú lýsi Jesú ekki sem Guði skapar vandamál fyrir þá kristnu

    staðhæfingu að Jesús sé Guð og setur spurningamerki við frásögn Jóhannesarguðspjalls.

    Vandamálið við þessa ályktun samkvæmt Pitre er að hún er einfaldlega röng. Að hans mati eru

    mörg dæmi í samstofna guðspjöllunum sem sýna Jesú í hlutverki Guðs. Þetta eru kraftaverk og

    orð Jesú. Vill Pitre meina að hinn sanna skilning á orðum og gjörðum Krists sé að finna í

    samhengi við Gamla testamentið.54

    Til að styðja við rök sín notast Pitre við þrjár mikilvægar sögur sem koma fyrir í

    guðspjöllunum en vegna takmarkaðs rýmis ætla ég að greina frá tveimur þeirra. Fyrst er það

    sagan af því þegar Jesús lægði storminn (Mrk: 4.35–41; Matt: 8.23–27; Lúk: 8:22–25).Sagan

    segir frá því þegar Jesús og lærisveinar hans fóru á bát um Galíleuvatn. Skall þá á mikill stormur

    og var Jesús vakinn af hræddum lærisveinum sínum og lægði storminn.55 Hvað myndi slíkur

    atburður merkja í augum fyrstu aldar Gyðings? Pitre segir að vissulega sé hægt að færa rök

    fyrir því að kraftaverk voru ekki óvenjuleg fyrir spámann Guðs. Mörg dæmi er að finna í Gamla

    52 Dunn, Christology in the Making, bls. 61. 53 Bart D. Ehrman, How Jesus Became God: The Exaltation of a Jewish Preacher from Galilee, New York: HarperCollins, 2014, bls. 64. 54 Brant Pitre, The Case for Jesus. The Biblical and Historical Evidence for Christ, New York: Image, 2016, bls. 120–122. 55 Mrk 4:39 „Hann vaknaði, hastaði á vindinn og sagði við vatnið: „Þegi þú, haf hljótt um þig“ Þá lægði vindinn og gerði stillilogn.“

  • 17

    testamentinu um spámenn sem framkvæma kraftaverk56 Það þýðir ekki að þeir séu guðir. En

    þegar kafað er dýpra í Gamla testamentið sjáum við mörg dæmi þar sem Guð sýnir mátt sinn í

    því að stjórna vindinum og hafinu.57 Merkilegasta dæmið samkvæmt Pitre er að finna í sálmi

    107 í versum 23–30. Þar er sagt frá skipverjunum sem lenda í miklu stormviðri og að öldur

    hafsins hafi orðið ógnvænlegar. Þau vers sem einblína skal á hér eru 28–29 en þar segir í

    biblíuþýðingu 2007: „Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni og hann bjargaði þeim úr

    þrengingum þeirra. Hann breytti storminum í blíðan blæ og öldur hafsins lægði.“ Sagan af

    skipverjunum og sagan af storminum á Galíleuvatni eru ótrúlega líkar. Jesús og Guð Ísraels eru

    í sama hlutverki hér og hafa sömu krafta. Jesús fær ekki krafta sína frá Guði, hann biður ekki

    Guð um að lægja storminn heldur gerir hann það af eigin mætti. Viðbrögð lærisveinanna eru

    eins og við mætti búast: „Hver er þessi? Jafnvel vindur og vatn hlýða honum.“ Hann

    framkvæmdi ekki einungis kraftaverk, heldur sýndi hann mátt sem hafði einungis áður verið

    eignaður hinum eina Guði Ísraels.58

    Seinni sagan er af því þegar Jesús gengur á vatni. Er hana að finna í þremur af

    guðspjöllunum fjórum, Markúsi (6:45–52), Matteusi (14:22–33) og Jóhannesi (6:16–21). Þar

    sem guðdómur Krists er viðurkenndur í Jóhannesarguðspjalli af fræðimönnum heldur Pitre sig

    við hin tvö guðspjöllin. Einblínir hann sérstaklega á Markús þar sem hans guðspjall er talið það

    elsta. Sagan í Markúsi segir frá því er Jesús sendi lærisveina sína í bát yfir til Betsaídu. Jesús

    fór til fjalls að biðjast fyrir en þegar hann sá að lærisveinarnir erfiðuðu mjög út á vatninu gegn

    vindinum, kom hann til þeirra gangandi yfir vatnið. Þeir urðu skelfingu lostnir við að sjá Jesú

    og töldu hann vera vofu en Jesús mælti: „Það er ég, verið óhræddir.“ Forn-grískan hljómar svo:

    θαρσεῖτε, ἐγώ εἰμι· μὴ φοβεῖσθε. ἐγώ εἰμι þýðir einfaldlega „ég er“ en getur verið notað til að

    auðkenna sjálfan sig eins og Jesús gerir samkvæmt þýðingunni hér fyrir ofan með „Það er ég.“

    Pitre vill meina að grískan eigi að vera þýdd með hinu guðlega „Ég er.“ Vitnar hann aftur í

    Gamla testamentið í 2Mós: 3:13–15 þar sem Guð segir „Ég er sá sem ég er. Og hann bætti við:

    „Svo skaltu segja við Ísraelsmenn: „Ég er“ sendi mig til ykkar...Þetta er nafn mitt um aldur og

    ævi.“ Hér nefnir Guð sjálfan sig „Ég er.“ Ef við förum nú aftur í sögu Markúsar þá er Jesús

    ekki einfaldlega að auðkenna sjálfan sig heldur er hann að opinbera guðdóm sinn. Hann segir

    „Verið hughraustir, ég er, verið óhræddir.“ Með þetta (sem og mörg önnur dæmi í bók hans) í

    56 Sbr. Móses notar staf sinn til að aðgreina Rauða hafið (2Mós 14: 21–31). Elía spámaður biður fyrir því að regnið hætti og það hættir í þrjú ár en síðar er hann biður fyrir að það komi aftur þá byrjar regnið aftur (1Kon 17–18). 57 Job: 26:11, Slm 104:1–7 og Slm 106:8–9 58 Brant Pitre, The Case for Jesus, bls. 122–125.

  • 18

    huga kemst Pitre að þeirri niðurstöðu að Jesús geti ekki verið neinn annar en Guð Ísraels í holdi

    í samstofna guðspjöllunum.59

    2.3 Larry W. Hurtado

    Larry W. Hurtado, starfandi prófessor við háskólann í Edinborg, telur að það sé skiljanlegt að

    margir fræðimenn hafi dregið þá ályktun að trúfesta við Jesú hafi aukist með tímanum, að það

    hafi farið af stað þróun í trú fylgjenda hans. Frumkristni hóf sögu sína sem lítill hópur fylgjenda

    Jesú í Júdeu. Fljótlega breiddist hreyfingin út í gyðinglegu díaspóruna þar sem heiðingjar

    bættust við í fylkinguna. Þá var Páll postuli sérstaklega mikilvægur í því verkefni að boða

    boðskap Krists til hins grísk-rómverska heims. Eftir því sem tíminn leið jókst tala heiðingja í

    Jesúhreyfingunni og áður en fyrstu öldinni lauk þá voru þeir orðnir mun fleiri en hinir Gyðing-

    kristnu. Flestar af tillögunum sem varða þróun guðdóms Krists innihalda þá staðhæfingu að

    Jesús var gerður að Guði vegna hinna miklu áhrifa frá grísk-rómverskum fylgjendum

    Jesúhreyfingarinnar. Spurningin er hins vegar hvenær þessi þróun átti sér stað. Sumir vilja

    meina að hellenískir hópar innan Jesúhreyfingarinnar hafi haft mikil áhrif á Pál og hans boðun

    á guðdómi Krists. Aðrir segja að guðdómur Krists komi miklu seinna eða með

    Jóhannesarguðspjalli. Larry Hurtado og James Dunn telja hins vegar báðir að guðdómur Krists

    sé ekki af hinum helleníska heimi. Heldur eru þeir sammála um það að trúfesta við Krist hafi

    komið innan frá í Gyðingdómi. Þeir eru samt sem áður ósammála um hvar í tímalínunni eigi

    að staðsetja guðdóm Krists. Dunn staðsetur hann í Jóhannesarguðspjalli (við lok fyrstu aldar)

    á meðan Hurtado vill meina að það sé ekki hægt að hunsa allar vísbendingarnar sem gefa til

    kynna guðdóm Jesú í snemm-kristnum ritum eins og Pálsbréfum.60

    Að mati Hurtado þá byrjaði tilbeiðsla á Jesú sem guðdómlegri veru mjög snemma á meðal

    Gyðing-kristinna. Þó að bakgrunnur þeirra hafi falið í sér tilbeiðslu á hinum eina Guði Ísraels

    þá virtist vera leyfilegt að innihalda Jesú með í þeirri lotningu. Bendir Hurtado á að

    vísbendingar um slíka tilbeiðslu eða lotningu sé að finna á fyrstu tveimur áratugum eftir upprisu

    Krists. Fylgjendur Jesú söfnuðust saman í nafni Jesú, báðu til hans bænir, sungu sálma í hans

    nafni og helguðu honum titilgjafir og ritningastaði Gamla testamentisins sem áður höfðu aðeins

    verið eignaðir Guði Ísraels.61 Margir nýjatestamentisfræðingar hafa unnið kristsfræði sína út

    frá ákveðnum titilgjöfum sem Jesú voru gefnar. Voru þá hugtök eins og „Mannsonurinn“ og

    59 Brant Pitre, The Case for Jesus, bls. 126–128. 60 Larry W. Hurtado, How on Earth did Jesus Become a God? Historical Questions about Earliest Devotion to Jesus, Michigan, Cambridge: William B. Eerdmans Publishing Company, 2005, bls. 14–20. 61 Hurtado, One God One Lord, bls 11.

  • 19

    „sonur Guðs“ í sviðsljósinu. Einnig hefur verið reynt að rannsaka kristsfræðina út frá

    kenningum sem varða t.d. fortilveru eða upprisu Krists. Hurtado beitir öðruvísi aðferðum og

    kýs frekar að rannsaka uppruna þeirrar lotningar sem Jesús fékk í gyðinglegu samhengi. Því að

    það er líklegt að hún hafi aukið vægi þeirra titla sem Jesú var gefið á þessum tíma. Hugtök eins

    og „Kristur“ eða „Messías“ voru endurskilgreind í samhengi Jesúhreyfingarinnar. Hugtakið

    „Drottinn“ sem var oft notað yfir Jesú tengdi hann ekki sjálfkrafa við guðdóminn en það að

    fylgjendur Jesú innihéldu orðið í bænum og sálmum gefur því allt aðra mynd. Þessi notkun á

    orðinu vísar til þess að Jesús var ekki einungis með háa félagsstöðu heldur var staða hans nær

    guðdómleg.62

    En til að komast nær samhengi Jesúhreyfingarinnar verður að skoða umhverfið sem hún

    spratt upp úr. Að mati Hurtados varð sú uppspretta í umhverfi eingyðistrúar Gyðinga. Gyðingar

    stóðu vörð um sérstöðu Guðs í trú sinni, að aðeins hann væri Drottinn. Þrátt fyrir sannfæringu

    þessa er merkilegt að í Gyðingdómi sé að finna aðrar verur með guðlega eiginleika sem voru

    upphafnar. Fól upphafningin í sér það að þeim höfðu verið gefnar hátt upphafnir titlar og jafnvel

    verið líkt við Guð sjálfan. Slík dæmi sem finnast í Gyðingdómi búa til mikilvægan bakgrunn

    fyrir upphafningu Jesúhreyfingarinnar á Kristi. Hins vegar gerir tregða Gyðinga um að

    innihalda slíkar verur með í lotningu Guðs, upphafningu Krists enn sérstakari. Fylgjendur Jesú

    gengu skrefinu lengra með því að innihalda Krist í tilbeiðslu sinni á Guði Ísraels. Eingyðistrú

    Gyðinga hefur verið dregin í efa vegna þeirra upphafninga sem er að finna á öðrum verum í

    ritum þeirra. Hurtado telur að þær upphafningar sé að engu leyti á sama stigi og lotningin til

    Krists og að sannanir um þetta sé að finna í trúariðkunum og athöfnum Gyðinga og

    frumkristinna. Því sé Gyðingdómur enn eingyðistrú.63

    Það sem styrkir enn frekar eingyðisstöðu Gyðinga er andstaðan sem þeir sýna gagnvart

    kristfræðilegum yfirlýsingum Jesú í guðspjöllunum. Við lok fyrstu aldar var ágreiningurinn

    orðinn mikill milli Gyðinga og fylgjenda Jesú og er ósættið endurspeglað í

    Jóhannesarguðspjalli. Jesús lýsti yfir guðdómi sínum og töldu gyðingleg yfirvöld það vera

    guðlast. Hurtado telur hins vegar að ágreining milli Gyðinga og frumkristinna sé að finna mun

    fyrr en hjá Jóhannesi. Í samstofna guðspjöllunum er einnig að finna dæmi um slíkar yfirlýsingar

    Jesú þar sem hann er sakaður um guðlast. Þegar Jesús læknar lama manninn og fyrirgefur

    syndir hans er Kristur sakaður um guðlast vegna þess að aðeins Guð einn getur fyrirgefið syndir

    (Mrk 2:7; Matt 9:3; Lúk 5:21). Í Píslarsögunni er Jesús sakaður um guðlast þegar hann segir að

    62 Hurtado, One God One Lord, bls 12–13. 63 Hurtado, How on Earth did Jesus Become a God?, bls. 111–112, 121.

  • 20

    Mannsonurinn muni sitja við hægri hönd Guðs í skýjunum (Mrk 14:64; Matt 26:65). Hér er

    Jesús sakaður um að gera sig sérstakan í augum Guðs. Að mati Hurtados sýnir þetta að

    gyðingleg andstaða gagnvart lotningu Jesúhreyfingarinnar til Krists, sé að baki frásagna

    samstofna guðspjallanna hér fyrir.64

    Eldri dæmi er að finna í bréfum Páls postula. Því að áður en Páll varð hluti af hreyfingu

    Krists þá var hann tryggur Gyðingur sem ofsótti fylgjendur Jesú og vildi eyða þeim. Þessu lýsir

    Páll í Galatabréfinu 1:13–15. Páll notar mjög sterkar sagnir, að ofsækja og eyða. Hvað

    verðskuldar slíka refsingu í Gyðingdómi? Skurðgoðadýrkun, að fylgja falsspámönnum og að

    falla frá trúni eru helstu dæmin. Þess vegna er mögulegt að Páll hafi verið að ofsækja fylgjendur

    Jesú fyrir óviðeigandi lotningu á honum sem aðeins hinn eini Guð átti að fá. Frekari dæmi má

    sjá í Gal 1:15–17 þar sem Páll segir að Guð hafi opinberað Krist svo að hann myndi fylgja

    honum. Í Fil 3:4–16 má sjá Pál bera saman sitt gamla líf við hið nýja í Kristi. Það sé ekkert

    miðað við það að þekkja Krist. Að mati Hurtados sýna þessir tveir ritningastaðir trúskiptingu

    Páls yfir í Jesúhreyfinguna þar sem Jesús var upphafinn. Páll hætti ofsóknum sínum á

    Jesúhreyfingunni vegna þeirrar opinberunar sem hann fékk.65

    Vegna þessa varð tilbeiðsla á Jesú orðin að veruleika mjög snemma í Gyðingdómi að mati

    Hurtados. Hann leggur áherslu á að það hafi ekki farið fram langt þróunarferli að guðdómi

    Krists. Elstu rit Nýja testamentisins frá Páli postula (50–60 e.kr) innihalda efni um guðdómlega

    lotningu sem fylgjendur Jesú gefa honum. Tilbeiðsla á Kristi óx mjög hratt og mjög snemma.

    Upphafningin á Jesú með Guði er án hliðstæðna í allri Biblíunni. Jesús var nálægur Guði á

    þann hátt sem enginn annar hafði verið. Það er ljóst að Gyðingar töldu þessa nálægð og

    upphafningu vera guðlast. Ef tekið er tillit til þeirra trúariðkana og athafna (sálmar, bænir,

    ákallanir o.s.frv.), þar sem Kristur var hluthafi tilbeiðslu, þá varð Jesús frá Nasaret Guð á

    jörðu.66

    64 Hurtado, How on Earth did Jesus Become a God?, bls. 152–155 65 Sama rit, bls. 168–170. 66 Sama rit, bls. 25–29.

  • 21

    3. Því að ritað er: rannsókn á biblíutextum

    3.1 Filíppíbréfið 2:6–11

    6 Hann var í Guðs mynd.

    En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur.

    7 Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd

    og varð mönnum líkur.

    Hann kom fram sem maður,

    8 lægði sjálfan sig

    og varð hlýðinn allt til dauða,

    já, dauðans á krossi.

    9 Fyrir því hefur og Guð

    hátt upp hafið hann

    og gefið honum nafnið,

    sem hverju nafni er æðra,

    10 til þess að fyrir nafni Jesú

    skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu

    11 og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar:

    Jesús Kristur er Drottinn.

    Þegar kemur að upphafningu Jesú Krists þá er Filippíbréfið 2:6–11 gríðarlega mikilvægur texti.

    Þessi texti er að öllum líkindum sálmur sem var notaður í sameiginlegri tilbeiðslu

    frumkristinna. Þetta er ekki talinn tilbúningur Páls heldur er líklegt að hann innleiði sálminn í

    bréf sitt í þeim tilgangi að sýna niðurlægingu og upphafningu Jesú Krists. Filippíbréfið er

    skrifað um 60 e.kr. og er þessi sálmur ekki aðeins eldri en bréfið sjálft heldur er hann elsti

    frumkristni hymninn sem hefur verið varðveittur.67 Ef textinn var til á arameisku þá hefur hann

    glatast því að ekkert handritabrot hefur fundist sem inniheldur hann á því tungumáli. Því er

    talið að sálmurinn hafi verið upprunalega ritaður á grísku og er það ekki ólíklegt þar sem

    frumkristnir töluðu bæði arameisku og grísku. Hurtado segir að þó svo að efni hymnans sé

    mikilvægast fyrir kristfræðina að þá megi ekki gleyma aðgerðinni, þ.e. að sálmurinn var

    notaður í tilbeiðslu frumkristinna og má sjá að Jesús deili lotningunni með Guði. Annað sem

    er athyglisvert að benda á er að Páll inniheldur sálminn án nokkurar útskýringar. Það er eins

    67 Hurtado, How on Earth did Jesus Become a God?, bls. 83–84.

  • 22

    og að hann geri ráð fyrir því að lesendur hans þekki til þeirra atburða sem textinn lýsir. Þessi

    upphafning sem Jesús fær er því þekkt fyrirbæri innan fyrstu 20–30 ára Jesúhreyfingarinnar.68

    Hins vegar þarf að fara varlega þegar kemur að túlkun textans. Það fer eftir hvaða afstöðu

    viðkomandi hefur gagnvart textanum hvaða túlkun kemur í ljós. Fari viðkomandi inn í textann

    með þá forsendu að Jesús hafi verið til í upphafi með Guði þá verður túlkun hans á textanum

    undir áhrifum frá því. Aðrar túlkunaraðferðir hafa verið lagðar fram þar sem sumir fræðimenn

    hafa t.d. túlkað textann í ljósi viskunnar sem var mikilvæg í Gyðingdómi. Aðrir fræðimenn

    túlka textann í ljósi Adams-kristsfræði (Adam-Christology), þ.e. að sálmurinn tjái andstæður

    milli Adams og Jesú.69 Dunn telur að hymninn vísi sterklega til 1Mós 1–3, til sköpunarinnar

    og falls mannsins. Hann telur að orðin um að Jesús hafi verið í formi Guðs eða μορφῇ θεοῦ sé

    vísun í sköpun Adams í Guðs mynd. Filippíbréfið notar μορφῇ (morfe) en Septúaginta (gríska

    þýðing hebresku Biblíunnar) notar gríska orðið εἰκών (eikón) í sköpunarsögunni en bæði orðin

    geta þýtt „form“ eða „mynd“ og eru þau í raun samheiti. Jesús fór ekki með það sem feng sinn

    að vera Guði líkur og svipti sig öllu og tók á sig þjóns mynd (Fil 2:6). Adam sem var í Guðs

    mynd kaus að misnota stöðu sína til að upphefja sjálfan sig, að verða Guð með því að borða af

    forboðna trénu (1Mós 3:5). Er talið að Jesús og Adam séu andstæður hér og leiðréttir Kristur

    mistök fyrsta mannsins. Jesús stóðst freistingarnar og var hlýðinn allt til enda, til dauðans á

    krossinum. Fyrir það var Kristur hátt upp hafinn af Guði og endurheimti dýrðina sem Adam

    missti. Ef sálmurinn er túlkaður í ljósi Adams þá er ekki hægt að gera ráð fyrir fortilveru Krists

    að mati Dunns.70

    Bent hefur verið á að þó svo að hugtökin μορφῇ og εἰκών hafi sama merkingarsvið að þá sé

    notkunargildi orðanna mismunandi. Notkun höfundar sálmsins á μορφῇ θεοῦ (form Guðs)

    þýðir ekki endilega að hann sé að vísa til εἰκών θεοῦ (mynd Guðs) í Fyrstu Mósebók. Til að

    finna út merkingu orðanna er hægt að skoða notkun þeirra í sambandi við önnur orð og

    orðasambönd. Í Septúagintu er εἰκών θεοῦ notað í samhengi við sérstöðu mannkynsins

    gagnvart Guði (1Mós 1:26–27; 5:1; 9:6). Sama notkun orðasambandsins birtist í gyðinglegum

    og snemm-kristnum ritum (Ssal 2:23; 7:26; Sír 17:3; 1Kor 11:7; Kól 3:10). Enn og aftur er

    εἰκών θεοῦ notað um Jesú Krist til að undirstrika mikilvægi hans (2Kor 4:4; Kól 1:15). μορφῇ

    er aldrei notað annars staðar í Nýja testamentinu til að vísa í Adam og kemur μορφῇ θεοῦ aldrei

    fram í Gamla testamentinu eða í öðrum gyðinglegum og kristnum ritum þar sem vísað er til

    68 Hurtado, How on Earth did Jesus Become a God?, bls. 85–87. 69 Sama rit, bls. 88. 70 Dunn, Christology in the Making, bls. 114–119.

  • 23

    Adams. Ef lesendur textans eiga að geta gripið vísunina í Adam þurfa að vera orð í sálminum

    sem minna þá á sköpun Adams eins og t.d. εἰκών θεοῦ. Hins vegar er ekkert orð í Fil 2:6–8

    sem kemur fram í 1Mós 1–3 fyrir utan orðið „Guð.“ Það er því mjög skrýtið ef

    sálmahöfundurinn ætlaði að vísa til Adams að hann skyldi ekki nota hugtök sem eru áberandi

    í 1Mós í Septúagintu. Því sé líklega ekki verið að vísa til Adams hér. Hvað þýðir þá að Jesús

    var í formi Guðs ef það er ekki vísun til sköpunar Adams? Að mati Hurtados þá er líklegt að

    hér sé verið að lýsa guðlegri stöðu sem Jesús hafði áður en hann svipti sig öllu. Ef Jóhannes

    hafði vitneskju um þennan sálm, sem er mögulegt, þá hefur hann líklega skilið hann sem svo

    því að í Jóh 17:5 stendur: „Faðir, ger mig nú dýrlegan hjá þér með þeirri dýrð sem ég hafði hjá

    þér áður en heimur var til.“ Það er spurning hvort þessi trú á fortilveru Jesú sem er áberandi í

    Jóhannesarguðspjalli hafi þegar verið til í samfélagi Páls og er mögulegt að sálmurinn vitni um

    slíka trú.71

    Það sem er merkilegt við Fil 2:6–11 er að flestir fræðimenn einblína á vers 6–8 en að mati

    Hurtados þá er guðdómur Krists opinberaður í versum 9–11. Upphafning Jesú tengist líklega

    upprisu hans. Hann var upphafinn vegna þess að hann var hlýðinn allt til dauða og því reisti

    Guð hann upp frá dauðum. Því næst gefur Guð honum nafnið sem er hverju nafni æðra og skal

    hvert kné í heiminum beygja sig undir Jesú. Hurtado segir að þessi texti eigi rætur sínar að

    rekja til Jesaja 45:18–25 og þá er lögð sérstök áhersla á vers 23. Þar stendur samkvæmt þýðingu

    Hurtados á Septuagintu: „Fyrir mér skal hvert kné beygja sig og sérhver tunga skal sverja við

    Guð.“ Vill hann meina að fylgjendur Jesú gætu hafa skilið þetta vers á þann hátt að um tvo

    aðila væri að ræða. Jesús sem talar í fyrstu persónu og Guð, að þessi skilningur liggi á bakvið

    Fil 2:9–11.72 Að mínu mati er þetta dálítið langsótt þar sem versið er almennt þýtt: „og sérhver

    tunga skal sverja við mig“ eins og að Guð sé enn að tala í fyrstu persónu. Þó er rétt hjá Hurtado

    að Gyðingar leituðu í ritningarnar til að skilja tilgang Guðs með Jesú og er mögulegt að

    einhverjir hafi haft þennan skilning á Jesaja 45:23.

    Upprisa Jesú þýddi ekki einungis að hann hafi verið reistur upp frá dauðum. Vegna

    upprisunnar var hann hátt upp hafinn af Guði og eru heimildir um þetta í Nýja testamentinu. Í

    Post 2:29–36 er talið að upphafning Krists sé vegna upprisu hans. Páll talar um að Jesús hafi

    orðið sonur Guðs eftir upprisuna í Róm 1:3–4. Heb 1:3–4 greinir frá því að sonurinn hafi orðið

    englum meiri og tekið æðra nafn en þeir. Ef við skoðum nú Fil 2:9 þar sem Jesú er gefið nafnið

    sem er hverju nafni æðra eftir upprisuna, þá er spurning um hvaða nafn það er? Æðsta nafn í

    71 Hurtado, How on Earth did Jesus Become a God?, bls. 98–101. 72 Sama rit, bls. 92–93.

  • 24

    Gyðingdómi er Jahve, nafn Drottins. Í grísku Biblíunni er orðið κύριος (Drottinn), sem kemur

    fyrir t.d. í Jesaja 45:23, skrifað í stað nafnsins Jahve. Ef við skoðum Fil 2:11 í ljósi þess að Jesú

    var gefið nafnið sem er æðst þá hlýtur það nafn að vera nafn Jahves og stendur í grískunni

    κύριος Ἰησοῦς Χριστὸς eða Jesús Kristur er Drottinn. Hér er möguleg vísbending um að

    sálmurinn sé að setja Jesú á sama stall og Drottin, að Guð sé hér að deila hásæti sínu og nafni

    með syni sínum Jesú Kristi.73

    3.2 Markús 2:5b–7

    5b Þá er Jesús sér trú þeirra segir hann við lama manninn:

    „Barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“ 6 Þar sátu nokkrir fræðimenn og

    hugsuðu með sjálfum sér: 7 „Hví mælir þessi maður svo?

    Hann guðlastar. Hver getur fyrirgefið syndir nema Guð einn?“

    Sagan í Mrk 2:1–12 er sú fyrsta af mörgum þar sem Jesú er andmælt af fræðimönnunum.

    Markús hefur söguna á endurkomu Jesú til Kapernáum sem gerir ráð fyrir því að predikun hans

    í allri Galíleu sé lokið (1:39). Þegar fréttist að Jesús væri kominn í hús söfnuðust margir saman

    og segir Markús að hann hafi flutt þeim orðið. Líklega var það fagnaðarerindið um Guðs ríki.

    Sagt er frá fjórum mönnum sem báru lama mann og vegna fjöldans þurftu þeir að rífa þekjuna

    af húsinu og láta manninn síga ofan í það til Jesú.74 Jesús tekur eftir trú mannanna og er hún

    forsenda fyrir lækningu Jesú. Trúin kemur ekki eftir kraftaverkið heldur er lækningin afleiðing

    hennar.75

    Leiðin sem Jesús velur til að lækna lama manninn skapar óróa meðal fræðimannanna sem

    okkur er nú sagt að sitji rétt hjá. Jesús segir að syndir lama mannsins séu fyrirgefnar. Það sem

    er athyglisvert er að Markús notar ekki fyrirgefninguna til að hafa áhrif á lama manninn heldur

    á fræðimennina. Þeir ásaka Jesú um guðlast þar sem aðeins Drottinn fyrirgefur syndir (2Mós

    34:6–7; Jes 43:25; 44:22).76 Athyglisvert er að fyrirgefning syndanna er í þolmynd og því hefur

    verið nefnt „The divine passive“, þ.e. að Jesús sé með þolmyndinni að eigna Guði

    fyrirgefninguna. Hann segir ekki „Ég fyrirgef syndir þínar“ heldur eru þær fyrirgefnar af

    Drottni.77 Í 2:9–12 er hins vegar ljóst að það er Jesús sem hefur valdið til að fyrirgefa syndir.

    „Til þess að þið vitið að Mannsonurinn hafi vald til að fyrirgefa syndir á jörðu“, læknar Jesús

    73 Hurtado, How on Earth did Jesus Become a God?, bls. 94–95. 74 John Painter, Mark’s Gospel. New Testament Readings, London: Routledge, 1997, bls 51–52. 75 C. Clifton Black, Mark. Abingdon New Testament Commentaries, Nashville: Abingdon Press, 2011, bls. 90. 76 Painter, Mark’s Gospel, bls. 53. 77 Black, Mark, bls. 86.

  • 25

    lama manninn. Hér er Jesús að sýna vald orða sinna. Hann gat ekki sannað áður að syndir

    mannsins höfðu verið fyrirgefnar en nú þegar orð hans hafa læknað lamaðan einstakling þá er

    ljóst að þau hafi einnig vald til að fyrirgefa syndir manna.78 Markús notar þessa

    lækningarfrásögn til að greina frá valdi Jesú. Fræðimennirnir eru andstæðingar Krists og

    endurspegla viðbrögð þeirra viðhorf Markúsar á þeim, sem gyðinglegum leiðtogum sem trúa

    ekki á Krist. Sagan er notuð til að sýna muninn á trú og vantrausti.79

    En er það eina markmið sögunnar? Er Markús að skilja eftir vísbendingar hér um guðdóm

    Krists sem hefur mátt Guðs til að fyrirgefa syndir? Guelich telur að Jesús hafi ekki verið

    ásakaður fyrir að telja sig vera Guð heldur var sökin vegna guðlasts. Guðlast var mjög

    alvarlegur glæpur í Gyðingdómi og var refsingin dauði (3Mós 24:15–16).80 Hins vegar er

    kristsfræðilega áhersla sögunnar skýr hjá Markúsi. Jesús er staðgengill Guðs á jörðu og hefur

    máttinn til að fyrirgefa syndir (2:10), lækna sjúkdóma (2:11–12) og lesa hugsanir (2:8). Að

    mati Hurtados endurspeglar þessi texti (sem og margir aðrir) upphafna mynd

    Jesúhreyfingarinnar af Jesú og upplifun hennar af ofsóknum Gyðinga. Jesús var tekinn af lífi

    fyrir fullyrðingar sínar um að vera Kristur og hinn guðlegi sonur og í kjölfarið voru fylgjendur

    Jesú ofsóttir fyrir að styðja við þessar fullyrðingar.81

    3.3 Lúkas 24:52

    52 En þau féllu fram og tilbáðu hann og

    sneru aftur til Jerúsalem með miklum fögnuði.

    Til að ritskýra þetta vers og finna út hvort hér sé um tilbeiðslu að ræða þarf að skoða grísku

    sögnina προσκυνέω (proskyneo) sem er í flestum tilfellum þýðing Septúagintu á hebreska

    orðinu shachah. Merkingin á bakvið orðið getur verið að hneigja sig niður, sýna lotningu eða

    virðingu, og að tilbiðja.82 προσκυνέω kemur tvisvar sinnum fyrir í Markúsi, þrisvar í Lúkasi,

    átta sinnum í Jóhannesi og þrettán sinnum í Matteusi. Eini ritningarstaðurinn þar sem

    προσκυνέω á við um Jesú í Lúkasarguðspjalli er í 24:52. Á öðrum stöðum þar sem fólk fellur

    fram fyrir Jesú og sýnir honum virðingu notar Lúkas öðruvísi sagnir sem eru ekki eins

    veigamiklar hvað varðar tilbeiðslu. Þá má einnig nefna að sögnin προσκυνέω í Lúkasi á við um

    78 Painter, Mark’s Gospel, bls. 53. 79 Black, Mark, bls. 90. 80 Guelich, Mark 1–8:26, bls. 87. 81 Hurtado, How on Earth did Jesus Become a God?, bls. 154–155. 82 Dunn, Did the first Christians Worship Jesus?, bls. 8.

  • 26

    hinn upprisna Krist og vill Hurtado meina að hér sé Lúkas að endurspegla afstöðu

    Jesúhreyfingar síns tíma gagnvart Jesú.83

    Þó hefur verið bent á að sögnin vísi frekar í að viðkomandi sé gefin virðing eða lotning.

    Jakob beygir sig niður fyrir bróður sínum Esaú í Fyrstu Mósebók (1Mós 33:3). Konungar hafa

    fengið slíka lotningu þegar söfnuður Davíðs hneigði sig fyrir honum og Guði (1 Kron 29:20).

    Lotning var gefin guðlegum verum (1Mós 19:1; 4Mós 22:31; Jós 5:14) en fyrst og fremst var

    það Guð sem var tilbeðinn og stendur í Boðorðunum tíu að enginn annar guð mætti fá slíkt lof

    (2Mós 20:5). Að mati Dunns á hugtakið, þegar það er notað í Nýja testamentinu, við um

    einstakling sem er æðri en viðkomandi. προσκυνέω er yfirleitt notað í samhengi við Guð sjálfan

    og notar Dunn Matt 4:10/Lúk 4:8 sér til stuðnings þar sem Jesús segir að viðkomandi eigi að

    tilbiðja Drottinn og þjóna honum einum. Dunn viðurkennir þó að til séu dæmi í Nýja

    testamentinu þar sem Jesús virðist vera tilbeðinn. Er það þá í samhengi við fæðingu Jesú (Matt

    2:2, 8, 11) eða eftir upprisu hans (Matt 28:9; Lúk 24:52). Þetta eru fá dæmi og segir Dunn það

    vera vísbendingu um hvort þetta sé viðeigandi máti til að tala um Jesú. Það sem er mjög

    merkilegt er að hann nefnir Post 10:25–26 þar sem Kornelíus féll til fóta Péturs og veitti honum

    lotningu. Pétur sagði við hann „Statt upp, ég er maður sem þú.“ Þennan texta notar Dunn sér

    til stuðnings til að sýna að í mörgum tilvikum þar sem sögnin προσκυνέω er notuð, sé

    tilgangurinn ekki endilega að sýna að viðkomandi sé guðdómlegur. Pétur segist aðeins vera

    maður.84 Að mínu mati styrkir þessi texti þá staðhæfingu að Lúkas noti orðið προσκυνέω í

    24:52 í samhengi við guðdómlegan Krist sem er tilbeðinn. Eins og er talið þá skrifaði Lúkas

    bæði Lúkasarguðspjall og Postulasöguna85 og þar sem hann notar hugtakið svo sjaldan eða

    aðeins þrisvar í öllu guðspjallinu86 þá tel ég í fyrsta lagi að orðið sé notað í mjög sérstökum

    tilvikum þar sem það á við og í öðru lagi að merkingin sé sú sama og í Postulasögunni.

    Lærisveinarnir tilbiðja Jesú í lok guðspjallsins en þegar Pétur er sjálfur tilbeðinn í

    Postulasögunni þá segir hann að hann sé aðeins maður. Hvað er Lúkas að tjá hér? Að mínu

    mati er guðspjallamaðurinn að segja að það sé viðeigandi að tilbiðja Krist þar sem hann sé

    guðdómlegur en óviðeigandi að tilbiðja Pétur þar sem hann sé mannlegur.

    83 Hurtado, How on Earth did Jesus Become a God?, bls. 142–143. 84 Dunn, Did the first Christians Worship Jesus?, bls. 8–12. 85 Ehrman, The New Testament, bls. 154. 86 Hurtado, How on Earth did Jesus Become a God?, bls. 142.

  • 27

    Lokaorð

    Í upphafi ritgerðarinnar var farið yfir mynd Jesú í bréfum Páls og guðspjöllunum. Komst ég að

    því að ríkjandi álit fræðimanna var að guðdómur Jesú hafi aðeins verið áberandi í

    Jóhannesarguðspjalli undir lok fyrstu aldar. Eftir að hafa lesið þrjár ólíkar nálganir á textum

    Nýja testamentisins þá er ljóst að uppruni guðdóms Krists er flókið mál. Hinn virti James Dunn

    var talsmaður hins ríkjandi álits í þessari ritgerð og að mínu mati var rökstuðningur hans góður.

    Adams-kristsfræði Dunns er mjög góð og vel útfærð útskýring á sálminum í Fil 2:6–11. Hins

    vegar tel ég að útskýring hans á sögninni προσκυνέω hafi ekki sama sannfæringakraft. Því að

    Dunn viðurkenndi að sögnin var notuð í samhengi við Krist en ákvað að hunsa hana vegna

    fárra dæma í guðspjöllunum. Tel ég að Dunn sé á stundum of fljótur að slökkva á þeim

    vonarneista sem brýst upp þegar um guðdóm Krists varðar. Pitre kemur fram með mjög

    skemmtilega nálgun á textum Markúsar og að mínu mati setur hann fram góð rök fyrir því að

    guðdómur Jesú skíni í gegn í sögunni af storminum. Álíka sterk tel ég rökin á bakvið söguna

    af því þegar Jesús gengur á vatninu. Af því er virðist notar Jesús sömu krafta og Guð Gamla

    testamentisins sem bendir til þess að hann hafi hlotið þá að gjöf frá Guði föður. Einnig er Jesús

    óhræddur við að nota orðasambandið „Ég er“ sem getur ekki þýtt annað samkvæmt mínum

    skilningi en að hann sé eilífur.

    Nálgun Hurtados var að öllu leyti sú sem sannfærði mig um að snemm-kristnir hafi að

    einhverju leyti upphafið Jesú Krist. Dæmi um sálma (Fil 2:6–11; Kól 1:15–20), bænir (2Kor

    12:8; 1Kor 16:22) og ákallanir (1Kor 1:2) á nafn Krists eru svo sannarlega sterkar vísbendingar

    um að hinir fyrstu kristnu hafi álitið Jesú guðdómlegan. Einnig eru rök Hurtados um

    merkingarsvið orðanna μορφῇ og εἰκών mjög sannfærandi og er skrýtið að höfundur sálmsins

    í Filippíbréfinu hafi valið að nota μορφῇ ef hann vildi vísa til Adams. Að mínu mati hefur þessi

    rannsókn leitt í ljós að tilbeiðsla á Jesú sem Guði er til staðar í snemm-kristnum ritum.

    Tilbeiðslan á syni Guðs hófst í Gyðingdómi eftir upprisu Krists. Hinn upprisni Kristur fékk lof

    sem enginn annar í Biblíunni, fyrir utan Guð, hafði fengið fyrr né síðar. Holdgervingin sem

    kemur skýrt fram í inngangi Jóhannesarguðspjalls virðist vera að taka sín fyrstu skref í hinum

    elstu heimildum kristinna manna. Syninum Jesú virðist hafa verið eignuð sú lotning sem aðeins

    var eignuð föðurnum í upphafi. Jesús var í formi Guðs (Fil 2:6), hann kom á jörðina sem

    Guðssonur í mannslíki (Mark 4:35–41; 6:45–52) og reis upp sem Drottinn (Fil 2:9–11). Minn

    skilningur er sá að upphafning sonarins hafi hafist snemma eftir upprisuna og var hann

    tilbeðinn til dýrðar föðurnum (Fil 2:11; Lúk 24:52). Frumkristnir settu soninn Jesú Krist við

  • 28

    hlið Guðs föðurins og töldu það vera vilja Guðs að innihalda soninn Jesú Krist í tilbeiðslu á

    guðdómnum. Ég vil ljúka ritgerð þessari á tilvitnun í orð guðspjallamannsins Lúkasar: „Aðeins

    sonurinn veit hver faðirinn er og faðirinn hver sonurinn er.“ Eins og þeir deila þekkingunni þá

    deila þeir guðdómnum.

  • 29

    Heimildaskrá

    Beasly-Murray, George R., John. Word Biblical Commentary, Waco, Texas: Word Books,

    1987

    Black, C. Clifton, Mark. Abingdon New Testament Commentaries, Nashville: Abingdon Press,

    2011

    Conzelmann, Hans, The Theology of Saint Luke, London: Faber and Faber, 1961

    Dunn, James D. G., Christology in the Making. An Inquiry into the Origins of the Doctrine of

    the Incarnation, London: SCM Press LTD, 1980

    Dunn, James D. G., Did the first Christians Worship Jesus? The New testament evidence,

    Louisville, Kentucky: Westminster John Knox Press, 2010

    Dunn, James D. G., The Theology of Paul the Apostle, Grand Rapids, Michigan: William B.

    Eerdmans Publishing Company, 1998

    Ehrman, Bart D., How Jesus Became God: The Exaltation of a Jewish Preacher from Galilee,

    New York: HarperCollins, 2014

    Ehrman, Bart D., The New Testament. A Historical Introduction to the Early Christian

    Writings. Fith Edition, New York: Oxford University Press, Inc, 2012

    Evans, Craig A., Mark 8:27-16:20. Word Biblical Commentary, Nashville: Thomas Nelson

    Publisher, 2001

    Guelich, Robert A., Mark 1-8:26. World Biblical Commentary, Dallas, Texas: Word Books,

    1989

    Hagner, Donald A., Matthew 1-13. Word Biblical Commentary, Texax: Word Books, 1993

    Hare, Douglas. R. A., Matthew. Interpretation. A Bible Commentary for Teaching and

    Preaching, Louisville: John Knox Press, 1993

    Horrell, David G., An Introduction to the Study of Paul. Second Edition, London: T&T Clark,

    2006

  • 30

    Hurtado, Larry W., How on Earth did Jesus Become a God? Historical Questions about

    Earliest Devotion to Jesus, Michigan, Cambridge: William B. Eerdmans Publishing Company,

    2005

    Hurtado, Larry W., One God One Lord. Early Christian Devotion and Ancient Jewish

    Monotheism, London: SCM Press Ltd, 1988

    Knight, Jonathan, Luke‘s Gospel. New Testament Readings, London: Routledge, 1998

    Marsh, Clive og Moyise, Steve, Jesus and the Gospels. An Introduction, London: Cassel, 1999

    Nolland, John, Luke 1-9: 20. Word Biblical Commentary, Dallas, Texas: Word Books, 1989

    Painter, John, Mark’s Gospel. New Testament Readings, London and New York: Routledge,

    1997

    Pitre, Brant, The Case for Jesus. The Biblical and Historical Evidence for Christ, New York:

    Image, 2016

    Placher, William C., Essentials of Christian Theology, Louisville, Kentucky: Westminster John

    Knox Press, 2003

    Smith, D. Moody, John. Abingdon New Testament Commentaries, Nashville: Abingdon Press,

    1999

    Thorsteinsson, Runar M., Jesus as Philosopher. The Moral Sage in the Synoptic Gospels,

    Oxford: Oxford University Press, 2018