20020509 the intelligent investor

2
The Intelligent Investor Már Wolfgang Mixa Höfundur: Benjamin Graham “Fjárfestingaraðgerð felur í sér, með vandaðri rannsóknarvinnu, loforð um öryggi á fjárfestingu og viðunandi arðsemi af henni. Aðgerðir sem fullnægja ekki slíkum kröfum flokkast undir áhættu.” (Graham) Ímyndum okkur að 280 þúsund Íslendingar tækju þátt í leik þar sem kastað væri upp krónu. Hver einstaklingur setur eitt þúsund krónur í pott sem skiptist á milli þeirra sem giskuðu á rétta hlið. Krónunni væri kastað í byrjun dags og þeir sem giskuðu rétt fengu að taka þátt í leiknum næsta dag og þannig koll af kolli í tíu daga. Leiknum væri hætt þegar um 270 einstaklingar væru eftir. Þeir myndu líklega hreykja sig af því í góðra vina hópi að þeir hefðu ákveðna tilfinningu fyrir því hvaða hlið krónunnar ætti að velja. Mörgum þætti þó augljóst að tölfræðilega væri ekkert óeðlilegt við þetta, þessir einstaklingar hefðu einfaldlega giskað á réttu hliðina og í raun hefði hópur upprunalega samansettur af öpum náð svipuðum árangri. Á þessum nótum hefst lýsing Warren Buffetts á reynslu sinni af því að hafa numið fræði hjá Benjamin Graham í eftirmála bókar Graham The Intelligent Investor. Buffett bendir á í ofangreindu dæmi að ef í ljós kæmi að stór hópur þeirra 270 einstaklinga sem sætu uppi með milljónirnar hefðu lært hjá ákveðnum kennara, þá væri hugsanlegt að þeir vissu eitthvað um það að kasta upp krónu sem aðrir í hópnum vissu ekki. Það er trúlegt að ef hópurinn hefði verið samansettur af öpum hefði niðurstaðan orðið tilviljunarkenndari. Hér er Buffett að vísa í að margir þeirra sem hafa lært fræðin hjá Graham hafa ávaxtað fé sitt og annarra með undraverðum hætti og betur svo árum skiptir en ef tölfræðin ein réði. Auðvelt er, eins og samlíking Buffett með apana gefur til kynna, að giska á fjárfestingar í ákveðinn tíma en kerfisbundin fræði og agi við fjárfestingar eru nauðsynlegar til að sýna árangur til lengri tíma. The Intelligent Investor, sem var gefin út árið 1949, er þýðingamikil söguleg heimild um þróun fjárfestinga en er fyrst og fremst áhugaverð fyrir þær sakir að mörg þau ráð sem hún gefur eiga fyllilega rétt á sér í dag. Graham skrifaði fimmtán árum áður ásamt félaga sínum David Dodd bókina Security Analysis, en The Intellegent Investor hefur framyfir þá bók að gagnast betur sem lærdómsrit fyrir þá sem vilja læra hvað máli skiptir varðandi fjárfestingar. Þó að Graham leggi megináherslu á fjárfestingar í hlutabréfum eru að hans mati ákveðin skilyrði nauðsynleg til að hlutabréf fyrirtækja geti talist góður fjárfestingarkostur. Að mati Graham minnkuðu slíkar útilokanir hættuna á því að tapa mikið á fjárfestingum, en eins og útgáfuár bókarinnar gefur til kynna lifði hann tímana tvenna, sérstaklega með tilliti til þess hvaða fyrirtæki stóðust kreppuna miklu árin 1930 til 1933. Til dæmis hafði hann horft upp á ákveðin fyrirtæki standast hana en önnur ekki. Meðal þeirra skilyrða sem Graham taldi nauðsynleg voru að fyrirtæki væru stór og stöndug til að geta staðist erfiða tíma, þau þyrfu að hafa greitt stöðugar arðgreiðslur síðustu 20 ár, hagnaður þyrfti að hafa verið óslitinn síðustu tíu ár, og hagnaður þyrfti að öllu jöfnu að hafa aukist. Af þeim fyrirtækjum sem stóðust þessar kröfur dró Graham athyglina að fyrirtækjum sem einnig uppfylltu skilyrði hvað varðar efnahagsreikning, rekstrarhagnað og verðmat. Aðaláherslan snerist því í kringum tölfræði en ekki væntingar ákveðinna einstaklinga eða samfélagsins um aukinn vöxt, enda taldi Graham að fortíðin væri besti og hlutlausasti mælikvarðinn á framtíðina. Eins og fram kemur í bókinni The Intelligent Investor vó samanburður á ávöxtunarkröfu hlutabréfa og skuldabréfa þungt á vogarskálunum hjá Graham, bæði við

Transcript of 20020509 the intelligent investor

Page 1: 20020509 the intelligent investor

The Intelligent Investor Már Wolfgang Mixa

Höfundur: Benjamin Graham

“Fjárfestingaraðgerð felur í sér, með vandaðri rannsóknarvinnu, loforð um öryggi á fjárfestingu og viðunandi arðsemi af henni. Aðgerðir sem fullnægja ekki slíkum kröfum flokkast undir áhættu.” (Graham)

Ímyndum okkur að 280 þúsund Íslendingar tækju þátt í leik þar sem kastað væri upp krónu. Hver einstaklingur setur eitt þúsund krónur í pott sem skiptist á milli þeirra sem giskuðu á rétta hlið. Krónunni væri kastað í byrjun dags og þeir sem giskuðu rétt fengu að taka þátt í leiknum næsta dag og þannig koll af kolli í tíu daga. Leiknum væri hætt þegar um 270 einstaklingar væru eftir. Þeir myndu líklega hreykja sig af því í góðra vina hópi að þeir hefðu ákveðna tilfinningu fyrir því hvaða hlið krónunnar ætti að velja. Mörgum þætti þó augljóst að tölfræðilega væri ekkert óeðlilegt við þetta, þessir einstaklingar hefðu einfaldlega giskað á réttu hliðina og í raun hefði hópur upprunalega samansettur af öpum náð svipuðum árangri. Á þessum nótum hefst lýsing Warren Buffetts á reynslu sinni af því að hafa numið fræði hjá Benjamin Graham í eftirmála bókar Graham The Intelligent Investor. Buffett bendir á í ofangreindu dæmi að ef í ljós kæmi að stór hópur þeirra 270 einstaklinga sem sætu uppi með milljónirnar hefðu lært hjá ákveðnum kennara, þá væri hugsanlegt að þeir vissu eitthvað um það að kasta upp krónu sem aðrir í hópnum vissu ekki. Það er trúlegt að ef hópurinn hefði verið samansettur af öpum hefði niðurstaðan orðið tilviljunarkenndari. Hér er Buffett að vísa í að margir þeirra sem hafa lært fræðin hjá Graham hafa ávaxtað fé sitt og annarra með undraverðum hætti og betur svo árum skiptir en ef tölfræðin ein réði. Auðvelt er, eins og samlíking Buffett með apana gefur til kynna, að giska á fjárfestingar í ákveðinn tíma en kerfisbundin fræði og agi við fjárfestingar eru nauðsynlegar til að sýna árangur til lengri tíma.

The Intelligent Investor, sem var gefin út árið 1949, er þýðingamikil söguleg heimild um þróun fjárfestinga en er fyrst og fremst áhugaverð fyrir þær sakir að mörg þau ráð sem hún gefur eiga fyllilega rétt á sér í dag. Graham skrifaði fimmtán árum áður ásamt félaga sínum David Dodd bókina Security Analysis, en The Intellegent Investor hefur framyfir þá bók að gagnast betur sem lærdómsrit fyrir þá sem vilja læra hvað máli skiptir varðandi fjárfestingar. Þó að Graham leggi megináherslu á fjárfestingar í hlutabréfum eru að hans mati ákveðin skilyrði nauðsynleg til að hlutabréf fyrirtækja geti talist góður fjárfestingarkostur. Að mati Graham minnkuðu slíkar útilokanir hættuna á því að tapa mikið á fjárfestingum, en eins og útgáfuár bókarinnar gefur til kynna lifði hann tímana tvenna, sérstaklega með tilliti til þess hvaða fyrirtæki stóðust kreppuna miklu árin 1930 til 1933. Til dæmis hafði hann horft upp á ákveðin fyrirtæki standast hana en önnur ekki. Meðal þeirra skilyrða sem Graham taldi nauðsynleg voru að fyrirtæki væru stór og stöndug til að geta staðist erfiða tíma, þau þyrfu að hafa greitt stöðugar arðgreiðslur síðustu 20 ár, hagnaður þyrfti að hafa verið óslitinn síðustu tíu ár, og hagnaður þyrfti að öllu jöfnu að hafa aukist. Af þeim fyrirtækjum sem stóðust þessar kröfur dró Graham athyglina að fyrirtækjum sem einnig uppfylltu skilyrði hvað varðar efnahagsreikning, rekstrarhagnað og verðmat. Aðaláherslan snerist því í kringum tölfræði en ekki væntingar ákveðinna einstaklinga eða samfélagsins um aukinn vöxt, enda taldi Graham að fortíðin væri besti og hlutlausasti mælikvarðinn á framtíðina.

Eins og fram kemur í bókinni The Intelligent Investor vó samanburður á ávöxtunarkröfu hlutabréfa og skuldabréfa þungt á vogarskálunum hjá Graham, bæði við

Page 2: 20020509 the intelligent investor

greiningu fyrirtækja og markaða almennt. Það er forvitnilegt að Graham, sem þekktastur er fyrir greiningu á hlutabréfum, taldi hlutabréf ein og sér alls ekki viturlega eignastýringu og mælti með því að fjárfestar ættu ávallt hluta eigna sinna í skuldabréfum, jafnvel að þau væru í sumum tilfellum allt að ¾ af eignasöfnum fólks. Hlutabréf voru að hans mati aðeins góður fjárfestingarkostur ef þau fengust á afar hagstæðu verði samkvæmt eðlilegri ávöxtunarkröfu.

Graham var lærifaðir margra fjárfesta og er Warren Buffet þeirra þekktastur. Það var eitt sinn haft eftir Buffet að speki fjárfestingarstefnu hans væri 85% komin frá Graham og 15% frá Philip Fisher. Graham einblíndi á megindlegar hliðar fjárfestinga en Fisher lagði meiri áherslu á eigindlegar hliðar þeirra, eins og kemur fram í bók hans Common Stocks and Uncommon Profits (gefin út árið 1956). Þessar tvær bækur eru af mörgum taldar vera hornsteinar í greiningu á verðmati fyrirtækja.

Birtist í Morgunblaðinu, 9.maí, 2002